Upplýsingar
Við ætlum að tala um kvíðann og það er upphafið að námskeiðunum sem við höldum til jóla og kannski í allan heila vetur. Við sjáum bara til.
Ég ætla að setja upp ræðustíl sem er þrisvar sinnum þrisvar, aðallega bara að gamni og líka til að hafa þetta skýrt og klárt. Það verða þrjár línur með þremur atriðum hver.
Fyrstar lína:
- Það var sagt á síðustu öld að kvíðinn yrði aðaleinkenni þessarar aldar. Og það varð. Kvíðinn er svo yfirþyrmandi að fólk verður örmagna og öryrkjar af djúpum og þungum kvíða sem það ræður ekki við.
- En kvíðinn hefur verið einkenni allra alda. Við sjáum það á því hvernig Biblían talar um kvíðann. Þar er sífellt sagt: Óttastu ekki. Ekki vera hrædd. Það er af því að fólk var kvíðið. Fólk hefur verið kvíðið öld eftir öld.
- Það er gott fyrir okkur að sjá að kvíðinn er hluti af veröldinni og það er ekkert nýtt. Það er ekkert óeðlilegt að við kvíðum sjálfar mikið eða lítið.
Önnur lína:
- Það er áreiðanlega gagnlegt fyrir okkur að athuga okkar eigin kvíða. Hvers vegna skyldum vð vera svona kvíðnar? Kannski kvíðum við af því að við erum bara kvíðnar týpur eins og ein okkar segir. Kannski erum við af kvíðnu fólki. Það er ekki ólíklegt að sumar okkar kvíði meira en aðrar og líka að stundum kvíðum við sjálfar meira á einum tím e öðrum.
- Ég held að það séu aðallega tveir flokkar af kvíða sem við glímum við: Annar er að kvíða fyrir einhverju sérstöku, eins og vinkona okkar kveið fyrir að eiga að mæta á ættarmót með sallat fyrir sextíu manns. Þegar ættarmótið var búið var kvíðinn það líka. Hitt er að kvíða fyrir einhverju sem við vitum ekki hvað er. Ég held samt að við vitum það. Það er lífsóttinn og hann er blanda af ýmsu, sektarkennd, einsemd, reiði sem er ekki gagnleg og enn fleiru. Við vitum að við réðum ekki við allt sem var og ráðum ekki við allt sem kemur.
- Ég held samt að það hljóti að vera eitthvað sameiginlegt sem veldur því að kvíðinn er svona umfangsmikill. Ég held það sé eitthvað sem við gerum saman sem er alveg kolvitlaust. Ég held það sé samkeppnin. Samkeppnin rífur okkur niður. Og ég held að bæði orsök og afleiðing samkeppninnar sé í einu orði. Þetta orð er öryggisleysið.
Þriðja lína:
- Ef við segjum nú að það sé í rauninni öryggisleysið sem gerir okkur kvíðnar, öryggisleysið í samkeppninni og ýmsu öðru, hvað getum við þá gert? Hvernig getum við ráðið við öryggisleysið? Og við getum svarað og svarið er svona: Við ráðum við öryggisleysið með því að eiga öryggi.
- Þá þurfum við að spyrja: Hvar finnum við öryggi? Og við getum líka svarað því og svarið er í einu orði. Það er orðið Guð. Við finnum öryggi okkar hjá Guði.
- Við getum spurt: Hvernig finnum við öryggið hjá Guði? Við getum líka svarað því. Guð er vinkona okkar og við finnum öryggið hjá henni alveg eins og við fundum öryggið hjá vinkonum okkar þegar við vorum litar og finnum það líka hjá vinkonum okkar núna. Við förum til þeirra og segjum hverju við kvíðum fyrir og þær hugga okkur og uppörva okkur og oft með að segja frá sinni eigin reynslu. Þannig förum við líka til Guðs og hún segir okkur að það sem við kvíðum sé ekki hræðilegt. Hún verði hjá okkur. Og hún breytir hugsunum okkar. Hún breytir því sem við getum ekki breytt. Hún breytir kvíða okkar í öryggi.
Guð segir í allri Biblíunni, orðinu sem við treystum að við skulum rifja það upp fyrir okkur hvernig hún hefur alltaf hjálpað okkur. Manstu að ég sagði fólkinu mínu að ég skydli vera fyrir aftan þau svo að óvinirnir sæju þau ekki? Svona verð ég líka allt í kringum þig svo að kvíðinn sem eltir þig nái þér ekki. Rifjaðu það upp hvað þú hefur oft læknast af kvíðanum. Ég læknaði þig og ég held áfram að lækna þig. Það læknar þig að rifja það upp og treysta því. Líka þegar kvíðinn nær þér samt, því hann nær þér stundum. En ég lækna þig alltaf aftur. Alltaf. Treystu mér svo að þú treystir þér.
Við skulum halda áfram tala um kvíðann. Og halda áfram að fara að ráðunum sem kristin trú gefur okkur. Lesum Biblíuna. Syngjum sálm á dag. Tölum við Guð. Verum hjá þeim sem er gott að vera hjá.
Takk fyrir og Guð blessar okkur og læknar okkur. Amen