Upplýsingar
Ég æta að segja þér sögu. Einu sinni týndi ég litlu brúnu töskunni minni með kortunum, lyklunum og símanum. Óhuggulegt. Einhver gætu verið farin að eyða af kortunum mínum og hringja úr símanum og komið og opnað húsið mitt um miðja nótt. Svona getur lífið verið og ég segi þér framhandið á eftir.
Ég á afmæli í dag, 45 ára vígsluafmæli. Takk fyrir hátíðahöld kvöldsins. Þetta er yndislegt kvöld og ég hef hlakkað svo til að vera hérna með ykkur. Dagarnir fyrir og eftir prestvísluna fyrir 45 árum voru baráttudagar en ekki bara baráttudagar heldur mörg baráttuár. Það tók allt líf mitt og líka dætra minna og Þórðar mannsins míns því ég var alltaf með hugann við baráttuna. Það gat ekki verið öðruvísi og það var líka svona í öðrum löndum. En nú er stríðið unnið og við skulum gleðjast.
Það er flókið að bjóðast til að vera prestur því fólk hefur alla vega hugmyndir og ræður yfir okkur sem bjóðum okkur fram. Sum vilja hávaxna presta en sum lágvaxna, sum fjölskyldur en sum einhleypt fólk, sum vilja fólk sem kann eitthvað annað en guðfræði en sum vilja fólk sem fer ekki að skipta sér af neinu og svo framvegis og svo framvegis fram með öllum götum.
En Lúter var ekkert að vesenast í þvíessu. Hann sagði að prestar hefðu það aleina hlutverk að boða Orðið. Það væri nefnilega réttur alls kristins fólks að fá alltaf að heyra Orðið . Af því að Orðið gæfi frelsi og réttlæti, gleði og kjark hvern einasta dag.
Nú sjáum við hér hjá okkur og heyrum frá gjörvöllum Vesturlöndum að fólk vill alls ekki koma í kirkju. Það verður fólk að ákveða sjálft. Lúter sagði að við skyldum endilega koma í kirkju. Af því að þar heyrum við Orðið. Guðþjónustan er glaðleg hátíð, sagði hann. Hún er Kristi til lofs og þjónusta við fólkið hans. Hann orti nýja sálma og sagði að það ætti endilega að endurnýja guðþjónustuna og hún mætti vera alla vega. En eitt mætti aldrei breytast. Það ætti alltaf að tala um réttlæti og frelsi Krists. Því að við ættum rétt á réttlæti og frelsi. En réttlæti og frelsi án Krists væri bara ekki til. Hann sagði að boðskapnum og frelsið og réttlætið væri best komið í höndum presta. Og hann sagði að allar skírðar manneskjur væru presta
Kvennaguðfræðingarnir sögðu þetta líka. Þær sögðu að þótt það væri nauðsynlegt að koma rannsóknum kvennaguðfræðinnar í hendur háskólakvennaguðfræðinganna væri allra nauðsynlegast að koma þeim til allra kvenna kvennakirkjunnar. Af því það skiptir öllu að þær sjái að Biblían er arfur þeirra og auðlegð.
Við söfnumst aftur og aftur saman í Kvennakirkjunni til að heyra aftur og aftur þennan fullkomlega dásamlega boðskap um Orðið. Við segjum það sama aftur og aftur og verðum aldrei nokkurn tíma leiðar á því og höfum ekki nokkra minnstu löngun til að segja eitthvað nýtt. Því það sem við segjum er alltaf nýtt og allt sem við þurfum að heyra og það er þetta:
Við höfum lýst trú okkar svona. Yfirskrift trúar okkar er traust. Traust. Hvíld. Framkvæmd. Vissan um að Guð er með okkur og vinnur með okkur. Hún heyrir bænir okkar og við sjáum það strax eða seinna. Það er að taka eftir bænheyrslum án þess að heimta að þær verði eins og við viljum. Það er að vera opnar fyrir anda Guðs og laða að okkur það sem er gott. Það er að hugsa ekki neikvæðar hugsanir heldur jákvæðar. Það er að láta trúna koma fram í því sem við gerum. Það er sjá að Guð er með okkur í öllum samskiptum okkar við annað fólk bæði góðum og flóknum. Það er að sjá hvað það er yndislegt að það er nóg í trú okkar að eiga Guð. Það er að sjá að Guð er alltaf að skapa. Hún brallar svo, eins og Steinunn okkar Pálsdóttir segir.
Þetta er um daglegt líf okkar. Um það sem við gerum og hugsum. Um minningar okkar. Um það að líta um öxl og sjá að lífið var gott. Og sjá að Guð hefur fyrirgefið það sem var verra en við vildum. Um hugrekkið til að hvíla í þeirri vissu. Um gleðina yfir að sjá að sumt sem við segjum um það sem var er ekkert nema tómur uppspuni okkar og það var aldrei svona. Við segjum hver annarri að hættðessubara. Hætta að hugsa þessar hugsanir og fylla huga okkar af gleðinni sem Guð gefur okkur.
Hvernig förum við að því? Ég á aðra sögu um fjögurra ára stelpu sem varð seinna fermingarbarn okkar. Hún sat í eldhúsinu hjá mömmu sinni og mamman sagði: Verður ekki gaman á morgun þegar þú ferð í tvö afmæli? Nei, sagði litla stelpan og mamman spurði hvers vegna. Og litla stúlkan sagði: Einhvern tíma þarf ég nú að vera heim.
Það er svona sem við eigum hugrekki daganna og minningarnar um góðu fortíðina og gleðina yfir nútíðinni og sjálfum okkur. Það er af því að mitt í annríki okkar settumst við alltaf hjá Guði og vorum heima hjá henni. Við töluðum við hana eða vorum bara hjá henni og fundum hvað það var óendanlega gott. Við fundum náðina sem streymdi um okkur eins og ferska loftið í sumar og fundum að svona er Jesús í okkur. Hann er ekki bara vinur og frelsari. Hann er í hjarta okkar.
Nú koma sögulokin um litlu brúnu og týndu töskuna. Ég var með svörtu leðurtöskuna á bakinu. Ég mundi ekkert eftir því. Litla brúna taskan var þar. Alveg eins og trú okkar er alltaf hjá okkur. Alltaf, alltaf.
Það er þetta allt sem gerir okkur að prestum. Trúin, náðin, Orðið. Við erum allar prestar. Við erum hennar heilaga prestafélag. Stólan er tákn presþjónustunnar. Nú höfum við allar fengi litlar rauðar stólur sem staðfestingu á því að við erum prestar. Og nú setjum við þær allar á herðar okkar og syngjum trúarjátningu okkar. Við erum allar prestar. Við erum alltaf prestar.