Upplýsingar

Þegar ég var í Verslunarskólanum las ég dönsku blöðin. Þau voru skruggugóð. Mér fannst Söndags BT best. Og líka fallegast. Einu sinni var skrifað í einni greininni sem birtist innan í ramma um konu sem kom til læknisins síns til að tala um sjálfa sig. Góða, sagði læknirinn, taktu þig nú saman. Og konan trylltist. Og eyðilagði eitt og annað hjá læknininum, kannski stóla og borð, kannski bara blómavasa, ég man það ekki. En niðurstaða greinarinnar var sú að hún kom einmitt af því að hún gat ekki tekið sig saman. Og það var einmitt það sem átti ekki að segja við hana að hún gæti tekið sig saman.
Það eru fimmtíu ár síðan ég las þessa grein. Ég hugsa að ég hugsi ekki um hana á hverju ári síðan, en ég hugsa samt oft til hennar. Af því að ég skildi aldrei hvað var verið að segja. Og ég skil það ekki enn. En kannski skil ég það seinna í kvöld, þegar ég er búin að spjalla um þetta við ykkur. Mér finnst ég skilja að hún var búin að fá nóg af einhverju sem hún réði ekki við og var komin til læknisins í von um að hann hjálpaði henni. Og ég hugsa mér ein og önnur skiptin sem ég stóð nálægt þessum sporum sem hún stóð í. Og það er ekkert gaman að rifja þau upp. Það var þegar ég sagði við dætur mínar NEMA HVAÐ þegar þær litlar og góðar helltu mjólkinni yfir allt kvöldmatarborðið og ég þreytt af erli dagsins megnaði ekki að segja neitt annað. Það var þegar ég gekk þrisvar kringum Tjörnina til að reyna að finna út hvað ég ætti að hugsa um ein og önnur mál í vinnunni sem ég hafði eða reyndi að fá, en hafði ekki hugmynd hvað ég ætti að hugsa um en varð samt að hugsa um. Skilurðu? Klingir þetta einhverjum bjöllum hjá þér? Manstu eftir einhverjum skiptum þegar þú vildir hafa gert annað en þú gerðir eða vildir hafa vitað hvað þú áttir að hugsa og gera en vissir það ekki ? Sumar okkar hafa sagt frá því. Þær sögðu það við okkur margar og alls ekki sem leyndarmál eða trúnaðarmál. Þess vegna get ég sagt frá því. Sem betur fer. Af því að það hjálpar okkur öllum hinum að heyra um hugsanir hinna um það sem við erum að hugsa um. Þær sögðu: Ég vildi að ég hefði vitað hvað ég átti að gera þegar mamma veiktist. Eða þegar Sigga vinkona skildi. Eða þegar mér var sagt upp í vinnunni. En ég vissi það ekki. Og af því að ég vissi ekkert hvernig ég ætti að bregðast við þessu gerði ég ekki það sem ég veit núna að ég hefði getað gert. Ég held að þetta sé svona. Ég held að við getum bara ómögulega vitað alltaf hvað við getum gert til þess að safna okkur saman, ná taki á okkur og gera það sem er best fyrir okkur. Það var þess vegna sem konan í rammagreininni í Söndags BT kom til læknisins síns. Til að fá hann til að líta á málið með sér. Eða það held ég.

Ég held að við komumst allar í þau spor endrum og sinnum á ævi okkar að hafa ekki hugmynd um hvernig við eigum að bregðast við því sem gerist. Við förum í roluköst. Svo léttileg að það er nóg til að ganga út úr rolukastinu að laga til í skjölunum, skúra gólfið eða baka brauð eða fara út að ganga eða hringja hver í aðra. Við söfnum okkur saman og gerum eitthvað svona. Eða við söfnum okkur saman með því að gera akkúrat alls ekki neitt. Við leggjum okkur bara eða horfum út um gluggann. Það er líka að safna okkur saman. Og með því leyfum við rolukastinu að faðma okkur áður en það svífur frá okkur og fer. Og við rísum upp til nýrra dáða, fegnar frelsinu og glaðar yfir sjálfum okkur og trú okkar. Trúnni á Guð sem gefur okkur traustið til sjálfra okkar. Þegar á ævina líður sjáum við í ýmsu sem mætir okkur að við höfum mætt því áður. Við eignum lífsreynslu. Og það er ekki bara orð heldur undursamlegt orð og veruleiki. Við vitum að við höfum áður komist í gegnum erfiðleika. Og við vitum að einu sinni lékum við mótleik sem við hefðum ekki átt að leika og skulum ekki gera aftur. En við vitum líka að einu sinni mættum við mótlætinu með einhverju sem var svo prýðilegt. Og við skulum gera það aftur. Við erum flottar manneskjur. Við bíðum ósigra og við vinnum sigra. Og allt þetta verður okkur lífsreynsla. Við erum vinkonur Guðs. Hún gefur okkur lífsreynsluna. Hún var með okkur í ósigrunum og í sigrunum. Hún skildi okkur alltaf, stóð alltaf með okkur, grét með okkur og fagnaði með okkur. Við erum vinkonur hver annarrar í vináttu hennar, og hún hjálpar okkur til að styðja hver aðra. Hún kennir okkur að taka okkur saman, safna okkur saman. Aftur og aftur. En roluköstin geta orðið þyngri. Þau geta orðið svo þung að við getum ekki skúrað og hringt, og þótt við getum það stundum hjálpar það varla nokkuð. Við erum umluktar einhverju einhverju sem er svo erfitt að skilja. Og það er þá sem alvaran verður alvarleg. Við skulum tala um það á eftir. Það er þá sem við sjáum enn skýrar en aðra daga hvað það er undursamlegt að vera vinkona Guðs. Gunna, Gunna, farðu með sjálfa þig heim. Við ætluðum að tala um það þegar roluköstin verða svo dimm að það sýnist alveg hreint ómögulegt að við getum safnað okkur saman og útilokað að við getum nokkurn tíma farið með sjálfar okkur heim. Við vitum að við getum allar komist í þau spor. Kannski var hún í svoleiðis sporum konan í BT. Kannski bara. En ef hún var þar er hún makalaus manneskja af því að koma sér samt til aumingja læknisins sem vissi ekki hvað hann átti að segja. Hvers vegna skyldu þau smeygja sér að okkur þessi dimmu roluköst? Af svo ýmsu, eða heldurðu það ekki? Aðstæðum og innstæðum. Ég held það. Ég var að skrifa fáeinar línur í fréttabréfið í febrúar um ásakanir og nöldur. Ég festi þessi tvö orð í tvö önnur orð: ÁN og NÁ. Ef við getum kennt sjálfum okkur og hver annarri að verða ÁN þess að ásaka og nöldra fáum við að NÁ því að lífið verður svo miklu betra. Ég held að roluköstin, bæði létt og dimm, komi meðal annars af ásökunum og nöldri. Við erum ásakaðar. Hugsaðu bara um það. Við erum ásakaðar fyrir að bera svo litla umhyggju fyrir fjölskyldum okkar og vera alltaf að vesenast í vinnunni. Og fyrir að bera svo mikla umhyggju fyrir börnum og mönnum og foreldrum að við komumst ekkert áfram í vinnunni. Og við ásökum sjálfar okkur og rífum okkur niður. Og við hlustum á ásakanir og við ásökum og nöldrum sjálfar, alveg út í bláinn. Og ásökum og nöldrum yfir því sem þarf að segja en ættum að segja fallega og skýrt. Við látum ekki alltaf svona. Það er langt frá því. Við hlustum stundum ekkert á ásakanir, tölum skýrt og fagurlega og byggjum okkur upp með vináttu Guðs, annarra og sjálfra okkar. Það er það sem verndar okkur fyrir roluköstunum, bæði þeim léttu og djúpu. Þess vegna skulum við hjálpa hver annarri til að vernda sjálfar okkur. Við skulum hjálpa hver annarri til að leiða okkur blíðlega aftur heim til sjálfra okkar. Þau eru mörg sem skrifa um þessa fallegu setningu að við getum öll komist í þau spor að vita ekki hvað við eigum að gera og þá eigum við ómetanlega gott ef við hittum einhverja aðra manneskju sem leiðir okkur blíðlega aftur til sjálfra okkar. Þú veist hvernig þetta er. Það er dagleg bæn okkar að við getum verið hver annarri þessi manneskja. Með samfélagi okkar, messunum, öllu sem við gerum og með allri guðfræðinni sem við lifum saman og skrifum saman. Að við leiðum hver aðra heim til okkar sjálfra. Að við leiðum þig heim til þín. Þangað sem þú átt heima. Svo að þú finnir að það er gott að eiga heima hjá þér. Inni í þínu eigini hjarta þar sem þú hugsar og finnur til allt í einu. Svo að þú getir leitt sjálfa þig heim og staðið í dyrunum þegar þú kemur og boðið þér inn og faðmað þig að sér. Innst inni ertu hjá sjálfri þér. Af því að innst inni ertu hjá Guði. Það er sama hvort þú ert létt í huga eða einmana, innst inni í sjálfri þér er Guð hjá þér. Og þess vegna ertu þar hjá sjálfri þér. Fastan sem við höldum núna er til þess að hjálpa okkur til að hugleiða það. Hugsa um djúpa og litríka trúna á Frelsara okkar sem kom og lifði og talaði og vann og dó og reis upp frá dauðum. Við lifum í allri þessari trú, dag eftir dag, í mismunandi litabrigðum, eftir því sem gerist ytra og innra í lífi okkar. En Guð er alltaf hjá okkur, hún er alltaf sú sem kom og talaði og dó og reis upp frá dauðum. Hún hjálpar okkur dag eftir dag til að safna okkur saman og fara með okkur heim. Fyrir síðustu messu var ég á leið til Kanada. Það var svo gaman og gott og ég hlakkaði til og vissi að það myndi einmitt verða gott. Samt hugsaði ég með mér um morguninn þegar ég fór hvað það væri nú gott að eiga alla þessa venjulegu hversdaga með taktföstum og svo skemmtilegum atburðum. Og þegar ég kom aftur eftir þessa góðu dvöl biðu þessir góðu daga og ég byrjaði þá aftur. Við verðum bara stundum að fara að heiman til að geta komið aftur heim. Það er kannski alveg eins með dvölina í okkar eigin vellíðan með sjálfum okkur. Við verðum kannski stundum að fara í einhverjar ferðir út í ofurlitla óró eða einsemd til að finna hvað það er gott að koma aftur heim til sjálfra okkar. Guð blessar þig. Og Guð gefur okkur máttinn til að safna okkur saman og fara með okkur heim. Heim til sjálfra okkar. Þar sem við búum með Guði vinkonu okkar, inni í eigin hjarta. Amen.