Upplýsingar

Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir

Predikun í guðþjónustu Kvennakirkjunnar í Þingholtsstræti 17

sunnudagskvöldið 19. október 2019

 

Kristín las fyrir okkur úr 25. kafla Matteusar um meyjarniar tíu.  Nú skulum hlusta á útskýringarnar sem Elizabeth Cady Stanton skrifaði í Kvennabiblíuna sem kom út 1895 og 1898.  Kvennabiblían er útskýringar á köflum um konur í Biblíunni og hún er undristaða kvennaguðfræðinnar sem við höfum lesið saman öll okkar ár.

Elizabeth var konan sem stofnaði fyrstu kvenréttindasamtök Bandaríkjanna.  Hún og vinkona hennar Lucretia Mott stofnuðu samtökin árið 1848.  Lucretia var prestur kvekara og frábær kona.  Elizabeth var alla ævi forystukona.  Pabbi hennar var lögfræðingur og Elizabeth vann á lögfræðistofu hans en fékk ekki frekar en aðrar konur að læra lögfræði í skólum þótt konur væru komnar til mennta á mörgum sviðum. En hún lærði lögfræði á skrifstofunni og hét að helga líf sitt því að berjast fyrir réttlæti kvenna sem voru fótum troðnar og bjuggu við hörmulegt óréttlæti laganna.  Hópur lærðra kvenna vann með henni að Kvennabiblíunni og ein, Júlía Smith þýddi Biblíuna úr hebresku og grísku.   Starfshópurinn er vitni um að konur voru komnar til mennta. Öðrum menntakonum var boðið að taka þátt í þýðingunni en þær höfnuðu boðinu og töldu að frami þeirra myndi skaðast af samvinnunni.  Sem var ugglaust laukrétt.  Elizabeth sagði að það væri búið að segja svo mikið um ofbeldi Biblíunnar gagnvart konum að nú yrðu þær sjálfar að gá hvað væri satt í því.

Sagan um stúlkurnar tíu er um mikla skrúðgöngu brúðhjóna og þeirra sem var boðið í brúðkaupið. Þeim var boðið öllum stúlkunum tíu sem sagan segir frá..  Fimm voru tilbúnar til að fara í brúðkaupið en fimm voru það ekki.  Það dróst fram að miðnætti að brúðhjónin kæmu og stúlkurnar voru allar orðnar þreyttar og sofnuðu þegar það dróst að boðið byrjaði.  Þegar þær vöknuðu var slokknað á lömpum fimm þeirra og hinar fimm gátu ekki hjálpað þeim en ráðlögðu þeim af fara í búðina til að kaupa.  Þær fóru  en þegar þær koma til baka er skrúðgangan farin hjá.  Allt fólkið er komið í brúðkaupssalinn og búið að loka dyrunum.  Þær standa aleinar fyrir utan, allt hitt fólkið er þar inni og ljósið ljómar út um gluggana og tónlistin ómar út á götuna.  En þær komast ekki inn.

Þegar lamparnir voru tómir voru engir vingjarnlegir piltar til að hjálpa þeim, þeim var ýtt til hliðar og engin veittu þeim nokkra athygli.  Líklega höfðu þær verið á þönum allan daginn til að hjálpa feðrum sínum, bræðrum og frændum til að útbúa sig.  Þess vegna höfðu þær engan tíma til að hugsa um sjálfar sig.

Það er svona.  Konur vinna að velgengni annarra en gleyma grundvallarmálum sjálfra sín.   Konur standa oft og einatt aleinar í lífinu og engin hjálpa þeim og þjóðfélaginu er innilega sama.  Konur verða að gæta að sjálfum sér.  Konur verða að treysta sjálfum sér.

Þetta sagði Elizabeth Cady Stanton.  Ég bæti því við að  það er afar erfitt að skilja söguna og við skiljum ekki menninguna sem ríkti, skiljum ekki brúðkaupsgönguna og skiljum ekki hvers vegna þau þurftu öll að hafa logandi lampa þegar þau fylgdust öll að.  Í huga mínum sem er úr Versló eru kaupmennirnir þeir sem reynast stúlkunum best.  Það er opið hjá þeim eftir miðnætti og þær fá olíu á lampana.

Sagan  hefur verið útskýrð svo sem að Guð sé að hegna fólki fyrir andvaraleysi í trúnni.  Ég held að sagan sé viðvörun, ég held að hún hvetji okkur til að hafa okkar eigin lampa logandi.  En það getur ekki verið að Guð útiloki fólk frá ást sinni.  Ást hennar brást aldrei.  Hún stóð alltaf með þeim sem fóru halloka.  Hún stóð alltaf með konunum sem þjáðust.  Ég held að sagan sé um það, sem er líka sagt í flestum skýringum að við skulum gæta að trú okkar.   Án hennar, eins og við vitum finnum verðum hjálparvana og einsemdin umlykur okkar.  En við þurfum þess ekki.  Guð er alltaf tilbúin til að vera eins og kaupmennirnir og láta okkur fá olíu á lampana, trú í hjarta okkar.   Amen