Upplýsingar
Þetta er fyrsta messa Kvennakirkjunnar á árinu 2011. Því langar mig að byrja á að óska ykkur gleði og gæfu á nýju ári og þakka fyrir allar samverustundirnar í Kvennakirkjunni á því ári sem liðið er. Áramót eru tímamót og á tímamótum hvarflar hugur okkar ósjaldan að því sem var og því sem verður.
• Hvað upptekur huga þinn í upphafi nýs árs?
• Hvað fer um hugann þegar þú lítur til baka? En þegar þú horfir fram á við?
• Hvar stöndum við, – þú og ég? Og hvert liggur leið okkar, – og leið Kvennakirkjunnar, héðan?
Það er hollt og gott að taka sér tíma reglulega til að hugleiða stöðu sína og stefnu og hvort og þá hvaða breytingar við myndum vilja gera á högum okkar svo við getum lifað lífinu eins og okkur innst inni dreymir um og teljum rétt. Og það er afar dýrmætt að hafa leiðbeiningar, – eða ramma, sem heldur utan um okkur í þeim hugleiðingum. Slíkan ramma er að finna í Fjallræðu Jesú eins og Auður skýrði svo skemmtilega út fyrir okkur í einni af prédikun sinni fyrr í vetur, en eins og þið kannski munið þá ákváðum við að beina sjónum okkar sérstaklega að textum Fjallræðunnar í vetur. Svo verður því einnig í kvöld.
II.
Margir fræðimenn hafa rýnt og rannsakað texta Fjallræðunnar í gegnum árin og aldirnar og sjá sumir þeirra sterk áhrif lögmáls Gyðinga á boðskap Jesú eins og hann birtist þar. Fjallræðan inniheldur enda skýrar leiðbeiningar fyrir lífið eins og lögmálið gerir. Og sjálfur segir Jesús í upphafskafla hennar: „Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla.“ (Matt. 5:17) Jesús kom til að uppfylla lögmálið – með kærleika sínum. Lögmálið var/er því ekki markmið í sjálfu sér heldur leiðbeining um hvernig standa eigi vörð á kærleiksríkan hátt um lífið í öllum sínum fjölbreytileika. Þannig megum við aldrei verða þrælar þess og missa sjónar á því sem það á að vernda.
Í Fjallræðunni er að finna marga ólíka texta, sem sumir hverjir eru okkur ákaflega hjartfólgnir. Má þar nefna Sæluboðin, Faðirvorið, – bænina sem við lærðum sem börn og við kenndum okkar börnum, hvatningarorð Jesú, til okkar, þar sem hann segir að við eigum ekki að hafa áhyggjur af morgundeginum heldur horfa á fegurð náttúrunnar, sem Guð hlúir að, allt í kringum okkur. Hvernig hún birtist okkur í fuglum himinsins og liljum vallarins, – og í okkur sjálfum hennar dýrmætustu sköpun. Í Fjallræðunni eru líka margar dæmisögur eins og sú sem lesin var hér áðan, um mennina tvo, – hinn hyggna og hinn heimska! Þessi dæmisaga hefur fylgt okkur allt frá barnæsku. Sjálfsagt tókst þú undir, háum rómi, eins og ég, þegar sungið var um þá í sunnudagaskólanum?
Í fyrstunni virðast þessir tveir menn ekkert eiga sameiginlegt. En þegar betur er að gáð sjáum við að svo er. Báðir heyrðu þeir orð Jesú, þeir byggðu hús sem bæði urðu fyrir mikilli ágjöf beljandi óveðurs. Það sem skildi í milli var að annar mannanna var vitur, djúphygginn. Hann var forsjáll, því að hann valdi að hafa undirstöðu húss síns trausta og örugga svo að það myndi veita honum skjól og hlýju alltaf. Hvort sem væri á ljúfum stundum, þegar allt gengur svo vel eða á erfiðum stundum, þegar áföll og óveður dynja yfir. Hinn maðurinn var grunnhygginn og skammsýnn og byggði húsið, líklega á fyrsta, fáanlega skikanum. Alveg án þess að huga að því hvort undirstaðan hentaði, – hver hún í raun væri. Og hann tók það alls ekki með í reikninginn að aðstæður gætu breyst. Húsið féll því eins og spilaborg þegar regnið buldi á því svo að ekki stóð steinn yfir steini.
Það er ekki tilviljun að Fjallræðunni, sem nær yfir 5. – 7. kafla Mattheusarguðspjalls, lýkur með þessari dæmisögu. Með henni leggur Jesús áherslu á, að við sem viljum fylgja honum, eigum að fara eftir öllu því sem hann segir. Hann leggur áherslu á að við förum eftir leiðbeiningum hans og lifum í samræmi við boðskap hans. Þannig eigum við að vera eins og maðurinn sem var vitur og djúphygginn en ekki eins og hinn heimski. Við eigum að byggja líf okkar á traustum grunni trúar okkar. Því eins og þið vitið þá innsiglar hún dýrmætt samband okkar við Guð, hina einu sönnu vinkonu, sem alltaf er til staðar hvernig sem viðrar. Þetta samband er undirstaða lifs okkar, í hversdeginum, alltaf. Án þeirrar trúar, traustsins, – og frelsisins sem því fylgir, er hætta á að leiðbeiningar Fjallræðunnar verði markmið í sjálfu sér. Við sjáum ekki það sem máli skiptir og höfum ekki áræðni til að breyta rétt á hverjum tíma. Í þessu sambandi kemur mér í hug kvikmynd sem ég sá um jólin og byggir á sannsögulegum atburðum er áttu sér stað í fyrri heimsstyrjöldinni. Sagt er frá því þegar Skotar og Frakkar gerðu sameiginlega árás á skotgrafir Þjóðverja í hernumdum hluta Frakklands, rétt fyrir jól árið 1914. Margir létu lífið í árásinni og margir særðust alvarlega. Það fól þó ekki í sér lausn af neinu tagi á þeirri pattstöðu sem var uppi. Á aðfangadagskvöld jóla kvað þó við alveg nýjan tón á þessu átakasvæði. Skotarnir hófu að syngja jólalög í gröfum sínum undir hljómfögrum tónum sekkjarpípunnar. Stuttu síðar hóf þýskur hermaður, sem jafnframt var óperusöngvari, að syngja jólasálm um leið og hann gekk varlega í átt að „einskis manns landi“ með lítið jólatré er hann kom þar fyrir. Í kjölfarið tóku herforingjar landanna þriggja sameiginlega ákvörðun um að gera vopnahlé á helgri jólanóttu og hermennirnir allir deildu með hverjum öðrum, tíma sínum, sögum og gjöfum. Skoska herdeildin bauð til guðsþjónustu sem leidd var af prestinum Palmer. Og næsta dag, á fæðingardegi frelsarans, tóku þeir ákvörðun um að grafa hina látnu. Það er ljóst að eftir þetta gat ekkert orðið eins og áður. Hermennirnir sem deildu mennsku sinnu og kærleika, gátu ekki farið í spor óvinarins að nýju. En það að stíga út fyrir rammann, – að hafa hugrekki og breyta samkvæmt hjarta sínu, en ekki samkvæmt því sem vænst var, hafði afdrifaríkar afleiðingar fyrir alla hlutaðeigandi. Það sló mig þegar presturinn var ávíttur af yfirmanni sínum, biskupnum, fyrir að hafa brugðist skyldum sínum með því að leiða guðsþjónustuna fyrir hermennina á aðfangadagskvöldi. Fyrir það var hann sendur á brott og öll skoska herdeildin einnig. Við sjáum síðan hvar biskupinn talar til nýrrar herdeildar, blæs henni byr í brjóst um að standa sig í baráttunni gegn þýska óvininum.
Það að byggja hús sitt á bjargi, snýst ekki aðeins um að fara eftir reglunum, hreyfa sig innan rammans, heldur um að hafa áræðni, lifa frjáls og breyta rétt, jafnvel þó það sé í andstöðu við ríkjandi hefðir á hverjum tíma. Það snýst um að vita hver undirstaðan er, frá hvaða sjónarhóli við horfum á lífið, – sjónarhólnum sem er Jesús sjálfur. Hann er kletturinn undir fótum mínum. Hann er kletturinn undir fótum okkar allra.
Í hraða og umróti nútímans er auðvelt að missa tengslin við undirstöðu okkar, hversu dýrmæt sem hún er okkur, – og sjónar á því sem rétt er. Við þurfum því ætíð að minna okkur og hver aðra á að rækta þau tengsl. Við þurfum að æfa okkur reglulega.
Ein þekkt jógastaða, eða asana, er staða trésins, þar sem þú stendur með báðar fætur þétt á gólfinu, undirstöðunni, og beinir athygli þinni að þeim. Þú finnur hvernig hvor fótur um sig snertir gólfið algjörlega: Þú finnur fyrir hverri einustu tá, líka táberginu, iljunum, hælunum. Þú finnur hvernig gólfið og fæturnir mætast. Ekkert sker í milli. Markmið þessarar jógastöðu er að öðlast gott jafnvægi á svo áreynslulausan hátt að líkaminn geti sveigst til og frá, fram og til baka, en þú staðið stöðug með báðar fætur öruggar á gólfinu á sama tíma. Með einbeitingunni verður hugurinn rór og hugsunin skýr sem aftur er forsenda þess að komast í snertingu við sjálfa sig, – og við Guð! Enda beinist jóga ekki aðeins að því að rækta hina líkamlegu hlið, heldur og jafnvel miklu fremur, hina andlegu. Og eins eðlilegt og það nú er að æfa sig í jóga þá þurfum við líka að æfa okkur í að finna fyrir Guði, undirstöðu lífs okkar, – daglega, alltaf. Með því verðum við öruggari og styrkjumst í trú og áræðni til að takast á við lífið og breyta rétt.
III.
Á tímamótum hugleiðum við stöðu okkar. Við vitum að við stöndum á kletti, – það er staða okkar nú og alltaf. Þú finnur finnur fyrir klettinum undir fótum þér ef þú tekur þér tíma til að gefa honum gaum. Á öllum stundum, við allar aðstæður, hvernig sem viðrar. Það er góður útgangspunktur fyrir leið okkar, þína og mína, – og leið Kvennakirkjunnar á þessu ári og um alla framtíð. Amen.