Upplýsingar
Gott kvöld. Ég heiti Auður og ætla aðeins að tala um það hvaða merkingu ferming mín hafði, hvernig trú mín hefur breyst og hvernig hún nýtist mér í dag. Þegar ég fermdist fannst mér trúin mjög mikilvæg og ég fermdist af mikillri einlægni. Ég hef alltaf verið mjög þrjósk og föst í að vilja ekki trúa hlutum nema að ég skilji þá fullkomnlega. Ég bjó þá úti í Montréal og var í fjarnámi í fermingarfræðslunni hjá ömmu. Hún sendi mér tölvupósta um biblíusögurnar og talaði mikið um sjálfstraust. Mér fannst það hafa ósköp lítið með trúna að gera þá en ég fór samviskusamlega eftir því sem hún sagði og bað hana um fleiri verkefni.
Ég fékk svolitla uppljómun fyrir fermingu og fattaði loksins í alvöru af hverju jesús dó á krossinum. Ég vissi að hann dó til að fyrirgefa syndir okkar en skildi ekki raunverulega hvað það þýddi. Svo einn daginn fann ég raunverulegar tilfinningar jesús og fattaði í eitt skipti fyrir öll raunverulega hvers vegna þetta kom allt saman til. Ég gæti örugglega ekki útskýrt það en ég fann tilfinninguna innra með mér og skil hana enn innst inni. Þessi upplifun styrkti trú mína því mér fannst ótrúlegt að einhver gæti skáldað svona sanna tilfinningu.
Eftir fermingu fór ég að fara reglulega í æðislega presbytera kirkju sem hafði vit fyrir því að hafa sunnudagaskóla fyrir unglinga. Í þessum tímum gátum við unglingarnir spjallað saman um trúna og lesið saman í biblíunni. Þessir tímar hvöttu mig svo áfram trúarlega að ég var fljótlega komin í reglulegt e-mail samband við prestinn þar sem við ræddum kenningar mínar og hann gaf mér ítarleg svör við allar spurningar mínar. Eftir níunda bekk, flutti ég til Íslands og með tímanum breyttist hugsun mín og ég fór að hafna þetta samfélag sem við ölumst upp í. Undanfarið ár hef ég verið að fatta að öll þau gildi sem ég held upp á eru þarna vegna þess að þau hafa alltaf verið þarna ekki vegna þess að ég ákvað að þau væru rétt. Sá skilningur sem ég hafði á þeim var yfirborðslegur og þegar betur var að gáð fannst mér ég hafa verið blekkt. Og þá á ég við um öll atriði í lífinu semsagt peningakerfið, skólakerfið, vinnumarkaðurinn og frv.
Mér fannst ég hafa vaknað og ég sá að öll þessi kerfi sem við búum í gera ekki annað en að draga okkur frá náttúrulegu lífi og þar af leiðandi líka guði. Ég pæli oft í því hvort trúin sé líka blekking sem hefur haldist í samfélagi okkar í mörg þúsund ár. Ég veit það ekki og ég get ekki sannað að hún sé sönn en ég finn innst inni að ég get ekki trúað því að jörðin varð bara skyndilega til. Ég finn að það er eitthvað vald sem skapaði okkur og það vald köllum við guð. Það er enginn karl uppi á himninum með sítt skegg að horfa á okkur en það er einhver alvitur vera sem viðheldur jafnvægi á jörðinni. Ef ég reyndi að útskýra fyrir ykkur hvað trú mín er eða hvað hún nákvæmlega gengur út á myndi ég líklegast rökræða við ykkur í marga klukkutíma. Því trú mín er bara stöðug leit að því hvað er rétt og hvort guð sé til. Á köflum er ég 100% viss. Svo kemur eitthvað sem slær mig aðeins aftur á bak og ég fer aftur að leita þangað til að ég kemst aftur að þeirra niðurstöðu að guð er þarna. Þó ég fari aldrei alveg á byrjunarreit og haldi að trúin sé rugl þá breytist skilgreining mín á guði oft. Ég trúi á orku heimsins og orku allra hluta í heimskerfinu. Ég trúi að guð sé alls staðar í náttúrunni og viðheldur þannig jafnvægi á jörðinni og að náttúran dragi mann nær guði. Ég trúi að eitthvað hlýtur að hafa skapað okkur. Ég trúi því að það er einhver máttur sem vakir yfir okkur. Og ég trúi á guð, en ég verð stanslaust að leita að rökum fyrir því. Það er nefnilega smá galli við trú: við fáum ekki að vita hvort við höfum rétt fyrir okkur.
Kannski er okkur aldrei ætlað að skilja hvaðan guð kemur og hvernig hann skapaði heiminn. Okkur er bara gefið vissar upplýsingar til að vinna úr og svo verðum við bara að reyna að fylla upp í eyðurnar, við verðum að leita sjálf að sannleikanum. Út frá því sem ég get best skilið virðist vera að trú sé bara það, leitin að því sem okkur finnst rétt, leitin að því hvernig best sé að lifa, leitin að því hvernig best að höndla þær uppákomur sem við lendum í í okkar daglega lífi. Er ég góð kristin manneskja? Er ég jafn mikið barn guðs og manneskja sem hefur frelsast og finnur náð guðs alla daga? Já það held ég. Því ég er góð manneskja og ég reyni mitt besta og það er ekki hægt að biðja um meira en það. Mitt persónulega samband við guð finnst mér lýsast í því að ég veit að hann er til staðar hvar og hvenær sem er. Ég bið til guðs þegar ég vil að hann vaki yfir einhverjum sem er veikur, er að ferðast, að ganga í gegnum erfitt tímabil, þegar að mig vantar styrk til að takast á við stór verkefni og markmið sem ég hef sett mér. Ég reyni að hafa alltaf persónulegar bænir og oft tala ég bara við guð einsog hann sæti við hliðina á mér. Hugsanlega honum til mikilla leiðinda þar sem ég er frekar ræðin manneskja að eðlisfari. He he. En stundum held ég að það skipti ekki máli hvaða orð ég segi í bænum mínum. Stundum held ég að það sem skiptir máli er bara það að ég biðji yfir höfuð og guð skynjar orkuna sem ég sendi út og skynjar hvað skiptir mig í raun mestu máli. Það er ekki hægt að blekkja guð því hann þekkir okkur betur en við þekkjum okkur sjálf. Ég hef líka reynt að koma mér nær guði með nokkrum aðferðum. Til dæmis fékk ég gogg í kirkju úti í Englandi um jólin og stundum á kvöldin tek ég hann upp. Í honum standa hlutir einsog “Segðu að guð sé frábær!” og “Hoppaðu af gleði!” og frv. Þessir litlu hlutir minna mig á að hugsa til guðs og lesa aðeins í biblíunni, sem ég les á nútímamáli til að skilja hana betur. [Svona lítil tákn og áminningar um trúnna eru að finna alls staðar.
Mér finnst mikilvægt að reyna að breikka sjóndeildarhring minn með því að kynna mér allt mögulegt. Að sama skapi finnst mér mikilvægt að muna að allt sem við lesum, heyrum og gerum hefur áhrif á það sem við gerum síðar og þær skoðanir sem við myndum. Þegar að ég hef ákveðið að eitthvað hafi slæm áhrif á þeim takmörkum sem ég vil ná hætti ég að hleypa því inn. Því ég veit að ég get skapað mína eigin persónu. Og með því að vera jákvæð get ég skapað jákvætt umhverfi í hringum mig. Við fæðumst sem hvítt blað og samfélagið og umhverfi okkar skrifar á okkur persónuleikann. Hver einasta manneskja sem þú hefur talað við hefur mótað þig að einhverju leiti. Ég las nýlega bók sem heitir “Lífsreglurnar fjórar” og er um heimspeki Tolteka sem er ættbálkur svipað og Aztekarnir. Hún talar svolítið um það hvernig við getum skapað okkar eigið líf. Bókin talaði um svipuð grunngildi og hjálpaði mér að lifa betra lífi því þó að biblían sýni dæmi um hvernig aðrir lifðu eftir reglum guðs sýnir hún ekki endilega hvernig á að fara að því.
Eitt sem ég tók úr uppáhalds bókaseríunni minni er “the numbers of the living are never given to us to know”. Í bókunum, sem fylgjast með stelpu sem bjargar heimalandi sínu frá stríði þýddi þetta að hún gæti kannski talið alla sem höfðu dáið út af gjörðum hennar en hún fengi aldrei að vita hve margir lifðu af vegna gjörða hennar. Á aðeins minna dramatískum nótum þýðir þetta að við megum ekki einblína á það slæma sem gerist út af okkur því margfalt fleira jákvætt hefur gerst út af okkur líka.] Mistök eru til að læra af þeim og það er óþarfi að vera að hengja sig á einhverju sem maður hefði getað gert öðruvísi. Maður á bara að lifa í núinu og takast á við öll tækifæri og vandræði eftir því sem þau koma upp. Þessar hugmyndir trúarinnar um jákvæðni, kærleik, gleði, ást og fyrirgefningu eru að finna alls staðar. Núna þegar að ég er aðeins eldri sé ég af hverju amma einblíndi svona mikið á sjálfstraust í fermingarfræðslunni. Því við sköpum okkar eigin gildi og okkar eigin skilning á trúnni út frá persónuleikum okkar. Og þá er mikilvægt að getað treyst á sjálfann sig. Ég er rosalega ánægð að hafa fermst því ég lærði svo mikið á þessum tíma sem nýtist mér enn þann dag í dag í öllum mínum pælingum. Ég vil óska fermingarbörnunum í ár til hamingju og ég vona að ykkur gangi vel með allt í framtíðinni. Ég vona að ég hafi ekki ruglað of mikið í ykkur.