Upplýsingar
Elskulega fólk. Verum öll innilega velkomin í Laugardalinn í kvöld. Ég segi það aftur þótt það sé búið að segja það. Af því það er svo gaman að hittast og vera saman í kvöld eins í öllum hinum guðþjónustunum okkar hérna í Laugardalnum á 19. júní. Ég segi það enn sem alltaf fyrr, það væri ekki nærri eins gott að vera hér ef þú hefðir ekki komið. Svo takk fyrir að koma. Það liggur í augum uppi að við tölum um hrunið og uppbygginguna í kvöld. Katrín og Unnur og Auður dönsuðu fyrir okkur dans sem þær hafa sjálfar samið og er um frumöflin. Eins og alla list getum við túlkað dansinn eins og okkur sýnist. Ég les út úr honum afl eldsins og íssins sem tekst og verða að himinbláu vatninu.
Við skulum hafa dansinn sem upphaf þessara orða og hugsana um það hvað er að gerast. Við höfum tekið þátt í miklum átökum. Þau hafa brennt okkur. Og þau hafa brætt okkur. Við. Við höfum séð hugmyndir bráðna og hverfa af því að þær voru falskar og stóðust ekki eldinn. Við vonum að við eignumst nýjar hugmyndir. Himinbláar. Og að eldur og ís okkar eigin lands og okkar eigin huga verði uppistaðan í framhaldinu. Svo himinbláminn umlyki okkur í frelsi og gleði íss og elds sem er styrkur skapgerðar okkar hér á norðurslóðum. Eða svona get ég hugsað mér dans Uppsteytarstúlknanna sem heiðra okkur með list sinni í kvöld.
Hvar finnst þér við standa á veginum til framtíðar? Ég held við séum á uppleið. Ég held við finnum ennþá öll til allra mögulegra tilfinninga og hrunið snerti okkur öll og við séum sjálf slegin eða eigum fólk sem hrunið hefur slegið. Ég hef hugsað mér að koma með tillögur til að styrkja okkur á uppleiðinni.
Það eru tilllögur kirkjunnar. Ég hef heyrt kvartað yfir máttleysi kirkjunnar í þessu stríði. Það er misskilningur. Kirkjan hefur staðið sig vel og unnið mikil verk í öllum söfnuðum sínum með prestum þeirra sem hafa annast mikla sálgæslu. En hver er eiginlega kirkjan?
Ég er kirkjan. Það er ég sem er kirkjan.
Heldurðu nú kannski að ég hafi fengið snert af ofmetnaði eða öðru nafni bráðagrobbi í góða veðrinu í sumar?
Nei, það er ekki svoleiðis. Ég er kirkjan. Og það er alveg stórkostlegt að vera kirkjan.
Ég er kirkjan af því að þú ert kirkjan. Við erum kirkjan. Við allar og öll sem þiggjum það. Við erum kirkjan í sameiningu og við þiggjum það frá Guði. Vinkonu okkar sem kom og var Jesús og veit þess vegna hvernig það er að hrynja og reiðast og örmagnast.
Sigurlaug las úr Gamla testamentinu um það hvernig fólk Guðs hrundi. Biblían segir frá því að fólk Guðs hrundi aftur og aftur. Það hrundi af því að það vék frá hinum góðu hugsunum sínum. Alveg eins og gerðist í þjóð okkar. Guð sagði við fólk Biblíunnar alveg eins og hún segir við okkur: Þið eruð fólkið mitt og þið eigið að varðveita með ykkur hugsanir mínar svo að annað fólk fái líka að eignast þær. Af því að það er ég sem er uppspretta hinna góðu hugsana.
Sigurlaug las um hrunið fyrir 2500 árum þegar borgirnar í Gyðingalandi voru jafnaðar við jörðu og jarðirnar eyðilagðar og fólk Guðs var herleitt til ókunnugs lands og grét af heimþrá. Þá sagði Guð: Ég er hjá ykkur. Borgirnar verða byggðar aftur, túnin spretta aftur og þið takið gleði ykkar aftur. Af því að þið komið aftur til mín og farið aftur að hugsa mínar hugsanir.
Hér kemur tillagan sem ég ætla að flytja: Treystum Guði í hruninu. Hún bræðir skaðlegu hugsanirnar úr huga okkar og lífi. Treystum Guði í uppbyggingunni. Hún gefur okkur nýjar hugsanir elds og íss og himinbláma. Treystum því. Verum glöð og skemmtileg.
Það er þetta sem við skulum fara með heim í kvöld. Guð sagði við okkur í kvöld: Ég gef þér nýtt líf. Ég gef þér nýjar hugsanir. Þér er alveg óhætt að vera skemmtileg.
Ég skal líka segja þér alveg nýja sögu um hrun og uppbyggingu. Ég var í Póllandi, landinu alls þess góða fólks sem hefur komið til okkar til að vinna með okkur og vera hjá okkur. Ég veit að það kemur af því að það er fátækt heima hjá því. En það er samt búið að reisa land þeirra úr rústum. Orðin í Esekíel lýsa því sem gerðist í Póllandi eftir stríðið. Varsjá var eyðilögð í stríðinu en byggð upp aftur með háum skýjakljúfum. Gamli bærinn var byggður upp stein fyrir stein í sama stíl og áður. Úr sömu steinunum sem höfðu verið felldir. Þjóðlífið er allt að rísa eftir eyðileggingu kommúnismans.
Pólverjarnir sem eru hérna streyma í guðþjónusturnar sínar á sunnudögum til að syngja með Guði og hlusta á hana. Af því að þau hættu aldrei að rækja kirkjuna og kristna trúna sem hún boðaði þótt kommúnistarnir bönnuðu þeim það. Þau fóru alltaf í kirkjur og trúin og traustið til Guðs hélt því uppi og blómstrar núna í frelsi þeirra, sagði leiðsögumaðurinn í miðborg Varsjá.
Látum þetta allt verða okkur uppörvun og vissu um okkar eigin uppbygginu. Treystum Guði. Sigurlaug las líka úr Davíðssálmum: Treystu Guði og láttu gott af þér leiða, búðu í landinu og iðkaðu ráðvendni. Þá muntu gleðjast yfir Guði og sjá að hún heyrir bænir þínar. Þú skalt fela Guði vegu þína og hún tekur þig að sér. Sálm. 37.3-5
Við höfum ráðleggingu og tilboð Guðs: Treystum og tökum þátt í uppbyggingunni með henni.
Í fyrsta lagi: Treystum Guði.
Í öðru lagi: Höldum áfram að láta gott af okkur leiða.
Hvernig getum við styrkt traust okkar? Kvennakirkjan hefur gefið okkur þessi ráð: Talaðu við Guð á hverjum degi og eins oft á dag og þú bara vilt. Lestu Biblíuna á hverjum degi. Syngdu sálm á dag. Taktu á móti blessun Guðs á hverjum degi og vertu blessun þar sem þú ert.
Hvernig getum við látið gott af okkur leiða? Hvernig getum við verið blessun? Með því að lifa í trausti Guðs í okkar eigin umhverfi. Það er þar sem við getum gert gott. Vinnum vinnuna okkar vel. Bæði heima og heiman. Ef þessi vinna er sú að hafa enga vinnu þá skulum við líka vinna það vel. Það er að styttast í betri tíð. Verum vingjarnleg við þau sem eru í kringum okkur. Hjálpum þeim sem þarfnast okkar, þeim sem standa okkur næst eða þeim sem standa fjær. Hjálpum þeim eins og við getum.
Gerum þetta með heimsóknum eða fjárhagsaðstoð eða með því að bjóða fólki í glaðlega samveru í kaffi eða mat. Hverju því sem við sjáum að kemur sér vel og við ráðum við.
Við ráðum ekki hvert um sig við efnahagskerfið landsins. Við ráðum ekki eitt og eitt við margvíslegar hugmyndir stjórnmálanna eða atvinnulífsins eða menningarlífsins eða kirkjunnar. En við ráðum við okkur sjálf. Við getum gert efnahagskerfinu og hugmyndakerfinu og trúarlífinu óendanlega gott og byggt það upp með því að treysta Guði og verða til góðs í kringum okkur.
Mundu það og njóttu þess að þú ert yndisleg manneskja. Þú ert vinkona Guðs eða vinur hennar. Hún treystir á þig í uppbyggingunni. Trúin sem hún gefur þér, í kvöld og á morgun eins og alltaf, er trúin á náðina sem þú vaknar til á hverjum morgni og lifir í allan daginn. Það er trúin á gleðina sem þú finnur af því að þú ert mild og máttug. Það er trúin á okkur hinar og hin sem erum kirkjan með þér. Þú ert kirkjan. Kirkja Guðs vinkonu þinnar sem er Jesús frelsari þinn. Finndu hvað það er stórkostlegt. Við erum kirkjan með þér. Við erum kirkjan með Guði, með Jesú frelsara okkar.
Þess vegna skulum við gleðjast og fagna og veraq eldur og ís og himinblámi Guðs. Amen.