Upplýsingar
Bæn
Leiddu mig Guð – eftir þínu réttlæti, sestu niður með mér og rabbaðu við mig, gjörðu beina brautina þína fyrir mér svo ég sjái hvert ég á að fara. Gefðu mér daglegt brauð og hjálpaðu mér við að fá að taka þátt í að baka það. Því að þú ert vinkona mín og vinur og ert með mér í gleði og sorg. Amen
Þori ég get ég vil ég
Hún er sjö ára gömul. Hún er stödd í sundhöllinni á Barónstíg. Hún stendur hátt uppi á bretti. Allt of hátt. Hún fær fiðring í magann og kvíðahnút. Hún hefur verið stödd þarna áður en þá þurfti hún að bakka niður stigann, því hún þorði ekki að stökkva. Þau sem stóðu fyrir aftan hana í röðinni voru ferlega pirruð að þurfa að hleypa henni niður. En… þau þurfa þess ekki í þetta skipti því hún gengur út brettið og lætur sig gossa. Spliss – splass – vatnið fussast og hún fer á bólakaf, vatnið tekur vel á móti henni og hún skýst upp aftur og kemur upp úr brosandi út að eyrum og það eru engin smá eyru!
Hún þorði, hún gat og hún vildi og hún stökk.
Hún er 37 ára gömul. Stödd fyrir utan Háskólann. Hún fær fiðring í magann og kvíðahnút. Hún hefur verið stödd þarna áður, en hætti við, þá var það of erfitt og of mikil vinna með börnin. Hún sagði við Guð „Guð nú verður þú að hjálpa mér inn um þessar dyr“.. og hún fann hvernig Guð krækti handleggnum í hennar og hjálpaði henni inn, …. og það var tekið vel á móti henni.
Hún gat, hún þorði, hún vildi og hún gekk inn.
Hún er fertug. Stendur í prédikunarstól í Langholtskirkju. Hún fær fiðring í magann og kvíðahnút. Hann stendur ekki lengi við, því að hún finnur að áheyrendurnir eru yndislegar konur og yndislegir menn á stangli, andinn er hlýr og góður og það er það sem þarf til.
Til þess að: ég þori, geti og vilji.
Kannski verður hún einhvern tíma stödd fyrir framan valnefnd í einhverri yndislegri kirkju. Hún fær eflaust fiðring í magann og kvíðahnút. Hún þorir, hún getur og hún vill. Hún vonar innilega að henni verði vel tekið. Að ef hún sé hæfasti umsækjandinn verði hún ráðin. Að farið verði að reglum. Hún vonar að réttlæti sé haft við og reynsla hennar sé metin að verðleikum. Það getur varla annað verið, því réttlæti er jú eitt af því sem kirkjan stendur fyrir.
Þori ég, get ég og vil ég.
Reynslan
Í söngnum um brauðin og rósirnar sem við syngjum um á eftir, er talað um reynslu ömmu og mömmu. Í kvennaguðfræði og feminisma almennt eða „alkvennt“, setjum við upp gleraugu reynslunnar, sem þýðir að það sem við segjum og gerum endurspeglar reynslu okkar. Því fer þó fjarri að hér sé kominn hjáguðinn „Reynsla“ – eins og sumir „fræðimenn“ (djúp rödd) vilja halda fram.
Við megum ekki halda reynslu okkar aðeins fyrir okkur, slíkt væri eigingirni. Við deilum henni með hvert öðru til skilnings. Þarna er ég að sjálfsögu ekki að tala um að afskiptasemi, þar sem við vitum allt best – J Ég er þegar farin að æfa mig að vera ekki afskiptasöm amma – þó ég eigi engin barnabörn ennþá!
það getur nefnilega verið kúnst að miðla reynslu og það er líka kúnst að taka á móti henni. Við miðlum reynslu á einlægan hátt þar sem við hlustum, horfum, tölum og síðast en ekki síst hjálpum þar sem um það er beðið.
Ný og betri leið
„Saman tökum höndum það er ný og betri leið“ – enn er sungið. Takið eftir því – ný og betri leið. Það er leið til árangurs, leið til réttlætis, leið til frelsis. Ef við pælum aðeins í því þá er auðveldara að leiðast í hring en í píramída – er það ekki ? Þarna er ég að tala um muninn á því að vinna undir og að vinna með. En er þessi leið ný ? Samræmist hún ekki einmitt leiðinni sem Jesús kenndi fyrir 2000 árum ?
Hann bauð þau öll velkomin, konur, karla og börn. Hann boðaði frelsi og réttlæti, frelsi kvenna,karla og barna. Sagði hann ekki: „Komdu til mín, þig sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti“
Áðan var lesið um frelsun Samversku konunnar. Jesús gaf henni lifandi vatn að drekka. Jesús settist hjá konunni og rabbaði við hana og hlustaði á hana. Það voru ekki allir sáttir við að Jesú hlustaði á hana og tók á móti henni eins og hún var, kona og útlendingur. Jesús starfaði með konum og konur með honum. Hann tók mark á konum, og þær gátu óhræddar rætt við hann. Samfélagið með honum var frjálslegt og óþvingað.
Samfélag sem er eins og volg sundlaug sem óhætt var að demba sér útí. Það þarf ekkert endilega að vera hetja og stökkva af hæsta brettinu, heldur er hægt að nota stigann og fikra sig hægt útí. Láta sig fljóta, eða bara synda svanasund. Sundlaugin hans Jesú var notaleg og engar girðingar í kringum hana. Um sundlaugina hugsuðu konur ekki síður en karlar. Því miður fóru stórir karlar að blanda sér út í rekstur hennar og settu upp girðingar, sem virkuðu útilokandi, breyttu forsendum og leiðbeiningum. Konurnar hættu ekki að nota sundlaugina, en reglur settar af körlum voru þær sem giltu. Það var komin stjórn, yfirstjórn, og yfiryfirstjórn og í henni var engin kona.
Því miður hafa konur stundum þorað, getað og viljað taka þátt í uppbyggingu og samstarfi eins og Jesús ætlaði þeim í upphafi, en þeim verið hafnað á óréttlátan máta.
Það að vera kona á ekki að stjórna því hvað við veljum að vera í lífinu. Eins og hún Gerður kunningjakona mín sagði á Kaffi París um daginn. „Feminismi er að fá að vera samþykkt eins og ég er“ Við verðum líka að vita að við séum velkomnar, þegar við sækjum um störf, hvort sem það eru stjórnunarstörf eða önnur störf. Hvort sem það er umsókn um brauð eða að baka brauð.
Kvenlegt og karmannlegt
Gömul viðmið um kvenleika eru úrelt. Gömul viðmið um karlmennsku eru líka úrelt. Um leið og konan fær frelsi til að vera kona, fær karlinn frelsi til að vera karl. Séra Auður Eir átti lýsir þessu í fréttabréfinu okkar þar sem hún segir að Feminisminn sé barátta fyrir frelsun og frelsi kvenna. Þar með verði hann líka barátta fyrir menn og börn“
Ég hef stundum hugsað til aumingja mannsins sem er ekkert endilegar rosa klár að bakka í stæði, Ég sá bók um daginn, í Mál og menningu sem bar þann vafasama titil: „Af hverju geta karlar ekki hlustað og af hverju geta konur ekki bakkað í stæði“ Sigga vinkona er til dæmis mjög klár að bakka og það meira að segja með kerru – hún er þá vafalítið afbrigðileg kona ? Sonur minn var að byrja í ökukennslu og hann sagði við mig um daginn: „Mamma þú ert miklu betri bílstjóri en pabbi“.. eeen ekki segja pabba það“ … … en hann bað mig ekkert að segja ykkur ekki frá því : ) ! ….
Fordómar og sköpun í mynd Guðs
Við höfum verið að ræða fallegu f – orðin í kvennakirkjunni, en það eru líka til ljót f-orð. Ljótt f-orð er til dæmis fordómar. Fordómar eru eflaust einn erfiðasti óvinur feminismans. Fordómar koma yfirleitt af þekkingarleysi og óöryggi, því eins og orðið gefur til kynna eru það For – dómar eða það að dæma fyrirfram. Það eru til margir tegundir feminista. Feminismi er kvenfrelsi skv. orðabók, en hann er vissulega túlkaður á mismunandi vegu. Það eru til dæmis til róttækir feministar sem vilja bara allt karlkynið burt. Fyrir mér er það afskaplega fráhrindandi hugsun og hlýtur að vera í andstöðu við sköpun Guðs. En þið vitið að það er líka til kristið fólk sem vill samkynhneigða burt og það er einnig í andstöðu við sköpun okkar í Guðs mynd. Við erum öll sköpuð í Guðs mynd, konur og karlar, gagnkynhneigð eða samkynhneigð eða bara ókynhneigð … og okkur er ætlað það verk, í sameiningu, ekki bara körlum að yrkja þessa jörð og gæta hennar og sundlauga hennar, baka brauð og borða það. Það er að mörgu að gæta. Kvennakirkjuna taldi ég óþarfa áður en ég kynnti mér hana. Mér fannst að það ætti ekkert að vera að skipta hlutunum upp í kvenna og karla. Ég hef að vísu aldrei viljað karla í saumaklúbbinn minn. Sumt er kvenna og sumt er karla og njótum þess. Sumt er sam – og þá verður það að standa undir nafni sem slíkt. Sam-félagið okkar er til dæmis bæði fyrir kvenkyns og karlkyns manneskjur. Sömuleiðis kirkjan. Kvennakirkjan stendur undir nafni sem kvenna – kirkja og er ekkert að fela það.
Feminismi kaldur eða heitur?
Það hefði verið ónotalegt fyrir mig 7 ára gamla að lenda í ísköldu vatni, þegar ég stökk af brettinu. Eða þá að vatnið væri gruggugt og mettað bakteríum því sundlaugarvörðurinn hefði gleymt að setja klórinn útí vatnið. Við þurfum að koma feminískum sundlaugarvörðum að, og hella femismanum út í samfélagið og stofnanir þess. Við þorum, getum og viljum. (Þó hafa sum ofnæmi fyrir klór og feminisma…) Við getum líka hitað vatnið með ylnum sem fylgir feminismanum því feminisminn er heitur.
Við viðurkennum ekki köld kvennaráð ! – Nei takk ! … Eða það að „Konur séu konum verstar“ ? Ef við höldum áfram að láta halda þessu að okkur, af konum og körlum, og jafnvel halda þessu að okkur sjálfum, gætum við alveg farið að trúa því. Trúað því að konur séu konum verstar og það sé ólíft á kvennavinnustöðum þess vegna.
Kona þú ert sterk, flott og klár og þarft ekki að níðast á systur til að það sjáist hversu yndisleg þú ert. Ef einhver þarf að vera andstyggileg þá er það hún sem er veik og óörugg og þá reynir á að koma henni til hjálpar. Eflaust hefur einhver verið andstyggileg við hana og hún lætur það bitna á þeim sem hún þorir, það skyldi þó aldrei vera önnur kona ? Saman tökum höndum/ við sjáum nýjan dag/ Á vinnustað og víðar/við syngjum þennan brag
Það er til nóg brauð fyrir okkur öll. Vandamálið er kannski að við kunnum ekki alltaf að deila því niður. Sum vilja meira og önnur sitja hjá. Við höfum offitu í Ameríku og hungursneið í Afríku. Það er óviðeigandi ástand og augljóslega rangt. Hverjir eru eiginlega við stjórnvölinn í heiminum ? … þögn til íhugunar..
Feminisminn í framkvæmd
Þegar ég mætti á fyrstu kóræfinguna mína hjá Kvennakirkjunni fyrir tæpum hálfum mánuði, var þar á boðstólum kvarthluti af Hressó – rjómatertu. Talandi um offitu ! J Þegar ég sá kökuna, sleikti ég út um, en hugsaði einnig með skelfingu, þetta verður aldrei nóg, ég fæ ekkert ! En raunin varð önnur, ein útsjónarsöm kona tók sig til og skar í lekkerar sneiðar þannig að nóg var fyrir allar! Það var enginn ofstopi, engin afkoma þeirra hæfustu í gangi eða „survival of the fittest“ en mikið hlegið og ég fann hvað ég var velkomin. Á kóræfingu hjá kvennakirkjunni upplifði ég feminismann í framkvæmd.
Feminisminn nýbakað brauð
Þegar ég vil halda veislu þá fer ég að leita í matreiðslubókunum mínum. Finn 1001 rétt sem mig langar að reiða fram. Ég loka yfirleitt bókunum og nota síðan hugmyndir sem hafa kviknað um leið og ég leit yfir uppskriftirnar. Það sem oft vill gerast í veislum er að við erum farin að borða rjómatertu með majonesi og heitan rétt með ostaköku. Allt þetta delikat dúllerí verður að einum graut á diskinum. Ég er betri í að borða rjómatertur en baka þær. Aftur á móti gengur mér ágætlega og hef gaman af að baka brauð. Það getur orðið ágætis veisla úr nýbökuðu ilmandi brauði og smjöri, og sultu úr berjalandi feminismans. Það má leggja brauðið á fallegt borð og skreyta með rauðum rósum. Þannig berum við feminismann fram, eins og nýbakað ilmandi brauð. Verði okkur öllum að góðu.