Upplýsingar
Aðventumessa í Dómkirkjunni 7. desember 2014 – Auður Eir Vilhjálmsdóttir.
Til hamingju með jólin. Þetta er jólakveðja sem einn af ungum áhangendum Kvennakirkjunnar sendi á jólakortunum sínum.
Ég skila henni áfram. Innilega til hamingju með jólin. Það er stórkostlegt að eiga þau. Þau eru til að halda það enn hátíðlegar enn aðra daga að Guð er komin og orðin ein af okkur – hún er Jesús, vinur okkar og frelsari. Ekkert smá eins og sagt er.
Þetta er nú samt stórlega dregið í efa eins og við vitum allar. Og ég fyrir mitt leyti hef velt því fyrir mér hvort Guð hefði ekki átt að velja aðra leið til að koma okkur til hjálpar. Ef hún hefði spurt mig hefði ég sagt að hún skyldi ekkert vera að þessu. Fólk ætti svo erfitt með að skilja það. Það skautaði fram hjá því og talaði bara um hana sem eitthvað annað en Jesúm, svona eins Almættið eða Alla eða Búdda eða bara kærleikann ef ekki æðri mátt sem við skyldum endilega kalla hvað sem okkur sýndist. Ég hefði sagt henni í fullri hreinskilni að fólk vildi ekki binda sig við eitthvað svona þröngt eins og bara Jesúm, það vildi hafa þetta víðara.
Ef hefði orðið úr þessu samtali okkar Guðs tel ég fullvíst að hún hefði sagt að hún hefði aldrei nokkurn tíma hugsað sér að velja aðra leið. Og nú skyldi ég taka hennar ráðagerðir fram yfir mínar og treysta sér betur en mér. Treysta því að hún væri víðsýnni en fólkið sem ég talaði um. Og þá hefði ég sagt: Já, takk, ég ætla bara að gera það. Hvað hefðir þú sagt? Ábyggilega það sama.
Hugsum nú um þetta – af því að þetta er áreiðanlega satt: Líf allrar veraldarinna og okkar eigið líf er miklu dýpra en það sem við sjálf eigum og hugsum. Það er undursamlegur sannleikur og frelsar okkur eins og honum var ætlað. Lífið er dýpra en kærleikur okkar, dýpra en hugmyndir okkar og list okkar. Það hvílir á hugmyndum Guðs og framkvæmdum Guðs. Hún sem á allt og skilur allt og hefur sín eigin áform – er komin til þín – til að vera vinkona þín. Hugmyndir Guðs og framkvæmdir Guðs sýna ást hennar. Hvern einasta dag í lífi þínu elskar hún þig. Og býður þér samvinnu við að bæta heiminn.
Ég las í Mogganum í morgun viðtal við mann sem hafði alist upp á Hornbjargi og misst litla bræður sína og mömmu. Hann ólst síðan upp hjá fólki sem reyndist honum vel og eignaðist margt gott í lífinu. En hann reiddist Guði sem mamma hans hafði kennt þeim að elska en gerði svo þetta.
Hvers vegna? Við vitum það ekki. Við getum sagt að Guð ætli okkur að taka þátt með sér í baráttunni fyrir betri heimi. Hún ætlar fólki veraldarinnar að stöðvar mengunina og hungrið og harðstjórnina. En þegar hörmungin gerist svo nærri okkur sem maðurinn frá Hornbjargi segir frá verður okkur orðvant og vanmáttur okkar verður þungbær.
Treystum því að Guð kom til að standa með okkur í þessum vanmætti. Hjálpa okkur til að efla mátt okkar og kærleika og hemja óttann við það sem kynni að gerast í okkar eigin lífi og óttann við að standast ekki. Til að ráða við kvíðann og horfast í augu við að lífið er margbrotið og oft alveg óskiljanlegt. Það er samt ekki allt óskiljanlegt og ekki allt hættulegt. Margt er gott og gleðilegt og við tökum þátt í því með Guði að gera það öruggt og skemmtilegt fyrir sjálfar okkur og annað fólk. Við skulum gefa hver annarri það í jólagjöf að treysta þessu.
Við skulum treysta ráðum og víðsýni Guðs og trausti hennar til okkar. Við skulum fagna því að hún kom og var Jesús, að Jesús er hún sjálf.
Að lokum er önnur saga og hún er um litla stelpu sem líka tilheyrir okkur eins og litli strákurinn sem ég sagði frá áðan. Hún spurði foreldra sína hvort það væru jólasveinarnir sem settu gjafirnir í skóna, og þau sögðu að það væru reyndar þau. Hún brast í grát og sá eftir að hafa spurt. Morguninn eftir kom hún til þeirra og sagði: Ætlið þið líka að finna einhverja afsökun fyrir Jesú? Ég get ekki misst hann líka.
Við komumst af þótt við missum ýmislegt úr lífi okkar, en við missum sjálfar okkur ef við missum Jesúm. En við missum hann aldrei. Hann er Guð sem kom til okkar – Guð sem er vinkona okkar sem elskar okkur og treystir okkur.
Til hamingju með jólin.