Upplýsingar

Ótrúlegt en satt, það er aftur komin aðventa. Það er svo stutt síðan ég pakkaði jólaskrautinu í kassann. Mér finnst líka eins og örstund hafi liðið frá því ég býsnaðist við að líma hneturnar á aðventukransinn enn eina ferðina. Ég var heilt kvöld að koma þessum kransi saman og hann skal sko fá að tróna allar aðventur héðan í frá því mikil var vinnan við að setja hann saman.
Aðventan er sem sé gengin í garð. Aðventan með alla sína yndislegu leyndardóma, einkennilegan ilm, tilfinningasveiflur og ljósadýrð. Hvað verður gott að koma út í morguninn og sjá öll aðventuljósin í gluggunum. Hvað er indælt að setjast niður á kaffihús og finna lykt af negulnöglum og mandarínum.
Þessi tími er líka tími mikilla tilfinninga. Angurvær jólalögin óma, við minnumst gamalla tíma, horfinna tíma. Og um leið og okkur kennir pínulítið til í sálinni finnum við friðinn umvefja okkur. Þann frið sem tilheyrir aðventunni. Það er svo skrýtið að einmitt í myrkri daganna þá skín ljósið hvað allra skærast. Nú þegar myrkrið leggur þykka slæðu sína hvað þéttast yfir landið nær ljósið að lyfta myrkrarslæðunni upp, lyfta svo hátt að nóttin ljómar sem dagur. Ljósið lýsir leiðina bjarta og hrindir á brott myrkrinu svarta.

Eins er það með eril aðventunnar hraðann, asann og ysinn. Einmitt í mesta asanum finnum við hvað friðurinn kemur sterkt inn. Sem aldrei fyrr er kvöldið kyrrt og leyndardómsfullur friðurinn sveipar okkur rósemd og kyrrð. Og þegar sorgin knýr að og við munum missi okkar á liðnum tímum kemur gleðin líka svo sterk og við finnum styrk okkar, hamingju og lífið sjálft bjóða okkur til fylgdar við sig.

Hvaða leyndardómur er þetta? Jú, elsku Guð er komin til okkar í huga, líf og sál. Elsku Guð sem af kærleika og umhyggju býður þér að ganga við hlið sér og njóta þess sem framundan er. Hún kemur með birtu sína inn í myrkrið, glæðir þreytta sál orku og gleði. Hún segir við þig komdu, njóttu, brostu og vertu til.
Já ég er nýbúin að setja niður jólaskrautið og ganga frá hrærivélinni eftir baksturinn. Á ég virkilega að fara byrja á þessu öllu aftur?

Ég segi við vinkonu mína. Elsku Guð ég hef bara ekki orku í það eina ferðina enn að setja upp allt þetta jólaskraut, baka smákökurnar, þvo og gera fínt, getur þú ekki gert þetta fyrir mig. Og auðvitað segir Guð. Jú elskan mín ég skal vera með þér í þessu öllu saman og veistu, við skulum bara hafa gaman af því þú og ég. Hún er fljót að byrja, rífur upp úr kössunum hvert gullið á fætur öðru. Áður en ég veit af er hún búin að skreyta allt hátt og lágt og hún hefur frábæran smekk. Guð, segi ég, hvernig ferðu að þessu? Þetta er ekki mikið mál, ég hef gert þetta þúsund sinnum áður með mömmu þinni, ömmu og langömmu sem allar áttu sína þreyttu tíma líkt og þú núna. Þær spjölluðu við mig alveg eins og þú elsku litla vinkona mín. Saman höfum við gengið í gegnum aldirnar ég og formæður þínar. Við höfum hnoðað, bakað, saumað, þrifið, fætt börnin, þjónað, grátið, hlegið og …
Svo þú sérð við förum létt með að skella aðventunni í gírinn þú og ég. Nú er hún komin í eldhúsið. Smjörinu skellt í skál og sykurinn fer sömu leið. Ofnplötur fullar af kökudeigi og ilminn leggur um húsið. Mikið bakar þú fínar kökur Guð. Ég skelli í nokkar með henni og finn gleðina kitla hjarta mitt. Er ég farin að hlakka til? En hvað það er yndislegt að baka jólasmákökur með bestu vinkonu sinni, sem hefur reynslu allra sysra minna og býður mér að njóta hennar með sér.

Á undraverðan hátt eru allir stampar heimilisins allt í einu fullir af gómsætum ilmandi himnaríkiskökum. Þakka þér fyrir elsku besta vinkona mín, segi ég. Lítið, segir hún, lítið. Hún er byrjuð að strauja jólagardínurnar og það rýkur úr gufustraujárninum þegar það dansar yfir gardínunar á straubrettinu. Krumpuðu, ógreinilegu jólamyndirnar taka á sig betri mynd í gegnum gufuna og fyrr en varir eru gardínurnar komnar á sinn stað, litfegurri en nokkru sinni með dansandi jólasveinum á hverri bugðu.

Hún kveikir á kertum og setur ketilinn yfir.
Nú skulum við setjast inn í stofu saman þú og ég, segir hún. Hún kemur með heitan tesopa og smákökur á disk og þegar hún sest hjá mér finn ég frið hennar umlykja mig. Ég horfi inn í kertaljósið og finn hvernig birta logans, ylur og dulúð kalla fram ýmsar tilfinningar í brjóstinu. Hún segir: Er lífið ekki undursamlega dásamlegt? Jú, segi ég, það er dásamlegt þetta líf, lífið sem þú gafst mér, elsku Guð. Við sitjum lengi, lengi. Sötrum á bragðgóðu jólateinu og horfum í ljósið. Hún segir mér sögur frá mömmu, hvernig þær tóku saman á móti aðventunni ár eftir ár. Hún segir mér hvernig hún hjálpaði ömmu sem saknaði litla drengsins sem hún missti. Hún segir mér frá langömmu sem stóð við hlóðirnar, strauk hárið frá enni og hræði í jólagrautnum. Hún segir mér frá því hvernig hún stóð við hlið þeirra, hrærði með þeim í pottum og studdi þær frá myrkri hugans til birtu hjartans. Ljóssins sem hún ber og er. Hún segir mér frá því þegar hún sjálf þjáðist og hræddist. Hún segir mér líka hvernig hún sigraðist á myrkrinu, barðist við dauðann og hafði betur. Hún segir mér hvað í vændum er. Jólin eru að koma segir hún. Jólin með elsku mína til þín og kærleika.

Hún tekur mig í fangið. Ég finn undursamlegan frið fylla brjóst mitt. Mikið er faðmur hennar mjúkur og hlýr.
Þakka þér, elsku Guð, fyrir hlýju þína og umhyggju. Þakka þér að þú ert alltaf hér, reiðubúin að styðja mig þegar þú sérð að ég stend ekki óstudd.

Hún lítur í augu mín og brosir. Svo rís hún á fætur. Jæja, segir hún, er ekki núna kominn tími til að ganga saman niður í bæ og njóta ilms og ljósa? Ég rís úr sófanum, allt er orðið fínt og jólalegt. Og við göngum saman út, ég og Guð. Göngum saman til móts við jólin.