Upplýsingar

Prédikun Arndísar Linn í guðþjónustu í Mosfellskirkju 25. október 2015.

Okkur þykir hæfa á þessum minningardegi um Ólafíu Jóhannsdóttur að lesa frásöguna um glataða soninn í 15. kafla Lúkasarguðspjalls í styttri endursögn okkar:

Kona átti tvær dætur.  Sú yngri sagðí við mömmu sína:  Mamma, láttu mig hafa það sem ég á í fjölskyldufyrirtækinu.  Svo fór hún til útlanda og sóaði öllum arfi sínum.  Þá sneru þau við henni bakinu, þau  sem hún hafði áður borgað skemmtanir fyrir.  Hún fékk vinnu á kaffihúsi og langaði mest til að borða það sem var hent í ruslatunnuna.  Ekki nokkur manneskja kom henni til hjálpar.

Þá ákvað hún að fara heim.  Mamma rekur stórt fyrirtæki, sagði hún við sjálfa sig.  Ég ætla að biðja hana að ráða mig bara í vinnu eins og ókunna manneskju.  Hún skrapaði saman í flugmiða og fór.  Mamma hennar frétti af henni og tók á móti hennu á flugvellinum.  Hún fór með hana heim og svo bauð hún fólki til að fagna henni.

Eldri systir hennar var í ferð fyrir fyrirtækið en þegar hún kom heim vildi hún ekki koma inn í boðið.  Þú heldur veislu fyrir þessa stelpu sem tók peninga úr fyrirtækinu og eyddi þeim öllum.  En mamma hennar sagði:  Elskan mín.  Þú ert alltaf hjá mér.  Við eigum allt saman.  Og nú erum við báðar búnar að fá hana aftur, systur þína sem við misstum.

Guð blessar okkur orðið sitt.  Amen

———————————-

Í ár er fagnað hér á hólnum, eins og Halldór Laxnes kallaði Kirkjustæði Mosfellskirkju í Innansveitakróniku. Með margvíslegum hætti hefur þess verið minnst að 4. Apríl síðastliðin voru 50 ár, hálf öld frá því að Mosfellskirkja var vígð.

Í ár fanga Íslendingar líka mikilvægum tímamótum í sögu sinni því hundrað ár eru frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi.

Og hér á hólnum fæddist ein þeirra kvenna sem lét ríkulega til sín taka í þeirri baráttu. Í vikunni sem leið voru 152 ár frá því að Ólafía Jóhannsdóttir fæddist hér að Mosfelli. Hún varð síðar mikil athafnakona sem barðist fyrir réttindum kvenna og breyttu þjóðskipulagi og helgaði líf sitt mannúðar og hjálparstörfum.

Ólafía var sérdeilis merkileg kona.Hún barðist fyrir réttindum kvenna til náms og varð fyrst kvenna til að ljúka 4. Bekkjar prófi við í Lærða skólan í Reykjavík. Hún var fyrst kvenna til að sitja þjóðmálafund og hún var einn af stofnendum hins íslenska kvenfélags og ritstýrði riti félagsins í nokkur ár. Hún ferðaðist víða og er ef til vill þekktust fyrir störf sín í mannúðarmálum, því í Noregi stofnaði hún hjálparsamtök og heimili fyrir vændiskonur. Og hún var ein af öflgustu kvennréttindakonum Íslands.

Boðskapur kristinnar trúar, dæmisögur Biblíunnar og orð Jesú Krists höfðu mikil áhrif á fyrstu kvennréttindakonurnar bæði hér heima og erlendis og lögðu grundvöllinn að baráttu þeirra. Þær vildu aukin réttindi, rétt til að menntast og rétt til að geta kosið svo þær gætu látið til sín taka í samfélaginu, fylgt í fótspor Krists og hjálpað fólki í neyð.  Þær bentu líka á og tóku til sína orð Jesú um að allir væru jafnir fyrir Guði. Með þeim orðum hans rökstuddu þær kröfu sína um að konur ættu að standa jafnfætis körlum í samfélaginu.

Ólafía sjálf var mikil trúkona og Guð var lifandi veruleiki í lífi hennar. Hún sótti bæði styrk og næringu til Guðs en hún glímdi líka við sjálfa sig og við trúna og átti erfitt með að finna sér stað innan kristinnar hugmyndafræði. Eitt af því sem olli henni togstreitu í trúnni voru hugmyndirnar um Guð. Hún þráði sterka móðurímynd Guðs enda hafði hún upplifað endurtekna höfnun frá eigin móður og á sama tíma átti hún erfitt með Guð sem föður. Þessari togstreitu lýsti hún nákvæmlega í bók sinni frá Myrkri til ljóss og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir sem skrifaði vandaða ævisögu Ólafíu túlkar togstreituna þannig:

,,Í trúnni varð hún (Ólafía) að ganga föðurnum á hönd en hún gat það ekki lengi vel.  Ást hennar á móðurinn þvældist fyrir henni. Þegar hún var að þrotum komin á Ytteroy gafst hún loks upp og leitaði til Guðs eftir nándinni við móðurina sem hún þráði. Hún nálgaðist Guð sem auðsveipt barn og ýtti um leið til hliðar öllu kvenfrelsisbrölti: Það gat ekki samræmst lögmáli föðurins og hún strikar það út úr sögu sinni. Ýmislegt sem hún segir í endurminningum, eins og að konur hafi aldrei verið kúgaðar á íslandi , er fyrst og fremst heimild um þennan viðsnúning en er ekki til marks um humyndir hennar um stöðu og hlutverk kvenna. En þrátt fyrir að Guð gengi Ólafíu í móðurstað kvengerði hún ekki Guð, hún karlgerði sjálfa sig…..og eftir þetta afmáði hún þau tákn sem prýddu kvenleika hennar, gaf frá sé skart sitt og hætti að hugsa um útlitið.

Ólafía var og er langt frá því að vera eina konan sem hefur upplifað togstreitu gagnvart hefðbundnum trúarhugmyndum kristindómsins.

Feminísk guðfræði – sú guðfræði sem Kvennakirkjan byggir, á átti upphaf sitt í tenglsum við réttindabaráttu kvenna. Konur fóru að skoða trúararfinn, Biblíuna og guðfræðina á gagnrýninn hátt. Þær áttu, eins og Ólafía, erfitt með að samasama sig hugmyndum og guðfræði sem var skrifuð af körlum, fyrir karla.

Með kynjagleraugunum og valdinu sem þær tóku sér sáu þær Biblíuna í nýju ljósi og túlkuðu hana og guðfræði aldanna  á nýjan og uppbyggjandi hátt. Þær drógu fram kvenkyns myndlíkingar af Guði í Biblíunni og drógu konur Biblíunnar fram í dagsljósið. Þær  skrifuðu sína eigin guðfræði út frá hugmyndum kvenna og reynslu kvenna af Guði. Og guðfræði þeirra varð öðruvísi og örgrandi.

Hefði svartnættið sem á tímum umlauk Ólafíu orðið svo sterkt ef hún hefði  fundið vald, styrk og viðurkenningu til að kvenngera Guð og kalla hana einfaldlega vinkonu sína ? Ef hún hefði getað ýtt til hliðar hefðbundum hugmynd um Guð og samsama sig því sem hún skynjaði í hjarta sínu?

Í æviminningum sínum lýsir Ólafía því hvernig hún í veikindum sínum gafst loks upp fyrir Guði: Hún skrifaði

,,Og hann GUÐ lét lífsins ljós skína inní dauðþreyta meðvitund mína, ……., sagði við mig , eins og hann einn getur sagt: ,,Ég mun alls ekki sleppa þér og eigi heldur yfirgefa þig.“ – Á þeim stundum skildist mér að það var ekki ég sem hélt í hann heldur hann sem hélt í mig . Þá reyndi ég að þótt móðir geti gleymt barni sínu þá gleymir ekki hann smælingjum sínum.“

Ólafía reyndi móður eðli Guðs. Guð tók hana í faðm sér eins og móðir sem huggar barn sitt.

Hugusum aftur til sögunnar sem sr. Ragnheiður las fyrir okkur áðan. Söguna um týnda soninn sem í endursögn Kvennakirkjunnar í bókinni Vinkonur og vinir Jesú sem kom út árið 1999 er orðin að glataðri dóttur.

Móðirin sem tekur á móti týndu dóttur sinni er myndlíking um Guð. Vissulega óhefðbundin myndlíking og fyrir suma örgrandi. Guð móðirin tekur á móti dóttur sinni jafnvel þó hún hafi farið burt, eytt öllu og rasað út. Hún fagnar því að hún kemur til baka.

Og þannig er líka Guð. Hún tekur á móti okkur alltaf, alls staðar sama hvar við höfum verið, sama hvað við höfum gert. Ef við viljum koma til hennar  opnar Hún faðm sinn og fagnar eins og enginn sé morgundagurinn. Því hún elskar okkur námkvæmlega eins og við erum og við getum elskað hana til baka á þann hátt sem við skiljum best.

Það skiptir nefnilega, í alvöru, máli hvernig við tölum um Guð. Meðvitað og ómeðvitað fylgja táknmyndunum sem við notum um Guð margslungnar hugmyndir og tilfinningar sem hafa djúpstæð áhrif á okkur. Og ef tungutak trúarinnar er bæði einsleitt og útlokandi heftir það okkur við að öðlast dýpri skilning á Guði, heiminum og okkur sjálfum.

Við getum talað alskonar um Guð. Við þurfum ekki að afneita sjálfum okkur til að tengjast Guði, þurfum ekki að hætta að viðurkenna kyn okkar, kynhneigð eða persónuleika eins og Ólafía fann sig neydda til að gera til að finna sátt í trúnni. Við höfum frelsi og val til að skilgreina Guð á þann hátt sem rímar við hugmyndir okkar um kærleikann.

Já í ár er fagnað hér á hólnum. Og í dag komum við saman og  fögnum Kirkjunni, konunni, baráttunni, frelsinu og feminismanum.  Og við þökkum Guði, hvernig svo sem við skilgreinum Guð, fyrir frelsi og fjölbreytileika.  Þökkum fyrir að við getum með margvíslegum hætti talað til hennar, um hann og við hana. Svo að við getum dýpkað trú okkar og skilið Guð betur og líka okkur sjálf. Amen.