Upplýsingar

Við skulum leiða hugann að tveimur orðum í kvöld. Annars vegar orðinu föstutíminn og hins vegar orðinu fjársjóður. Þetta gerum við af því að nú er föstutíminn rétt hafinn og af því að vers kvöldsins er um fjársjóð hjarta okkar. Byrjum á fjársjóðnum. Hjarta þitt er þar sem fjársjóður þinn er, sagði Jesús í Fjallaræðunni. Ég veit að engri okkar dettur í hug að bera það upp á sjálfa sig eða aðrar hér í kvöld að fjársjóður nokkurrar okkur sé þar sem miklir peningar eru eða mikið vald eða mikil frægð. Það er þetta þrennt sem er stimplað og vottað að vera þykkur þáttur í undirrót óhamingjunnar í eigin lífi hverrar manneskju og renna svo ákaflega út í samfélagið að það spilli því eins og annað eitur. Eða kannski byrjar eitrið í samfélaginu og rennur inn til okkar. Alla vega, við ætlum ekki að ætla okkur að fjársjóður okkar sé þar. Bara alls ekki.

En gætum nú samt í eins og tvo fjársjóðskassa og gáum hvað við sjáum. Því vondir fjársjóðir eru til og það er jafn líklegt fyrir okkur eins og aðrar manneskjur að slysast til að gægjast í þá og verða hugfangnar af innihaldinu. Það gæti hent okkur eins og annað fólk að heillast af því að verða ofslega ríkar, ofsalega frægar og ofsalega valdamiklar. Við skulum passa hver aðra svo vel að hver passi sjálfa sig. Það er afar heillaríkt. Svo að við njótum þess að eiga peninga, hafa völd yfir okkar málum og eiga góða frægð í hópum sem við elskum. Það er svo gott. Og það er nóg. Alveg nóg. Sjáum nú hvað leynist í þessum fjársjóðskassa. Hér er valdið, hér er frægðin, hér eru peningarnir, alveg eins og okkur mátti gruna. Og hér er baráttan með kjafti og klóm, hér er öfundin yfir að annað fólk nær þessum fjársjóðum, og hér er gremjan yfir því að eiga þetta ekki. Og hér er stríðið við að halda í það sem við náðum þó af þessu. Og hér er óttinn. Hér er óttinn við að misheppnast. Hér er óttinn við aðrar manneskjur sem heppnast betur en við. Og hér er allur heili lífsóttinn eins og hann leggur sig, óttinn við það sem kann að gerast í lífi okkar.

Æ, æ, æ. Ætli við séum nokkur að gá meira í þennan kassa?

Ég held okkur veiti ekki af að gá í kassa með fallegri hlutum. Nú skulum við bara sjá. Hér er þetta líka fína sjálfstraust. Hér er dagleg gleði yfir verkum okkar. Hér er vináttan. Hér er taumlaus gleðin yfir sólskininu og rigningunni og storminum og logninu. Hér er trúin á lífið. Það er miklu fleira í kassanum, alveg eins og í hinum kassanum. Við megum eiga þennan kassa eins og hann leggur sig. Hann er gjöf frá Guði vinkonu okkar. Hún réttir okkur hann og segir, þú mátt eiga hann, elskan mín. Þú mátt eiga alla þessa gleði. Ég er algjörlega og óhagganlega sannfærð um að það er undirstaða lífsgleði okkar að taka á móti þessum fjársjóðum og nota þá hversdags og spari. Allir samanteknir eru þessir fjársjóðir hvorki meira né minna en vinátta Guðs. Það er í vináttu hennar sem við eigum alla þessa fjársjóði. Við eigum vináttu Guðs og það er hún sem er fjársjóður okkar. Þess vegna er hjarta okkar þar, hjá Guði sjálfri. Og þess vegna eru dagar okkar yndislegar. Og þess vegna verðum við samt ekki hugstola og óhuggandi þótt lífið hætti stundum að vera yndislegt og verði ýmislegt annað, hræðilegt og hættulegt og tómlegt og allt sem þú veist að það getur orðið. Við verðum ekki hugstola eða óhuggandi af því að Guð er líka hjá okkur í þeim dögum.

Nú skulum við snúa okkur að hinu orðinu sem er föstutíminn. Það smellpassar við þessar hugleiðingar okkar um fjársjóðinn. Nú skulum við bara sjá. Hvað er föstutíminn? Hann er tíminn til páskanna, síðustu dagar Jesú áður en hann var krossfestur. Við heyrum Passíusálmana lesna á hverju kvöldi ef við leggjum okkur eftir því. Þeir eru ortir um píslir Jesú. Þær sem hann leið vegna svika. Vegna svika faríseanna sem óttuðust hann og hötuðu hann. Og svika Heródesar og Pílatusar sem voru valdamenn utan um músarhjörtu. En líka vegna svika Péturs og Júdasar sem elskuðu hann. Og sannast að segja vegna svika okkar. Það er óhuggulegt og svo sorglegt að við getum varla minnst á það.

Hver telur þú að séu svik okkar?

Við erum yndislegar manneskjur og vinkonur Guðs. Við erum mildar og máttugar. Hvernig höfum við þá svikið Jesúm eins og farísearnir, Heródes og Pílaltus og Pétur og Júdas? Hugsum okkur um. Þetta er mikilvægt mál af því að við megum til með að taka það í hendur okkar og fara með það til Guðs til að fá hennar úrskurð. Ég held að það sé alls ekki ólíklegt að svik okkar séu þau að vera tregar til að taka á móti fjársjóðnum sem hún réttir okkur, öllum gjöfunum sem gera okkur sjálfar, daga okkar og framkomu svo yndislega. Það er ekki á hverjum degi að við finnum þetta hik og svik. Sem betur fer. Við erum illa staddar að vera alltaf að hugsa um svik okkar. En þeir dagar koma að við finnum byrði svikanna og hræðilega kvöl. Hugsaðu þig um. Hvað finnst þér?

Mér finnst það geta verið af alvarlegum mistökum en líka af bráðómerkilegum hlutum. Mismælum sem særa, leti við að verða til blessunar og svo þessum pöddulegu hugsunum sem koma stundum fram í huga okkar og eyðileggja dagana. Ég treysti því að þú þekkir þær líka hjá þér, þessar pöddulegu hugsanir sem ég fyrirverð mig fyrir en koma aftur og aftur þótt ég reyni að losna við þær. Ef ég treysti því ekki að þú þekki þær líka myndi ég ekki þora að segja að ég þekki þær. Nú tökum við vondu fjársjóðina sem við viljum ekki líta í og pödduhugsanirnar sem tilheyra þeim. Við hendum þeim bara. Gott. En þú veist eins og ég að þessar hugsanir koma aftur.

Hvers vegna ætli þær komi alltaf aftur? Jesús sagði það. Það er af því að við lifum enn í tíma þar sem vondu fjársjóðirnir glóa í kapp við góðu fjársjóðina og það verður alveg þangað til Jesús kemur og gerir allt nýtt. Nú skulum við sjá. Því nú er komið að fléttunni milli þessarra tveggja orða: Föstunni og fjársjóðnum. Hvers vegna gekk Jesús gegnum síðustu daga lífsins í kvöl og angist, borðaði síðustu kvöldmáltíðina með vinkonum sínum og vinum, var krossfestur í niðurlægingu og kvöl og reis upp frá dauðum í dýrð og mætti á páskamorguninn? Nú er komið að mikilli spurningu sem guðfræðingar hafa velt fyrir sér um allar aldir og svarað á ýmsan máta. Þess vegna getum við líka svarað á okkar máta. Og nú bið ég ykkur að taka því sem ég segi með öllum þeim fyrirvara sem þið viljið og hugsa ykkar eigin hugsanir. Og svo skulum við hittast aftur og aftur og ræða um þær, því þær skipta svo miklu máli fyrir okkur.

Guðfræðingarnir hafa nefnt orðin friðþæging og endurlausn. Friðþæging er borgun fyrir brot. Endurlausn er leysa aftur það sem var bundið. Ætli Jesús hafi gengið gegnum föstuna með píslum hennar og niðurlægingu og dáið á krossinum til að borga fyrir brot okkar? Ég held ekki. Ég held að við getum notað annað orð um göngu hans. Það er orðið frelsun. Ég held að hann hafi gegnið þennan píslarveg til dauðans og upprisunnar til að frelsa okkur. Hvað heldur þú? Guð kom og varð ein af okkur, varð Jesús. Hún kom af því að hún sá að vondu fjársjóðirnir voru að sliga okkur og af því að þeir voru skelfilega hættulegir svo að allt yndislega fólkið hennar gat hvenær sem er orðið öðru yndislegu fólki hennar til skelfingar. Hún kom til að frelsa okkur frá þeim vondu fjársjóðum sem við flækjumst í og eru líka innan í okkar og koma í ljós í pödduhugsununum.

Guð kom til að frelsa okkur. Hún kom til að gleðja okkur. Hún kom til að kalla okkur til að berjast með sér. Fyrir guðsríkinu. Á móti því sem eyðileggur líf okkar og líf heimsins. Bæði því sem er fyrir utan okkur og því sem er inni í okkur. Hún gefur okkur mátt sem er fyrir utan okkur, í henni sjálfri, í ást hennar og styrk. Þessi máttur er bara í henni. Hvegi annars staðar. Og við megum taka á móti þessum fjársjóði frá henni og eiga hann. Ást hennar og styrk. Hafa hann inni í okkur. Og nota hversdagslega í einu og öllu. Við megum nota alla fjársjóðina í fjársjóði vináttu hennar, vináttuna og veðrið, listirnar og matinn og peninga okkar og það góða vald sem við eigum. Það er allt frá henni. Það eru hinir smáu fjársjóðir í hinum stóra og yndislega fjársjóði sem við eigum í vináttu hennar. Þar er hjarta okkar. Innilega til hamingju. Guð blessar okkur. Amen