Upplýsingar
Spurning kvöldsins er hvort það sé hugsanlegt að Fjallræðan sé rammi utan um þig?
Ég veit ekki hvort þú kærir þig yfirleitt um ramma utan um líf þitt. Kannski hugsarðu með þér að þú viljir alls ekki vera að ramma þig inn heldur vera rammalaus og frjáls og hafa alveg rammalausa möguleika. Hvað heldurðu? Ég held nú samt fyrir mitt leyti að hvað sem við hugsum um það þá séum við allar innrammaðar í hina og þessa ramma. Við erum rammaðar í genin sem við erfðum og menninguna í landinu og okkar eigin venjur.
Það er hægt að breyta sumum römmunum en sumum ekki. Ekki breytum við genunum. Og það er ekkert víst að við viljum það því við höfum auðvitað erft býsn og hrúgur af góðum genum. Og við höfum tekið við góðri menningu og búið okkur til góðar venjur. Samt viljum við breyta sumu. Til að nota það minna eða alls ekki eða þá meira og betur. Eða hvað finnst þér?
Fjallræðan er um rammana. Hún er um rammann utan um þig. Hún er um blessunina sem þú hefur af því að hafa hana sem rammann um líf þitt. Og nú skulum við halda áfram frá síðustu messu og næst síðustu. Þú manst að við ætlum að tala um Fjallræðuna í allan vetur. Í síðustu messu talaði Jóhanna um liljur vallarins og í næstu messu, aðventumessunni, talar Ninna Sif um ljós heimsin.
Hugsaðu þér bara. Þú ert svo flott að þú ert eins og liljur vallarins. Þú ert yndisleg manneskja. Þú ert falleg og litrík manneskja sem ilmar af öllu því góða sem þú ert. Svo ekki bugast af áhyggjum. Guð er vinkona þín og hún er alltaf hjá þér.
Í kvöld tölum við um þrjár myndir í rammanum. Þær sem við lásum saman af sálmablaðinu: Vertu sorgmædd, vertu hógvær, berstu fyrir réttlætinu. Það er blessun þín.
Vertu sorgmædd. Yfir þeim sem þú misstir. Yfir því sem þú misstir. Yfir þínum eigin takmörkunum. Þú þarft ekki alltaf að vera hress. Þú mátt fá roluköst og gefast upp. Þú mátt segja Guði, og fólki sem þú velur þér, að þér finnist þú ómöguleg manneskja. Gerðu það ef þú vilt. Fólk getur huggað þig. Guð huggar þig. Þú stígur út úr þessum ramma þegar þú þarft hann ekki lengur. Og ferð aftur inn í rammann þar sem þér líður vel.
Vertu hógvær. Það er líka yndislegur rammi. Það er ekki að vera roluleg, ekki að vera geðlaus, ekki að láta allt yfir þig ganga. Ekki að vera svo kurteis að þú segir aldrei neitt. Það er að fá blíð tök á hugsunum þínum og framkomu. Af því að Guð hefur tekið þig að sér. Þetta er undursamlegt. Þetta er ramminn sem hjálpar þér til að vera mild og máttug. Það sem við kennum hver annarri og þökkum fyrir að eiga og mega.
Berstu fyrir réttlætinu. Það er ekki að berjast alls staðar. Það er ekki að hafa samviskubit ef þú tekur ekki þátt á allri baráttu sem þú ert beðin um. Það er að standa með réttlætinu þar sem þú ert og með þeim málum sem þú getur. Þetta er miklu erfiðara heldur en að vera sorgmædd eða hógvær. Eða það held ég. Hvað finnst þér? Af því að við verðum sýnileg í réttlætisbaráttunni og lendum í rimmum og hugarangri.
En samt eru allir þessir þrír rammar eins að því leyti að þeir eru bæði um það sem er innra með okkur og það sem við gerum og sést. Við gerum bara það sem við eigum hugmyndir og kjark til að gera. Og nú segir Guð við okkur í Fjallræðunni: Ég skal gefa þér hugmyndir og kjark til að vera eins og liljur vallarins.
Nú skulum við hvetja hver aðra til að taka þessa þrjá ramma heim með okkur og hafa í huga okkar þangað til í næstu messu. Við hvetjum hver aðra til að hafa sálmablaðið með okkur heim og lesa það á hverjum einasta degi sem stendur um þessa þrjá ramma sem við tölum um í kvöld. Vertu sorgmædd þegar þú þarft þess, vertu hógvær, vertu hugrökk. Það borgar sig að taka þetta með heim og æfa okkar, á hverjum degi. Og að syngja sálm á dag, af blaðinu sem við syngjum af í kvöld. Þetta er góður rammi um daga okkar næsta mánuð.
Það stendur í sjálfri Fjallræðunni að við skulum hafa ramma. Það stendur í orðunum um að ganga inn um þrönga hliðið og eftir mjóa veginum. En ekki inn um víða hliðið og svo eftir breiða veginum. Okkur finnst kannski að það sé ótrúlegt að Frelsari okkar sem frelsar okkur frá þrengslum og höftum segi þetta við okkur.
Ég held að þetta þýði að við skulum hafa ramma um daglega trú okkar. Ekki til að gera hana þrönga heldur til að annast um hana. Til að láta ekki hugsaninar um trú okkar fljóta og flæða um víða velli og gæta bara við og við að henni. Heldur til að taka trú okkar á hverjum einast dagi í mjúkar og hlýjar hendur okkar og annast hana og þakka fyrir hana og gleðjast yfir henni svo að hún verði okkur dagleg blessun.
Við erum hver annarri ómetanleg uppörvun í trú okkar. Við hinar sjáum þig í rammanum sem Guð gefur okkur. Og takk fyrir það. Takk fyrir að koma og halda messurnar með okkur hinum. Takk fyrir að hugsa til okkar þótt þið komist ekki í messurnar. Takk fyrir fjármálin. Takk fyrir að biðja fyrir okkur. Takk fyrir að standa með okkur í trú okkar. Takk fyrir að vera þessi fallega mynd í rammanum. Ég segi þetta frá okkur öllum og til okkar allra. Guð blessar okkur. Amen