Upplýsingar
Einhver hefur stráð flórsykri yfir Esjuna
Einhver hefur breytt grænu í gult og gulu í rautt
Einhver hefur losað límið af laufblöðunum sem límdi þau á sinn stað
Einhver hefur hnoðað ský og leyft þeim að lyfta sér á himninum
Einhver hefur hvíslað að fuglunum að færa sig úr stað og fara til heitari landa
Einhver hefur sagt flugunum að fara í háttinn
Einhver hefur komið Norðurljósunum í svo gott skap
að þau tjútta á himninum í laumi og vita ekki að ég sé þau alveg
Einhver hefur bakað haust úr sumri og hafið nýja tísku þar sem heitir litir eru inn
Einhver hefur gefið mér svo ótal margt að undrast yfir og þakka fyrir
Einhver er svo yndislegur að ég á erfitt með að hætta að dást að honum
Einhver hefur skapað og ég get bara þakkað
Ljóðið Haust eftir Ingunni Huld Sævarsdóttur, úr ljóðabókinni: „Úr hungr míns hjarta“, Reykjavík, 2005
Þannig lýsir ungt ljóðskáld, Ingunn Huld Sævarsdóttir, haustinu. Á skemmtilegan og myndrænan hátt dregur hún fram allar breytingarnar sem því fylgja og sköpunarkraftinn sem í þeim felast. Og hún þakkar Skaparanum. Já, það haustar enn einu sinni, – það fer ekki fram hjá okkur!
Allt frá því ég man eftir mér hefur haustið átt sérstakan stað í hjarta mínu, – verið uppáhaldsársstíðin mín, – ef hægt er að gera þar upp á milli, því svo sannarlega er ég alltaf tilbúin að taka á móti sérhverri þeirra þegar hún lætur sjá sig. Því við getum án efa öll verið sammála um hve ljúft er að finna fyrir hlýju vorsins, taka á móti tilbreytingu og hvíld sumarsins, sem aftur býr okkur undir eftirvæntinguna, sem fylgir haustinu, og sprennandi verkefni vetrar. Eftirvæntingin! Það er líklega eftirvæntingin, þessi kitlandi tilfinning, sem haustið hefur fram yfir aðrar árstíðir. Fyrir utan, oft óendanlega fallega daga stillu og sólar og mikla litadýrð, sem ljóðið endurspeglaði á svo glettnisfullan hátt, þá fylgir haustinu ný byrjun, – nýtt upphaf! Eða hvað?
Þetta haust er einhvern veginn allt öðruvísi en öll hin. Óneitanlega hefur margt breyst síðan síðast og mörg okkar koma miklu fremur þreytt undan sumri í stað þess að vera hvíld og endurnærð. Í stað eftirvæntingarinnar finnum við fyrir reiði og vonleysi, – sum okkar í besta falli æðruleysi. Án þess að ætla að fara um það mörgum orðum hér, þá höfum við, – ég og þú – við Íslendingar, svo sannarlega misst fótana og eigum í fullu fangi með að ná tökum á lífinu og tilverunni að nýju. Það er einmitt þetta sem setur mark sitt á þetta haust.
II.
Þó að himin og haf sé á milli okkar og mannanna tíu sem stóðu álengdar er Jesús var á leið til Jerúsalem eitt sinn, – og guðspjall dagsins segir okkur frá, hafði holdsveikin, – sá skelfilegi sjúkdómur, kippt grunninum undan tilveru þeirra. Í samræmi við lögmál Gyðinga voru þeir útilokaðir frá mannlegu samfélagi. Þeir voru einangraðir, sorgmæddir og vonlausir. Ekkert var eins og áður, ekkert var framundan. – Ekki fyrr en þeir sáu Jesús koma! Hann kveikti vonina innra með þeim. Það hlýtur að hafa örlað á eftirvæntingu í rödd þeirra þegar þeir leituðu ásjár hans og sögðu: „Jesús, meistari, miskunna þú okkur!“.
Þær eru margar frásagnirnar af kraftaverkum Jesú þar sem hann læknar og líknar fólkinu sem hann mætir á leið sinni. Í þessari kraftaverkasögu eru viðbrögð Jesú dálítið frábrugðin. Í stað þess að mennirnir læknist umsvifalaust segir Jesús þeim að fara og sýna sig prestunum. En samkvæmt lögmálinu var það nauðsynlegt skref holdsveikra, sem hlotið höfðu lækningu, til að komast inn í samfélag manna að nýju. Og það var ekki fyrr en þeir lögðu af stað að þeir urðu heilir. Þegar það rennur upp fyrir þeim sneri þó aðeins einn þeirra, Samverji – útlendingur, til baka til að þakka Jesú. Hinir níu héldu áfram til prestanna. Þeirra skylda var við lögmálið.
Frásögur guðspjallanna af kraftaverkum Jesú sýna okkur svo miklu, miklu meira en lækningarmátt hans. Þær sýna okkur hvernig Jesús snertir manneskjuna í miskunnsemi sinni, opnar faðm sinn mót henni og vekur hana til vitundar um kærleika Guðs og umhyggju. Þær sýna okkur þá eilífu gjöf að hjá Guði erum við örugg. Samverjinn sem sneri til baka varð ekki bara heill heldur vaknaði til vitundar um allt þetta og tók á móti í þakklæti. Og þegar Jesús sendir hann leiðar sinnar með orðunum: „Trú þín hefur bjargað þér.“ staðfestir hann þá andlegru vakningu sem hann hafði orðið fyrir. Ólíkt Gyðingunum níu sem uppfylltu skyldur lögmálsins fylgdi Samverjinn hjarta sínu.
Nýja testamentið einkennist af átökum þessara tveggja póla: Lögmálsins – skyldunnar annars vegar og fagnaðarerindisins – kærleikans hins vegar. Jesús gagnrýndi lögmálsdýrkun Gyðinga, – ekki af því að lögmálið væri slæmt í sjálfu sér, heldur vegna þess að það fór að skipta svo miklu meira máli en það sem það átti að standa vörð um. Manneskjan varð smátt og smátt þræll þess um leið og hún missti sjónar á því sem það átti að vernda, – hún missti sjónar á lífinu sjálfu.
Um átök milli hins ytra og innra, hins veraldlega og andlega, er að ræða, – átök á milli sjálfsréttlætingar og réttlætingar af trú. Þessi átök hafa alltaf verið til staðar. Þau endurspeglast í viðhorfum okkar og breytni. Þau eru okkar eilífa glíma. Var það ekki ofuráhersla okkar á hið veraldlega sem varð til þess að við misstum fótana? – Í stað kærleika, sem á rætur í trú okkar, – mannvirðingar og heiðarleika, skiptu veraldleg gæði; peningar, eignir og ytra útlit öllu máli. Við horfðum fyrst og fremst á okkur sjálf. Við urðum viðmiðið sem allt annað snerist um. Má ekki segja að við höfum slegist í hóp þeirra níu sem fóru að sýna sig prestunum til að komast til virðingar í mannlegu samfélagi að nýju? Horfðum við ekki, eins og þeir, fram hjá öllu því góða sem okkur hefur verið gefið og er sífellt gefið. Gleymdum við ekki að þakka?
Dr. Lisa Cataldo, lektor í sálgæslufræðum og sjálfstætt starfandi sálgreinir, segir í viðtali í Fréttablaðinu fyrir nokkru að hún standi föstum fótum í þeirri trú að kreppur komi til af því að það er eitthvað mikilvægt sem við höfum vanrækt og því sé eitthvað sem sæki að okkur með þessum einkennum. Þannig sé núverandi kreppa eins konar fyrirlestur um það sem við verðum að læra. Lisa, sem vann um árabil á Wall Street áður en hún fór að leggja stund á guðfræði, sagðist hafa notið þess starfs en hafi á einhvern hátt ekki fundist störfin þar verið sérlega merkileg. Hún vildi gera eitthvað merkingarbærara við lífið en það sem peningarnir gátu veitt henni. Hún segir: „Ég hafði líka verið, líkt og svo margir í New York, í sálgreiningarmeðferð og það merkilega og persónulega ferli fór að setja hlutina í samhengi. Þetta stuðlaði að því [sem] að ég myndi jafnvel leyfa mér að kalla andlega vakningu mína. En andleg vakning í mínum huga er að vakna upp við það að það er meiri og dýpri merking með lífi manns en maður er að fást við og að vinna með veraldlegan auð gefur ekki það sem andleg auðlegð getur gefið.“
Samverjinn, einn hinna tíu, varð fyrir andlegri vakningu þegar Jesús læknaði hann. Augu hans opnuðust fyrir því sem raunverulega máli skiptir. Hann tók við gjöfinni sem Jesús rétti að honum, – gjöfinni sem hann réttir líka að okkur. Ég held við getum verið sammála um að oft þurfa öll sund að vera lokuð til að augu okkar opnist, við verðum fyrir veikindum eða missi og grunnur tilveru okkar brestur. Við lendum í kreppu, – kreppu eins og við erum stödd í nú og fyrst þá sjáum við og skiljum að það eina sem skiptir máli er að taka á móti lífsins gjöf í þakklæti. Að þar liggi okkar einasta von. Og það er aldrei of seint að staldra við, opna augun og taka við umhyggju Guðs og uppörvun. Við höfum ætíð tækifæri til að varpa byrðunum þungu á Guð og hún ber hana með okkur. Og við getum treyst því að erfiðleikarnir munu líða hjá. Við getum treyst því að þótt við bregðumst þá bregst Guð ekki.
III
Einhver hefur gefið mér svo ótal margt að undrast yfir og þakka fyrir
Einhver er svo yndislegur að ég á erfitt með að hætta að dást að honum
Einhver hefur skapað og ég get bara þakkað
Unga ljóðskáldið þakkaði Skaparanum fyrir margbreytileika haustsins og allt það ótalmarga sem hún undrast yfir. Hún þakkaði þeirri sem annað skáld lofaði fyrir óralöngu í 146. Davíðssálmi með orðunum: „Ég vil lofa Drottin á meðan ég lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til“ (og áfram) „…hún er sú sem skapaði himin og jörð, hafið og allt sem í því er. Hún sem er ævinlega trúföst“ (Sálm. 146, v. 2, 6) Megum við taka á móti haustinu í þessari undran, vitandi að við erum í skjóli Guðs. Megum við taka á móti haustinu af æðruleysi.