Upplýsingar
Kærleikurinn
Predikun í Kvennakirkjunni – Grensáskirkju 17 mars 2019
I.Kor.13:1,13
Við skulum biðja:
Elsku Guð, við biðjum þig um að umfaðma okkur með kærleika þínum. Kom þú til okkar. Opna þú hjörtu okkar svo við séum fær að taka á móti lífgefandi afli kærleikans. Láttu kærleik þinn vinna sitt verk svo að vonin og trúin sé sterk. Í Jesú nafni. Amen.
Náð sé með yður og friður frá Guði.
Ég ætla að íhuga um stund kærleikann og leitast við að kafa dýpra í merkingu hans og hvernig hann getur haft áhrif inn í líf okkar. Það er þörf á að efla kærleikann með því að taka hann til umfjöllunar og dýpka skilning okkar á honum. E.t.v. er einnig þörf á að spyrja sig hvort við séum á flótta frá kærleikanum þó við séum á sama tíma að leita að mennsku okkar. Kærleikann er hægt að nota sem hugmyndafræði. Kærleikur Guðs hefur áhrif á okkur og umfaðmar okkur og hefur heilsusamleg áhrif, því kærleikurinn og ástin er læknandi afl, opnandi og lækkar varnarmúrana,
Kærleikurinn er nefnilega afl. Komið frá Guði. Því uppspretta kærleikans er hjá Guði.
Eins og segir í I. Jóhannesarbréfi:
„Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.“ (I.Jóh.4:10)
Já Guð er miskunnsamur og elskar okkur, hvert og eitt (hverja og eina). Í því liggja gæði okkar.
En hvaða mynd höfum við af kærleikanum? Hann hefur stundum verið okkur konum fjötur um fót þar sem það hefur verið ætlast til þess að við værum svo góðar og kærleiksríkar. Og oftar en ekki höfuð við fengið skakka mynd af honum.
Ég veit ekki hvernig þú túlkar kærleikann en stundum hef ég á tilfinningunni að sumir túlki orðið þannig að það merki að láta allt yfir sig gang. En kærleikurinn er ekki það sama og geðleysi. Vert er að minnast sögunnar um það þegar Jesús gekk inn í helgidóminn og hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna þegar hann sá að búið var að gera hús Guðs að ræningjabæli. Já umburðarlyndið hefur takmörk og Jesús ögraði æðstaprestinum og fjölskyldu hans sem fékk hluta af ágóðanum af sölunni.
Kristnir menn eiga ekki að láta allt yfir sig ganga. Við verðum að standa gegn því að orðið kærleikur sé notað gegn okkur eða misnotað. Kærleikurinn felur í sér að lifa Guði og láta ást Guðs móta líf okkar en ekki umhverfið og það neikvæða í tilverunni.
Í Biblíunni stendur að kærleikurinn sé m.a. lífgefandi afl. Hann veitir nýtt líf. Hann er uppörvandi og uppbyggjandi. Og ef þetta er ekki til staðar þá er ekki um ræða kærleika. Meðvirkni er m.a. ekki kærleikur þó hún geti verið nauðsynleg í undantekningar tilfellum. Að láta undan manupulation eða vélabrögðum eins og Biblían orðar það er ekki kærleikur. Kærleikurinn er ekki eyðandi afl – hann er lífgefandi afl. Því er kærleikurinn hvorki meðvirkni né láta undan vélabrögðum. Hugum að því hvort verið sé að kúga okkur þegar ætlast er til einhvers af okkur í nafni kærleikans. Já hvort það sé í raun kærleikur. Við verðum að standa upp gegn neikvæðum öflum. Og ef okkur finnst kærleikurinn sem við teljum að við séum að sýna sé byrði eða eyðandi afl, þá er það ekki kærleikur. Því eins og áður er sagt þá er kærleikurinn lífgefandi afl. Hann veitir nýtt líf og er uppörvandi og uppbyggjandi. Við erum ekki varnarlaus eins og látið er í veðri vaka í dag, ef við áttum okkur á hvað er kærleikur og hvað hann er ekki.
En þetta er hægara sagt en gert. Því stundum erum við orðin svo samdauna því illa, samdauna virðingarleysinu að það lamar viljann til að standa upp og segja nei. Ofbeldi og stríð er borið á borð fyrir okkur sem eðlilegur og nauðsynlegur hluti tilverunnar og með því má segja að við búum við sálfræðihernað. Enda er búið að einkavæða suma heri og þá koma inn hugtökin framboð og eftirspurn. Ef engin eru stríðin verður engin eftirspurnin, því er spilað á okkur eins og hljóðfæri til að skapa eftirspurnina. Og við heyrum í hinum hljómandi máli og hvellandi bjöllu innihaldleysisins því kærleikann vantar. Hlutverk kærleikans er mikilvægt út frá siðferðislegu sjónarhorni, því við megum ekki gleyma að við erum lifandi verur en ekki vélar. Kærleikurinn er inn í dag því fólk skynjar tómleika ríkjandi hugmyndafræði. Júlíana Signý sagði mér að þegar hægir á hagkerfinu og hagvexti og það harðnar á dalnum í samdrætti þá eykst sala á ástarsögum. Það hægir á hjá okkur sem og í Evrópu og þá ef til vill hættir gullið að glóa sem gefur ekkert innihald og við verðum betur vör við tómleikann. Og hervæðing Evrópu hljómar ekki vel en hvernig á að bregðast við þegar sífelldar ögranir eru til staðar og við höfum Úgraínu fyrir augum okkar ásamt fleiri löndum. Og nú vilja menn ganga harðar fram í því að fá að leika sér í stríði út í geimi. Því er mikil þörf á að við valdeflum okkur með kærleikanum. (viljum ekki fara út að leika)
En nú ætlum við að ýta þessu til hliðar með olbogunum og segja burt með ofbeldi og stríð og mynda rými fyrir kærleikann. Því flest á sér upphaf í heila okkar t.d. þegar einhver segir eitthvað jákvætt við þig framleiðir heilinn taugasendingu sem tengist velferð og hamingju. Já kærleikurinn er afl. Hann hefur áhrif á líf okkar sem annarra og hann getur haft mótandi áhrif á heilsu okkar og líðan og ekki bara okkar heldur einnig annara í heiminum – á samfélagið og þau gildi sem valin eru. Já við þurfum að bera umhyggju bæði fyrir okkur sjálfum sem öðrum. Og það er frá Guði sem við fáum kraftinn til að umfaðma okkur sjálf og aðra í kærleika. Því það er Guð sem elskar okkur og gefur okkur af kærleika sínum og fyllir okkur krafti.
Við skulum staldra við um stund, við að hvíla í kærleikanum. Hér er lak á gólfinu þar sem á stendur skrifað trú, von og kærleikur, og við vitum framhaldið: en þeirra er kærleikurinn mestur. Gefum gaum að því að þetta er lak sem yfirleitt er sett á rúm og tengir okkur við upplifunina að hvíla. Það er stórkostleg upplifun að fá að hvíla í kærleika Guðs og láta hann umfaðma sig. Heimur án kærleika er heimur án lífs. Það þarf kærleika til að lifa mennsku lífi. Kærleikurinn er afl, kraftur sem við fáum að finna þegar við opnum okkur fyrir honum og leyfum honum með Guðs hjálp að verka í lífi okkar.
Mig langar að segja ykkur frá því að við erum sköpuð með Vagus taug eða Flökktaug eins og hún nefnist á Íslensku, sem liggur utan á brjóstkassanum þannig að hún getur örvast við faðmlag. Það getur leitt til lækkunar blóðþrýsings og aukingar á dopamine og hefur m.a áhrif á hjarta og magasvæði. Kærleikur Guðs getur rekið burt ótta og kvíða en þeir geta jafnframt komið í veg fyrir að við opnum okkur fyrir kærleika Guðs og látum hann lækna okkur. Já látum kærleiksfaðmlag Guðs lækna okkur. Það er svo margt sem truflar okkur t.d. stess og þá eigum við erfitt með að hvíla afslöppuð og meðtaka gæðin, meðtaka faðmlag kærleiksríks Guðs. (Því Guð breytir storminum í blíðan blæ. (Sálm.107:29))
En hvernig skynjum við Guð? Hvernig birtist hann okkur? Hvernig er snerting Heilagrar andar? Birtingarmyndirnar eru margar í Biblíunni. Í Postulasögunni 2. kafla segir að það var sem stungið væri í hjörtu fólksins er þau heyrðu fagnaðarerindið og þau spurðu hvað þau ættu að gera og svarið var að taka sinnaskiptum (Post.2:37-38) Og í sögunni um Elía í I. Konungabók þá birtist Guð ekki stormininum, jarðskjálftanum eða í eldinum heldur í þyti af þýðum blæ (eða eins og segir í þýðingunni frá 1981 þá heyrðist blíður vindblær hvísla og Elía heyrði það). (I.Kor.1:19:11-13) Og við lesum í Jóhannesarguðspjalli að Guð sé sem vindurinn: Undrast eigi að ég segi við þig: Ykkur ber að fæðast að nýju. Vindurinn blæs þar sem hann vill og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann sem af andanum er fæddur.“ (Jóh.3:7) Já Guð er eins og vindurinn. Hann berst til okkar á einn eða annann hátt..
Kærleikurinn verður ekki fullburða ef hann er einungis inn á við. Hann þarf einnig að vera út á við eins og segir í þrefalda kærleiksboðorðinu: að elska Guð, og náungann eins og sjálfa þig. Guð er upphafið og endir alls og það er jafn mikið af ég og við, já eins og, og af jafnvægi, annars væri hljómurinn falskur. Dr. Olav Fykse Tweit aðalritari Alkirkjuráðsins komst svo að orði – Við höfum lög og réttindi til þess að viðhalda reglu í þjóðfélaginu og leysa hagsmunaárekstra og valdaágreining friðsamlega. Ástin/kærleikurinn er hins vegar annað gildi, grundvallar gildi, leiðandi hegðunarmynstur sem skapar traustan ramma og grundvöll fyrir viðurkenningu á réttindum og reisn allra í samfélaginu. Staðfesting réttlætis og frelsis byggt á kærleika leiðir til úrbóta og umbreytingar í þeim tilvikum þar sem lífinu er ógnað og brotið gegn réttindum. Lög og siðferði, réttindi og ást/kærleikur styðja við hvert annað í spurningunni um lífið í hagkvæmum og sjálfbærum samfélögum – og geta breytt umgengni við menn og umhverfi.
Kærleikurinn er það sem Jesús lagði okkur á hjarta, viðmið okkar m.a. í siðferðislegum efnum. Virðingarleysi fyrir manninum og fyrir sköpuninni er til staðar af því eigi er rúm fyrir Jesús. Látið er undan þeim sem hafa gróða að leiðarljósi og hagvöxt. Tískustefnur samtímans sem orsaka fátækt, félagslega togstreitu, loftslagsbreytingar og ógna lífsskilyrðum er fygt eftir með pólitískum breytingum með auknu frelsi markaðarins og minni áherslu á alþjóðlega samstöðu – og stjórnmálamenn leika með.
Það er engin heildarlausn fólgin í því að vera kvikindislegar (bitsy upp á ensku) eins og áróður dagsins í dag boðar. Það byggir upp veggi. Annað er með mörk. Þau geta verið góð í hófi og nauðsynleg þegar aðgangsharkan mætir okkur. En þau geta einnig byggt upp veggi og múra. Og stuðla yfirleitt ekki að hamingju. Að hvíla í Paradís er í góðu lagi, að lifa hinu ljúfa lífi, þó höggormurinn sé til staðar og þörf sé á að gera sér grein fyrir hinu illa og stoppa það af. Það er bara spurning hversu mikið við hlustum á höggorminn og látum hann hafa áhrif á okkur. Hlustum í stað þess á Guð og kærleika hans til okkar. Hann elskar okkur og vill umvefja okkur kærleika sínum. Opnum faðm okkar og hjarta fyrir Guði. Þiggjum og þökkum gjafir hans náðina og kærleikann. Opnum harðlæstar dyr/hurð með kærleikanum og notum kærleikann sem viðmið og grundvöll fyrir ákvörðunum okkar.
Það er gott að vakna eftir svefn í ró og næði og íhuga kærleika Guðs, láta hann umfaðma okkur og lækna. Einhverjar hafa reynt það og það hefur orðið þeim til blessunar. Kærleikurinn er afl sem breytir heiminum. Höldum honum á lofti, notum hann sem hugmyndafræði og lifum hann. Opnum hjörtu okkar fyrir lífgefandi kærleika Guðs.
Ég enda hér á orðunum úr I. Jóhannesarbréfi:
Þið elskuð, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. (I.Jóh.4:7)
Amen.
- Korintubréf kafli 13 vers 1 og 13
Þótt ég talaði tungum manna og engla
en hefði ekki kærleika
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt,
en þeirra er kærleikurinn mestur.