Upplýsingar
Auður Eir Vilhjálmsdóttir.
Guðþjónusta við Þvottalaugarnar í Laugardal 19. Júní 2013
Það er ólýsanlega gott að sjá ykkur öll sem eruð komin til að halda messuna. Takk fyrir að koma, það er vitnisburður fyrir okkur hin. Mörg okkar hafa tekið þátt í hátíðahöldunum fyrr í dag, þegar blómsveigur var lagður á leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og þegar Kvenréttindafélið og Kvenfélagasambandið buðu í hátíðakaffi á Hallveigarstöðum. Það var yndislegt að finna vinsemdina og vináttuna sem sameinaði okkur. Eins og vináttan sem umlykur okkur í kvöld. Steinunn formaður Kvenréttindafélagsins las boðskap Bibliunnar um vináttuna og við ætlum að tala um þann boðskap í kvöld.
Ég ætla að byrja á sögu. Það kom til mín kona um daginn og spurði hvort eg hefði gert ráðstafanir áður en ég fór á eftirlaun. Ég sagði henni að ég hefði þá fyrir löngu tekið ákvörðun. Ég ákvað að þegar ég hætti að vinna ætlaði ég að hafa lífið eins og það var þegar ég var 8 ára. Þá var mér falið að gera ýmislegt en ekkert sem ég réði ekki við.
Það var samt innifalið að gera samt stundum það sem ég þurfti að takast á við. Eins og þegar pabbi fól mér að fara í bankann. Ég átti að fara í Landsbankann og afhenda skjal sem átti að stimpla og koma svo heim með það. Ég skildi ekki hvers vegna pabbi var að fela mér þetta. En ég fór niður í Landsbanka eftir hádegið og gekk inn í enda milli ábúðarmikilla málverkanna. Ég afhenti konunni bak við borðið skjalið og bað hana að stimpla það. Hún var ekki mjög gömul, þó dáldið, kannski 20 ára. Hún las það vandlega og lengi og mig grunaði leikslokin. Þau urðu sem ég óttaðist, hún rétti mér skjalið og sagði: Nei, vinan, þetta er ekki hægt. Og ég gerði það sem ég held að flest 8 ára börn í Reykjavík hefðu gert: Ég sagði, jæja, en takk fyrir, og tók skjalið. Og leið illa af því ég vissi að ég þurfti að gera eitthvað en hafði ekki hugmynd um hvað það gæti verið.
Þá reis upp önnur kona bak við glerið bak við hina konuna. Hún kom fram og horfði á mig yfir gleraugun. Það var fröken Aðils, fröken Þórunn Aðails, hún sjálf, hvorki meira né minna. Svo talaði hún vingjarnlega við hina konuna og fór með skjalið bak við glerið. Ég sá hana lesa það vandlega. Og ég sá hana stimpla það. Svo kom hún fram og rétti mér það. Og ég fann djúpan frið og þakklæti.
Ég segi okkur þessa sögu til að tala við okkur um Guð. Hana sem alltaf tekur að sér mál okkar og leysir þau. Líka þau sem við vitum ekkert hvað við eigum að gera við. Hún leysir þau á einn eða annan hátt. Fyrr eða síðar. Við megum treysta því.
Guð er tilbúin til að taka öll skjöl okkar og stimpla þau. Til að stimpla á þau sem eru fín að þau séu fín og á þau sem eru ekki fín að hún fyrirgefi okkur.
Hugsaðu um það. Hugsaðu um allt það góða sem hefur gerst í lífi þínu. Um allt sem þú gerðir, allt sem þú afrekaðir. Allt sem þú komst í framkvæmd. Allt fólkið sem var svo gott við þig. Og þú sýndir kærleika. Og hugsaðu um allt sem þú komst í gegnum, það sem þú hefðir viljað sleppa við en gast ekki. Og allt sem þú komst þér í og hefðir ekki átt að gera en gerðir samt. Það liggur ekki í augum uppi, hvað gerðist bara og hvað léstu gerast og hvað leyfðirðu að gerðist.
Hvað gerum við við þetta allt?
Ég held að það sé grundvallarspurning lífsins. Hvernig líður þér núna? Hvað ertu að hugsa? Um allt sem einu sinni var og allt sem er núna og það sem kann að verða?
Ég held að trú þín skipti þig mestu máli og næstmestu hvað þú hugsar. Og ég held að ekkert okkar ætti að láta sér detta í hug að við getum ráðið ein við hugsanir okkar.
Það eru runnir upp nýir tímar í kirkjum Vesturlanda. Það eru tímar sem hafa oft runnið upp áður. Fólk vill ekki lengu hugsa sérstaklega um kristna trú. Það vill ekki láta segja sér að kristin trú sé betri en önnur trú. Fólk vill afar mikið kynna sér austræn trúarbrögð sem boða fegurð þess smáa og mátt leyndardómanna og náttúrunnar.
Núna segir fólk í kristinni kirkju blákalt að það sé vel trúað en illa kristið. Það vill tala um kærleika Guðs sem er alls staðar og það vill tala um Guð sem er alls staðar en ekkert sérstakt frekar en annað. Það vill ekki tala um kross Krists eða upprisu. En það vill tala um kenningar hans af þvi að þær eru svo líkar því sem Búdda sagði og Lao Tse og Gandí og fleiri.
Hvað segir þú?
Ég er handviss um að það skiptir hvorki meira en minna en öllu hvað þú segir um þetta. Hvers vegna?
Vegna þess að kross Krists og upprisa Krists er aðalatriði allrar veraldarinnar, fyrr og síðar. Hvað sem við hugsum og hvað sem við segjum. Jesús er Guð sem skapar og kom til okkar til að vera Jesús sem frelsar.
Guð sem er Jesús frelsar þig frá hugsunum sem þú getur ekki þolað að hugsa en getur ekki losnað við. Hún, Guð vinkona þín, sem kom og var Jesús, er allt á himni og jörðu, hvort sem við trúum því eða ekki.
Það er ekki hótun. Það er ekki andmæli eða lítilsvirðing við önnur trúarbrögð. Við eigum að virða þau og læra af þeim það sem er gott. Það er ekki á okkar snærum hvernig Guð fer með þau. Það er á snærum Guðs og hún sér um það.
En hún hefur falið okkur að fara með kristna trú sem okkar trú. Til að taka á móti því í gleði og fögnuði að kross Krists frelsar okkur af því að í honum eigum við fyrirgefningu alls sem fór úrskeiðis.
Við þurfum ekkert að gera. Við megum bara taka á móti því. Við eigum ekki að líta inn í okkur til að finna það, við eigum að líta út fyrir okkur, til hans, til hennar. Þá getum við tekið við fyrirgefningunni inni í okkur.
Ég er handviss um að fyrirgefning Guðs er grundvöllur lífs okkar. Af því að vegna þess að hún hefur fyrirgefið okkur megum við fyrirgefa sjálfum okkur. Og það breytir öllu lífi okkar að þora að fyrirgefa sjálfum okkur. Og það breytir allri veröldinni að allt fólk læri að fyrirgefa sjálfu sér. Því þá getum við líka fyrirgefið hvert öðru.
Viltu fara með þessar hugleiðingar heim? Þær eru ekki frá mér og ekki frá neinu okkar. Þær eru frá Guði vinkonu okkar sem er Jesús frelsari okkar. Við vinnum hjá henni og með henni.
Þegar Þú kemur til hennar er eins og þú hafir farið með flókið skjal í bankann og hitt fröken Aðils sjálfa. Það er bara enn þá stórkostlegra að hitta Guð sjálfa og taka á móti stimpluðum skjölunum okkar frá henni. Amen