Upplýsingar
Gleðin predikun í Breiðholtskirkju 18.11.18, Neh.8:1-12
Bæn: Elsku Guð, þakka þér fyrir að þú frelsar okkur, þakka þér fyrir gleði þína. Við biðjum þig um að gefa okkur fullt af gleði í frelsinu. Í Jesú nafni. Amen.
Náð sé með yður og friður frá Guði.
Ég ætla að gera gleðina að umtalsefni. Og ekki bara einhverja gleði heldur gleði Guðs. Í Esekíel segir að gleði Guðs sé styrkur okkar. Það er bara ekkert annað! Ég er viss um að við hefðum getað talið upp flest annað sem væri styrkur okkar en gleðin t.d. hvað við erum skemmtilegar, skrifum vel, færar í fótbolta eða hverjir allir þessir eiginleikar og hæfileikar eru nú. Því hefur verið haldið fram að við Lútheranar séum nú ekki svo glaðleg, þar sem við höfum víst tilhneigingu til að hanga meira í syndinni frekar en að lifa frelsinu. Líklegast er eitthvað til í því. Sjaldan er gleðin er hafin upp til vegs og virðingar í kirkjunni og er ein ástæðan sú að fólkið í söfnuðunum er á mismunandi stað í lífinu og alltaf eru einhverjir sem syrgja og eiga erfitt og á þeim tímapunkti erum við e.t.v. ekki tilbúin í gleðiumræðu. Ég man þó til þess að gleðin hafi verið gerð af áhersluefni eitt árið innan kirkjunnar.
En gleðin kemur víða við í Biblíunni. Og áhugavert finnst mér að sjá í Biblíunni að á gleðitímum brustu konur í gleðidans eins og t.d. spákonan Miriam. Dans kemur víða við í Biblíunni og dans hefur sinn tíma. Maður les jafnvel að karlar hafi dansað með miklum tilþrifum. Við ættum ef til vill oftar að bresta í dans líkt og konurnar í Biblíunni því dansinn getur verið bæði tákn gleði og frelsis. Já að lifa frelsinu sem Guð gefur okkur, því við erum jú frelsuð til frelsis. Eins og segir í sálmunum: Þau syngja og dansa og segja: Allar uppsprettur mínar eru í þér Guð. (Sálm.87:7)
Fleiri hundruð gleðitexta eru í Biblíunni enda er kristin trú fagnaðarerindi. Trúin er til að gleðjast yfir. Já gleðilegt er að eiga samfélag við Guð, að eiga hana að vinkonu. Hún hreinsar og endurnýjar lífið. Gleðin felst í því að Guð leysir fjötra okkar og gefur lausn, gefur blindum sýn og frelsar okkur, – opnar hjörtu okkar fyrir því sem er heilt og gott til að auðga líf okkar. Guð gefur okkur vonina og vonin færir okkur gleði. Guð gefur okkur nýtt upphaf á hverjum degi og veitir gleði því við getum þakkað og brosað móti heiminum á hverjum morgni hvernig svo sem vindar blása. Já við getum brosað einlægu gleðibrosi sem nær líka til augnanna.
Tvö tímabil kirkjuársins, frá jólum til lönguföstu og frá páskum til jólaföstu vísa beint til gleðinnar Svo eru nú sunnudagarnir gleðidagar, því þá reis Jesús upp og færði okkur von eilífs lífs. Sunnudagurinn er hvíldardagur frá öllu erfiði sem dynir á okkur dags daglega. Tja, úr því Guð þurfti að hvílast eftir sköpunina þá er nokkuð ljóst að við, sem erum sköpuð í hans mynd, þurfum einnig að hvílast, byggja okkur upp og gleðjast alla vega einn dag í viku.
Gleði Guðs kemur að innan. Guð gefur gleðina og nú er ég að tala um hina endurnærandi innri gleði sem kemur við það að hlusta á Guð og tala við hann og eiga samfélag við trúsystur og bræður. Já að fá hjálp og styrk og leiðsögn til að lifa dagana og ferðast lífsins vegu. Jesús hugsaði um guðsríkið og þjónustu sína sem gleðitíma, sem veislu og fögnuð. Þetta minnir okkur á að við kristið fólk eigum að vera óhrædd við að gleðjast og njóta okkar, og hafa yndi af því að vera kristin. Engin heilbrigð ánægja er bönnuð kristnu fólki. Því kristin trú er gleði og gleðin er ein af ávöxtum Heilagrar andar. Við getum verið glöð í sorg og gleði því við eigum okkur von. Gleðin getur fært okkur heilsu því maðurinn er ein heild, andlega hliðin og líkamlega hliðin tengjast saman.
Textinn úr Nehemía sem við heyrðum áðan er skemmtilegur. Bráðnauðsynlegt er að sjá hið spaugilega í textum Biblíunnar. 11 karla þurfti til að útskýra lögmálið fyrir fólkinu en bara eina konu til að útskýra lögbókina þegar hún fannst, þegar iðnaðarmenn voru að gera við musterið í Jerúsalem. Sú kona var Hulda spákona og markaði þessi handritafundur þáttarskil í sögunni. Enginn í konungdæmi Jósía vissi hvort handritið væri ósvikið og um merkingu þess. Hulda spákona, sem var andlegur leiðtogi og elskaði Guð, staðfesti uppruna handritsins sem orð Guðs, þess vegna varð hann helgur texti og komst í Biblíuna. Lögbókin sem fannst er hluti fimmbókarritsins, Mósebókanna. Frá þessu segir í Kroníkubók en hún ásamt Esrabók og Nehemía myndar eina heild. Þetta er einnig áhugaverður texti þegar búið er að afkarlavæða hann, sem sé búið að laga málfarið í íslensku Biblíunni svo það sér skiljanlegt og í réttu kyni. Þar segir að gleðin sé styrkur fólksins.
Þar erum við stödd í veislu. Einni af mörgum veislum í Biblíunni. Þar var etið og drukkuð og matur sendur. Þetta var mikil gleðihátíð af því að fólkið hafi skilið boðskapinn. Allur söfnuðurinn sem snúið hafði úr útlegðinni fagnaði. Þau voru kominn inn í frelsið og mikil gleði ríkti. Segja má að þetta sé einhvers konar hruntexti þar sem útlegðinni fylgdi vanmáttur, siðrof og djúpir erfiðleikar. Því leitaði fólkið að sjálfsmynd og fann hana í siðbótinni, í því að fylgja boðum Guð, þiggja miskunn hennar og lifa frelsi hennar. Það kom fram fyrir Guð í auðmýkt, það leitaði og fann.
Höfum yndi af því að vera kristin og með hjálp Guðs skulum við leyfa gleðinni og frelsinu að búa hjá okkur og í okkur. Því gleði Guðs er styrkur okkar. Verum glöð/glaðar í Guði og brestum svo af og til í fagnaðardans. Amen.
Bæn
Elsku Guð þakka þér fyrir gleðina sem þú gefur okkur. Hjálpaðu okkur til að njóta hennar og lifa í henni. Þakka þér fyrir trúna sem þú hefur gefið okkur, vonina og kærleikann.
Í Jesú nafni. Amen.
Hulda Hrönn M. Helgadóttir