Upplýsingar

Nýjasta prédikun Kvennakirkjunnar:

Auður Eir Vilhjálmsdóttir

Jólaguþjónusta í Háteigskirkju 27. desember 2015

Veljum að vera eins og Jesú á jólanóttina í Betlehem

Gleðileg jól.  Tölum um Betlehem.   Um hirðana í haganum sem heyrðu englana syngja og segja þeim að fara að sjá frelsarann.  Og um vitringana og um Maríu og Jósef.  Þau sem voru í fjárhúsinu á jólakvöldinu vissu öll hver Jesús var.  Þau vissu að smábarnið í jötunni var Guð sem skapaði alla veröldina.  Hún var komin til þeirra og alls heimsins.

Hugsum okkur að við séum einhver þeirra í fjárhúsinu.  Hver viltu vera?  Ég sting upp á því að við hugsum okkur að við séum Jesús, smábarnið í jötunni

Er það ekki of mikið fyrir okkur að þykjast vera Jesús?   Er það ekki hrokafullt og alveg út í bláinn?

Nei, það er ekki hroki.  Jesús sagði sjálfur að við gætum ekki tekið á móti öllu því stórkostlega og undursamlega  sem hann vildi gefa okkur nema við yrðum eins og börn.  Og hann sagði að við skyldum vera í sér og þá myndi hann fylla hjarta okkar og allt líf okkar myndi verða fyllt af vináttu hans.

Á jólanóttina hvíldi Jesús í umhyggju og ást fólksins sem Guð gaf honum.  Svo hélt hann áfram og gekk inn í lífsstarf sitt.  Við gerum það líka.  Hann gekk út í flókna og hættulega veröld.  Við gerum það líka.  Hann samdi sér lífsstíl.  Við gerum það líka.

Það skiptir mestu máli hvernig lífsstíl við semjum.  Það eru margar aðferðir og þær fara eftir margvíslegum viðhorfum.   Við veljum úr því sem við heyrum og lærum og  því sem við hugsum sjálfar.  Það skiptir mestu hvað við hugsum.  Ég segi það aftur og aftur og líka að þess vegna skiptir það öllu hverju við trúum.  Af því að hugsanir okkar mótast af trú okkar.

Við trúum á frelsara okkar Jesúm Krist.  Hvaða frelsi viltu fá?

Ég vel fyrir mig og bara líka fyrir þig.  Það er frelsið frá þeim ómögulegu hugsunum  sem draga okkur niður.  Ég held að þessar þunglamalegu hugsanir  verði fleiri þegar við verðum eldri.  Konfúsíus, spekingurinn  í Kína sagði að það væri alveg eðlilegt.   Við þyrftum að hafa kjarkinn  til að bera þessa lífsreynslu.  Það er fínt að heyra það.   Við þurfum ekki að halda að við séum að verða þunglyndar eða kjarklausar.  Þegar Jesús kom sagði hann að hann skyldi kenna okkur að bera þessar erfiðu hugsanir.  Hann skyldi kenna okkur að hvíla í sér, taka á móti frelsinu með því að gera ekki neitt annað er opna hjarta okkar fyrir hugsunum Guðs.

Við kennum hver annarri að hvíla í trú okkar.  Arndís kennir okkur kristna íhugun.  Ég læri það hjá henni en daginn eftir fer ég samt frekar niður á Laugaveg til að tala við Guð.  Arndís myndi líka fara út að ganga til að hitta Guð þótt hún tali frekar við hana í kyrrðarstundum.   Við kennum hver annarri að fara leiðir sem henta okkur.  Við mótum saman stefnu okkar.

Predikanirnar  og frásagnirnar af trúnni sem kvennakirkjukonur flytja í messunum okkar eru predikanir okkar allra og frásögur okkar allra.   Hjómlistin sem Alla og allar hinar flytja, í dag þær Hallfríður,  Sigríður og Kristín eru líka boðun Kvennakirkjunnar.  Við mótum saman boðskap okkur, fyrst og fremst fyrir sjálfar okkur en svo fyrir alla kirkjuna og þjóðfélagið.  Því við berum allar með okkur sameiginlegan boðskap okkar þangað sem við hittum fólk og vinnum störf okkar.  Við mótum lífsstíl okkar í trú okkar.

Við megum leggja fram okkar skerf til blessunar heimsins með hversdagslegum lífsstíl okkar.  Við megum treysta því að veröldin er ekki bara  ringulreið heldur er hún líka góð og í henni er urmull af góðum manneskjum sem hafa tileinkað sér lífsstíl Jesú.

Hvernig var lífsstíll Jesú?

Jesús  var auðmjúkur og af hjarta lítillátur.  Hann dæmdi ekki.  Hann vann með vinkonum sínum og vinum og treysti þeim og umgekkst allar manneskjur með virðingu og kærleika.  Hann tók  þátt í þjóðfélaginu.  Hann sinnti starfi sínu af áhuga og ástríðu og barðist fyrir málum sínum og naut alltaf lífsins um leið.

Förum nú heim með gleði jólanna.  Við megum njóta þess á hverjum einasta degi að gera ekkert annað en taka á móti hugsunum Guðs.  Og ganga svo með hugsanir hennar út í dagana og verða til blessunar.  Við erum mildar og máttugar af því að við erum vinkonur Guðs.  Amen