Upplýsingar
Innra með okkur og í umhverfinu allt um kring eru stórkostlegar uppsprettur lífsgæða. Snemma í morgun, í dag og í kvöld hér í Laugardal eru uppsprettur lífsgæða, gamlar og nýjar, í sjálfum okkur, í samskiptum okkar og síðast en ekki síst í anda Guðs, sem býr með okkur öllum. Verkefni okkar er að tengjast uppsprettunum, taka eftir þeim, sjá þær, skynja þær og taka við þeim.
Í uppsprettum lífsgæðanna eru tækifæri. – Við getum spurt: • Hversu vel sjáum við tækifærin í aðstæðum okkar? • Sjáum við tækifærin í samskiptum okkar við aðra? • Sjáum við tækifærin í því sem aðrir geta og gera? • Og í því sem við sjálf getum og gerum? • Njótum við þess að tengjast anda Guðs? Við erum stödd í einum af fallegustu görðum Íslands. Hvernig líst ykkar á að líta á líf okkar sem garð? Að horfa á líf okkar sem garð sem við ræktum? Líta á líðandi stund og verkefni hennar sem okkar eigin garð, og verkefnið er að rækta garðinn okkar. Líta svo á að í garðinum séu margir möguleikar til að rækta, margar jurtir, margs konar blóm og tré, og við sjáum ræktunarmöguleikana og tökum ákvarðanir. • Hvað getum við ræktað og hvað getum við ekki ræktað? • Hvað viljum við rækta og hvað ekki í okkar eigin garði? • Hvaða plöntur viljum við vernda og hlúa að? • Hverju viljum við sleppa og hafa alls ekki inni í garðinum okkar? • Þurfum við að færa til plöntur – nær eða fjær? • Ættum við að reita arfann í garði okkar eigin huga – og henda illgresinu? Séra Auður Eir hefur búið til vísu um svona tilfæringar og tiltektir. Hún mælir með því að taka öðru hvoru til í okkar eigin lífi, sortera og færa til. Vísan er svona: Henda – geyma og hafa fremst. Hún segir að við getum ákveðið hvernig við lítum á hlutina í lífi okkar, við stýrum hvaða hugsanir við höfum næst okkur, hverjar við viljum færa til, hverjar við ætlum að geyma, hverjar við viljum jafnvel henda. Og hvað við viljum hafa fremst, til að sjá það vel og njóta þess sem okkur þykir mest til um, njóta þess sem nærir okkur og gleður. Oftast er tiltektin í sambandi við hugsanir, sambönd, verkefni eða hluti. Auður talar um tiltektina miðað við tiltekt í skáp en má ég stinga upp á því að við notum þessa vísu líka þegar við hugsum um líf okkar eins og garð, garð okkar eigin huga. Áður en við byrjum á því að henda, geyma og hafa fremst spekúlerum við í hlutunum. Horfum yfir, spáum í hlutina, tökum ákvarðanir gerum áætlun. Í garði okkar eigin huga eru hæðir og hólar, lautir og lægðir. Hæðirnar má nota til að taka sprett, hlaupa upp og horfa yfir. Hafa yfirsýn og sjá hvernig gengur, hvað grær og dafnar og hvar óræktin er, hvað er visið og vanrækt. Við getum líka horft yfir girðinguna, séð vöxtinn handan við girðinguna, séð hvaða hugmyndir eru notaðar í öðrum görðum. Lautirnar má nota til að komast í var, vera í skjóli, hvíla sig og íhuga, og skoða hugsanir sínar, vega og meta, og taka ákvörðun. Taka ákvörðun miðað við það sem við sjáum frá hólnum, það sem við sjáum í huga okkar, miðað við tækifærin hverju sinni, hvað tilheyrir möguleikum okkar. Það er Guð sem gefur okkur tækifærin og styður okkur í því að nota þau. Gefur okkur nýjar hugmyndir og hugsanir og hjálpar okkur að sjá hvar möguleikarnir eru. Þegar allt virðist komið í þrot, við sjáum ekki út úr myrkrinu, er Guð á sínum stað, í hjarta okkar og ef við stöldrum við og hlustum, – heyrum við hvar tækifærin eru, hvað við getum gert til að rækta blómin okkar, lífgað þau, gefið þeim næringu. Þessum blómum sem eru í garði lífs okkar, garði okkar eigin huga. Um þetta er skrifað í Jesaja. Þar segir hvernig Guð gefur okkur frjósama garða og gerir eyðimörk að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum. (Jes. 35.1-2 og 41.18 og 43.19 og 55.10) Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja. Þau skulu blómgast ríkulega og fagna af unaði og gleði. Ég geri eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum. Sjá, nú hef ég nýtt fyrir stafni. Það tekur þegar að votta fyrir því. Sjáið þið það ekki? Ég geri veg um eyðimörkina og leiði ár um öræfin. Því eins og regn og snjór fellur af himni ofan og hverfur eigi þangað aftur fyrr en það hefur vökvað jörðina og gert hana frjósama og gróandi og gefið þeim sem sáðu sæði og brauð þeim sem eta, eins er því farið með mitt orð sem útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, ekki fyrr en það hefur framkvæmt það sem mér líkar vel og komið því til vegar sem ég fól því að framkvæma. Þessi texti getur lesist svona: Ég hef nú nýjar hugmyndir og er farin að framkvæma þær og þið sjáið það. Ég gef ykkur ný blóm í garðinn, ég vökva hann svo að það sem er þurrt og vatnslaust verður mjúkt og ilmandi og blómin vaxa og trén fá ný lauf. Það er eins með garð ykkar eigin huga. Ég gef ykkur orðið mitt. Og það hefur áhrif. Þið farið að gera það sem gleður ykkur og verður að svo miklu gagni. Náð Guðs og orð Guðs kemur til okkar og við leggjum okkur fram við að sjá og heyra. • Sjá vel og vandlega hver og hvar við erum. Gefum sjálfum okkur umboð til að vera við sjálf, þar sem við erum, bara rétt si svona, eins og við erum. Stöndum með sjálfum okkur í því sem við erum, hér og nú. • Gerum okkur grein fyrir hverjum við tilheyrum. Tökum ákvörðun um hverjum við viljum tilheyra. Njótum þess sem samvera okkar við aðra gefur og njótum að gefa af sjálfum okkur í samtali við aðra. Styrkjum aðra með framkomu okkar, leitum til annarra og tökum á móti styrk þeirra. • Við vitum hvert við ætlum og hvað við ætlum að gera. Ákveðum hvað fær að vaxa í okkar eigin garði. Gerum það upp við okkur hvað við leggjum rækt við, hvað við reynum að þroska og efla innra með okkur til að eiga frjósaman og fallegan garð, garð okkar eigin huga. Sjáum tækifærin í aðstæðum okkar og lifum lífinu núna, því það er best. Í kvöld erum við stödd í grónum og friðsælum garði. Garðurinn er líka svið merkilegrar sögu og kraftar náttúraflanna ólga undir. Hér er svið atvinnusögu kvenna, um dugnað og þrautseigju. Þær komu hingað með þungar byrðar og vinnan var erfið og hættuleg. Aðstæður voru einstakar og við sjáum fyrir okkur að stundirnar hafi líka verið góðar og samstaða og vinátta á milli kvennanna. Leyndarmál lífsgæða eru í samskiptum okkar hver við aðra, í skilningi og samstöðu. Hamingja fólks vex með góðum samskiptum. Hamingjan mælist mest þegar fólk fæst við eitthvað sem skiptir það verulega miklu máli, eitthvað sem hefur merkingu og tilgang. Veraldleg gæði hafa áhrif á hamingjuna, en bara um stund, svona allra fyrstu metrana. Síðan kemur að því að efnislegu gæðin geta ekki lyft hamingjunni, hún bara stendur í stað þó efnin aukist. Það sem skiptir máli er að fólk sjái tilgang með lífi sínu og gefi sér tíma til samskipta sem eru gefandi, samskipti heima eða í vinnu, sambönd sem efla og styrkja. Þetta eru samskipti sem snúast um að vera með fólki og innan um fólk, sem hugsar fallegar hugsanir, hugsar um þig bara af því að það vill og getur. Þessi sambönd og samskipti hafa sterk áhrif á hamingjuna. Góð samskipti eiga rætur í umhyggju og umburðarlyndi og þau hjálpa okkur að sjá tækifærin í lífinu og grípa þau. Þannig getum við aukið persónulegu hamingju okkar og hamingju hinna, velferð hópsins. Vinátta styrkir og skapar nýjar hugsanir, nýtt frelsi, rétt og jafnræði. Vinátta er lykilorð kvennakirkjunnar. Jesú sagði: Ég gef ykkur nýja möguleika, möguleika vináttunnar. Þið skuluð sýna hvert öðru vináttuna sem ég sýndi ykkur. Þið munuð þá þekkjast alls staðar af þessari vináttu og sýna að þið eruð vinkonur mínar og vinir. (Jóhannes 13.34) Skilningur, samstaða og verkaskipting eru merki góðrar vináttu. Í verkaskiptingunni sjáum við leyndarmál lífsgæðanna. Við gerum ekki alla hluti sjálfar, getum ekki allt og viljum ekki gera allt. Fegurðin felst í því að við erum mismunandi, góð til mismunandi verka: Að njóta þess að vera sjálf flink í einu og að næsti er flinkur í öðru. Saman er þetta góð heild, samverkar til góðs. Það hefur nefnilega enginn hrópað til okkar: Gjörið svo vel að geta allt. Gjörið svo vel að vera góð í öllu sjálf, ein og sér. Miklu frekar er sagt: Gjörið svo vel að vinna saman. Má bjóða þér að hugleiða kostina við það að geta ekki allt? Má bjóða þér að hugleiða kostina við það að geta ekki allt sjálf? Kostina við það að vera góð í mjög mörgum atriðum og að vinkona þín er góð í ýmsum fleiri atriðum. Alls eru þetta fjölmörg mjög góð atriði, sum sameiginleg, önnur einstök og þau eflast eftir því sem fleiri leggja saman. Í Rómverjabréfinu (12, 6-8) segir að hvert okkar hafi einstaka hæfileika og einstaka tilveru. Saman bætum við hvrrt annað upp og njótum kosta hvers annars. Um leið og við styðjum hver aðra, styðjum við sjálfar okkur, stöndum með okkar eigin hæfileikum og hugmyndum. Hlustum á hugmyndir annarra og njótum hæfileika þeirra. Í garði okkar eigin huga eru landamerki. Merkin sýna hvernig landið liggur, hvernig það afmarkast. Þannig höfum við yfirsýn, sjáum hvað er okkar eigið – hvernig gengur með okkar eigin ræktun. Kannski viljum við staldra við, skoða eitthvað sérstakt og hlúa að því; vökva eða færa til, flytja blóm og plöntur, nær eða fjær. Við njótum þess að vita af hinum görðunum, kíkjum yfir girðinguna og fáum kannski lánaðar hugmyndir, plöntur eða afleggjara hjá nágrannanum. En um fram allt setjum við okkar eigin ramma, höfum hekk eða girðingu til að þekkja mörk okkar. Sannarleg getum við, ef við viljum, fært út girðinguna. Þetta er falleg girðing sem afmarkar það sem tilheyrir okkur, það sem við ætlum að gera, getum og þurfum að gera. Mörkin setjum við sjálf til að greina frá því sem öðrum tilheyrir. Við sjáum hvað það er sem við ætlum og viljum og hvílum rólegar í því að hinum megin við girðinguna er annar garður þar sem annar hefur umsjón. Samliggjandi garðarnir eru hluti af einni heild, víðlendi Guðs. Greinar á frjósömum vínvið eins og Jesú lýsti: Ég er vínviðurinn og þið eruð greinarnar. Verið í mér og ég verð í ykkur. (Jóhannes 15) Guð er undirstaða okkar, skjól og styrkur. Við eigum lítinn skika á akri Guðs, uppspretturnar næra garðinn og með samvinnu áorkum við miklu. Það eru stórkostlega forréttindi að eiga félaga og vini sem kunna og geta það sem við kunnum ekki og getum ekki. Það er stórkostlegt að skoða, skilja og skapa saman – frelsi og lífsgæði. Það er líka stórkostlegt að eiga vísuna: Henda – geyma og hafa fremst. Við hittumst við þvottalaugar, vinnum saman og biðjum saman og gróðurlendið stækkar. Við hendum gömlum hugmyndum, órétti og sársauka. Geymum dýrmætan arf og góðar hugmyndir. Höfum fremst það sem skiptir mestu máli, nærir okkur, gleður og styrkir. Kosningarétt, Kvenréttindafélag, Kvennafrídag, Kvennakirkju: Frelsi og rétt. Með samstöðu verða til hugmyndir og hugmyndunum fylgir hugrekki til að nota frelsi okkar. Við sköpum saman orku til góðra verka. Þetta gerist vegna þess að fólk hugsar fallegar hugsanir hvors til annars og um hvort annað, bindst samtökum og tekur ákvörðun um að gera, breyta og bæta. Breyta, hér og nú, í krafti frelsis og með því að vinna saman, berjast og biðja saman. Og þetta hefur haft óendanlega mikil áhrif á hópinn, á hverja og eina og fyrir alla heildina. Frelsið í okkar eigin huga skapar hugrekki og síðast ekki síst gleði. Við hvílum í okkar eigin styrkleika, í skjóli Guðs. Lífsgæðin okkar eru samofin sístæðri vegferð á milli þriggja verkefna: 1. Að vera það sem við erum 2. Að tilheyra öðrum 3. Að verða það sem við getum og viljum verða Verkefnin eru öll tengd og útkoma eins verkefnis ræður útkomu annars. Grunnurinn er öruggi í eigin tilveru og að vera viss um það hvað við viljum. Taka ákvörðun, standa með sjálfum okkur, vita hverjum við tilheyrum og leita þangað. Opna fyrir tækifærin; sjá, skilja og skapa – eitthvað nýtt. Frelsi hugans skapar innsæi, yfirsýn og framtíðarhugmyndir. Við erum musteri Guðs og yndisleg eins og við erum. Hvert okkar hefur einstaka hæfileika og einstaka tilveru. Saman bætum við hvert annað og njótum kosta hvers annars. Við ákveðum hvað við viljum gera í aðstæðum okkar. Við ákveðum hvað það er sem við viljum ekki gera og höldum okkur við það. Við hvílum í vissunni um að margir aðrir kunna og geta það sem við getum ekki. Við erum sköpuð í Guðsmynd og erum börn Guðs. Okkur er ætlað að njóta lífsins og vera við sjálf, njóta þess að vera yndisleg og takmörkuð og gera eins vel og við getum. Við vöndum okkur og skoðum vel hvað við getum og viljum. Næst er að taka ákvörðun og stefnu, bera ábyrgð og standa með sjálfri sér. Hjá sjáfri mér er ég við völd, ég nýt þess að vera með öðrum og á mér athvarf í skugga vængja Guðs. (Sálm. 91. Rómverjabréfið, 12, 6-8.). Hlustum og heyrum uppspretturnar streyma. Opnum fyrir flæði þeirra og sjáum tækifærin. Hlustum, heyrum, horfum, sjáum og skiljum – og sköpum eitthvað nýtt; nýja hugsun, nýja hugmynd, nýjan skilning. Við vöxum og verðum stærri í sjálfum okkur, skiljum betur og njótum betur. Sterk innra með okkur getum við styrkt aðra. Verðum það sem við getum með Guðs hjálp, örugg og í samfélagi þar sem er skilningur, umhyggja, umburðarlyndi og styrkur. Það er dýrmætt að sjá og skilja hver við erum, hvað við getum og hvað við ætlum. Sjá tækfærin í okkar eigin lífi, finna uppsprettur lífsgæða í okkar eigin garði og allt um kring. Það er dýrmætt að tengjast uppsprettunum, grípa tækifærin og njóta lífsins, hér og nú. Þó er allra mikilvægust vissan um að Guð er okkur eilíf uppspretta og gefur okkur möguleika til að njóta lífsins. Guð þekkir okkur og sér, alltaf og alls staðar. Guð lætur ásjónu sína lýsa yfir okkur og er okkur náðug. Okkar er að taka á móti náð Guðs. Megum við njóta lífsins í okkar í eigin garði – sem er hamingjugarður í landi Guðs.