Upplýsingar

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Nú þegar þið hefjið vegferð á nýrri leið í lífi ykkar kæru vígsluþegar koma til mín orð úr Orðskviðunum í Gamla-testamentinu. „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar“.

Með vígslu ykkar eruð þið ekki aðeins að feta nýjar leiðir, heldur er kirkjan líka að feta nýjar leiðir. Líklegt er að aldrei fyrr hér á landi hafi biskupsvígð kona vígt tvo vígsluþega í sömu athöfn sem báðar eru konur. Og aldrei fyrr hefur kona verið vígð til að þjóna fyrst og fremst konum í kirkjunni. Með vígslu prests til kvennakirkjunnar er bent á nauðsyn þess að halda áfram þeirri þjónustu sem kvennakirkjan hefur veitt á tuttugu ára ferli sínum.

Sameining prestakalla í Vestur-Barðastrandasýslu, þar sem fleiri en einn prestur þjónar, er líka tímanna tákn því nútíminn krefst nýrrar hugsunar í skipulagi og vinnubrögðum þar sem samvinna eykst og mismunandi hæfileikar og reynsla hinna prestvígðu þjóna njóta sín og bæta þjónustuna við sóknarbörnin.

Nú, eins og á öllum tímum ber að fara og skíra og kenna eins og Jesús fór fram á við lærisveina sína forðum. Það er heilög skylda Kirkjunnar að feta í þau spor og hlýða því kalli. Þið hafið fengið köllun til að fara og skíra og kenna, til að boða Orðið, boða trúna á Jesú Krist og lifa í þeirri trú og framganga í þeirri trú. Það er ekki alltaf auðvelt og í raun ekki á færi mannsins nema vera þess fullviss að það gerum við ekki í eigin mætti heldur erum við borin uppi af þeim er okkur lífið gaf og þeim er okkur kallað hefur til þjónustunnar á akrinum.

Við þurfum á því að halda að finna það og ekki síður að nærast í þeirri trú til að viðhalda henni í eigin lífi og miðla henni til annarra. Þess vegna er svo gott að geta tekið sér helga bók í hönd og treyst því að þar er uppspretta hins lifandi Orðs sem nærir, gefur styrk og veitir djörfung.
„Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar“ segir í Orðskviðunum. Í guðspjalli dagsins í dag, sem er 7. sunnudagur eftir þrenningarhátíð er sem Jesús fylgi þessum orðum eftir er hann segir: „Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta sem á mig trúir“. Þessi orð Jesú og orð Ritningarinnar gefa ekki aðeins fyrirheit heldur gefa þau kraft til að halda áfram og kraft til að leita hamingju og farsældar.

Þið hafið verið kallaðar til að vera fyrirmyndir og farvegur Guðs orðs inn í veröld sem sífellt er hægt að breyta til batnaðar. Inn í veröld sem þarf á því að halda að nema rödd Guðs og orð, þess Guðs er hefur áhrif á daglegt líf okkar og í daglegu lífi okkar.

Það var áhrifaríkt að heyra hina 16 ára Malölu flytja ræðu á alherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í fyrradag. Þó hún sé ung að árum hefur hún barist fyrir rétti stúlkna til náms í heimalandi sínu, Pakistan.

Hún sagði að þegar hún var skotin og særð fyrir níu mánuðum hafi tilræðismennirnir haldið að kúlurnar þögguðu niður í þeim sem fyrir urðu. En í stað þess dóu veikleiki, ótti og vonleysi en styrkur, vald og hugrekki urðu til. Það er undarlegt að öll börn heimsins fái ekki að njóta menntunar, svo sjálfsagt sem það er í okkar landi. Þessi hugrakka Pakistanska stúlka ætlar að nota tækifærið sem hún hefur fengið til að hvetja þjóðir heimsins til að þess að tryggja börnum menntun. Það hljómar líka undarlega í eyrum okkar Íslendinga að víða um heim er stúlkum meinað að mennta sig. Þessi hugrakka unga stúlka notar erfiða lífsreynslu sína til góðs fyrir börn heimsins.

Þannig vinnur líka trúin. Hún gefur hugrekki og styrk til að mæta erfiðum aðstæðum og rísa upp. Hún hjálpar okkur að láta óttann ekki stjórna okkur. Þess vegna svörum við þegar Drottinn kallar og sendir okkur út til þjónustunnar, þess fullviss að við erum ekki ein á veginum. Þjónustu sem er grundvölluð á guðsþjónustu helgidagsins, þaðan sem við erum send út til að halda henni áfram í heiminum. Þannig að Orðið nái eyrum jafnt þeirra sem standa styrkum fótum og þeirra sem þurfa hjálp og skilning.

Í nútímasamfélagi er fræðslan mikilvæg, ein af skyldum prestsins. Fræðslan eflir ekki aðeins og nærir, heldur minnkar hún fordóma og eykur skilning og víðsýni. Þess vegna er nauðsynlegt að leggja áherslu á fræðslu og boðun í orði og verki þegar út á akurinn er komið og vera óhræddar við að reyna nýjar leiðir.

Þær sungu og dönsuðu konurnar í Malaví og Kenýa sem ég heimsótti í febrúar. Þessi íslenska sendinefnd færði þeim von um betra líf og á kristniboðsakrinum í Pókothéraði í Kenýa var greinilegt að trúin á Krist hafði ekki aðeins fært þeim trúna, heldur einnig vonina. Þessi kona er biskup, sagði skólastjórinn í stúlknaskólanum og benti á mig. Og þessi kona er fyrrverandi ráðherra sagði hún og benti á formann stjórnar Hjálparstarfsins. Og þessi kona er prestur sagði hún og benti á sóknarprestinn í Hrísey. Þið getið líka orðið prestar, eða biskupar, eða ráðherrar ef þið viljið sagði hún og stúlkurnar sungu og dönsuðu. Aldrei áður hafði ég fundið svo mjög til ábyrgðar minnar sem fyrirmynd annarra stúlkna og kvenna og þá. Ég fékk sterklega á tilfinninguna að konur væru lykilmennirnir að bættum heimi. Í gegnum þær kæmi vitneskjan um hreinlætið, sem bætir heilsu, ræktunina sem eykur fæðuval og mikilvægi skólagöngu barna af báðum kynjum.

Það skiptir máli að segja frá Kristi og benda á hann. Hans sem er fyrirmynd okkar. Hans sem talaði gegn óréttlæti og kúgun og fyrir réttlæti og frelsi. Hans sem gaf heilsu og líf. Hans sem breytti viðhorfi og samfélagi.

Kirkjan fetar í fótsporin hans, mænir á hann, treystir honum og er þess fullviss að fagnaðarerindið eigi erindi við nútímamanninn eins og þau sem gengu með honum veginn fyrir 2000 árum. Ekki vegna þess að hann var, heldur vegna þess að hann er og þau mun ekki hungra sem til hans koma og aldrei þyrsta er á hann trúa“.

Allar manneskjur þrá gott og farsælt líf. Þær hungrar og þyrstir eftir betra lífi. Það er mörgum nauðsynlegt að hafa góðar fyrirmyndir og sjá að draumarnir geta ræst. Kristur kallar fólk til þjónustu.Kirkjan sendir fólk til þjónustu. Það er dýmætt að sinna því kalli. Það kann að vera erfitt á stundum en þá er vert að minnast spekiorða Salómons: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar“.

Ekki er fyrirheit frelsarans síður áminning: „Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta sem á mig trúir“
Með þetta erindi eruð þið sendar. Guð gefi ykkur djörfung í þjónustunni og styrk í starfinu.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.