Upplýsingar

Biðjum:
Elsku Guð! Gef okkur hljóðan hug þegar þú talar í hjarta okkar, gef að við finnum boðskap þínum farveg í orði og verki. Amen.

Ég byrja þessa prédikun á tveimur líkingum. Líkingarnar eru sóttar í dæmisöguna sem Jesús sagði af sáðmanninum. Ég skoða þessa sögu hér frá öðru sjónarhorni. Mig langar að biðja ykkur að opna augum fyrir þessu líkingamáli og setja ykkur í spor þeirrar persónu sem talar í líkingunni.

Ég er akur:
Guð kemur til mín á hverjum morgni og sáir yfir mig heilögum anda sínum. Sama hvaða dag það er kemur hún alltaf til mín og reynir af öllum mætti sínum að rækta mig, sem er akur hennar. Guð bregst ekki, er alltaf eins og ætíð jafn örlát á anda sinn. Það er ég, akurinn, sem er breytileg. Suma daga er ég grýtt og hróstug og Guði gengur illa að plægja mig. Ég get ekki meðtekið andann, treysti mér ekki til þess. Sný mér undan og þó ég viti að ég er ekki ein, ég þykist ekki sjá sáðkonuna Guð. Ég neita að koma auga á tækifærin í fræinu. Ekkert af því sem mér er gefið þennan morgun ber sýnilegan ávöxt í dag. Ég ætla heldur ekkert að gera í því. Ég bara get ekki opnað mig, það er ekki hægt að rækta mig í dag. Guð er heldur ekkert að stressa sig yfir því, hún kemur aftur á morgun, fer eflaust blíðlegar að mér og gefur mér önnur tækifæri.
Aðra daga er ég frjósöm, ég tek Guði fagnandi, opna mig fyrir anda hennar og stíg brosandi fram úr rúminu. Verk plógsins er auðvelt í dag. Ég tekst með bros á vör við verkefni dagsins. Ég blómsta og til mín kemur fólk sem hefur orð á því upp úr þurru hvað ég líti vel út. Ég afsaka mig fyrst eins og vanalega: ,,Nei, ég er bara í gömlu peysunni minni, sem ég er búin að eiga í mörg ár.“ Auðvitað veit ég betur, ég á hrósið skilið, það sést utan á mér þegar hjarta mitt er frjósamur akur Guðs. Í dag er lífið sýnilegt á akrinum. Ég virði líf mitt fyrir mér og segi: ,,Takk Guð!“, svo hlakka ég til að hitta hana aftur á morgun.

Ég er uppskera:
Guð hirðir um mig á hverjum degi. Tekur mig upp og virðir mig fyrir sér, lætur sér annt um mig. Guð gleymir aldrei að kíkja á hvernig mér gangi að vaxa. Þó uppsker hún ekki á hverjum degi því uppskeran er breytileg. Suma daga ber ég þyrna, ég sting og það er erfitt að nálgast mig. Mig sjálfa og aðra svíður undan mér. Ég er líka stundum svo langt ofan í akrinum að Guð þarf að leita lengi til að finna mig. Þann dag gerir hún ekki annað en að halda í mér lífi. Hún veit og vonar að á morgun eða hinn daginn geti ég farið að vaxa upp á við aftur.
Aðra daga er ég glæsileg uppskera. Guð lítur ávexti mína og blóm með gleði. Hún brosir til mín og saman bjóðum við öðrum með okkur af uppskerunni eða bara njótum hennar tvær saman. Mér gengur einstaklega vel að koma auga á dásemdir tilverunnar. Ég finn hvað það er notalegt að eiga Guð fyrir vinkonu sem nærir mig og styrkir á hverjum degi. Á morgun hlökkum við til að bragða á fleiri tegundum eða ilma af annars konar blómum.

Nú hef ég varpað fram þessum líkingum af akri og uppskeru. Ég er viss um hvert okkar hefur á einhvern hátt fundið sig í þessum líkingum, ég held að þær eigi við okkur öll. Suma daga líður okkur vel en aðrir dagar eru erfiðari. Í hvaða líkingu sem við samsömum okkur vil ég að tvær staðreyndir séu okkar ljósar.
Sú fyrsta er að Guð kemur alltaf á hverjum degi til okkar og sáir í hjörtu okkar eða hirðir um okkur á einhvern hátt, það breytist ekki, hins vegar gengur okkur misvel að opna fyrir henni.
Önnur staðreyndin er sú að við eru alltaf á einhverjum tíma frjósamur akur og uppskera okkar er alltaf einhver þó við þykjumst ekki sjá hana sjálf þá geta aðrir gert það og notið góðs af henni. Hvert og eitt okkar skiptir einhverju máli í hringrás lífsins og hvert einasta líf hefur tilgang í keðju lífsins, því Guð hefur alltaf á einhvern hátt fyrirætlanir með líf okkar. Þessu megum við aldrei gleyma.

Hvað felst í því að vera uppskera Guðs? Sú uppskera sem Guð vill að við séum er að vera sátt við okkur sjálf og aðrar manneskjur. Að við séum tilbúin til að skoða okkur sjálf og meta. Að við séum tilbúin til að gefa okkur þá góðu uppskeru sem við sjálf erum og þegar það heppnast getum við gefið öðrum af okkur. Guð vill að þroskumst og vöxum en á þeim hraða sem hverju okkar hentar og þannig ræktar hún okkur áfram með kærleika. Og Guð vill að við þannig ræktum einnig aðrar manneskjur með kærleika. Þannig að við vöxum öll og döfnum í því lífi sem okkur hefur verið gefið. Því þegar vel viðrar er svo dásamlegt að lifa og rækta sig og aðra í kringum sig.

En akurinn, hvernig akur vill Guð að við séum? Akur sem gerir ráð fyrir að Guð rækti hann. Sem rúmar að Guð fái á hverjum degi einhverju sáð í hjörtu okkar. Guð vill einnig að við sættum okkur við margbreytileika okkar. Að við séum ekki alltaf jafn frjósöm en séum þrátt fyrir það alltaf tilbúin að hvíla í skauti Guðs og treysta henni, eins og barn treystir móður og jörð treystir þeim sem hana yrkir.

Ég velti fyrir mér hvers vegna sumar dagar séu erfiðari en aðrir, hvers vegna uppskerum við ekki alltaf eins og við viljum? Það er stundum svo að við fáum vissulega engu ráðið með líf okkar, við erum hrifsuð inn í atburðarás sem við kærum okkur ekkert um. Við kjósum okkur ekki sorgina eða heilsuleysi, okkur langar eflaust að oftast leiki allt í lyndi. Um þetta höfum við lítið að segja. Þátt fyrir það er okkur hollt að skoða hvernig getum við unnið á slíkum aðstæðum og sætt okkur við þær? Við höfum eflaust flest reynt það að einhvern sú fallegasta uppskera sem við höfum augum litið er sú sem við börðumst sem mest fyrir. Sú sem útheimti mikla vinnu, alúð og atorku. Þannig er því einnig farið í uppskerum lífsins. Í þeim erfiðustu upplifum við mesta þroskann og vöxtinn. Hann var vissulega sár og erfiður, fenginn með tárum og trega. Það er samt sem áður þessi þroski sem skipti okkur mestu máli og gaf okkur þegar upp er staðið ofsalega mikið. Styrkti okkur í trúnni á Guð, færði okkur nær henni og kenndi okkur að í hvert sinn sem Guð lokar hurð opnar hún glugga og gefur okkur ný tækifæri. Svipaða sögu segir haustið. Það getur oft verið eftirsjá í sumrinu, langar nætur, ylur og birta. Haustið getur þó einnig verið notalegt, okkur finnst hlýlegt að kveikja á kertum þegar það fer að rökkva aftur og hjúfra okkur upp í sófa með teppi. Hvort sem við hugsum til sumarsins með söknuði eða fögnum því að fela okkur í kuldanum ættum við á hverju hausti að minna okkur á hringrás árstíðanna. Fyrir þau sem sakna sumarsins og kvíða vetrinum getum við alltaf verið viss um að vorið kemur aftur, nýtt líf kviknar, dagarnir lengjast því veturinn er ekki eilífur. Fyrir þau sem hins vegar sjá ekki hringrás lífsins í erfiðleikum og sorg megum við einnig vita að vonin kemur aftur. Vonin lifir alltaf innra með okkur og hún eins og vorið kemur aftur. Í voninni og trúnni á Guð býr ekki síst þessi þroski sem við getum verið viss um að uppskera eftir þrautir lífsins. Þó það sé okkar að leysa þessar þrautir, í gleði og sorg Guð stendur alltaf með okkur, traustari en allt.

Ég ætla hér í lokin að setja fram markmið sem mig langar að við tileinkum okkur. Það felst í því að hugsa sem oftast um það þegar við vöknum, eða þær nætur sem við vökum, hvernig akur við séum þessa stundina og hvernig uppskera. Sættum okkur við hvernig okkur líði á hverjum degi og vinnum þannig í okkar eigin akri með tilliti til þess hvernig við erum stemmd. Umfram allt þurfum við þó að opna okkur fyrir Guði, hliðra til fyrir sáðkonunni, sem kemur með heilagann anda sinn og gefur okkur af honum. Það getur stundum verið erfitt að vera ein á eigin akri og þá er svo gott að hafa Guð með sér, sem gefur okkur að uppskera okkar er alltaf einhver þroski á lífsleiðinni. Þroski fyrir allar manneskjur í kringum okkur og ekki síst okkur sjálf. Því hvert og eitt okkar er á hverjum nýjum degi einhver sú flottasta uppskera sem Guð hefur augum litið af því að við erum undursamleg sköpun hennar.