Upplýsingar

Er Guð kona? Ég býð okkur til hugleiðinga um spurninguna í kvöld. Og þess vegna fór ég niður á Laugaveg til að spyrja nokkrar manneskjur sem gengu þar í gleði dagsins í dag.Svörin voru svona:
Útilokað. Jesús sagði að Guð væri faðir.
Óþarfi. Guð er andi og hvorki í kvenkyni né karlkyni.
Áreiðanlega. Og sem betur fer.
Og ég tek undir svar 3, áreiðanlega og sem betur fer.

Hvað segir þú? Hugsum um það hvað við eigum að segja við því að Jesús kenndi okkur að biðja Faðir vor og talaði um Guð sem föður. Við eigum að segja að Jesús talaði líka um Guð sem konu. Það er ekkert víst að hún hafi verið móðir, en hún var kona sem bakar brauð og sópar gólf.

Og hvað eigum við að segja um svar tvö, að það sé óþarfi að tala um Guð í kvenkyni af því að það sé ekki hægt að tala um Guð í kvenkyni eða karlkyn? Við eigum að spyrja þau sem gáfu svarið hvers vegna þau tali þá alltaf um Guð í karlkyni? Og ef það skiptir engu máli, hvers vegna er þá verið að mótmæla því að tala um Guð í kvenkyni?

Jesús talaði um Guð í kvenkyni, og þess vegna er það ókristilegt og á móti boðskap Jesú að tala ekki um Guð í kvenkyni. Þegar Guð skapaði heiminn sagði hún að hún skapaði bæði konur og menn í sinni mynd. Og talaði ekkert um mismunandi völd eða verkaskiptingu. Svo kom syndafallið og varð að feðraveldinu. En svo kom Jesús. Hann sagði það sem engin manneskja hafði sagt áður. Hann sagði að bæði konur og menn ættu að vera eins og Guð hafi skapað þau, jöfn hvert öðru, yndisleg og falleg. Hann sagði svo ótrúlega hluti að við trúum þeim ekki enn, tvö þúsund árum seinna. Hann sagði að konur þyrftu alls ekki að vera mæður. Þær gætu sem best verið mæður, en það væri ekki það sem gæfi þeim gildi sitt. Það sem gæfi þeim gildi var að þær væru manneskjur, eftirmyndir Guðs sem skapaði þær, vinkonur Guðs sem kallaði þær til að vinna með sér og þyrfti óendanlega mikið á þeim að halda. Hann réði þær í vinnu hjá sér. Og í fyrstu kirkjunum voru þær stjórnendur og leiðtogar og postular.

Jesús er upphafsmaður femínismans. Hann er upphafsmaður kvenréttindafélagsins og kvenfélagasambandsins og femínistafélagsns og kvennakirkjunnar. Og hann sagði að konur gætu unnið öll störf og skyldu gera það. Og að menn gætu það líka. Og hann sagði að Guð væri kona.

En hvaða máli skiptir það? Ég hugsa að þú finnir það ef þú hugsar um það. Ef þú hugsar um það lengi, lætur hugsunina búa með þér í mánuð eins og skemmtilegan og hjartahlýjan leigjanda sem býður þér í kvöldkaffi sum kvöldin og gefur þér stundum nýuppteknar radísur eða nýtíndar sóleyjar til að gleðja þig. Þá sjáum við sum að það skiptir öllu. Af því að þá fá konur að tala um Guð í sínum eigin hópi, konu sem bakar og sópar og stjórnar og gefur vald og mátt og mildi. Hún er í hópnum eins og hinar, en bara klárust og flottust. Og í dag er hún með bleika hattin sinn. Hún er ein af okkur, og áfram stelpur.

Ég ætla að segja þér, elskan mín, í eldfljótu bragði, þrjár merkustu sögur Biblíunnar. Þær eru allar um femínismann. Það er Postulasagan sem segir frá útbreiðslu kirkjunnar á fyrstu öldinni, hvernig hún barst frá einni borginni í aðra og frá landi til lands. Alveg eins og kvennahreyfingin gerði á hinni öldinni. Og núna.

Og það var sagan um frelsun Ísraels frá þrældómnum í Egyptalandi fyrir þrjú þúsund árum. Hvernig Guð frelsaði fólkið sitt og leiddi gegnum eyðimörkina í fjörutíu ár og gaf þeim mat og vernd og uppörvun eins og móðir sem á bæði ást og umhyggju og vald.

Og þriðja sagan gerðist á milli þessarra tveggja. Það er sagan um Jesúm frelsara okkar sem frelsaði okkur frá vondum og niðurdragandi hugmyndum sjálfra okkar um sjálfar okkur. Eins og hugmyndinni um það að við séum ekkert ef við erum ekki mæður, að við megum ekki og getum ekki stjórnað, að við megum ekki segja að Guð sé kona. Hann sagðist vilja frelsa okkur frá öllum vondum hugmyndum. Svo að við finnum að við erum yndislegar manneskjur, og mildar og máttugar.

Menn ráða enn. Þeir bara gera það. Það er ekki af því að þeir séu vondir – heldur af því að þeir hafa ekki allir skilið frelsið sem Jesús gefur okkur öllum, mönnum og konum. En margir þeirra hafa skilið það og breiða það út eins og við. Og sumar konur skilja það ekki. En þau sem ekki skilja ráða því enn að kirkjan talar um Guð í karlkyni. Farðu í messu og hlustaðu. Og þú heyrir aftur og aftur að Guð sé faðir. Og að Guð sé faðir og sonur og heilagur andi. Þrjár persónur í karlkyni. Við þurfum ekki að ímynda okkur að það hafi engin áhrif. Það hefur mergjuð áhrif.

Þú heyrir, að í flestum bænunum sem eru beðnar fyrir öllu fólki, er samt sagt aftur og aftur: Guð, læknaðu þá, Guð blessaðu þá, Guð, láttu þá eiga frið. En við? Hvers vegna er ekki beðið fyrir konum?

Á ég að segja þér það? Það er af því að þau halda að Guð sé í karlkyni og þess vegna sé rétt að tala um konur í karlkyni. Hugsaðu um það. Það skiptir öllu að þú hugsir um það. Af því að það skiptir öllu hvað þú hugsar. Af því að það sem þú hugsar hefur áhrif. Við höldum þessa messu með þér eins og alltaf, hin gömlu og grónu félög, kvenréttindfélagið og kvenfélagasambandið og tíu ára Kvennakirkjan og nýfætt femínistafélagið, og ég vil líka fela Bríetarnar, hinar skeleggu kjarnakonur, inn i fylkinguna. Og það skiptir máli hvað við hugsum og segjum í sameiningu. Við göngum allar saman, öll saman. Gömlu félögin gefa hinum nýju lífsreynslu sína og nýju félögin bera hana áfram með sínum eigin splunkunýju hugmyndum og eigin baráttustíl.

Ég fór í dag í síðdegisveisluna í kvenréttindafélaginu og fékk brauð og tertur og skemmtilega dagskrá og nærveru góðra kvenna. Á heimleiðinni fór ég að hugsa um fyrsta námskeiðið sem ég fór á og borgaði fyrir. Það var í kvenréttindafélaginu. Sigríður Snævarr kenndi tímsskipulag eftir forskrift úr Orðskviðunum. Hún var svo fyndin að ég hlæ enn að því sem hún sagði, og hún kenndi mér það sem ég fer enn eftir. Og frammi í eldhúsi stóðu stjórnarkonurnar í kvenréttindafélaginu og fleiri konur og smurðu handa okkur stórar og flottar brauðsneiðar. Það er svona sem er hið góða kvennalíf eftir fyrirmynd Guðs, umhyggja og kennsla í valdi í okkar eigin lífi. Það var þetta sem Guð gaf fólkinu á göngunni um eyðimörkina.

Það skiptir öllu máli að frelsishreyfing Jesú haldi áfram. Hann sem barðist fyrir okkur á það skilið að við berjumst fyrir sjálfum okkur. Og að við notum frelsi hans til að frelsast frá okkar eigin hugmyndum sem fjötra okkur. Af því það sem við hugsum um okkar sjálfar og sjálf hefur mest áhrif. Og það sem við segjum við okkur um okkur sjálfar hefur meiri áhrif á okkur en nokkuð annað sem við heyrum.

Það hvernig þú hugsar um Guð skiptir reginmáli um það hvernig þú hugsar um þig. Þú átt það skilið að hugsa vel um þig og hugsa vel til þín og segja það við þig að þú sért yndisleg manneskja. Af því að þú ert það. Þú átt það skilið að finna að þú átt heima hjá þér. Og að það er gott að eiga heima hjá þér. Og kristin femínistaguðfræði er skrifuð og lifuð til þess að minna okkur á merkustu sögur Biblíunnar, sem segja okkur allar að Guð frelsi okkur. Og að þess vegna getir þú farið með þig heim, heim til þín, og fundið að þú er mild og máttug.
Ég óska þér þess í kvöld og alltaf að þú takir í hendina á Guði og farir með sjálfa þig heim. Guð blessi þig.

Amen

Ávarp: Auður Magndís Leiknisdóttir


Kæra fólk, til hamingju með daginn! Ég þakka þetta tækifæri að fá að koma hér í kvöld og taka þátt í kvennamessunni. Guð og femínismi er frábær blanda sem allir ættu að fá að kynnast.

Kvenréttindadagurinn 19. júní hefur verið haldinn hátíðlegur í 88 ár eða síðan konur fengu kosningarétt til alþingiskosninga þennan dag árið 1915. Já, hér sitjum við 88 árum síðar og mikið vatn hefur runnið til sjávar. Fjölmargar konur, og líka karlar, hafa lagt sitt af mörkum við jafnréttisbaráttuna. Rauðsokkurnar eru ógleymanlegar, Úurnar góðu, Bríeturnar sem komu svo ferskar inn fyrir örfáum árum og svo auðvitað Kvenréttindafélag Ísland sem hélt merkjum kvennabaráttunnar á lofti þegar aðrir hópar lognuðust útaf og jafnréttishugsjónin datt úr tísku en þeim tíma man ég reyndar varla eftir.

Ég er 21 árs gömul og mér finnst ég lifa á afskaplega spennandi tímum. Þriðja bylgja femínismans hefur risið upp og það er mikið í tísku að tala um jafnréttismál. Femínistafélag Íslands var stofnað 1. apríl síðastliðinn og eru meðlimir þess nú á 6. hundrað talsins, bæði karlar og konur.

En til hvers var þetta félag stofnað? Jú, við ætlum að breyta samfélaginu og ég veit ekki hvort það er vegna ungs aldurs míns en mér finnst það bara alls ekki óraunhæft. Reyndar höfum við þegar breytt því örlítið, þó ekki væri nema vegna umræðunnar sem við höfum skapað og hefur væntanlega ekki farið fram hjá mörgum. Í þeirri umræðu hafa oft heyrst þær raddir sem segja femínista vera ímyndunarveika og það alvarlega, kynjamisrétti fyrirfinnist nánast ekki í íslensku þjóðfélagi í dag og það litla sem eftir eimi af því hverfi af sjálfum sér innan örfárra ára. Þetta er því miður ekki rétt og að halda því fram að kynjamisrétti lagist af sjálfum sér er vanvirðing við störf þess fólks sem ötullega hefur unnið að jafnrétti kynjanna í gegnum árin, það hefur aldrei neitt gerst af sjálfum sér.

Til marks um þetta kom frétt á sjálfan þjóðhátíðardaginn þess efnis að kynbundin launamunur væri mestur á Íslandi miðað við hin norðurlöndin og að hann hefði sáralítið breyst sl. áratug og reynda hefði munurinn aukist í Noregi og Svíþjóð. Það er því augljóst að kynjajafnrétti mun ekki verða að veruleika af sjálfum sér, það vitum við í Femínistafélagi Íslands og þess vegna erum við femínistar Við vitum að kynjajafnrétti hefur ekki verið náð og við viljum gera eitthvað í því. Við viljum vinna gegn hverskonar birtingarmyndum kynjamisréttis svo sem klámvæðingunni, lítilsvirðandi auglýsingum, ofbeldi, mansali og vændi. Við viljum uppræta neikvæðar staðalmyndir um hlutverk og eðli kvenna og karla. Við viljum bæta stöðu kvenna á vinnumarkaðinum, útrýma kynbundnum launamun og auka hlut kvenna í stjórnun auðlinda og fjármagns. Við viljum styrkja þátttöku kvenna í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum og við viljum stuðla að samfélagi sem tekur mið af mismunandi hagsmunum og sjónarmiðum karla og kvenna svo sem í atvinnu- og menntamálum, stjórnmálum, menningu og á vettvangi einkalífsins. Já, öllu þessu finnst okkur því miður ekki vanþörf á. Ég trúi því að saman geti femínistar þessa lands unnið að þessum markmiðum og ég verð að segja að það gerir mig bjartsýna að sjá ykkur hér í kvöld. Það segir mér að hér og þar í þjóðfélaginu er fólk að blanda femínisma inn í sín hugðarefni og þau svið þjóðlífsins sem það því snúa, sem mér finnst frábært.

Bókmenntir og femínismi, saga og femínismi, skóli og femínismi, karlmennska og femínismi og svo sjálf Guð og femínismi. Þetta eru alltsaman púsl í púsluspili jafnréttisbaráttunnar. Femínismi passar nefnilega við hvað sem er, og hverja sem er og á brýnt erindi við allt og alla.