Upplýsingar

Við ætlum að tala um nesti fyrir gesti en einkum fyrir heimafólk.  Það er einfaldlega af því að við  tökum alltaf með okkur nesti úr öllum messum .  Ég var í Strassborg og fór í fínu kirkjubókabúðina og kom með þrjár bækur úr því nesti hingað í kvöld.  Sjáum nú til hvort við viljum eitthvað af því til að fara með heim.
Þessi bók heitir  Guð er ekki eins og þú hélst.  Það er mikið skrifað um það í guðfræði núna.  En ég held bara ekki að við setjum þetta í nestið.  Af því að ég held að Guð sé alveg eins og við héldum.  Við erum löngu búnar að sjá að Guð er vinkona okkar.  Við höldum ekkert um það.  Við höfum vitað það lengi.  Og það er alveg stórkostlegt.  Svo við setjum ekki þessa bók í nestið.
Þessi þykir mér svakaleg brandarabók og þess vegna gæti hún verið í nestinu.  Hún heitir Hvað ef Jesús er nú ekki Guð?  Ég hélt að höfundurinn yrði alveg dolfallinn yfir svoleiðis hugsunum en hann er það ekki.  Hann segir í fullri alvöru að Jesús sé alls ekki Guð.  Hann skrifar samtal milli sín og Jesú.  Heyrðu Jesú, þú ert sonur  Guðs er það ekki?  Og Jesús svarar:  Neineinei,  láttu þér ekki detta það í hug.  En þú gerðir kraftaverk?  Ekki eitt einasta.  En hvað um fiskinn og brauðið uppi í óbyggðinni?  Ekkert kraftaverk.  Fólkið var með nógan mat og ég bað það bara að gefa þeim sem höfðu ekkert.  En hvað með  lamaða fólkið sem þú læknaðir.  Ég læknaði það ekki.  Ég sá bara að þetta var fólk sem hafði engan viljastyrk og ég gaf því trú á sjálft sig svo að það gæti staðið upprétt gagnvart öðru fólki en léti ekki trampa á sér.  Og svona heldur bókin áfram og ég hlæ og hlæ þótt ég viti mætavel að þetta er guðfræði sem  er meint í fullri alvöru og við höfum áreiðanlega allar heyrt fyrr og síðar og er alls ekki skrifuð né sögð sem brandarar.  Ég set hana ekki í nestið þótt hún sé fyndin.
Þessi bók heitir Meginstoðirnar í mótmælendatrúnni.  Hún segir að við skulum ekkert kippa okkur upp við alls lags guðfræði heldur treysta sannleikanum sem Lúter boðaði um kristna trú.  Hún er einfaldlega það að við treystum náð Guðs, treystum sannleika Biblíunnar og notum hann og gleðjumst yfir okkar eigin persónulegu trú á hverjum einasta degi.  Svona er það.   Ég ætla samt ekki að setja hana í nestisboxið.  Ég ætla að setja það sem hún mælir með:  Biblíuna sjálfa.  Þó það nú væri.  Við höfum hana allar heima og getum lesið hana á hverjum degi.
Þar stendur allt fagnaðarerindið.  Þar stendur að Jesú sé Guð af því að Guð kom til okkar og lifði lífi sem var fullt af gleði og erfiðleikum eins og okkar líf.  Hún sagði að það skipti öllu að við treystum sér.  Treystum upprisunni í hverjum degi – treystum mættinum og mildinni sem hún gæfi okkur, treystum gæskunni sem við ættum og öllum möguleikunum til að verða okkur og öðrum til blessunar.
Það er þetta sem við höfum sameinast um að hafa alltaf í nesti okkar.  Nesti fyrir gesti og okkur sjálfar.  Ég ætlaði að  halda áfram með setninguna og segja:  Nesti fyrir gesti frá presti.  Þetta er nesti sem við prestar fáum frá Guði til að gefa gestum og heimafólki og fyrst og fremst til að gleðja sjálfar okkur og styrkja.  Svo að við getum borið það fram fyrir þau hin.  Við erum allar prestar og það er undursamlegt.
Við og við í sögu kristinnar kirkju er það sjálfsagt að boða Orð Guðs og fólk hlustar hvert á annað, öll prestar sem treysta Orðinu.  En alltaf inn á milli í sögunni, alveg eins og núna, því sú staða er alls ekki ný, stöndum við fjölbreytilegir prestar kirkjunnar við langborð þar sem alls lags önnur guðfræði og heimspeki er boðin fram við hliðana á okkar boðskap.   Fólk kemur og skoðar og velur eins og því sýnist.  Við skoðum líka og spjöllum við hin sem eru að bjóða fram sínar skoðanir og trú.  Það er gullið tækifæri okkar til að kynna okkur vel hvað þau eru að bjóða.  Sumt er svo gott að við tökum á móti því í okkar eigin trú, við megum alltaf hafa opinn hugann og taka við öllu sem er gott.  Af því að  við þekkjum verðmætið í okkar undursamlegu kristnu trú.  Við vitum að hún er algjörlega dásamleg og ekkert jafnast á við hana.  Náð Guðs, Biblían, okkar eigin trú.  Og alveg ókeypis.  Í kvöld eins og alltaf förum við heim með Biblíuna sem segir okkur frá náðinni og trúnni.  Í fyrramálið  vöknum við með Guði vinkona okkar og drekkum með henni morgunkaffið og finnum vináttu hennar allan daginn hvað sem við gerum.  Amen