Upplýsingar

Kæru kvennakirkjuvinkonur mínar og aðrir kirkjugestir!

Ég heilsa ykkur öllum í Jesú nafni. Hún Auður Eir vinkona okkar bað mig um að flytja vitnisburð á þessum sunnudegi, 3. sunnudegi í aðventu þetta árið og ég sagði já, því ég vil bera Jesú Kristi frelsara mínum vitni hér og nú hverju sinni.
Sem barn minnist ég þess aldrei að hafa verið myrkfælin, ég var einhvern veginn svo örugg með lífið allt frá því ég man fyrst eftir mér. Bænir voru beðnar með mér af móður minni og kannski föður (hann er skipstjóri og var oft á sjó á þessum árum), einnig voru amma og afi á Skagaströnd trúað fólk og þau fóru örugglega með bænir með okkur systrum. Þegar móðir mín lézt í bílslysi aðeins 25 ára gömul og ég 6 ára þá skildi ég eitthvað djúpt innra með mér. Ég hafði meira að segja fundið að eitthvað sérstakt var í loftinu daginn sem hún dó, því mig langaði svo að hjálpa til við að þurrka hnífapörin eftir hádegismatinn og ég fékk að gera það, það var síðasta verkið sem ég vann með móður minni hér á jörð.

Eftir að amma hafði sagt mér að mamma væri dáin, hún kæmi ekki aftur þá gekk ég út úr húsinu til þess að horfa á sjóinn. Fór út fyrir Sólvang, hús ömmu og afa á Skagaströnd og horfði út á sjóndeildarhringinn. Dóra frænka, móðursystir mín sem hafði verið með mömmu og okkur systrunum í bílnum kom út á eftir mér og spurði :”Skildirðu það sem amma þín sagði þér?” Já , ég skildi það.
Fyrsta meðvitaða minning mín tengist einnig sjóndeildarhringnum. Þá stóð ég uppi á Höfðanum á Skagaströnd og horfði út á hafið. Síðan þá hefur sjóndeildarhringurinn, þar sem himinn og haf mætast alltaf verið tákn um eilífðina í mínum huga.

Nokkrum dögum eftir að mamma dó var ég að leika við krakkana í nágrenninu og ég man að ég sagði við þau “Mamma mín er dáin, hún er hjá Guði” og horfði spekingslega til himins. Það var líklega minn fyrsti vitnisburður, öryggið sem felst í því að vita að mamma mín er hjá Guði þótt hún sé dáin og ég sjái hana ekki aftur. Hún er orðin ósýnileg eins og Guð er ósýnileg en samt veit ég að þær, mamma og Guð eru þarna hjá mér á einhvern óútskýranlegan hátt.

Næsta skref í trú og vitnisburði er þegar ég fer í KFUK Laugarnesi
sjö ára gömul með Árnýju vinkonu minni ( en hún dó þegar hún var 23 ára gömul).
Mér fannst gott að koma á Kirkjuteiginn, þar sem KFUK var til húsa, syngja falleg lög og hlusta með athygli á konurnar sem töluðu og sögðu frá Guði og Jesú. Ég ílengdist þarna vetur eftir vetur allt fram til unglingsára en fór þá í KSS, Kristileg skólasamtök á Amtmannsstígnum og fór fljótlega að syngja þar í Æskulýðskór KFUM og K og ég flutti nokkra vitnisburði á þessum árum. Ég syng enn í kórum og hef gert það s.l. 17 ár og hef alltaf haft séstaka ánægju af að syngja trúarleg lög svo og að syngja íslenzk ættjarðarlög.

Ég fermdist árið 1970 og játaði með djúpu hjarta spurningunni ”Viltu leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs þíns?” Það var líklega minn frelsunartími.
Því það að frelsast er að játa Jesú Krist sem upprisinn frelsara. Frelsara sem dó fyrir mig og fyrir þig og ég trúði því og ég trúi enn og treysti.

Ég er hamingjubarn og ég á himneskan arf eins og segir svo fallega í sálminum. Það er satt. Og ég valdi mér hjúkrun að aðalstarfi er ég komst upp í fullorðinsárin. Mig langaði svo til að hjálpa fólki, hjálpa fólki sem liði illa. Um tíma hugsaði ég um að fara í læknisfræði af því helzt vildi ég geta læknað fólk, en ákvað að fara í Hjúkrunarskóla Íslands og lauk þaðan prófi 1978. Nú veit ég að góð hjúkrun getur verið læknandi og ég hef ávallt verið stolt af því að vera hjúkrunarfræðingur. Gleði og hamingja geta líka verið smitandi og haft bjartsýnisáhrif og það hjálpar til við bata og viðheldur heilbrigði.

Árið 1991 eða fyrir 20 árum varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Jakobi Jónassyni geðlækni og klíniskri dáleiðslu sem hann kenndi heilbrigðisstarfsfólki.
Er við nemendur hans vorum að æfa okkur að dáleiða hvert annað þá man ég vel eftir því í 1. sk er ég var dáleidd að ég táraðist og var strax komin inn í bæn til Guðs. Dáleiðsla er nefnilega náttúrulegt
fyrirbæri, hún er breytt stig meðvitundar sem við getum komist í þegar við stöldrum við og leyfum okkur að taka eftir hljómkviðu lífsins. Leyfum okkur að horfa út í loftið og andvarpa, leyfum huganum að hvílast stutta stund.

Eftir að ég kynntist dáleiðslunni var ekki aftur snúið. Allar götur síðan hef ég notað dáleiðslu í mínu starfi. Leiðsluslökunin sem getur verið undanfari dáleiðslu er góð leið til þess að hjálpa fólki að líða betur. Slökunin getur minnkað kvíða, verki og aðra vanlíðan. Dáleiðslan hjálpar okkur að tengjast undirvitund okkar, hún getur einnig hjálpað okkur að tengjast Anda Guðs, en Andi Guðs og undirvitundin eru samofin fyrirbæri samkvæmt minni reynslu.

Svo vil ég nefna Al-Anon samtökin sem ég kynntist í kringum 1990, því þau samtök og það sem þau standa fyrir gáfu mér mikinn styrk í meira en 10 ár, það er að segja fólkið sem ég kynntist þar. Hugmyndafræði samtakanna fellur vel að kristinni lífssýn og er sú hugmyndafræði orðin stór hluti af mér.

Mín þrá er að leiðast af Anda Guðs sem blæs þar sem hann vill og enginn veit hvaðan hann kemur né hvert hann fer (Jóh 38) og vegna þessarrar þrár minnar hef ég fengið sérstök verkefni. Fyrir rúmum 13 árum fékk ég sérstakt og dýrmætt verkefni. Ég upplifði það sem andlega endurfæðingu í djúpri merkingu. Eftir það var allt breytt, allt skynjað til hins ítrasta. Ég var komin inn í eilífðina hér á jörðinni.

Wilfrid Stinissen er norskur prestur sem skrifaði bók sem heitir ”Ákall úr djúpinu, um kristna íhugun. Útgefin í Noregi 1978 og þýdd árið 2000. Innihald þeirrar bókar er mér mjög kært. Þar segir meðal annars:
Ég get lagt rækt við íhugun til þess að heimila Guði að móta mig og öðlast innblástur. Íhugunin getur hjálpað mér að opna mig fyrir almætti Guðs, bænin kemur þá eins og af sjálfu sér, síðan get ég brett upp ermarnar og gert það sem gera þarf hverju sinni.

Guð leitar manneskjunnar, hún leitar okkar allra. Viljum við leyfa Guði að finna okkur? Ég vil leyfa Guði að finna mig sérhvern dag, hverja stund og ég leitast við að hvíla í traustinu til Guðs í sérhverjum aðstæðum.

“Þegar við vinnum án þess að keppa eftir árangri eða ávinningi og einungis vegna þess að það er þetta sem við eigum að leysa af hendi einmitt núna, þá verðum við þess vör að við störfum út frá ákveðnu djúpsviði, sem við munum aldrei snúa baki við. Við dveljum í sálarkjarna okkar og það er út frá þessum miðpunkti sem við snúum okkur að hlutunum, en þó án þess að yfirgefa þennan miðpunkt” (Stinissen).
“Ef við vinnum með þessum hætti með djúpar rætur í sálarkjarna okkar, án þess að hugsa um árangur vinnunnar eða ávinning, þá verður vinnan að vissu leyti að leik”( Stinissen). “Leikur er hvíld, leikur er gleði og í leiknum öðlumst við endurnýjaða orku.” Við verðum eins og börnin. Jesús talaði einmitt um að við þyrftum að verða eins og börnin til þess að komast inn i himnaríki, það er að segja inn í vitundarástandið þar sem við skynjum að Guð er með okkur og allt er harla gott þrátt fyrir allt.

Jesús segir : “Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu” og þegar við leiðumst af anda hans er okkur gefið mikið vald. Þetta vald er annars eðlis en hið veraldlega vald, þetta vald tengist kærleikanum.

Við getum breytt heiminum með því að breyta okkur sjálfum. Stinissen segir: ”Nauðsynleg forsenda þessa er að manninum verði ljóst, að hlutverk hans felst ekki einungis í því að læra að þekkja og ráðskast með hinn ytri heim, heldur að hið mikilvæga hlutverk hans felst í innri ummyndun. Þessi tvö hlutverk rekast á engan hátt hvort á annað. Maðurinn breytist með því að fullkomna hlutverk sitt í heiminum. Málið snýst ávallt um það að verða að ljósi (Matt. 5,14). Ekki að sjálfstæðum ljósgjafa, heldur að sköpun sem Jesús skín í gegnum (Jóh. 8.12).”

Í lokin langar mig til að vitna í Halldór Laxness, bókina Heimsljós, Kraftbirtingarhljóm guðdómsins, þar sem Ólafur Kárason Ljósvíkingur upplifir einingu við Guð. Þessu er örítð breytt, sett í 1. persónu:
“Vitund mín rann öll út í eina helga grátklökka þrá til þess að mega samræmast því æðsta, en vera ekkert lengur af sjálfri mér. Ég lá lengi í sandinum eða grasinu og grét djúpum og innilegum sælugráti andspænis hinu óumræðilega. Guð, Guð , Guð, sagði ég titrandi af ást og lotningu og kyssti jörðina og boraði fingrunum niðrí grassvörðinn.” “Ég hafði skynjað hið Eina. Vinkona mín á himnum hafi tekið mig upp að hjarta sínu norður við yzta haf.”

Guð blessar okkur öll, á þessarri aðventu, um jól, á nýju ári og um alla framtíð – við megum treysta því,
í Jesú nafni,
Amen