Upplýsingar
Er upprisan alþjóðasamningur ?
Messan er búin að vera predikun eins og alltaf. Við höfum haldið hana saman eins og við gerum alltaf. Og þessi predikun fellur inn í allt annað á þessu góða kvöldi. Það er yndislegt að mega huga að öllum messum okkar og hafa þær eins og við viljum allra helst. Við erum alltaf að vona að við segjum hver annarri eitthvað sem verður svo gott að fara með heim og nota í dögunum framundan.
Þess vegna ætlaði ég að byrja þennan hluta predikunarinnar á því að spyrja þig hvernig þú myndir byrja ef þú stæðir hérna í mínum sporum. En svo datt mér önnur spurning í hug og fannst hún svo ljómandi að ég ákvað að fara beint í hana. Hún er þessi:
Heldurðu að upprisan hafi verið alþjóðlegur samningur? Svona eins og samningar eru gerðir núna á vegum Sameinuðu þjóðanna um eitt og annað eins og barnaheill og heilbrigðismál?
Upprisan var alþjóðleg. Hún var orðsending Guðs til allra þjóða heimsins um frelsi og frið. Allar þjóðirnar máttu setjast við samningaborðið og skrifa undir.
Það gerðist seinna að heilu þjóðirnar undirrituðu. Við undirrituðum. Það var árið 1000 og skrifað niður að það er upphaf laga vorra að hver maður skal vera kristinn.
En nú skulum við hverfa aftur til baka að frásögunni af upprisunni sem Guðrún las úr Markúsarguðsjalli. Þann dag og næstu daga voru gerðir miklir samningar. Ekki alþjóðlegir og ekki þjóðlegir heldur milli Guðs annars vegar og einstaklinga hins vegar. Markúsarguðspjall segir frá því að tvær Maríur og ein Salóme hafi undirritað. Á næstu dögum undirrituðu líklega öll úr vinahópnum sem fylgdi Jesú. Og á næstu áratugum undirrituðu fleiri og fleiri úti um allan heiminn.
En það var líka mótmælt. Það var strax sagt að vinahópurinn hefði stolið líkama Jesú og logið því að hann væri upprisinn. Og svo var farið að segja að upprisann væri ekkert sérstök, hún væri líka í grískum trúarbrögðum og egypskum og öðrum.
Þetta er sagt ennþá. Og líka að þótt það hafi kannski verið stórmál fyrir 2000 árum að einhver segðist vera Guð þá hefðu nú fleiri komið fram síðan og væru ekki bara jafn merkilegir heldur ennþá merkilegri af því að þeir hefðu þróað boðskap Jesú og gert hann miklu fínni en Jesús hafði vit á að segja.
Hvað segjum við? Við segjum það sem er sagt í ritningarlestri Gamla testamentisins á þessum sunnudagi, að Guð hafi sjálf sagt í þessum samningi að hún eins og hún alein sé Guð. Það sé engin Guð nema hún. Við undirritum hiklaust.
En hvað um þau sem leita guðs að einlækni og djúpri þrá í öðrum trúarbrögðum? Hvað um þau? Svarið er þetta: Þau eru á snærum Guðs. Þau eru ekki á okkar snærum. Ef hún hefur gert við þau annan samning þá er það í hennar valdi. Ekki okkar. Það er okkar að halda okkar samning, samninginn sem við skrifuðum undir.
Nú ætlum við að halda áfram og syngja allar saman næsta hluta af predikuninni. Það er sálmur eftir Lárus Blöndal við lag eftir Atla Heimi. Og nú tekur Alla við.
Og nú ljúkum við predikuninni. Við höfum skrifað undir samning sem Guð bauðst til að gera að alþjóðasamningi og þjóðasamningi. Það hefur komið okkur vel að þjóðin undirritaði. Þess vegna hefur fagnaðarerindið verið boðað hjá okkur í 1000 ár og við fengið að njóta þessi.
Við skrifuðum sjálfar undir samninginn. Undirritunin var gerð í skírn okkar og við staðfestum hann í fermingunni. Og við staðfestum hann á hverjum degi. Af því að Guð staðfestir hann á hverjum degi. Við ljúkum predikuninni í gleðinni yfir því.
Ég ætla bara að segja þér eina sögu í kvöld. Hún er alvörusaga, eins og sagan af upprisunni er alvörusaga. Hún er um konu sem heitir Adrienne Clarksson. Hún er japönsk en varð landstjóri Kanada. Hún kom hingað. Og ég sá hana. Það var á Akureyri, hún stóð þar á götunni og það var fjöldinn allur af fylgdarfólki frá Kanada með henni. Sagan búin.
Af hverju er ég að segja þér þessa sögu? Af því að sumar konur þessarar veraldar eru stórlega valdamiklar og hafa hirð í kringum sig. Þær gera mikla samninga við mikið fólk sem hefur líka hirð í kringum sig.
Samt eru engar þeirra nærri nærri eins valdamiklar og Guð. Engin þeirra getur boðið eins stórkostlega samninga og Guð gerði með upprisunni.
Og nú koma seinustu orðin okkar í þessum hluta predikunarinnar: Og hún er vinkona þín. Hún talar við þig á hverjum einum og einasta morgni, líka um hádegið og seinni partinn og kvöldið. Bara svona, án nokkurrar hirðar, talar hún við þig. Innilega til hamingju. Amen