Upplýsingar
En eftir eldinn heyrðist blíður vindblær hvísla og Elía heyrði það.
Fyrri Konungabók 19. 12 – 13.
Við ætlum að heyra um það þegar Guð talaði við Elía í blíðum blæ en ekki í stormi, jarðskjálfta og eldi. Það er sagt frá því í Fyrri Konungabók og lesið úr henni áðan. Frásagan er svona: Kóngarnir í Ísrael voru orðnir verulega vondir menn. Einn hét Akab og hann var duglegur herforingi en brást algjörlega þeirri einu skyldu sem hann hafði í raum og veru en það var að standa vörð um trúna á Guð.
Hann giftist Jessebel sem var hræðilega grimmlynd og dýrkaði guðinn Bal og Akab opnaði dyr þjóðar sinnar fyrir þeirri trú. Elía gekkst fyrir keppni milli Bals og Guðs, lét 450 presta Bals setja upp altari og setti annað upp sjálfur, ekkert gerðist á altari þeirra en Guð sendi eld á altari sitt. Þá drap Elía alla balsprestana. Akab sagði Jessebel frá því og hún lét skila til Elía: Á morgun um þetta leyti verður þú sjálfur dauður. Og þá varð Elía þessi mikli kjarkmaður svo hræddur að hann flýði og faldi sig í helli. Guð kom til hans og sendi á undan sér storm sem tætti björgin og jarðskjálfta og eld. En Guð var ekki þar. Þá kom blíður blær og straukst um hellisopið. Þar var Guð og talaði við Elía. Komdu nú Elía, ég er hérna með mat handa þér og svo skaltu halda áfram að vinna fyrir mig.
Ég vildi segja okkur þessa sögu af því að ég held að Guð tali við okkur núna í blíðum blæ og við skulum treysta því. Stundum talar Guð með miklum krafti í vakningum sem kalla saman þúsundir fólks sem breyta öllu í kringum sig með sterkri trú sinni. Svona vakningar urðu í Evrópu og Ameríku á 18. og 19. öldinni og siðbótin á 17. öldinni var svona vakning, svo stórkostleg að við sitjum hér í mætti hennar í dag. Það var gífurlegur máttur í þeim öllum. En mátturinn er líka í þeim blíða blæ sem ég er handviss um að umlykur okkur núna.
Við í Kvennakirkjunni höfum alltaf treyst þessum blíða blæ Guðs. Viö höfum alltaf unnið í þeirri vissu að blíður blær Guðs geri okkur mildar og máttugar. Að Guð vinkona okkar sé í forystu okkar í Kvennakirkjunni og stjórni starfinu. Hún brallar svo, segir Steinunn okkar Pálsdóttir. Og við sjáum það aftur og aftur.
Það sem ég vildi segja okkur í dag eins og við segjum hver annarri alltaf þegar við tölum saman um trú okkar og starf er að hver einasta okkar skiptir öllu máli. Hver einasta okkar er vinkona Guðs sem heyrir hvað hún segir og tekur á móti fyrirgefningu hennar, frelsi og friði og notar það allt í daglegu lífi. Þess vegna hittumst við til að tala um það sem er að gerast í kringum okkur. Svo að við getum hjálpað hver annarri til að gera okkur grein fyrir því. Þess vegna höfðum við síðasta námskeiðið með Arndísi um konurnar í Biblíunni til að sjá hvað við lærum af þeim til að nota núna. Og þess vegna höfum við næsta námskeið þar sem kvennakirkjukonur segja okkur frá því sem er talað um núna til að gera lífið betra: Tilfinningagreind, núvitund, jákvæða sálfræði og yfirlit yfir þetta allt. Við kennum hver annarri svo margt gott og gagnlegt. Og við tökum á móti því og hugsum um það og notum það með Guði til að leggja fram okkar skerf til að gera lífið betra.
Það var talað um þennan blíða blæ í viðtölum við fólk um hryðjuverkin í París. Við skulum ekki láta óttann ná tökum á okkur. Við skulum ekki fyllast hatri. Við skulum ekki segja að hryðjuverkamennirnir séu fulltrúar allra þeirra sem fylgja islam. Þau eru venjulegt fólk eins og við og eins og Gyðingar sem hver um sig fylgja sinni trú. Við skulum fylla okkur stillingu, við skulum gera okkur grein fyrr því sem er að gerast og snúast á móti því í stillingu. Við skulum snúast gegn því, segja þjóðarleiðtogarnir í Frakklandi, Englandi og Ameríku og hérna á Íslandi: Við látum hryðjuverkin ekki sigra okkur. Við sigrum þau með því að standa saman og standa gegn þeim. Við þurfum að hugsa vandlega um viðbrögðin, segir Magnús Þorkell Bernharðsson sérfærðingur í þessum málum. Og við sem erum saman í dag skulum hjálpast að við að gera okkur grein fyrir þessu öllu og hlusta vandlega á rök þeirra sem tala um það. Við skulum standa trúfastar með þeim öllum sem standa saman á bænavakt.
Bráðum förum við hver heim til sín. Við hittumst aftur á morgun klukkan hálf fimm í Þingholtsstræti, þær sem geta. Við förum allar heim með vináttu og gleði þessarar guðþjónustu og við treystum því allar að Guð fari með okkur og gefi okkur allt sem við þurfum til að lifa í kristinni trú okkar og boða hana með blíðum blænum í framkomu okkar og orðum. Það er talað illa um kirkjuna og það er gert lítið úr kristinni trú í kringum okkur núna. Það eru árásir, hatramar árásir. En það er ekki bannað að tala illa um kirkjuna og rífa niður kristna trú. Við skulum gera okkur grein fyrir þessu umtali. En við skulum ekki óttast það. Því kirkjan er alstaðar í kringum allt landið og kristin trú býr í fólki hennar og það eflist til varna og framsóknar við öll stóryrðin. Við stöndum fastar og eflumst í vissu okkar um það hvað kristin trú okkar er dýrmæt og yndisleg og við finnum gleði okkar yfir því að fá að vera vinkonur og vinir Jesú.
Við skulum treysta hinum blíða blæ þar sem Guð talar við okkur. Amen