Upplýsingar

Frelsið sem við fáum í fyrirgefningunni

Prédikun Auðar Eir Vilhjálmsdóttur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði 19. október 2014

Í predikuninni í dag ætlum við að tala um fyrirgefningu og frelsi. Þess vegna skulum við heyra um þessi vers úr Matteusarguðspjalli og Jóhannesarguðspjalli
Jesús sagði aftur og aftur : Syndir þínar eru fyrirgefnar. Hann sagði það við fólk sem hann hitti á förnum vegi og barðist við vanda sinn og hann sagði það við sinn eigin hóp sem fylgdi honum. Heyrðu nú, sagði þá fólk í kring, hvað heldur hann að hann sé. Heldur hann að hann sé Guð, Það er bara Guð sem getur fyrirgefið syndir.
Og Jesús sagði: Já, ég er nefnilega Guð og þess vegna hef ég vald til að fyrirgefa syndir,.
Hann sagði: Ég er kominn til að leita að hinum týndu og frelsa þau.
Og hann sagði: Ef ég geri ykkur frjáls þá verðið þið frjáls.
Þess vegna skrifaði Páll í Galatabréfinu: Jesús frelsaði okkur til að gera okkur frjáls.
Þess vegna skulum við standa við það og láta ekki aftur eins og við eigum að bera ok og ánauð.
Amen

Takk fyrir  góði Fríkirkjusöfnuður að halda þessa guðþjónustu með okkur i Kvennakirkjunni.  Það er alltaf jafn gott að vera með ykkur.  Og takk fyrir, séra Einar, fyrir góðu orðin þín í upphafi um samstarfið við Kvennakirkjuna og 40 ára vígsluafmæli mitt.  Við sem héldum afmælið saman erum svo glaðar að okkur finnst að fólk ætti að halda afmæli við og við til að rifja upp gleði áranna og tala um hin góðu verkefni sem bíða okkar.

Við getum litið á hverja einustu guðþjónustu og allar samverustundir safnaða okkar sem afmælishátíð.  Það er ólýsanleg hamingja að vera í hópi sem hittist hjá Guði og talar um hana og við hana og hlustar á hana og syngur með henni.  Það styrkir okkur og huggar og gætir að okkur í öllu sem að höndum ber, erfiðu og glaðlegu.  Við eigum hvert annað að.  Við eigum saman uppsprettu kristinnar trúar sem er dýrmætust allra gilda lífsins.

Hún er grundvöllur tilveru okkar. Hvernig finnst þér það vera?

Og takk Gréta fyrir vitnisburðinn.  Okkur finnst svo gott í Kvennakirkjunni að fá einhverjar okkar til að segja frá sinni eigin trú og hafa svo predikun um guðfræðina sem trúin á rætur  sínar í.

Í Kvennakirkjunni höfum við nú árum saman fylgt á einn og annan hátt guðfræði  eftir orðum sem byrja á F.  Fyrst er fyrirgefningin, svo frelsið sem við fáum í fyrirgefningunni, svo friðurinn sem við eignumst í frelsinu og femínisminn sem er sjálfsagt baráttumál –  og svo bættum við framtaksseminni við.

Við ætlum að tala um frelsið í dag.  Í framhaldi af því sem við höfum aftur og aftur sagt um fyrirgefninguna.  Við höfum sagt þetta:  Guð fyrirgefur okkur og þess vegna megum við fyrirgefa sjálfum okkur.  Hugsum um það einu sinni enn – þökkum og fögnum þessu mikla kraftaverki og gerum það aftur og aftur að daglegri gleði okkar:  Guð hefur fyrirgefið okkur þess vegna megum við fyrirgefa sjálfum okkur.  Það er áreiðanlegt.  Guð sagði það sjálf.  Treystu því algjörlega.

Nú ætla ég að sýna okkur þessa gulu brauðkörfu svipaða og skálum og körfum sem við höfum stundum á morgunverðarborðinu.   Tökum hana sem tákn um fyrirgefninguna.  Ég bjó ekki til þessa körfu.  Hún kom til mín utan frá.  Svoleiðis er fyrirgefningin líka.  Við búum hana ekki til sjálf.  Hún kemur til okkar.  Hún kemur frá Guði sjálfri og hún er hvegi framleidd nema hjá henni.

Nú bið ég þig að hlusta vel og hugsa um það heima líka og gá hvort þú ert mér sammála.  Það er til svo margvísleg kristin guðfræði og við þurfum alltaf að gá að henni sjálf.

Ég fullyrði að þessi guðfræði sé pottþétt.  Við heyrðum það í ritningarlestrinum.  Það er bara Guð sem getur fyrirgefið syndir.  Og fagnaðarerindið er það að hún gerir það – hún gefur okkur körfuna og við megum eiga hana og það sem er í henni.  Í fyrramálið þegar þú drekkur morgunkaffið og færð þér kannski brauð úr körfunni þinni máttu hugsa að þú hafir fengið fyrirgefningu Guðs með morgunkaffinu.  Þess vegna máttu fyrirgefa þér og fara með hreinan og glaðværan hug í vinnuna eða hvert sem þú ferð, kannski ekki lengra en inn í stofu.

Með fyrirgefningunni gefur Guð okkur frelsið.  Frelsið til að hafa ekki sektarkennd, leiðrétta það sem við getum af mistökum okkar, sættast við okkur og annað fólk og vera glöð og gera lífið gott.  Það er kona sem heitir Lytta Bassett og er guðfræðingur í Frakklandi og gaf út bók núna fyrr á árinu.  Það var aldeilis gaman að lesa það sem hún skrifar.  Hún segir að við lúterskt fólk séum aldrei glöð en alltaf að sligast af sektarkennd.  Vegna þess  að Lúter lét út úr sér þá örmu vitleysu að við værum alltaf syndarar þótt við séum frjáls.

Ég held ekki að það sé vitleysa hjá Lúter að við séum bæði syndarar og frjáls um leið.  Ég held að   okkur þyki ekki öllum viðkunnanlegt að kalla okkur syndara.   Ég held líka  að það sé samt engin spurning að við finnum að við erum gölluð.   En ég held  að það sé  spurning hvort við finnum að við erum frjáls.  Hvað finnst þér?  Þú ert frjáls og þú mátt finna það.   Finnurðu það?  Og ef þú finnur það hvernig finnurðu það og hvenær og hvers vegna?

Nú skaltu hugsa þig um og gá hvort þú ert sammála því sem ég segi núna.  Ég segi að það sem truflar okkur gerist í daglegu lífi okkar.  Og að það sé á sama stað, í daglegu lífi okkar,  sem Guð læknar okkur.  Þess vegna bæti ég nú fimmta f inu í umræðuna, f inu sem þýðir framtakssemi.

Og þess vegna tek ég nú þessa gulu silkiblússu upp úr gulu brauðkörfunni.  Hún er til að tákna framtakssemina sem við megum sýna til að finna frelsið sem Guð gefur okkur í fyrirgefningunni.  Upp úr körfu fyrirgefningarinnar færðu frelsið til að framkvæma það sem gerir líf þitt gott.  Þegar við göngum til  daglegra starfa okkar og gerum ýmislegt þarflegt og skemmtilegt finnum við  frelsi Guðs.  Held ég.  Hvað segir þú?

Predikunin er búin en presturinn leggur til að fólk fari heim með heimaverkefni.  Það er þetta:  Hvernig finnst þér þú finna frelsi Guðs?  Amen