Upplýsingar
Sagan sem við höfum heyrt í kvöld er úr sögu þjóðarinnar sem Guð kallaði til að varðveita orðið sitt. Hún endaði með því að þjóðin komst heim eftir hrunið og fékk aftur húsin sín heima í Gyðingalandi. Loksins gat fólkið gengið aftur um góðu göturnar sínar og sest niður og drukkið kaffi og smákökur og talað saman. Líklega þekkjum við allar þá undursamlegu tilfinningu að fá að koma aftur þangað sem okkur leið svo vel einhvern tíma áður.
Einn morguninn í vikunni buðum við Yrsa systir mín nokkrum konum í morgunkaffi. Við eigum enn húsakynnin í Þingholtsstræti þar sem Kvennakirkjan hóf námskeiðin sín og við buðum þeim þangað. Þær bjuggu í næstu götu þegar þær ólust upp og við töluðum saman um hverfið okkar. Þessi góða morgunstund gaf okkur sömu góðu tilfinninguna og samvera okkar hérna í kvöld og dag gefur okkur öllum. Það er svo gott að vera með góðum manneskjum. Ég vitna aftur og aftur til þess sem sálfræðingurinn góði, Karen Horney, sagði. Hún sagði að það væri mikil gjöf að fá að vinna með góðum manneskjum. Og bara það að fá að vera nálægt verulega góðum manneskjum.
Við ætlum að tala um það í kvöld hvernig við getum öðlast aftur trúna á þjóðfélagið. Við höfum núna í messunni farið yfir margvíslegar sorgir og hrun í þjóðfélagi þjóðarinnar sem Guð kallaði til að varðveita trúna. Við töluðum um Jeremía spámann sem bar þjóðinni skilaboð frá Guði og um Ebed Melek sem var útlendingur í Júda og hafði hugrekki til að fara til kóngsins til að bjarga Jeremía. Þá sagði Guð Jeremía að bera Ebed Melek þessi undursamlegu boð: Líf þitt verður herfang þitt af því að þú treystir mér.
Herfang er það sem við eignumst. Það er okkar eign. Líf þitt er herfang þitt, voru skilaboð Guðs til Ebed Mekek. Það eru líka skilaboð Guðs til okkar. Líf okkar er okkar eign. Guð hefur gefið þér lífið sem þú mátt lifa í trausti til hennar. Það er óhætt. Traustið fylgir herfanginu. Lifðu og treystu. Í hebresku er skrifað frá vinstri til hægri. Þegar við lesum þessi orð þannig stendur: Treystu og lifðu.
Mér finnst við hafa fengið skilaboðin um það hvernig við fáum aftur trú á þjóðfélagið. Það er með því að treysta. Treystu Guði. Treystu þér. Treystu mér líka og okkur öllum sem erum hérna hjá þér í kvöld. Við treystum þér.
Við höfum mismunandi hæfileika. Sumar okkar hafa mikil stjórnunarstörf og forystu í þjóðfélaginu. Sumar okkar skrifa í blöðin og standa í mótmælastöðum niðri á Austurvelli. Það er svo gott að við gerum allar það sem við finnum að við getum og eigum að gera. Ég fyrir mitt leiti ætla ekki að gera neitt af þessu. Ekki neitt. Ég ætla samt að leggja mitt fram til að við fáum aftur trú á þjóðfélagið. Ég ætla að gera það með því að lifa daglegu lífi eins vel og ég get. Ég ætla að leggja mig fram um að lifa í þeirri kristnu trú sem ég lærði þegar ég var lítið barn í gamla hverfinu mínu og fór í sunnudagaskólann í KFUM og K. Ég ætla að vera með góðu fólki og þakka fyrir það að fá að vera með því.
Ég ætla að seilast eftir því að gera þrjú orð að hversdaglegum viðfangsefnum rétt eins og ég mögulega get. Það eru þrjú orð sem fylgja orðum Páls postula í Korinþubréfinu, trú, von og kærleika. Þessi orð sem ég vel í samræmi við þau eru dómgreind, hugrekki og vinsemd.
Við höfum í dag verið í vorferðinni okkar. Við vorum á Bessastöðum og í Hafnarfirði, á Súfistanum og í Hellisgerði og á Tilverunni. Við höfum hitt fólk sem tók vel á móti okkur og var vingjarnlegt. Og við vorum saman og nú erum við hér allar í kvöld í þessari fallegu kirkju þar sem svo margt gott fólk hefur hist til að vera saman hjá Guði. Prestur safnaðarins og kirkjuvörðurinn eru hjá okkur, séra Jóna Hrönn og Þórunn kirkjuvörður. Óska þér til hamingju með að eiga þessa kirkju, sagði ég við Jónu Hrönn. Og þér sömuleiðis, sagði hún. Við eigum allar þessa kirkju. Við erum allar prestar og við megum hittast aftur og aftur í öllum kirkjum okkar til að tala við Guð. Þegar við erum búnar að drekka kaffi í Króki, litla bænum hérna við hliðina, með Ellustínu og dóttur hennar og Stellu, heimakonunum sem útbjuggu þetta allt fyrir okkur, förum við heim að sofa. Við förum heim með það í lófanum sem við gefum hver annarri í kvöld. Í fyrramálið þegar við vöknum tökum við það með okkur út í daginn.
Það er vissan um traustið. Traustið til Guðs sem gefur okkur traustið á okkur sjálfar, hver aðra, aðrar manneskju og lífið.
Það er leiðin til að eignast aftur trú á þjóðfélagið. Til hamingju með það. Amen.