Upplýsingar

Guð hjálpar þér að umgangast fólk -og sem oftast verulega glaðlega“ Matt. 5.16. Já, ekki veitir af að fá hjálp Guðs til að umgangast fólk -alla vega sumt .Yfirskriftin hér er: ég vel mín áhrif. Vel ég ekki bara alveg þau áhrif sem ég hef á umhverfið mitt, eða er það misskilningur? En ég vel alla vega hvað hefur áhrif á mig. Í umhverfinu eru nánast óteljandi áreiti: hávaði, tímapressa, skyldur, alls kyns áhrifavaldar, t.d. auglýsingar, gylliboð og ekki síst þjóðfélagsmálin. Hvernig á að sortera og passa upp á að ekki flæði út úr kerinu manns?

Ég las viðtal í því ágæta blaði Húsfreyjunni fyrir nokkru síðan við Eydísi og þar sá ég þetta orð áhrifahringur. Það er hennar uppfinning en passaði svona ljómandi vel við mínar hugsanir. Ég vel hver minn áhrifahringur er. Ég vel að umgangast fjölskylduna mína, vini mína, kunningja mína og vinnufélaga og hafa áhrif þar. Ég vel líka að kjaramál, stjórnmál, slúður (eða það að fylgjast með lífi fræga fólksins) er ekki innan míns áhrifahrings. Ég verð að velja og hafna –og fæ oft til þess hjálp Guðs í hverju ég ætla að vasast. Ef ég er óánægð með kjaramál mín, þá er ekki leiðin að tuða um það á kaffistofunni, dæsa og pæsa og vera óánægð. Ég á að gera eitthvað í málinu! T.d. bjóða mig fram í samninganefnd. Ef ég hef brennandi skoðanir á því sem fer fram innan veggja Alþingis og er örg og fúl út í ýmislegt í þjóðfélagsmálunum, þá get ég valið. Ég get valið að reyta hár mitt á kaffistofunni, hellt úr eyrunum yfir sjónvarpsfréttunum eða argast yfir umræðunni í dagblöðunum og finna til vanmáttar míns inni í mér og beinlínis bara líða illa yfir þessu.

Ég get líka valið að hafa áhrif. Ég get boðið mig fram til starfa á þessum vettvangi, það eru meira að segja prófkjör í gangi þessa dagana. Ég get starfað í nefndum og ráðum og hef reyndar gert það og þannig haft áhrif. En ég get líka valið að láta til þess bæra aðila sjá um þessi mál fyrir mig og hafa þau fyrir utan minn áhrifahring. Þá sjá aðrir um hituna, taka á sig ergelsið og vonandi stundum kætast yfir góðum árangri og ég get nýtt orku mína í annað. Fleiri ritningartextar: „Guð hjálpar þér til að hætta að flækja hugsanir þínar.“ Matt. 5.3. Það er alveg hárrétt.

Ég er ekki alltaf fær um það sjálf, ég er reyndar mjög dugleg í því að flækja hugsanir mínar, þannig að þessi hjálp er vel þegin. Á kvöldin þegar hugurinn fer allur á flug, að ég tali ekki um ef ég vakna upp um nótt, þá hefst mikil óskipulögð dagskrá í höfðinu á mér og jafnvel kvíði yfir því að mér takist ekki að gera allt sem ég á að gera eða vil gera, eða langar að gera. Þá er gott að leggja allar hugsanir og vangaveltur í hendur Guðs og næsta morgun er búið að sortera þetta allt fyrir mig. Ég byrja jafnvel daginn á því að punkta niður á blað í númeraröð hvernig best er að haga dagsverkinu –allt eftir sorteringuna sem var tilbúin þegar ég vaknaði. Þetta er ekki dónaleg þjónusta. Svo teygi ég mig í gullkornabókina mína og viti menn, hvað var t.d. í morgun: „Meðalmaðurinn getur orðið afburðamaður fari hann vel að öðrum og afburðamaðurinn að meðalmanni geri hann það gagnstæða.“ Í gær sem var afmælisdagurinn minn, fékk ég þessi fallegu orð: „ Hræðumst ekki tárin. Þau ylja okkur um hjartaræturnar, vökva augun og gefa okkur nýja sýn.“

Ég vel mín áhrif. Það geri ég t.d. með því að taka það til mín og tileinka mér það sem hentar mér. Út um allt er áreiti eins og ég sagði en þar eru líka ýmis tilboð og ráð. Stundum heyrum við hluti en heyrum þá samt ekki, þeir fara inn um annað eyrað og út um hitt. Við erum ekki tilbúin. Einn daginn heyrum við sömu hlutina og tökum allt í einu eftir þeim. Þá er Guð búin að hvísla að okkur að opna eyrun og þá heyrum við einhverja visku sem hentar okkur. Þetta eru bara alveg dásamleg vinnubrögð hjá vinkonu okkar! Um daginn heyrði ég, úr predikunarstóli, orð sem snertu mig. Þau voru höfð eftir Salómon konungi. Maður kom til hans og spurði hann hvernig hann ætti að skoða sinn innri mann. Salómon spurði hvernig hann skoðaði sinn ytri mann og maðurinn sagðist skoða sig í spegli. Á sama hátt skoðar þú þinn innri mann, sagði Salómon. Þú hefur 5 spegla: Hvernig kemur maki þinn fram við þig? leita börnin þín til þín? Hvernig er með vini þína, sækja þeir þig heim? Hvernig kemur þú fram við húsdýrin þín og hvernig lítur garðurinn þinn út?

Ég varð hugsi yfir þessu og ákvað að skoða þessa þætti í mínu lífi. Ég fór í huganum yfir samskipti mín við börnin og vinina og skipti húsdýrunum í sögunni út fyrir gæludýrið á heimilinu, kisu. Svo á ég reyndar garð og inniblóm og ég veit að þar þarf ég að hlúa að eins og annars staðar. Guð vinkona mín, var búin að hvísla að mér að taka eftir þessum orðum. Ég man bókstaflega ekkert annað úr þessari predikun. Alveg eins og við þurfum að hugsa okkur okkar persónulegu mörk, hvar við viljum setja línuna umhverfis okkur, hver má stíga inn fyrir hana og hver ekki, þá þurfum við að setja okkur víðari mörk, hvað er innan okkar áhrifahrings og velja þar með okkar áhrif. Áhrifin sem við höfum á aðra eru ekki síður mikilvæg og þurfa aðgæslu og skoðunar við heldur en það sem við veljum að hafi áhrif á okkur.

Hvaða áhrif höfum við á aðra? Göslumst við áfram, einhvern veginn svona „yfir“ fólk, vöðum áfram og skynjum ekki náungann? Gefum við okkur tíma til að setjast niður og staldra við, hugleiða, slaka á? Mér var ætlað að heyra eina setningu sl. vor frá góðum manni sem hjálpar mörgun, hún er einföld en hún var svona: göngum til verks. Jaaá, hugsaði ég. Ég ætti líklega ekki að vera alltaf að flýta mér svona. Ég er oft eins og hvínandi stormsveipur t.d. eftir göngunum á vinnustað mínum, fólk skilur ekki hvernig ég get verið bara á bolnum, en ég hreyfi mig oft hratt. Við þessi gullkorn ákvað ég að fara mér stundum hægar. Það hjálpar að hafa svona setningu í huganum.

Í Matt. 11.28 segir: „ Guð hjálpar þér til að komast gegnum mótlætið og standa þig vel“. Ég bara trúi þessu algerlega. Ef ég lendi í mótlæti, veit ég að Guð er með mér og þess vegna stend ég mig vel, og það verður bara svoleiðis. Það er engum blöðum um það að fletta. En það er þó ekki þannig að allt gangi alltaf upp, það þekkjum við og það er bara eðlilegt. Séra Auður Eir hefur dásamleg orð yfir það. Það er að vera í rolukasti. Ég á mín roluköst. En það liggur við að það í sjálfu sér sé bara fyndið, þ.e. að vera í rolukasti, það er svo fyndið orð. Það er svo skrýtið að stundum gengur allt á afturfótunum, ekki bara sumt, heldur allt. Einhver pirrigur við börnin, vandamál í vinnunni og óvænt hraðasekt úr myndavél sem enginn sá. En þá bregst það ekki að sorteringin á sér stað í blómagarði Guðs þegar ég hef sýnt þá auðmýkt að leggja málin í hennar hendur. Þá fæ ég t.d. að heyra einhverjar setningar sem ég á að heyra þann daginn, gullkorn næsta morguns hljómar t.d.„Þegar skýfall dembist yfir líf þitt og allt í kringum þig er rok og rigning, þrumur og eldingar, er kominn tími til að leita skjóls undir regnhlíf fyrirheitna Guðs, halda kyrru fyrir og bíða átekta. Sá eða sú sem stjórnar vindinum myndar líka regnbogann“.

Það er líka afsaplega auðvelt að setja ýmislegt fallegt á blað og gefa ákveðna mynd af sér. Mér skilst að jafnvel sumir búi til ákveðna mynd af sér á fésbók. Sú mynd er ekki endilega sú raunverulega. Til dæmis: „var að setja kjúklinginn í ofninn, uppskriftin úr Gestgjafanum, straujaði nokkrar skyrtur í morgun eftir að ég hafði skokkað á Úlfarsfell, spilaði svo við börnin og lauk við að raða upp á nýtt í stofunni í stíl við Feng Shui línuna sem ég las um í Innlit/útlit-blaðinu.“ Það þarf ekki fésbók til. Ég gæti alveg verið svona í daglega lífinu, ég gæti meira að segja verið svona núna.

Þegar ég kom fyrst í kvennakirkjuna, predikaði séra Auður Eir og notaði leikmuni sér til hjálpar. Hún „veiddi“ mig algerlega með því, eins og í kennslunni, börnin skilja betur námsefnið ef þeir fá að vinna það hlutbundið, þ.e. að vinna með hlutum. Hér er leikmunur sem á að tákna gleði (gulur broskall á flík), kisustyttan táknar kisuna mína heima og dúkkan Blómhildur er tákn fyrir börnin mín. Ef ég „fæ lánaðar“ þessar tilfinningar „að utan“, þ.e. þær koma ekki að innan, eru þær ekki sannar. Þá er ég eins og tilbúna manneskjan á fésbók. Ég get þóst hafa þessar tilfinningar, þ.e. vera alltaf ægilega góð, bæði við kisu og börn og fæ þannig þá eiginleika lánaða að utan og skreyti mig með þeim. Tilfinningarnar þurfa að koma að innan og „fara út“ , þá eru þær sannar. Þar með sýni ég hið sanna ég. Að lokum tveir ritningartextar: „Guð hjálpar þér til að lifa í undursamlegri kristinni trú þinni.“ Matt. 7.24 og „Guð hjálpar þér að sjá allt það góða sem þú átt og njóta þess.“ Matt. 6.26.