Upplýsingar

Friður Guðs sé með ykkur. Mig langar til að tala um þessi orð í Jóhannesarguðspjalli:
(Jóh. 1.9) Hið sanna ljós sem upplýsir hverja manneskju kom nú í heiminn.
Eftir þetta góða sumar og milda haust veit ég að ég er ekki ein um það að hafa hugsað fyrir ekki svo löngu: Misminnir mig? Er ekki óskaplega dimmt hérna á veturna? Á morgnana var bjart þegar við í fjölskyldunni vorum að fara í skóla og vinnu. En svo gerðist þetta, og það ótrúlega hratt, að það varð kolniðamyrkur. Alveg rétt! Hugsaði ég; svona er þetta, mig misminnti ekki. Óskaplega er myrkrið svart.

Þess vegna hefur Halla kerling verið mér ofarlega í huga undanfarið. Þessi úr Vísnabókinn, við gamla ljóðið:
Ljósið kemur langt og mjótt
logar á fífustöngum
Halla kerling fetar fljótt
framan eftir göngum.

Hún er lágvaxin, gömul, slitin og frekar alvarleg á svip. Jafnvel svolítið smeyk. Það er ábyggilega kalt í torfkofanum þar sem hún býr og kannski er hún þar hjú og hefur í sjálfu sér aldrei eignast neitt allan þann tíma sem hún hefur lagt hart að sér við vinnu sína. Langt og mjótt ljósið lýsir bara í lítinn hring i löngum ógnvekjandi en kunnuglegu göngunum. Bak við hana er langur skuggi sem umlykur hana. Hún fetar fljótt til að vera þar ekki of lengi.
Hún er formóðir okkar, þótt hún hafi kannski ekki átt neina afkomendur. Hún er hluti af forsögu okkar samt. Hefur unnið mikið, fengið lítið hrós kannski, enga upphefð, lítur ekki stórt á sig og býst ekki við miklu.

En hið sanna ljós, sem upplýsir hverja manneskju, var að koma í heiminn. Orðið, sem var í upphafi hjá Guði, er að fara að verða manneskja eins og við, ætlar að fara að deila kjörum með okkur. Um það hugsum við nú á aðventu.

Segjum að Halla kerling feti fljótt inn göngin og inn í baðstofu og hlýði prjónandi eða spinnandi á húslestur. Og heyri þessi orð, um hið sanna ljós. Sem er alveg að koma í heiminn. Hvaða þýðingu ætli ljósið og sannleikurinn hafi fyrir hennar hug og hennar kjör?

Þá detta mér í hug konurnar forðum daga í Gyðingalandi, sem þekktu hið sanna ljós sem var komið í heiminn, Jesúm frá Nasaret. Þær voru af ýmsum uppruna, sumar samlandar hans, aðrar útlenskar, sumar frjálsar, aðrar ambáttir, ungar, gamlar, ríkar, fátækar, beinar, bognar, upplitsdjarfar eða niðurlútar.
Hver á sinn hátt skynjaði sannleika og frelsi sem skein frá Jesú. Hver á sinn hátt leyfði því skini að hafa áhrif á daglegt líf sitt, því að svona sérstakur maður hlaut að snerta við öllum sviðum daglegs lífs þeirra.

Svo var vinur þeirra Jesús tekinn af lífi og skildi þær eftir í myrkri. Og ég býst við einnig í þeirri hugsun að þær misminnti um ljós og gleði eða frelsi. Kannski var Jesús bara eins og allir aðrir, geta þær hafa hugsað, enda eru engin teikn á lofti um að neitt sem hann gerði og sagði eða neitt sem hann var þeim hafi haft neitt að segja , því að söfnuðir þeirra eru hver á fætur öðrum að úthýsa konum hvað varðar boðun og forstöðu: mennirnir fara að ráða öllu og þær mega ekki finna til sín og vera glaðar og upplitsdjarfar eins og þegar Jesús var hjá þeim og ræddi við þær um guðfræði og mat mikils skoðanir þeirra.

Það er kannski ekki furða þótt Halla kerling, mörgum öldum síðar í torfkofa með moldargólfi hafi litlar forsendur til að taka til sín nema skímu frá orðum húslestranna. Hún hefur aldrei mátt eigna sér neitt.

En við? Í skammdeginu bregður okkur við sterku ljósi. Eins gott að það er aðventa, svo að ljósið er ekki enn komið, það er á leiðinni, langt og mjótt. Hið sanna ljós, sem upplýsir hverja manneskju, er að koma í heiminn. Kirkjuárið er nýbyrjað. Það er annar sunnudagur í aðventu, og við erum spenntar að bíða jólanna, þegar við höldum upp á fæðingu Jesú sem er ljósið og Orðið.

Skyldi þetta ljós ná fyllilega til okkar þetta árið? Við erum ekki ambáttir í Ísrael. Ekki eru heldur moldargólf heima hjá okkur. En velflestar konur hér á landi hafa miklu lægri laun en karlar. Og trúfélög og söfnuðir fela ekki konum forystustörf nema í undantekningartilfellum. Margt fleira verður til þess að við höfum ekki miklar ástæður til að halda að samfélaginu þyki mikið til okkar koma.

Hið sanna ljós, sem upplýsir hverja manneskju ER að koma í heiminn. Hið sanna ljós, sem upplýsir hverja einustu okkar hér inni í kvöld er fyrir lifandis löngu komið í heiminn.

Í þessu sama Jóhannesarguðspjalli segir í 21. kafla frá því þegar Jesús kom aftur, fullur umhyggju eftir upprisu sína, til að kippa Pétri vini sínum postula út úr bráðaþunglyndinu sem hann læstist í, hafandi afneitað Jesú þrisvar. Jesús gekk um og talaði við vinkonur sínar og vini og snæddi með þeim steiktan fisk og hvaðeina.Svo steig hann upp til himna og sendi heilaga önd sína til að hugga okkur og varðveita.

Því er það að við hér í Dómkirkjunni á aðventu 2003 höfum talsverða von um að ljósið geti upplýst okkur fyrir tilstilli heilags anda. Okkur er ekkert að vanbúnaði fyrst hið sanna ljós er nú þegar komið í heiminn, Jesús frelsari okkar og vinur er með okur dag hvern og vill veita okkur sköpunarkraft Guðs til að hugsa up nýja hluti. Og kraftur heilags anda getur gert okkur miklu upplitsdjarfari en Halla kerling gat leyft sér að vera.

Þó ber þess að gæta að á vorum tímum í okkar landi er miklu minni virðing borin fyrir konum en körlum. Við fáum að jafnaði lægri laun, lægri eftirlaun, minni tíma, lásí starfslokasamninga og getum ekki veriði vissar um að þetta sé að batna. Þessi mismunun stafar af synd, af sundrungu, þar sem fólk hefur ekki nógsamlega lagt sig eftir ljósinu og að vinna ljóssins verk. Ýmist þorum við ekki að taka okkur vald og tíma af því að við höldum að hvort tveggja sé af skornum skammti. Eða þá að við þorum það en fáum ekki að hafa valdið og tímann nema örskamma stund því að það er hrifsað af okkur. Kannski óttumst við að missa okkur út í að níðast á öðrum ef við fáum valdið. Við höfum ekki neinar fyrirmyndir að því hvernig þjóðfélag það er þar sem við öll fáum að njóta okkar og vera þau sem við erum.

Þó var það einmitt aðventuboðskapur kirkjunnar, fullveldi hverrar veru, sem Jesús, Orðið, hið sanna ljós vildi gera frjálsa. Jesús minntist ekki á kvóta í þessum efnum. Hann sagði ekki að við skyldum láta ljósið lýsa okkur vissan tíma á sólarhring, en svo leyfa öðrum að njóta ljóssis. Hann sagði ekki að aðeins mætti hrósa fólki stutta stund, svo þyrfti að fara að hrósa öðrum.
Samt vill brenna við að ef konu er hrósað, eða þrjár konur fá að vera í nefnd, þá þarf strax að hrósa karli líka til mótvægis og setja fimm karla í nefnd. Ég vildi að þetta dæmi væri fáránlegt, en svona er þetta. Við erum líka með í þessu, eðlilega, að hrósa sonum okkar og eiginmönnum, frændum, feðrum eða vinum, allt eftir tengslum okkar við mennina.
Það er fínt og kurteislegt, maklegt og réttvíst. EN, gleymum ekki að taka til okkar allt það sem Jesús vill gefa okkur nú á aðventunni: Verum ljósnæmar. Við náum því aldrei að ljóstillifa, manneskjur eru ekki plöntur. En ef við stöndum í ljóma Guðs dag hvern bregður orð hans alveg nýju ljósi á allt okkar líf, hverja hugsun, tilfinningu, orsakasamhengi, stjórnmálaskoðanir, sjálfskoðun og þau bönd sem við bindumst öðrum manneskjum.

Munum að Jesús var alltaf á stöðugri ferð í sínu starfi. Eftir notalegar stundir hjá Jósef og Maríu fór hann um og sætti færis að koma beint inn í líf fólks með orð sín og verk. Hjá Jesú er sífelld verðandi. Sjá hann gerir alla hluti nýja. Líka líf okkar. Tökum okkur stöðu eða sæti hjá Jesú og fræðumst um komu hans inn í okkar líf. þar höfum við orðið, Biblíuna. Saman getum við lesið hana og túlkað og rannsakað og tileinkað okkur. Saman sem söfnuður og í einrúmi með hjálp heilagrar andar. Ef við erum opnar fyrir því að heilög önd sé nú þegar komin til okkar með sannleika og ljós, þá skulum við bara sjá hvað breytist.

Þá getum við leyft okkur að hrifsa til okkar feginsamlega allt hrós frá Guði og fólki. Og allar fallegar hugsanir okkar um okkur sjálfar, án þess að okkur finnist við taka neitt frá öðrum. Náð Guðs er nægileg handa öllum. Og við megum verða upplitsdjarfar og feta fljótt eða hægt, með lýsislampa eða flúorljós, bara eins og hentar hverju sinni. Við getum staðið saman og sungið við kertaljós og syrgt allt hið gamla og misskilda og vonda og vonast eftir hinu nýja og sanna og réttláta sem frelsari okkar, hin heilaga viska er að fara að sýna okkur , sú sem er löngu komin til að upplýsa hverja manneskju.

Amen.