Upplýsingar
Einu sinni enn hittumst við í jólaguðþjónustu til að segja hver annarri jólaguðspjallið. Við segjum af langri ferð þeirra Maríu og Jósefs og litla asnans þeirra yfir fjöllin alla leiðina suður til Betlehem. Og um mergðina í borginni sem fyllti öll herbergin og húsin svo að Jesús fæddist í fjárhúsi.
Við syngjum um englana á Betlehemsvöllum og hirðana sem heyrðu sönginn, allt í einu í næturkyrrðinni, þar sem þau voru búin að eiga nótt eftir nótt, kannski í fjölmörg ár, án þess að nokkuð gerðist. En þessa nótt heyrðu þau englasöng og fengu boð um að sjá Jesúm. Svo að þau fóru, og þau sáu Jesúm. Það voru bæði lífsreyndar konur og litlar stelpur í hópnum, og reyndir menn og litlir strákar. Og við heyrum um vitringana sem komu langar leiðir til að gefa Jesú gjafir. Þeir treystu stjörnunni og þeir hlustuðu á Guð sem sagði þeim að sniðganga refinn Heródes sem varð miður sín af ótta þegar hann heyrði um nýjan konung í landinu. Hann hlustaði ekkert á Guð. En ef hann hefði hlustað hefði hann heyrta hana sagja að Jesús væri allt öðru vísi konungur en hann og ætlaði aldrei að setjast í hans sæti. Og við syngjum enn meira um Jósef og Maríu, þau sem fyrst sáu Jesúm og fóru heim með hann og ólu hann upp. Við hlustum á flautuleikinn hjá Örnu og Hallfríði og sönginn hjá Aðalheiði og kórnum og hver annarri. Og við lyftum huga okkar upp úr fari hversdagsins.
Eins og alltaf þegar við hittumst. Við lyftum huganum alltaf upp úr farinu. Til að endurnýjast og gleðjast. Jólamessan er einstök með sérstökum hátíðleika sínum og frásögunni um fyrstu jólin. Sem við höfum heyrt um síðan við fæddumst. Og við getum rifjað upp jól eftir jól og munað margvíslega gleði þeirra. Fyrst og lengi áttum við jól sem við bárum varla nokkra ábyrgð á. Fólkið okkar sá um þau og um okkur, svo að við gætum notið þeirra, fundið hátíðleikann og fengið gjafir eins og Jesús fékk. Svo breyttust verkin og færðust til okkar og við sáum um að fólkið okkar fengi hátíðailm og gjafir og gleddist og fagnaði. Það gekk allt svo vel, nema kannski aðeins stundum að við urðum of þreyttar, eða einhver hinna urðu of þreytt. Og það getur orðið erfitt að rifja það upp. Því ef eitthvað skyggir á hátíðleikann á þessum einstöku dögum ársins verður það að erfiðari minningum en það hefði orðið ef það hefði gerst á einhverjum hinna daganna.
Það gerðist ýmislegt á hinum dögunum. Við rifjum það oft upp í jólastemningunni. Því í þeirri stemningu verður allt svo einstakt. Við getum mitt í hátíðleikanum fyllst einhverri sorg yfir einhverju sem særði okkur í hversdeginum. Kannski í sumar þegar sólin skein og allt var bjart allan sólahringinn og blómin uxu og fuglarnir sungu. Eða kannski fyrir löngu. Kannski meira að segja áður en við fæddumst. En fólkið okkar lifði hversdaga sína og sparidaga og óf okkur eitthvað af þeim veruleika sem seinna sveipaðist um okkur.
Lífið er margvíslegt, það erfist frá kynslóð til kynslóðar. Alveg eins og er sagt frá í frásögum jólanna. Langa lengi hafði fólk Guðs gengið margvíslega stigu. Það hafði verið herleitt til útlanda, það var hersetið í sínu eigin landi, það setti upp reglur til hversdagsnota sem urðu þeim til ills. En það átti líka margvíslega gleði, alveg eins og við, gleði hátíðanna þegar það safnaðist saman í helgidómunum og á torgunum og bauð hvert öðru til sín. Og gleði góðu siðanna sem urðu til góðs, gleði hversdaganna þegar nýbakað brauðið ilmaði í morgninum, og þegar kvöldsólin varpaði geislunum á fjölskylduna sem sat uppi á flötu húsþakinu eða í garðinum. Og gleðin yfir vel unnum verkum dagsins og vináttunni sem þau áttu.
Það er sagt frá þessu öllu í Biblíunnu. Og allar þessar frásögur eru á einhvern máta frásögur um okkur. Af því að við búum, alveg eins og þau, við gleði og sársauka sem erfist frá kynslóð til kynslóðar og sprettur líka upp hjá sjálfum okkur. Og bærist frá okkur til annarra, bæði núna og seinna.
Það er sagt frá því að söngur englanna á Betlehemsvöllum hafði verið undirbúinn öldum saman.
Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós, segir í spádómsbók Jesaja. Jes. 9.2. Og það er þetta sem fyllir okkur gleði jól eftir jól. Það að heimurinn fékk að sjá ljós jólanna. Og að við fáum það sjálfar. Í okkar eigin lífi. Í lífi hver annarrar og lífi þeirra sem við deilum með hversdögum okkar. Það er undursamlegra en við fáum útskýrt að fá að sjá lausnir á lífsgátum og glímum. Og finna frið. Og finna frelsi.
Við höfum talað um F-orð í öllum messum ársins. Og í kvöld tölum við líka um F-orð. Við tölum um orðið FRELSARI.
Við tölum um orðið FRELSARI í jólamessunni okkar í kvöld. Eins og í öllum jólamessum. Og öllum messum ársins. Við tölum alltaf um Frelsara okkar. Jesúm, sem var Guð sem kom. Hún sem hafði skapað okkur kom og frelsaði okkur. Og dag eftir dag frelsar hún okkur upp á nýtt. Af því að dag eftir dag gerist eitthvað í lífi okkar og hugsunum okkar sem hneppir okkur í nýja fjötra.
Það er svo undarlegt hvernig við látum okkur detta í hug að hugsa. Þótt við vitum mæta vel að við eigum að hætta því. Og að við megum steinhætta því. Af því að Guð hefur fyrirgefið okkur og gefið okkur frið við sjálfar okkur.
Við vitum hvernig það er. Við vitum það allar. Og þess vegna sitjum við hérna saman. Og þess vegna er það svo dýrmætt. Af því að við vitum að hinar hugsa alveg eins og við. Við fyllum huga okkar aftur og aftur af vitleysu, þótt okkur hafi boðist í gær og fyrradag og líka í morgun að lifa í frelsi og friði. Þá förum við samt einu sinni enn að hugsa asnalega. Það er bara svona. Og það verður alltaf svona. Og einmitt þess vegna er það svo óendanlega gott að eiga Guð sem frelsar okkur dag eftir dag.
Ég ætla að segja okkur um vitleysuna með sögu sem ég sá fyrir áratugum. Ég hvorki heyrði hana né las af því að hún var myndasaga í dönsku blöðunum. Hjónin Mads og Magga sátu inni í stofu á aðfangadagsmorgun og sáu Henrik koma skálmandi upp að húsinu ljómandi af jólagleði. Ó, Mads, hrópaði Magga. Henrik er með jólagjöf. Og við keyptum ekkert handa honum og Hönnu. Taktu á móti honum og ég fer og merki einhverja af gjöfunum sem ég keypti handa þér. Og Magga merkti jólagjöfina og kom og faðmaði Henrik og gaf honum gjöfina, og Henrik gaf þeim jólagjöfina sem hann var með. Og þegar þau tóku hana upp sáu þau að merkimiðinn hafði verið rifinn af og að það var ilmvatn í pakkanum. Og þau sáu að hann hafði alls ekki keypt gjöfina handa þeim heldur Hönnu og bara gefið hana af því að þau gáfu honum gjöf. Og þegar Henrik og Hanna tóku upp gjöfina frá Mads og Möggu sáu þau að þau fengu röndótta þverslaufu, og að það var gjöf sem Magga hafði keypt handa Mads.
Ég segi okkur þessa jólasögu af því að mér finnst hún sýna að vesenið í okkur stafar ekki bara af því að við séum vond og frek. Það stafar líka af því að við erum góðar manneskjur sem viljum öðrum góðum manneskjum vel.
Hugsum um það núna í friði jólamessunnar. Hugsaðu um allt öryggisleysið sem það veldur okkur að vita ekki almennilega hvernig við eigum að sýna og gefa og taka á móti vináttunni sem okkur langar svo til að streymi alltaf á milli okkar. Og hugsum um það hvað það er undursamlegt að eiga frelsara sem hjálpar okkur til að fara eins vel með þessa vináttu og við frekast getum. Og hugsum um það hvað það er góð og undursamleg jólagjöf að fá að vita að vesenið yfir því að fara vitlaust með vináttuna hefur erfst frá kynslóð til kynslóðar og heldur áfram að erfast og mun aldrei hverfa.
Nú bið ég þig að hugsa ögn um það í messukyrrðinni hvort þú ert mér sammála. Kannski ertu það alls ekki. Ég fullyrði að það sé mikil frelsisgjöf að sjá að við verðum aldrei frjálsar frá því að gera vitleysur í einlægri löngun okkar til að verða öðrum manneskjum til góðs. Og að við verðum aldrei lausar við ýmislegt vesen við að taka á móti því sem aðrar manneskjur vilja gefa okkur af gæsku og umhyggjusemi.
Og ég fullyrði að frelsið sem Guð gefur okkur sé það að sjá að þetta er bara svona. Stundum tekst okkur svo vel að sýna vináttu okkar og taka á móti henni. Stundum mistekst það asnalega eins og hjá Mads og Möggu og Henrik og Hönnu. En það er samt yndislegt, af því það var gert af svo miklum kærleika.
En stundum mistekst þetta einhvern veginn sorglegar. Eins og við vitum og kann að rifjast upp með sársauka í jólastemningunni þegar okkur langar svo til að allt sé gott. En líka þá, eins og alltaf, á öllum dögum ársins, eigum við Frelsara sem getur gefið okkur þá undursamlegu gjöf að taka þessu ekki illa. Það er bara svona, það hefur alltaf verið svona og verður alltaf svona. En það þarf ekki að eyðileggja daga okkar. Við eigum Frelsara sem hjálpar okkur til að komastaaf við klaufaskap okkar og gera gott úr því sem mistekst. Við eigum Frelsara sem frelsar okkur frá hugsununum sem gera daga okkar dimma. Og sá Frelsari segir okkur að við skulum ekki velja þessar dimmu hugsanir. Við skulum ekki setjast að í mistökunum. Við skulum velja ljósu hugsanirnar, þær sem ljóma í jólaljósunum núna, og í sólskininu eftir áramótin og allt til næstu jóla. Og hjálpa okkur til að gera lífið gott með sjálfum okkur og öðrum manneskjum.
Hugsum um það. Og hugsum líka um dimmar og bjartar hugsanir allra aldanna sem Biblían talar um á jólunum.
Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós. Yfir þau sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós, skrifaði spámaðurinn Jesaja fyrir þrjú þúsund árum.
Þetta eru orð um Frelsarann sem kom og breytti högum kvenna. Hann kom og setti upp fyrstu bylgju kvennahreyfingarinnar. Eftir myrkar aldir réttleysisins og kúgunarinnar sem konur bjuggu við kom hann og gaf okkur aftur frelsið sem við vorum skapaðar til að eiga. Hann sagði að við værum ekki merkar manneskjur af því að vera í tengslum við menn, við syni okkar eða aðra menn. Hann sagði við værum merkar manneskjur af því að við værum vinkonur Guðs. Hann sagði að við mættum og gætum fundið mátt okkar og mildi og tekið að okkur aðrar manneskjur. Og við gætum tekið að okkur hvers konar verk. Hann sendi konur til að prédika og gerði þær að postulum og forystukonum og gaf þeim og öllum manneskjum nýjar reglur til að vinna eftir. Það voru ekki reglur valdsins heldur reglur vináttunnar.
En eins og þau Mads og Magga og Henrik og Hanna voru ekki alveg viss um það hvernig þau áttu að fara með vináttuna erum við heldur ekki viss um það. Hvorki hvernig við eigum að sýna hana í litlum hópum eða stórum hópum heimsins. Við þurfum ekki að lýsa því hvert fyrir öðru hvað þjóðir heimsins eiga erfitt með það, og heldur ekki hvað það er erfitt í fyrirtækjunum sem við vinnum í, stórum og smáum.
En það er samt markmiðið sem var sett upp á fyrstu jólunum að kenna okkur þetta allt.
Og þegar við göngum inn í nýtt ár förum við með þessi markmið jólanna með okkur. Og vinnum að þeim allt árið. Dag eftir dag. Að því að sýna þeim Hönnum og Henrikum sem við þekkjum vináttu okkar. Að því að hjálpa til við að skapa réttlæti og frið og gleði þar sem við vinnum. Að því að hugsa björtu hugsanirnar um frelsi okkar sjálfra. Og að því að taka því sem hverjum öðrum óhjákvæmilegum atburðum þegar þetta fer allt í vaskinn.
Því það, að taka svona á móti því, er líka frelsi. Og þegar við tökum þannig á móti því getum við haldið áfram að taka á móti öllu sem gefur okkur aftur máttinn og mildina, birtuna og vináttuna.
Þetta er allt saman hægt. Af því að við eigum Frelsara. Hann sem er meiri en vanmáttur sjálfra okkar. Og getur þess vegna frelsað okkur aftur og aftur frá honum. Bara ef við einu sinni viljum. Og auðvitað viljum við. Dag eftir dag. Guð gefi okkur góða daga fram að áramótunum og á nýja árinu sem bíður okkar. Amen.