Upplýsingar

Það er eitt það allra besta sem við eigum að fá að vera með fólki sem vitnar um trú sína.  Segir frá henni.  Segir hvernig það treystir Guði bæði í meðbyr og mótlæti.  Eða það finnst mér.  Af því að það gefur okkur hinum í kringum þau ró og styrk sem við þurfum að eiga í daglegu stússinu – hvað þá heldur í kvíðanum, sorginni og æsingnum. Og í gleðinni, fagnandi og yndislegri sem við skulum alltaf þakka Guði fyrir og njóta og njóta.

Þú veist hvernig það er,  dagarnir eru alla vega eins og við segjum hver við aðra aftur og aftur.  Og það er gott að segja það.  Af því að við viljum alltaf láta hver aðra og hvert annað vita að við vitum það öll að lífið er alla vega og að við biðjum hvert fyrir öðru.  Og að gleðin kemur alltaf aftur þótt stundum syrti svo verulega að það er eins og það verði ómögulegt að gleðjast aftur.

Á hverjum degi alla vikuna hef ég hitt fólk sem hefur sagt okkur í kringum sig frá nærveru Guðs í lífi þess.   Það er ólýsanlega gott.  Á mánudaginn hittumst við hjá sjálfum okkur á Laugaveginum á námskeiðinu um Galatabréfið og á mikvikudaginn hittumst við í bænastundinni í hádeginu. Og hina dagana hitti ég líka fólk sem sagði frá rótfastri og fagnandi kristinni trú sinni.  Ég ætla að draga allar þessar frásögur saman í eina sem er um hana Guðrúnu í Guðrúnarsöfnuðinum.

Guðrún var þjóðkirkjukona sem stofnaði sinn eigin hóp í þjóðkirkjunni, alveg eins og við gerum í Kvennakirkjunni.  Hún hafði samkomur í Hörgshlíðinni en þar áður í Hafnarfirði og bjó þar skammt frá með Salbjörgu vinkonu sinni í litlu timburhúsi.  Þær buðu mér einu sinni í morgunkaffi og tóku á móti mér í forstofunni.  Það var þar kassi með viskustykki yfir og Guðrún sagði:  Þetta eru kartöflurnar hans Rönning sem hann ætlar að setja niður í garðinn sinn.  Við breiðum yfir þær hérna ögn frá ofninum svo þær verði mátulegar.  Svo settumst við í stofuna og í miðjum bolla hringdi dyrabjallan og rödd ungrar konu í ganginum sagði við Guðrúnu að hún hefði lent í árekstri en það hefðu engin meitt sig og sig langaði svo til að koma og þakka Guði fyrir.  Og Guðrún þakkaði Guði og svo fór konan aftur út.  Síminn hringdi nokkrum sinnum og Guðrún svaraði.

Stundum fullvissaði hún einhver um að Guð væri hjá þeim og stundum þakkaði hún Guði fyrir eitthvað svo gott sem hafði gerst hjá þessu fólki. Ég man alltaf eftir þessari morgunstund í stofunni þar sem bænin bjó.  Og fólk gat komið eða hringt til að taka þátt í henni.  Og farið með blessun hennar aftur út í hringiðuna eða kyrrðina eða hvað sem það var að gera.

Ég vissi líka um lúterskar nunnur í Strassborg sem höfðu opið hús fyrir fólk sem vildi tala við þær og tala með þeim við Guð.  Ég treysti því að stofurnar okkar á Laugavegi séu líka heimili bænarinnar þar sem huggun og styrkur og gleði trúarinnar býr og er send til þín hvar sem þú ert að sýsla við þitt eða takast á við það.  Því þar er beðið fyrir okkum öllum. Í Kvennakirkjunni.  Af því að það er grundvöllur allrar samveru okkar, það að við eigum sameiginlega trú sem uppörvar okkur dag eftir dag.

Það er trúin á Guð vinkonu okkar.  Það er vissan um að hún kom og var Jesús.  Hann er hún sem kom og var hjá okkur, í lífinu sem blasir við okkur í meðbyr og mótlæti, sorg og fögnuði.  Hann sagðist vera sá sem var talað um í Ritningunni.  Hann sagði að hann væri frelsarinn, eini frelsarinn.  Hann var kominn frá Guði sem var sú eina sem er Guð.  Hann sagði að Guð væri faðir sinn.  En hann talaði líka um Guð í kvenmynd, um konu sem hefur heiminn í hendi sér eins og kona sem hnoðar deig og bakar brauð og sópar húsið sitt til að leita að dýrgripi.

Og hann sagði að hann væri eins og móðir sem vill safna öllum heiminum til sín.  Við heyrðum Mörtu lesa  það.  Það er af því að Jesús talaði um Guð í kvenmynd sem við bæði megum og eigum  að gera það líka.  Af því að það skiptir máli.  Það skiptir máli að hún er í hópi okkar kvenna og skilur okkur eins og við erum hvorki skilgreindar eða séðar eða heyrðar nokkurs staðar annars staðar.  Þegar við tölum um Jesúm tölum við um Guð og þegar við tölum um Guð tölum við um Jesúm.   Við vitum að hann er hún sem kom og skapar og frelsar og er alltaf hjá okkur.

Þegar kristin kirkja byrjaði að prédika var það aðalatriði prédikunarinnar að Jesús var Guð sem kom.  Hann sem hafði verið boðaður alveg síðan Guð kallaði Ísrael til sérstakrar vináttu við sig.  Nú var hann kominn. Frelsarinn mikli og eini.  Guð var komin til fólksins síns.  Hún reisti Jesúm frá dauðum.  Það var upprisan sem sannaði að hann var hún sem var komin.

Fólk vildi koma ýmsu öðru að í boðskap safnaðanna.  Það vildi tala um lögmál Gyðinganna sem var ekkert undarlegt af því að margt fólkið í fyrstu söfnuðunum hafði alist upp í gyðingatrú.  Það vildi tala um stjörnuspeki og þekkinguna sem sameinaði öll trúarbrögð og um heimspekina sem var svo mikils metin í grískri menningu.  Ekkert af þessu var undarlegt því fólk var alið upp í þessu eða kynntist því seinna.  En þau sem höfðu sjálf heyrt Jesúm tala þverneituðu og sögðu að upprisan væri grundvöllur trúarinnar og að það eina sem skipti máli væri að við tryðum og treysum því að Jesús væri Guð sem var komin.

Við vitum það öll að það er sagt enn þann dag í dag að allt mögulegt ætti að vera með í kristinni trú.  Það er enn sagt og ekki síður en fyrr að Guð samþykki allt sem okkur þykir hún eiga að samþykkja, líka það  að Jesús sé ekkert sérstakur.   En hann er það.  Og Guð samþykkir ekki hvað sem er. En hún samþykkir okkur.  Og hugsum um það þegar við syngjum um hamingju okkar hvað það er undursamlegt að hún skuli samþykkja okkur.  Alveg skilyrðislaust.  Bara af því að hún elskar okkur svo heitt og svo heitt og finnst við svo sæt og svo góð og traustvekjandi og yndisleg.

(Sungið Ég er hamingjubarn).

Það er á þessu sem ég sagði áðan sem við byggjum vináttu okkar við streituna.  Því að Guð er hjá okkur og frelsar okkur aftur og aftur.  Þá getum við ekki bara þolað streituna heldur umgengist hana með þokka og vináttu.  Af því að  við treystum Guði.  Henni sem elskar okkur, skapaði okkur, frelsar okkur aftur og aftur frá erfiðum hugsunum okkar og er alltaf hjá okkur.

Kemur streitan að innan eða utan?  Bæði. Streitan er það þegar það sem er fyrir utan okkur og það sem er innra með okkur lendir í árekstri hvert við annað.  Það er kannski af því að við höfum sett okkur of stífa stundatöflu.  Eða aðrar manneskjur hafa skrifað þessa töflu.  Og við verðum yfirkomin af angist af því að streitast við að ná henni.  Hvað gerum við þá?  Við reynum að breyta.  Svo að stundataflan verði betri.  Ég ætla að segja það aftur:  Við reynum að breyta stundatöflunni.  Við getum það ekki sjálf – en við getum það með Guði.

Sumt af streitunni er eitthvað sem við þurfum  ekki að láta þjaka okkur lengi.  Við getum stigið út úr henni.   Streitan er erfiðleikar huga okkar.  Og við getum stundum gengið út úr henni með því að ganga inn í aðrar hugsanir.  Ein okkar sagðist vakna á morgnana með angist sem hún hlýtur að bera af því að líf hennar er erfitt núna.  Þá hitar hún sér kaffibolla og sest við skrifborðið sitt og snýr hún sér að verkefnum sínum.  Hún festir hugann við þau og fyllir hugann af þeim.  Og þá taka þær  hugsanirnar hugsanirnar af streitunni sem hélt þeim í greipum sínum.

Kannski  kemur streitan af því  að við þurfum að gera eitthvað sem við treystum okkur ekki til.  Það er sagt að ef það er eitthvað sem við treystum okkur ekki til skulum við endilega hreint gera það.  Af því að þá förum við að treysta okkur til þess.  Það getur verið.   Það er stundum best.  Eða það held ég.  En það getur líka stundum verið best að vera ekkert að gera það sem við treystum okkur ekki til og fá frekar til þess annað fólk sem kann það og gerir það án minnstu steitu.  Og láta okkur bara líða vel og losna við streituna.  Eða hvað heldur þú?

En kannski kemur streitan með andstreymi  sem við verðum að standa okkur í.  Við verðum að gera það sem er erfitt og komumst ekki hjá því.  Við verðum að horfast í augu við erfiðar hugsanir sem sleppa okkur ekki þótt við förum að gera eitthvað annað.  Og hvað gerum við þá?  Við förum til Guðs og segjum henni að nú getum við þetta ekki en verðum samt að gera það.  Og hvað gerir hún?  Hún gefur okkur máttinn sem við þurfum til að gera það sem við héldum að við gætum ekki.

Það getur verið að þessar hugsanir séu sorgin.  Yfir  missinum.  Og við getum ekkert gert.  Ekkert annað en fara til Guðs og segja henni að við getum ekkert gert.  Og hún huggar okkur og lætur okkur standast.  Hún huggar fólkið okkar og lætur það líka standast.  Í sálminum sem ég syng suma daga er sagt að við viljum elska Jesúm og að í nafni hans finnum við frelsi sem dvín aldrei.   Ég held að það þýði að þótt okkur finnist við í fangelsi angistar okkar og vanmáttar þá sé Guð samt hjá okkur.  Og það er frelsi okkar.  Að vita að við erum hjá Guði. Og það er ómetanlegt.Stórkostleg huggun og hjálp.

Það sem ég er að segja er það að við skulum bara taka á móti streitunni.Við skulum ekki óttast hana svo mikið að hún ráðskist með okkur eins og við höfum engan vilja.  Við skulum taka hana alvaralega og leggja það á okkur að gá að henni og breyta því sem við þurfum að breyta svo að við losnum við hana.  Við skulum taka á móti henni þegar við getum ekki annað,  læra um leið að beina hugsunum okkar að öðru en henni, tala um hana við Guð, og kveðja hana svo þegar við mögulega getum.

Hugsum um það hvernig okkar eigin streita er.  Hvað er það sem veldur þér streitu?  Hvað gerir þín streita við þig?  Og hvað gerir þú við hana?

Ég segi það aftur: Við þurfum að sjá  hvað gerir okkur streitt.  Og taka það alvarlega.  Og gera eitthvað í því.  Við þurfum að sjá og hugsa og skilja og breyta.  Við getum það.  Við getum það.  Við getum það.   Nú hvetjum við hver aðra og hvert annað til að gera það að sameiginlegu verkefni vetrarins að taka streituna alvarlega.  Við gerum það með því að treysta Guði.  Segja henni frá þessu.  Hlusta á hana.  Hún er vinkona okkar sem skapar og frelsar og er alltaf hjá okkur. Hún heyrir alltaf og á alltaf ráð – líka við streitunni.  Við skulum bara sjá.  Amen.