Upplýsingar

Við skulum byrja prédikun haustsins með því að segja hver annarri sögu. Þegar fegurð haustsins breiðir sig yfir garðana og göturnar og stofurnar og eldhúsin og lamparnir loga á kvöldin þá er mátulegt að fara að segja sögur. Og við hreiðrum um okkur í blíðri rónni og sveipum að okkur mjúku lampaljósinu.
Það var einu sinni lítil prinsessa. Hún átti heima í höllinni hjá mömmu sinni og pabba og hjá eldabuskunni og garðyrkjumanninum, og þvottakonunni og konunni sem festi allar skrúfur sem losnuðu og manninium sem festi allar tölurnar sem duttu af fötunum og hjá konunni sem saumaði alla kjólana á prinsessuna. Hún varð að hafa marga menn og margar konur sem þræddu nálarnar og sikksökkuðu og applíkeruðu og rykktu blúndurnar og púffermarnar og saumuðu utan um rúllebúkkið. Því litla prinsessan fékk nýjan kjól á hverjum einasta degi. Þess vegna átti núna, þennan daginn sem við segjum hver annarri frá, eittþúsund sextíu og átta kjóla. Af því að hún var orðin rúmlega þriggja ára gömul.

Og þá gerðist skelfingin. Við vitum hvernig það er. Við búum við gleði og þokka, og vorin koma og haustin og okkur grunar ekki að lífið taki upp á því næsta dag að gretta sig framan í okkur. En þennan dag vaknaði litla þriggja ára prinsessan og sá strax að það var ekki nýr kjóll á flauelisstólnum við rúmið hennar. Það var kjóllinn síðan á miðvikudaginn í hinni vikunni, rauði kjóllinn með hvíta kraganum og slaufunum við faldinn.

Hún fór að gráta. Það var engin komin til að klæða hana af því að hún vaknaði svo snemma og af því að það var svo mikið að gera í höllinni og fullt af fólki að sulta og reykja bjúgu og sauma vambir. Og hún tók málið í þriggja ára hendur sér og rigsaði út í höllina. Við látum ekki bjóða okkur hvað sem er. Í neðstu tröppunni niður á næstu hæð sat litla stelpan eldabuskunnar og garðyrkjumannsins. Hún var líka þriggja ára. Hún hafði hnéin upp við hökuna á sér og hélt utan um þau og söng og borðaði um leið nýbakað brauð með rifsberjasultu. Hún var í kjól sem var alla vega á litinn. Hann var grænn með gulrauða svuntu meða alla vega blómum yfir honum öllum og ljósrauðan kraga og ljósrauðar og ljósbláar og dökkbláar og fjólubláar rendur neðst á pilsinu.

Af hverju ertu að gráta elskan mín, sagði litla stelpan við prinsessuna og þurrkaði henni um augun og gaf henni brauðbita. Og prinsessan sagði henni að hún hefði ekki fengið nýjan kjól og litla stelpan fór að hlæja og fór úr sínum kjól og klæddi litlu nýju vinkonuna sína í hann. Og prinsessan hljóp til mömmu sinnar og pabba og kyssti þau. Og þau sögðu að hún væri yndisleg og hún sagðist ekki þurfa nýja kjóla á hverjum einasta degi og gæti alveg verið heilu mánuðina í hinum kjólunum til skiptis. Og svo er sagan búin. Og við eigum bara eftir að hugsa okkur að við séum prinsessan.

Við skulum óska hver annarri yndislegra morgna. Þegar við vöknum í grennd við ysinn í bænum og borginni eða sveitinni, þennan góða og krafatmikla ys sem bærir að okkur hugmyndunum, eins og alla daga, um það að bráðum göngum við út í eitthvað sem er að gerast án þess að við þurfum að standa fyrir því. En við erum hluti af því, og við förum og gerum það sem við leggjum til í þessum ys. Við förum á skrifstofuna eða í búðina eða skólann eða verkstæðið, eða við förum ekki neitt af því við vinnum heima, eða af því að við erum atvinnulausar í augnablikinu og þurfum að treysta því að fara bráðum að fá vinnu.

Sagan um prinsessuna er um traustið til lífsins. Og um vináttuna. Eða það finnst mér.

Við finnum aðra svona sögu í Fjallræðunni. Hún er um fugla himinsins og liljur vallarins. Hún er líka um einn kjól á dag og heila höll af annríki. Hún er um liljurnar sem áttu svo flotta kjóla að meira að segja Salómon kóngur sem lét sauma á sig þessi fínu dress var ekki nándar nærri eins fínn og þær. Og um fugla himinsins sem flugu og sáu yfir allt og höfðu engar áhyggjur af lífinu en tóku þátt í því eins og þeir voru skapaðir til.

Jesús bauð okkur að vera nú svo vænar að setja okkur í þessi spor til að skilja sjálfar okkur betur og njóta lífsins betur. Hvernig gerum við það?

Hvað finnst þér? Hvernig líður þér á þessu hausti sem er rétt að byrja? Það skiptir svo miklu máli hvernig þér líður. Og við hittumst í hverjum mánuði til að uppörva hver aðra til að láta okkur líða vel. Til að taka þátt í ysi lífsins og leggja okkar fram og njóta þess og hins sem hin leggja fram.

Það er það sem mig langar svo til að við tölum um í kvöld þegar við byrjum haustið saman.

Ég óska okkur þess að vakna á hverjum morgni til að fara í nýjan kjól sem einhverjar aðrar manneskjur hafa látið sauma á okkur, af því að þeim þótti svo vænt um okkur. Af því að þeim fannst við svo yndislegar að við ættum skilið að fá nýjan kjól á hverjum degi. Hvaða manneskjur gætu þetta verið og hvað gæti kjóllinn sem við fáum á hverjum morgni eiginlega verið?

Ég held að kjóllinn sé lífið sjálft og manneskjurnar allar þær fjölmörgu manneskjur sem þykir til um okkur. Hugsaðu um það. Hugsaðu um það ofurlitla stund núna hvað mörgum manneskjum hefur þótt til um þig bæði fyrr og síðar. Og hvað þér hefur þótt til um þær og hvað það er gott og traust í lífinu að eiga allar minningarnar og nútíðina og framtíðina með verulega góðum manneskjum. Það skiptir svo miklu. Því allt lífið er samofið úr samskiptum. Og því meira af góðum samskiptum sem við eigum því betur líður okkur. Og því betur getum við mætt samskiptunum sem eru ekki góð og uppörvandi heldur leiðinleg og erfið og niðurdragandi. Eða þá flókin, þótt þau séu góð. Það verður okkur svo miklu léttara þegar við höfum traust til sjálfra okkar, annarra og lífsins.

Við erum alltaf að búa til guðfræði saman, við allar, í messunum og kóræfingunum og námskeiðunum og ferðalögunum og öllu sem við gerum saman. Fyrir nokkrum árum bjuggum við til guðfræðina sem við mótuðum í þessari setningu: Trúin á Guð gefur okkur trúna á sjálfar okkur, aðrar manneskjur og lífið.

Tölum betur um þetta. Höldum áfram að hugsa okkur að lífið sé nýr kjóll sem liggur á flauelisstóli við rúmið okkar á hverjum nýjum morgni.

Við göngum á vit þessa lífs og mætum ýmsu og okkur finnst stundum kjólarnir við rúmið óþarflega dapurlegir eða þröngir. En við megum alltaf treysta því að þetta fer nú allt heldur vel. Og eins og við vitum að við eignumst eilíft líf hjá Guði, vitum við að ljóminn af því lífi kemur alltaf á móti okkur og gefur okkur von í öllum atburðunum sem við glímum við. Og gefur okkur hamingju í öllum atburðunum sem við glímum ekki við en njótum bara. Eins og hausthúmsins með lampaljósinu og vináttunni og sögunum.

Við getum hugsað okkur að lífið sé bæði nýtt og líka eins og það var, á hverjum morgni sem við vöknum. Alveg eins og prinsessan fékk nýjan kjóla á hverjum morgni þangað til hún sá að það var bara gott að fara í kjólana sem hún var vön að vera í. Það er gott að eiga hversdagana sem við þekkjum og vitum nokkurn veginn hvernig eru. Það er ómetanlegt að eiga bæði hversdaga og daga sem eru sérstakir. Við þurfum báðar sortirnar. Af því að hversdagarnir verða óþarflega hversdagslegir ef við eigum enga sérstaka daga á milli. En ef við eigum þá gera þeir hversdagana svo notalega og yndislega. Og við skulum hugsa um vináttu litlu prinsessunnar. Vináttu þeirra sem saumuðu á hana kjólana og dáðust að henni dag eftir dag, og vináttu hinnar litlu stelpunnar sem lánaði henni hiklaust kjólinn sinn og tók hana að sér í styrk sínum og hamingju.

Guð gefi okkur gleði í lífinu. Í fegurð haustsins og marglitri litadýrð og veðurblæ. Svo að við getum séð og notið okkar eigin fegurðar, látið hana sjást í göngulaginu og ljóma úr augum okkar – hvort sem dagar okkar eru fullir af hversdagsfriði eða bryddaðir með örlitlum æsingi og óró, eða applíkeraðir með dapurlegum rósum eða leggingum úr kvíða eða angurværð. Við klæðum okkur í þá hvernig sem þeir eru, þeir eru allir fallegir og við erum fallegar í þeim. Og svo kemur alltaf að því aftur að við sjáum að kjóllinn á flauelisstólnum er einmitt kjóllinn sem við viljum helst af öllu vera í í dag. Og til hamingju með þá daga, njótum þeirra og þökkum Guði fyrir þá. Amen