Upplýsingar
Ávarp: Katrín Anna Guðmundsdóttir, talskona Feministafélags Íslands
Predikun: Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Yndislegt að sjá ykkur í þessari sameiginlegu messu Kvennakirkjunnar og Femínistafélags Íslands. Látum nú fara vel um okkur því ég ætla að segja okkur sögur.
Fyrsta sagan er um Gunnu og Sunnu. Sunna er menntuð og reynd í skrifstofuvinnu og bankastörfum. Hún hefur góða vinnu og gleðst og fagnar, en hún man það enn þegar henni var sagt upp. Það eru tuttugu ár síðan og henni var sagt að það hefði ekkert með hana að gera, það væri bara verið að hagræða. Og þegar Sunna var ögn farin að ná sér fór hún að sækja um önnur störf, sem hún fékk aldrei. Og þótt hún reyndi að hugsa með sér að það hefði ekkert með hana að gera fór hana að gruna að það væri það nú samt. Það varð erfiðara og erfiðara að opna blöðin til að fara yfir auglýsingarnar, hringja í ráðningarstofuna og fara í þau örfáu viðtöl sem buðust. Og Sunna sá að bráðum myndi hún gefast upp. En þá fékk hún vinnu. Hún hefur tvisvar skipt um vinnu síðan og henni líður vel. En hún geymir inni í sér minninguna um þetta allt, og ætlar aldrei að gleyma henni.
Gunna er prestur í þjóðkirkjunni og hefur oft og tíðum sótt um ýmis embætti eins og er gert í kirkjunni. Því er hætt núna að láta þau sem sækja um prestembætti vinna í margar vikur við að heimsækja fólk fyrir kosningar í von um að persónulegur ljómi þeirra verði að atkvæðum á kjördegi. Nú ganga umsækjendur fyrir nefndir og bíða svo úrslita. Það er ekki lengur persónulegur ljómi sem veldur úrslitum heldur ríkja reglur til að vernda umsækjendur og kirkjuna fyrir áföllum. En Gunna naut þess ekki, og það varð aftur og aftur svo að ýmsir menn, ungir og eldri, fengu nú samt, þrátt fyrir allt, embættin sem Gunna átti að fá. Gunna er líka ung, og hún er röggsöm og menntuð og persónulega ljómandi. En það þýðir nú lítið. Og Gunna er ekki bara ein, heldur eigum við margar, margar Gunnur í kirkjunni.
Og þær ætla aldrei að gleyma sinni reynslu. Aldrei. Af því að margar þær sem eiga dýrmæta vonda lífsreynslu sem þær geta geymt sér og öðrum til góðs – ætla að geyma hana.
Það er ein af mestu lífsins listum okkar að kunna að geyma vonda reynslu. Stilla okkur um að losa okkur við hana, stilla okkur um að gusa henni út í bláinn og láta hana verða að engu. Heldur láta hana tala og syngja þegar rétta stundin er runnin upp.
Næsta saga er um kvennahreyfinguna. Af því hún hefur kunnað að geyma með sér dýrmæta vonda reynsluna og gera hana að dýrmætri góðri og kraftmikilli reiði sem reiðir til höggs á réttum stöðum og stundum. Og þá verður reiðin að dýrmætri gleði sem frelsar. Og þess vegna tók ég með mér krukku og flösku af krækiberjunum sem hún María mágkona mín úr Dölunum gaf mér í morgun. Til að sýna okkur hvernig kvennahreyfingin hefur safnað að sér gleðinni til að nota hana þegar stundin rennur upp til að sigra óréttlætið sem vonda reynslan er vitni um. Í krækiberjaflöskunni er bleikur og sterkur safinn frá lynginu og sólinni sem styrkir okkur og gefur okkur bala af bleikum vökva til að lita fötin okkar í femíniskum litum og fylla okkur femíniskum hlýjum mætti.
Kvennahreyfingin hefur litað hugsanir okkur. Hún hefur breytt heiminum. Hún gaf okkur frelsið sem engar konur áttu á undan okkur. Það hefur verið skrifað um fyrstu bylgju kvennahreyfingarinnar að hún hafi bara breytt smámunum og um aðra bylgjuna að hún hafi ekki breytt neinum grundvallaratriðum. Ég er ósammála. Algjörlega og innilega ósammmála. Fyrsta bylgjan breytti svo miklu að önnur bylgjan gat breytt öllu sem hún gerði, og það er þess vegna sem þriðja bylgjan getur breytt meiru. Og meiru og meiru og miklu meiru.
Við fórum margar frá Kvennakirkjunni í morgunkaffið hjá femínistafélaginu okkar allra sem viljum eiga það, á föstudagsmorguninn, sem öllum konum var boðið til inni í Laugarnesi. Það komu fleiri og fleiri konur, á öllum aldri, og þar var talað af þekkingu og fyndni, til að sjá og skilja og breyta. Alveg eins og kvennahreyfingin hefur alltaf alltaf gert.
Og ég ætla að segja ykkur söguna um varðhundana. Yrsa dóttir mín gaf mér bók um þær. Þær búa í Frakklandi, eru hópur af konum sem hafa tekið það að sér á eigin spýtur að bjóða til sín þeim Gunnum og Sunnum sem þarf að styðja og styrkja og hjálpa til að vernda rétt sinn og ná þeim rétti sem þær eiga en fá ekki.
Ég óska okkur þess, þriðju bylgju femínismans, að við verðum varðhundar. Eins og fyrsta bylgjan og eins og önnur bylgjan. Ég óska okkur hvorki frægðar né frama á vísu þessa heims, heldur mildi og máttar að hætti Guðs.
Og nú ætla ég að segja ykkur söguna um Guð. Guð er vinkona okkar, og það skiptir okkur öllu að hún skuli vera vinkona okkar en ekki kóngur okkar eða dómari. Og að við skulum fá að tala um hana í okkar eigin kyni, og segja hún en ekki hann. Því það hefur bælt okkur um aldir að tala ekki um hana eins og hún er, hún, vinkona okkar. Hún kemur í bleika kjólnum sínum, hvar sem við hittumst, hún hlustar og talar eins og ein af okkur, bara klárust, og líka best. Hún bregs aldrei. Skilur okkur allar í sameiningu og hverja okkar um sig. Hún hjálpar okkur til að vera varðhundar hver annarrar, mildar og máttugar, fyndnar og sterkar. Og þegar við erum ómögulegar, hræddar og mæddar og sjálfum okkur og öðrum til ama og leiðinda þá er hún hjá okkur. Og þá sjáum við að það er ekki bannað að gefast upp suma daga, og það er ekki bannað að hvíla sig stundum í baráttunni. Það er ekki bannað að verða reiðar út af engu og taka bandvitlausar ákvarðanir og sjá allt fara í tóma vitleysu og sjá hvað við verðum okkur hræðilega til skammar. Við höfum slegið því föstu í Kvennakirkjunni að við skulum bara verða okkur til skammar án þess að skammast okkur nokkur fyrir það. Það er allt í lagi. Það er svo gott að vita það. Það er alveg dásamlegt að vita að það gerist allt mögulegt hjá okkur öllum og það er allt í lagi.
Veistu að Guð stofnaði fyrstu bylgju kvennahreyfingarinnar? Það var þegar hún kom og var Jesús og sagði svo margt mergjað að við skiljum það ekki enn. Hún sagði til dæmis að konur þyrftu ekki endilega að vera mæður, þær þyrftu fyrst og fremst að vera þær sjálfar. Það eru tvö þúsund ár síðan hún sagði þetta. Og það var þá sem hún sagði það sem ég var að vitna í áðan, að við skyldum ekki fara eftir reglum heimsins, heldur sínum reglum. Við skyldum ekki stefna á frægð og frama heimsins heldur vinna að réttlæti allrar veraldarinnar. Hún sagði að við skyldum leggja áhersluna á grundvöllinn og þá kæmi allt hitt. Og hún sagði að hún væri sjálf grundvöllurinn.
Ég óska okkur þess að við vinnum í grasrótinni og breytum kerfinu. Svo að kerfið verði hringur en ekki píramídi. Því ef við göngum inn í kerfið en breytum engu, þá breytist ekkert. Því þótt ég talaði tungum valda og frama, en breytti ekki kerfinu, þá skipti það engu að ég eignaðist völd og frama.
Það tekur tíma að beyta. Það þarf snilli, það þarf fyndni, það kostar tár, það kostar ósætti, það kostar miklu meira. Við þurfum að styðja þær sem eru komnar inn í valdið, svo að þær gleymi sér ekki en noti það, svo þær skelfist ekki en varðveiti léttleika hugans. Það er erfitt að vera í kerfinu og breyta því um leið. Og við verðum að vera varðhundar þeirra, mildar og máttugar.
Ég var að horfa með barnabörnum mínum á öskubuskumyndina frá Walt Disney, á þrjár litlu og búttuðu og yndislegu álfkonurnar sem réðu öllu í myndinni. Þær breyttu öllu með töfrasprotunum og drápu dreka og frelsuðu fólk. Ég óska okkur þess að eiga þennan mátt. Og við eigum hann. Í hugsunum okkar, vináttu okkar, reiði okkar og fagnandi gleði.
Í trú okkar. Í gamalli og traustri og flottri kristinni trú okkar. Á Guð sem er vinkona okkar, mild og máttug, innst í hjarta okkar, alls staðar í lífi okkar. Því þegar við tölum um Guð tölum við um lífið, og þegar við tölum um lífið tölum við um Guð.
Ég óska þér, sem komst í kvöld gegnum storminn og rigninguna, allrar gæfu. Ég óska þér þess að þegar þú þarfnast varðhunda og álfakvenna þá finnirðu þær í kvennahreyfingunni. Og ég óska okkur öllum kristinna hugmynda, að hætti Guðs sem gefur þær og gefur með þeim máttinn til að framkvæma þær. Guð blessar þig og hún blessar okkur allar.
Og við ætlum að syngja um hana. Hærra minn Guð til þín, og þótt við verðum enn að syngja góðu og fallegu gömlu sálmana um Guð í karlkyni þá sjáum við í gegnum fingur, stöndum upp og syngjum af gleði hjarta okkar, saman, í baráttu okkar,vináttu og trú.
Ávarp Önnu Katrínar Guðmundsdóttur
Góða kvöldið.
Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér í kvöld. Ég heiti Katrín Anna Guðmundsdóttir og er hér fyrir hönd Femínistafélags Íslands. Ég vil byrja á því að þakka Kvennakirkjunni fyrir að vera með þessa messu sem innlegg í femínistaviku félagsins. Í kvöld ætla ég að fjalla um samfélagið og varpa fram þeirri spurningu hvernig við getum búið til samfélag sem okkur líður vel í.
Það er mér enn mjög minnisstætt þegar ég sem unglingur var í sögutíma að læra um útrýmingabúðir nasista. Þá var spurningunni „hvernig gat þetta gerst?“ velt upp og því haldið fram að svona nokkuð myndi aldrei gerast aftur. Ég tók því sem loforði. Ég tók því þannig að mannkynið væri á einhvern hátt orðið betra, siðmenntaðara og upplýstara. Þar sem allir voru sammála um að þarna væru voðaverk á ferðinni sem ekki hæfðu góðu gólki – eins og við öll erum – þá var ég einhvern veginn örugg og viss um að þetta loforð yrði haldið. Núna veit ég betur – núna veit ég að loforðið var svikið og voðaverk sem þessi hafa ekki bara gerst einu sinni á okkar tíma, ekki tvisvar, ekki þrisvar – heldur mun oftar.
Þegar ég lít tilbaka finnst mér einhvernveginn að allt sem ég lærði á þessum tíma væri í þá áttina að allt slæmt sem gerðist í gamla daga hafi verið af þeirri ástæðu að þá hafi fólk einfaldlega verið verra. Ég veit að þetta hljómar fáránlega en samt voru öll skilaboð einhvern veginn skrifuð á það að manneskjan hefði verið ófullkominn en á þeim tíma sem leið frá helförinni og þangað til ég varð unglingur hefði mannkynið þróast frá því að vera ófullkomið til þess að vera vel upplýst, siðmenntað og gott. Það er langt síðan ég komst að því að manneskjan sem er til í dag er alls ekki svo frábrugðin manneskjunni fyrir hundrað árum síðan og að hundrað ár er stuttur tími. Ekki það að ég sé að segja að við séum illa upplýst, ósiðmenntuð og vond heldur mun frekar að við höfum einhvern veginn þá tilhneigingu að ætla að við förum alltaf fram á við.
Við teljum það sjálfgefið að hver ný kynslóð verði betri þeirri næstu. Og kannski af því að við treystum á að það sé málið, að það gerist einhvern veginn bara af sjálfu sér þá sjáum við ekki þörf á því að hugsa of mikið um hvernig við getum gert okkar samfélag betra heldur en það sem var á undan. Við treystum á góðmennsku fólksins í kringum okkur og við treystum á það að allir hugsi út frá því hvað okkur er fyrir bestu. Það má vel vera að þetta hljómi allt saman eins og ég sé í einhverju svartsýniskasti að upplifa mannvonsku og ófullkomleika mannkynsins. En það er ekki málið. Ég trúi því að fólk sé gott. Fólk vill vera gott og láta góða hluti af sér leiða. Okkur líður vel þegar við vitum að við höfum náð að láta öðrum líða vel á sama hátt og við fáum samviskubit og líður illa ef við teljum okkur hafa brotið á rétti annara.
Eitt af því sem ég geri stundum þegar ég er að velta því fyrir mér í hvernig samfélagi við búum er að ímynda mér hvernig skrifað verður um okkar samfélag að 100 árum liðnum. Hvernig verða viðhorfin til okkar verka og það sem við skiljum eftir okkur? Það sem ég sé fyrir mér að verði skrifað er að ýmissa merkilegra uppgötvanna verði getið. Öllum helstu leiðtogum heimsins verða gerð ítarleg skil og þar verða efst á blaði þeir leiðtogar sem eru hvað mest í fréttum vegna stríðsreksturs. Af þeim leiðtogum sem hvað mest verður fjallað um verða Bush, Blair, Arafat og Sharon. Minna verður fjallað um þá leiðtoga sem stýra löndum þar sem friður og kærleikur ríkir. Þá verður þess einnig getið að þrátt fyrir að nú hafi staðið yfir svokölluð upplýsingaöld þá hafi fólk ekki nýtt sér nægjanlega vel þær upplýsingar sem fyrir lágu til að breyta til hins betra. Klámvæðingin mun eiga stóran sess í framtíðarsögubókum og ímynda ég mér að tónninn verði í sama hneysklunartón eins og við tölum núna um það að konur skuli ekki alltaf hafa haft kosningarétt. Þar verður því lýst hvernig konur hafi verið neyddar til að bæði starfa í klámiðnaðinum og eins til að sitja uppi með að horfa á það efni.
Rætt verður um hvernig börn hafi ekki verið óhullt og áhrifin sem þetta hafði á karlmennskuímyndina. Niðurstaðan mun verða sú að klámvæðingin hafi verið mjög skaðleg fyrir samfélagið í heild sinni og því mun verða lofað að annað eins muni aldrei gerast aftur því þetta hafi gerst í gamla daga þegar manneskjan var ófullkomin og komin styttra á veg í þróunarbrautinni.
Það sem ég lýsti hér að ofan er ekki það sem ég vil sjá skrifað um okkar tíma. Staðreyndin sem situr eftir er að þrátt fyrir allt er manneskjan ennþá með sömu hvatir, kenndir og tilfinningar og fyrir hundrað árum síðan og eins og hún mun hafa eftir 100 ár. Það sem mun skipta sköpum í hvernig mannkyninu reiðir af er ekki að afneita þessum hvötum eða telja að við séum laus við þær eða að við verðum nokkurn tímann laus við þær. Það sem við þurfum að gera er að læra að þekkja okkar hvatir, hvað höfðar til þeirra og síðast en ekki síst þá þurfum við að ákveða hvaða hvatir og tilfinningar viljum við rækta og hlúa að – og hvaða hvötum viljum við halda niðri.
Ég heyri oft þau rök að það sem skipti máli sé að kenna börnunum rétt gildi í uppeldinu – að það sé foreldranna hlutverk og það sé þeirra framlag til framtíðar barna sinna. Þó ég sé því hjartanlega sammála að hlutverk foreldra inn á heimilinu sé stórt þá er það þó ekki nóg. Það gagnar lítið að veita börnunum gott uppeldi heimafyrir ef skilaboðin sem þau fá frá samfélaginu eru á skjön við þau viðhorf sem þau læra heima.
Við eigum þess vegna að gera þá kröfu að samfélagið endurspegli gildismat heimilanna. Við erum samfélagið. Heimilin og samfélagið verða ekki aðgreind sem tveir ólíkir og óskyldir hlutir. Við eigum öll þá kröfu að samfélagið sem við búum í veiti okkur jöfn tækifæri, sýni okkur virðingu og sé staður þar sem okkur líður vel. Við eigum að hafa vakandi auga og vera virk í samfélagsmótuninni.
Það er okkar allra hlutverk að sjá til þess að heimurinn sé eins og við viljum hafa hann. Við höfum áhrif á umhverfi okkar og við eigum okkar rödd. Við þurfum þó að hefja upp okkar raust og krefjast þess að á okkur verði hlustað. Ekki láta þagga niður í okkur heldur upplifa okkar ábyrgð, okkar áhrif og okkar samkennd. Þannig getum við búið til samfélag sem byggir á réttsýni og virðingu – samfélag þar sem margbreytileikanum er fagnað en virðing fyrir því kraftaverki sem lífið er ávallt haft í fyrirrúmi.
Mig langar að að lokum að biðja ykkur um að fara með þessa spurningu heim í farteskinu: Hvernig búum við til samfélag sem okkur líður vel í? Með því að vinna markvisst að því að útrýma því sem við erum óánægð með og hlúa að því sem við erum ánægð með munum við geta staðið við það loforð að búa börnunum betri framtíð.