Upplýsingar

Um vor kemur mér í hug liljan í holtinu, sem ég mun koma betur að síðar, um leið og Rannveig Guðmundsdóttir nefnir frumbyggja í Kópavogi og ég hugsa til gróðurs í friðaða holtinu fyrir ofan hús foreldra minna. En mér er einnig ofarlega í huga vorið í Prag 1968, breyting, bylting, hreyfing. Gróður kemur auðvitað einnig í hugann, nyjabrum, eitthvað sem vex og umhverfist loksins, grasið grænkar, hlutir breytast, fjötrar leysast.
Núna eftir fall Berlínarmúrs og járntjalds er næstum ómögulegt að hugsa sér að allan þennan tíma höfum við látið það viðgangast að fólk væri svipt ferðafrelsi, skoðanafrelsi og öðrum mannréttindum svona rétt hjá okkur. Um daginn fannst mér stórskrítið að sjá gagnkvæma stigagjöf milli Serba og Króata í Evrópsku Söngvakeppninni. Þesar þjóðir áttu í blóðugu, hatrömmu stríði fyrir skemmstu. Við sem bjuggum rétt hjá gerðum ekki neitt. Konurnar sem stóðu við krossinn þegar hræddu karlarnir höfðu allir hlaupið í felur, urðu vitni að hatri gagnvart Jesú. Þær urðu vitni að undarlegri lagaframkvæmd hins dásamlega rómverska ríkis, og þær gátu ekkert gert. Eða hvað? Þær gerðu það sem þær gátu. Þær voru þarna. Þær fóru hvergi, heldur voru hjá Jesú og hann hjá þeim og þær héldu áfram sinni þjónustu, þessar þrautseigu konur frá Galíleu. Í þeirra huga varð ekki gjá sem þarfnaðist flókinnar guðfræðilegrar brúargerðar, heldur héldu þær einfaldlega áfram verki Jesú, að leita að hinu týnda, finna það og færa til Guðs. Slík störf sjást kannski varla fyrr en þau leggjast af. Ég segi þetta og hugsa t.d. um heimilisstörf sem eru endalaus, aldrei búin og enginn tekur eftir nema maður hætti að tína sokkana upp af gólfinu, setja þá í þvottavél, upp á snúru og svo í skúffu. Ég er samt aðallega að hugsa um önnur störf, störf Kvennakirkjunnar. Hún er varla til á pappír, hún er ekki bákn, ekki rík, en ef hún hyrfi, hver sæi þá um þesar messur? Messukaffið, sönginn, fræðsluna, sálgæslu, bænirnar og vor í lofti? Við undirbúning þessara orða hefur mér oft orðið hugsað til Hebrea í Egyptalandi, annars vegar og frönskumælandi minnihlutans í Kvíbekk í Kanada hinsvegar. Hóparnir eiga það sameiginlegt að hægt og sígandi fjölgaði þeim svo mjög vegna barneigna að Hebrear ógnuðu Faraó, en franska varð ríkjandi mál í Kvíbekk. Með seiglunni hefst það. Ég er ekki að hvetja okkur til barneigna í eiginlegri merkingu, enda stefnum við ekki að heimsyfirráðum, þannig séð. En sú sem við þjónum, Guð, hvatti okkur til þess endur fyrir löngu, og hvetur enn, að láta hennar tungumál hljóma of álfu alla. Og hvert er það tungumál? Það er m.a. tungumál margbreytileikans, sem leyfir Serbum og Króötum að hrósa söng hinna, sem leyfir okkur að undrast messusiði eða aðferðir sem sumir viðhafa, sjá að aðferðir fólks eru misjafnar og leyfa þeim að viðgangast hlið við hlið. Kvennabráttan er trúlega sýnilegri þegar gífuryrðin eru hvað hressilegust, en kannski ávinnst meira með rólegheitum að vori, með enn einni þvottalaugamessunni og litlum námskeiðum sem eru haldin aftur og aftur þar til mikill fjöldi kvenna hefur tekið þátt og miðlað áhrifum þeirra allt um kring. Vitandi það að við höfum nú þegar náð miklum áhrifum, getum við hugsað næsta leik vorsins. Gefum gaum að liljum vallarins sem vefa hvorki né spinna, þær bara eru. Segjum að við séum liljur, svo fagrar í holti að jafnvel Salómon í allri sinni dýrð er ekki svo fagur sem nein okkar og ekki einu sinni drottningin af Saba. Segjum að við sem liljur vallarins, verðum varar við eitt og annað sem þar gerist: misskipting áburðar fer ekki fram hjá okkur, sumar okkar fá mengað loft frá bílum og iðnaði, aðrar gæðaáburð. Sumar eru bældar af átroðningi, aðrar standa í skjóli trjálunda sem gróðursettir eru vegna átaks um kolvið. Og við getum hvíslað í blæinn og storminn skilaboðum til vegfarenda vallarins hversu margbreytileg sköpun Guðs er, að þetta er misskilningur, segjum við, að þetta sé bara svona eins og fólk vill halda fram. Það segir: „þetta er fallinn heimur, það þýðir ekkert að vera með þetta umhverfisverndarkjaftæði eða jafnréttisfjas, það er bara barnalegt.“ Nei, segjum við, það er liljulegt, sannkallað liljulag og allir vildu Lilju kveðið hafa. Svo að undirstaðan sé réttlig fundin þurfum við í okkar þöglu og stöðugu umbyltingu alltaf að gá aftur að kveikjunni. Hvað var það aftur sem hreif okkur með í upphafi? Þær ykkar sem stofnuðuð Kvennakirkjuna hafið ábyggilega margoft séð okkur hinar sýna aðra takta en þið sáuð fyrir ykkur. Og kannski eru allar forsendur aðrar núna, nema sú að breytingar var þörf. Á minni Liljuvakt sit ég mikið í hægindastól og hlusta á sálgreinendur á bekk. Úr næsta herbergi, stofu Kvennakirkjunnar, berst stundum söngur, stundum ómur af samtali, stundum þögn. Af bekk berst ekki söngur, en stundum þögn, stundum örvænting, stundum gleði. Af einhverjum orsökum voru konur með frá upphafi í mótun sálgreiningarbyltingarinnar, trúlega vegna þess að það borgaði sig ekki að slá hendinni móti neinum sem sýndi brennandi áhuga , skilning og næmni. Sigmund Freud sá það glöggt. Og af munni kvenna á bekknum hans bárust sögur um obeldi og þrengingar kvenna sem höfðu engar aðstæður til að nota gáfur sínar og orku eða afla eigin fjár eða ávaxta sitt pund á neinn hátt. Þær máttu ekki öðlast sjálfstæði eða menntun. Við þessa þekkingu Freuds jókst næmni hans, og mótstaða samfélagsins einnig. Broddborgarar töldu að ef fólk fengi að hugsa hvað sem er, hryndi siðgæði og löghlýðni. Það er öðru nær, ef við fáum að komast i snertingu við allt litróf tilfinninga okkar, fer minni orka í að halda þeim í skefjum, bæla þær og falsa og koma þeim á dulmál. Smátt og smátt lærist okkar að þekkja tilfinningarnar og hætta að halda að sumar þeirra séu betri en aðrar og sumar hættulegar og skemmandi. Þetta eru hugsanir og tilfinningar, ekki verk. Við liljurnar vitum svo sem vel að það er ekkert vel séð ef við reiðumst heiftarlega og lesum yfir þeim sem spúa mengun á okkur. Það verður hlegið að okkur, við spurðar hvar við fengum þessa skó og sagt að við höfum ekki vit á þessu. Svo verður sagt í blöðum að liljur séu aumingjar, vilji ekki vera í forystu né fá meiri ábyrgð eða hærri laun, þær kunni heldur ekki að byrsta sig né reiðast. Við búum ekki í hersetnu landi, við höfum skoðanafrelsi, við höfum trúfrelsi, einu Kvennakirkju þessa heims. Við megum allt. Kvennakirkjan hefur nú þegar áorkað svo miklu að margar konur og þeirra hús hafa öðlast endurnýjaða trú á Jesúm og séð að dauði hans myndaði ekki gjá heldur hlaust eilíft líf af upprisu hans. Við liljurnar munum fjölga okkur eins og lúpínur og bæta fyrir útblástur margra mengandi niðurrifsradda. Við munum aldrei aftur dansa í kringum gullkálfa eða ölturu feðraveldisins né ansa því að fjötrar séu ill nauðsyn eða jafnvel þroskandi. Franskt vor á okkar vísu hefur nú þegar skilað því að fólk er betur mælt en áður á okkar tungu. Fleira og fleira fólk talar nú orðið mál beggja kynja. Við getum komið auga á fleiri sýnileg merki breytinga, en umfram allt getum við byrjað að vænta þess sem við getum ekki séð fyrir. Við getum lagt alla okkar tilvist, allt okkar vor og væntanlegan vöxt í hendur Guðs. Það eru engin takmörk fyrir því sem heilagur andi hefur í hyggju, og engin takmörk heldur fyrir því sem við megum leggja þar í púkk eða þiggja, eftir atvikum. Það er vor, það er bylting. Það er Guð. Amen