Upplýsingar

Nú eigum við afmæli, sjötíu ára afmæli lýðveldisins. Lýðveldi er að eiga valdið saman og valda valdinu. Það er stórkostlegt að búa í lýðveldi þótt við vitum og sjáum svo mætavel að ekki auðnast okkur alltaf að ráða við valdið.
Hvers vegna heldur þú að það sé? ÉG held að það sé af því að við ráðum ekki alltaf við sjálf okkur.
Það ganga margskonur sögur um spillinguna í lýðveldinu og okkur grunar oft að það sé bara eðlilega að ekki nokkur manneskja geti ráðið við sjálfa sig í svona þjóðfélagi. En þetta er auðvitað mesta vitleysa. Tign, frelsi og fögnuður lýðveldisins gnæfir himinhátt yfir alla vitleysu.
Það er samt margskonar vitleysa í gangi og ég ætla að nefna þetta: Það er samkeppnin, samanburðurinn og eineltið. Ég þarf ekki að tala meira um það því við þekkjum þetta öll. Og við þekkjum sektarkenndina sem ofsækir okkur af því að þetta skuli vera svona án þess að við ráðum við það. Og við þekkjum kvíðann sem sest að okkur af því að við munum ekki ná tökum á þessu – þessu og ýmsu öðru sem ætti ekki að viðgangast í lýðveldinu.
Það var sagt í lok síðustu aldar að þessi öld yrði öld kvíðans. Og hún er öld kvíðans. Hérna, í okkar eigin frjálsa og góða lýðveldi, er svo mikið af kvíða að því verður ekki með orðum lýst. Úr því að kvíðinn er svona víða og svona umfangsmikill og djúpur – og af því að hann er meira að segja yfirþyrmandi hjá börnum, þá hljótum við að vera að gera eitthvað vitlaust í lýðveldinu. Hvað heldur þú?
Ég nefni aftur það sem ég sagði áðan: Eineltið, samanburðinn og samkeppnina. Hvað nefnir þú?
Og ef við gætum minnkað það sem við sjáum að er að þá minnkaði líka sektarkenndin. Og ef við getum minnkað sektarkendina minnkar kvíðinn. Eða það held ég. Hvað heldur þú?
Ég er ekki að segja að þetta sé einfalt. En ég er að segja að þetta er hægt.
Nú ætla ég að stinga upp á aðferð.
Við vitum að það eru til margar aðferðir til að ráða við kvíðann. Það er hægt að borða gegn kvíða, það er hægt að ganga gegn kvíða og laga hitt og þetta til gegn kvíða til að ná tökum á hversdagslegum hlutum, það er hægt að tala gegn kvíða, tala við vinkonur og vini og sérfræðinga og líka við presta, segja frá hugsanlegum meinum djúpt í sálinni og löngu gleymdum sem þarf að finna aftur til að lækna þau. Við getum gert hvað sem okkur sýnist í dásamlegu lýðveldi okkar og ekkert af þessu útilokar annað. Gerum bara það sem okkur finnst best.
En ég ætla ekki að stinga upp á neinu af þessu. .
Ég ætla að stinga upp á þessu: Við skulum biðja gegn kvíða.

Fyrirkomulagið er svo hentugt. Við getum beðið hvert hjá sér, þar sem við viljum og þegar okkur sýnist. Og samt erum við öll saman. Við getum sagt við Guð að okkur þætti svo vænt um að hún hjálpaði okkur til að sigra kvíðann. Hjálpaðu okkur til að sigra kvíðann í sjálfum okkur, getum við sagt. Og hjálpaðu okkur til að hjálpa öðrum til að sigra sinn kvíða. Við getum nefnt nöfnin á fólkinu, og við getum sagt hverju við kvíðum sjálf, og að við kvíðum svo oft alveg út í bláinn og það liggur við að við skömmumst okkar fyrir það. Já, við bara sárskömmumst okkar fyrir það.
Og við skulum biðja Guð að hjálpa okkur til að halda áfram að biðja gegn kvíðanum og gefast ekki upp, því það þarf hugrekki og þrautseigju og stefnufestu til að halda áfram að biðja. Biðja á hverjum einasta degi. Og við biðjum Guð að hjálpa okkur til að taka eftir því þegar hún svarar okkur og sjá hvaða leiðir hún sýnir okkur. Því hún svarar og kemur með lausnir. Hún hjálpar alltaf, eins og við höfum öll séð aftur og aftur.
Ég held að með í þeim ráðum sem Guð hefur gefið okkur séu þau ráð að taka okkur sjálf í eigin hendur, dag eftir dag. Til að nota tækifærin sem við höfum í venjulegum dögum og verkefnum til að gera lífið betra. Þegar lífið verður betra verður kvíðinn minni. Við getum treyst því að Guð er með okkur í þessu.
Biðjum gegn kvíðanum. Treystum sjálfum okkur til þess. Til að halda áfram í gleði og fögnuði. Við getum það með óendanlegri ást Guðs, með fyrirgefningunni sem hún gefur okkur á hverjum degi. Svo að við fyrirgefum sjálfum okkur. Og þá hverfur sektarkenndin. Og okkur fer að líða svo vel að við hættum að bera okkur saman við annað fólk og hættum að bera annað fólk saman við annað fólk.
Þú veist að það þarf nú obbolítið til þess. Við sjáum það. Við finnum það. Og Guð sá það líka. Það var þess vegna sem hún kom og var Jesús. Til að frelsa okkur frá því sem getum ekki losnað við sjálf. Hún frelsar okkur dag eftir dag, alltaf upp á nýtt á hverjum einasta degi. Það er náðin.
Við skulum sameinast um að treysta náðinni. Náð Guðs kemur ekki innan frá okkur heldur utan að, frá Guði sem kom til okkar í Jesú. Hún er gjöf og fer ekki eftir neinu sem við eigum eða okkur vantar í sjálf okkur. Náðin er eins og laufin á trjánum sem urðu allt í einu græn og eins og sóleyjarnar sem standa gullnar upp úr gangstéttinni þótt við sjáum enga mold.
Við eigum náð Guðs. Við eigum ást Guðs og óendanlega vináttu. Við eigum bænina. Við eigum hjálp Guðs. Hjálp Guðs bregst aldrei.
Ég sting upp á að í kvöld stofnum við lýðveldisafmælisklúbb 19. júní. Verkefnið er þetta: Við biðjum gegn kvíðanum. Staður og stund: Á hverjum degi, þegar við viljum og þar sem við viljum. Og svo við hittumst við næsta ár og kvíðum svo miklu miklu minna. Innilega til hamingjum. Guð elskar okkur. Amen