Upplýsingar
Nú er fastan. Hún er haldin níu vikur fyrir páskana til að gefa okkur tækifæri til að undirbúa okkur undir gleði páskanna. Föstutíminn hefur oft verið heldur dapurlegur í kirkjunni með þungri tónlist og banni á margt sem gerir okkur lífið þægilegt og skemmtilegt. Við erum ekki skyldug til að hafa föstuna svona dapurlega og við getum valið hvort við höldum hana eða ekki. Jesús talaði um föstuna sem var fastur siður í helgihaldi í Gyðingalandi. Fastan var mikil dygð og þegar fólk fastaði málaði það sig með ösku í framan svo hitt fólkið sæi hvað það lifði góðu trúarlífi. Jesús sagði að það skyldu þau alls ekki gera. Hann sagði alltaf að trúin væri ekki reglur heldur vinátta við sig. Ég er tréið, sagði hann. Þið eruð greinarnar. Þið iðkið trú ykkar með því að vera í mér, hafa trú ykkar í hjarta ykkar og vinna með mér. Fólkið hans sem var með honum daglega fastaði ekki. Þau voru harðlega gagnrýnd fyrir að bregða svona út af reglunum og Jesús sagði að þau gætu bara alls ekki fastað meðan þau ættu gleðina yfir því að hann væri hjá þeim. En seinna myndu þau fasta. Þegar þau þyrftu. Fastan var ekki sýning og ekki sjálfspynting. Hún var leið til að dýpka vináttuna við Guð sem frelsar og gleður og huggar og uppörvar og gefur máttinn til að gera það sem er gott og yndislegt. Og það er hægt að fasta á fleira en mat eða svefn eða skemmtanir þótt það sé líka hægt að sleppa einhverju af þessu um tíma ef okkur finnst það verða okkur til góðs.
Í kvöld ætlum við að tala um möguleika okkar til að fasta á hugarvíl. Við ætlum að stinga alvarlega upp á því hvert við annað að við tökum okkur tak alveg til páska og hættum að baða okkur í hugarvíli.
Hvað er hugarvíl? Í íslensku orðabókinni stendur að það sé angist og þunglyndi. Við skulum líka hugsa okkur að það sé ringulreiðin sem flæðir stundum um huga okkar yfir miklu minna vægum atburðum en þeim sem skapa okkur angist eða þunglyndi.
Og nú skulum við bara taka fram ýmislegt sem við getum ímyndað okkur að við berum flest í huga okkar dagsdaglega, kannski ekki alltaf það sama, en eitthvað svipað, aftur og aftur, og erum orðin föst í. Og við skulum setja það í bunka. Og við skulum sjá hverju af þessu við getum sleppt til páska. Og svo skulum við hvetja hvert annað blíðlega til að sleppa því.
Ég held að hugarvíl sé að minnsta kosti tvenns konar. Og nú bið ég þig að gæta í huga þinn að því hvort þú ert mér sammála. Því allt þetta snýst um þig. Við erum öll komin til að tala um það hvernig þú getir látið þér líða betur. Með því að fela Guði hvern einasta dag sem þú átt eftir fram að páskum. Svo gáðu nú að því hverju þú ert sammála af því sem ég segi og hvað þér finnst vera öðru vísi en það sem ég segi. Því það þarf ekki að orða það að það skiptir mestu máli hvað þér finnst sjálfri eða sjálfum.
Ég held sem sagt að hugarvíl sé að minnsta kosti tvenns konar. Það er þetta sem ég set í þennan stóra og dökkleita bunka. Það er angist okkar. Og þunglyndi okkar. Og þunglyndi er hið þunga lyndi sem við göngum stundum inn í, eða gengur stundum inn í huga okkar, alveg óboðið. Angistin er þungbær. Eða það finnst mér. Hún er miklu þungbærari en þær daglegu áhyggjur sem slæðast að okkur í ýmsum myndum eftir því sem við erum að sýsla. Hún er miklu þyngri en kvíðinn sem umlykur okkur stundum. Hún er kannski eitthvað í grennd við einsemdina. Og sektarkenndina. Ég held það bara.
Svo set ég léttbærara hugarvíl í þennan bunka. Hvað finnst þér eiga heima þar? Nú skulum við gæta vel að. Því það er þetta hugarvíl sem ég ætla að hvetja okkur til að fasta á alveg til páska. Ég held að í þennan bunka getum við sett áhyggjur sem við höfum svo oft en eigum bara alls ekki að hafa. Af því að við þurfum ekki að hafa þær. Og við getum losað okkur við þær. Hverjar eru þær til dæmis?
Ég held það séu mest áhyggjur af sjálfum okkur. Ég held að uppsprettan að áhyggjum okkar sé sú að við trúum því ekki að við séum jafn yndisleg og Guði finnst við vera. Við tökum okkur óþarflega hátíðlega og skömmumst okkar fyrir sjálf okkur og finnst við bregðast þeim sem við berum ábyrgð á. Við treystum því ekki að við getum tjónkað við margt af því sem bærist að okkur í dögunum. Við gefumst upp fyrir vanmætti okkar. Það er þess vegna sem við söfnum að okkur alls konar hugarvíli og höldum rígfast í það og harðneitum að sleppta því.
Nú drífum við okkur og göngum frá bunkunum. Í þessum búnka er vantrú okkar á sjálf okkur sem veldur okkur ýmsum snarvitlausum áhyggjum dag eftir dag, ekki alla daga, en of marga.
Við ætlum að fasta á þessar áhyggjur til páska. Við ætlum að fasta á vantrúna á sjálf okkur. Þessi fasta felst í því að við ætlum að hugsa vel til okkar og um okkur og hafa trú á okkur. Alveg til páska. Og þetta er mögulegt af því að Guð elskar okkur og hún kom og var Jesús sem frelsar okkur frá þessari endemis vitleysu í okkur. Svo ég tek þennan bunka og fel hann í hendur Guðs og bið hana að henda honum fyrir okkur.
Svo tökum við þennan búnka sem er angist okkar og þunglyndi. Þetta eru hugsanir sem er alveg útilokað að við ráðum við, þótt við leggjumst öll á eitt við að hjálpa hvert öðru. Þetta eru þungu hugsanirnar. Og þær vitja okkar allra einhvern tíma í lífi okkar. Hvað gerum við við þær? Það vitum við öll. Og það er fagnaðarerindið sem Jesús boðaði alla leiðina frá Galíleu til Jerúsalem þegar hann gekk þangað til að mæta dauða sínum. Fermingarbörnin okkar sem eru hjá okkur í kvöld, Melkorka og Ari, gætu staðið upp og sagt okkur öllum hvers vegna hann var krossfestur. Hann var krossfestur vegna þess að hann sagðist vera Guð. Og hann sagðist vera Guð af því að hann var og er Guð. Hann kom til að frelsa okkur frá angist okkar. Hann einn getur það. Hann sem er hún, vinkonan okkar góða, Guð sem elskar okkur.
Þess vegna tökum við þunga bunkann og afhendum henni hann. Nú höfum við falið Guði alla angist þína. Við öll sem erum hérna stöndum með þér og biðjum fyrir þér. Og við þökkum þér af öllu okkar hjarta fyrir að biðja fyrir okkur.
Nú höfum við afhent Guði bæði þunga angist okkar og þunglyndi og ringulreiðaráhyggjur daganna. Guð hefur tekið þetta allt að sér. Þegar við vöknum í fyrramálið og byrjum splúnkunýja viku þurfum við ekki annað að gera en treysta því að Guð ætlar að standa með okkur þessa vikuna eins og allar hinar. Og vikurnar til páska hjálpar hún okkur til að fasta á hugarvíl okkar. Með því að treysta sjálfum okkur. Og við treystum sjálfum okkur með því að treysta henni.
Ég kveð Melkorku og Ara í hverjum fermingartíma, á miðvikudögum klukkan korter fyrir fimm, með því að biðja þau að muna til næsta tíma að þau eru yndislegar manneskjur af því að Guði finnst þau svo yndisleg. Og þau ætla auðvitað að muna það og vera viss um það. Og við skulum gera það líka. Stöndum saman um það. Það er fastan á hugarvíl okkar. Amen