Upplýsingar

Náð Guðs er með okkur og við finnum nálægð Guðs í nálægð hvert annars. Það er mikil vinátta sem þið góðu prestar og starfsfólk og safnaðarfólk Grafarvogskirkju sýnið mér í dag. Og þið sem tókuð til máls áðan. Og þið öll sem eruð komin. Ég þakka ykkur innilega og met það mikils. Við í Kvennakirkjunni höfum fundið vináttu safnaðarins hér í hvert skipti sem þið lánið okkur kirkjuna til að halda guðþjónustur og það vill svo fallega til að í haust, áður en við vissum af þessari guðþjónustu vorum við búnar að fá kirkjuna til að guðþjónustu í kvöld og við þökkum fyrir það eins og ævinlegar.
Við vitum öll af eigin hvað það er mikil uppörvun að eiga vináttu annarra. Hún gerir líf okkar svo traust og skemmtilegt. Við skulum öll láta vináttu hinna sem sitja hér í messunni með okkur umlykja okkur og ná inn í hjarta okkar. Það er þess vegna sem við erum komin og þess vegna sem kirkjan er til, til að kalla okkur saman til að hitta Guð og finna vináttu hennar og heiðurinn sem hún sýnir okkur. Og fara með þessar góðu tilfinningar heim með okkur og nota þær og njóta þeirra. Það er það sem Biblían segir okkur. Þegar ég fékk nýju rauðu flauelisklæddu Biblíuna í nýrri þýðingu ákvað ég að láta nú verða af því sem ég hef svo lengi hugsað mér. Það er að lesa hana eins og hún væri að gerast núna. Ég ætlaði að hugsa mér að Jesús byggi á Grettisgötu. En svo fannst mér betra að hugsa mér að hann byggi í Þingholtsstræti af því ég þekki Þingholtsstrætið meira. Og þegar ég var farin að lesa Markúsarguðspjall svona sá ég að ég gat líka gert annað sem ég hafði hugsað mér. Ég gat hugsað mér að Jesús væri kona, að hann væri Jesa Krista. Margar okkar í Kvennakirkjunni tölum um Guð í kvenkyni. Við gerum það af því að Biblían gerir það. Jesús sagði dæmisögu um Guð sem er kona sem hefur heiminn í hendi sér eins og kona sem hnoðar brauð. Og um konu sem sópar allt húsið sitt til að leita að því sem hún týndi og býður vinkonum sínum til sín þegar hún finnur það. Hann sagði að hann væri sjálfur eins og móðir sem vill safna börnum sínum til sín. En þegar við tölum um Jesúm sem Jesu höfum við ekki fyrir okkur vitnisburð Biblíunnar. Það er margoft talað um Jesu Kristu og það eru búnar til höggmyndir af henni. Það er bæði leyfilegt og gagnlegt. Til að sjá ýmsa drætti í Nýja testamentinu sem við sjáum ekki annars. En við þurfum að sjá af því að þeir eru þar. Við skulum hætta að hugsa okkur að Jesa búi bara í Þingholtsstræti. Ég sting upp á því að þú hugsir þér, ef þú vilt, bara ef þú vilt, að hún búi í götunni þinni. Hún býr þar og þær ganga út og inn hjá henni stelpurnar sem vinna með henni, Jakobína og Jóhanna, og Petrína og Andrea, og svo strákarnir sem var svo lítið skrifað um í Biblíunni. En þeir voru þar auðvitað. Jesa hefur áreiðanlega ekki skilið þá útundan. Það er útilokað. Það var bara svo lítið skrifað um menn á tíma guðspjallanna. Það var allt um konur. En Jesa breytti öllu fyrir þá og gaf þeim réttindi og sjálfstraust. Jesa var svo mikið í boðum að það var alveg ótrúlegt að hún kæmi nokkru í verk. En það voru ósköpin öll sem hún gerði. Svo var það eitt kvöldið rétt eftir kvöldmat að þú heyrðir eitthvað í götunni. Og þegar þú leist út sástu að allt hverfið var mætt. Þú þekktir fólk úr hinum húsunum og götunum og þú fórst út líka. Þú sást Jesu koma út. Þú sást hana ganga um og heilsa og klappa á kinnar og herðar og segja eitthvað sem þú heyrðir ekki. En þú heyrðir það sem hún sagði við þig. Og þú fannst að hún þekkti þig. Og að henni þótti óskaplega vænt um þig. Og að hún vildi að þú kæmir að vinna með sér. Og þú fannst að allt breyttist inni í þér. Það var svo gott að vera til. Þú fannst bjartsýnina sem þig hafði alltaf langað að eiga, þú fannst fyrirgefninguna svo að þú gast líka fyrirgefið þér og fundið frið og kraft og hugrekki og djúpa gleði. Og svo í næstu viku þegar þú komst í vinnuna á mánudagsmorgninum var komið stór auglýsing um námskeið á miðvikudaginn. Það var námskeið í mannauðsstjórnun. Það er svo mikið tekið núna. Jesa Krista átti að koma og halda fyrirlestur. Konan úr þinni götu. Sem þú þekktir. Yndislegt. Hún kom og talaði um stjórnun. Hún sagði að þau sem stjórnuðu ættu að muna hvernig það var þegar þau voru nýbyrjuð og yngst og óreyndust. Svo ættu þau að stjórna. Af því að það þarf að stjórna. Það á að stjórna í vináttu, sagði hún. Í skilningi og kærleika. Það komu nokkur úr toppstjórninni. Þau komu ekki öll, en sum. Það var líklega af því að þau voru forvitin um Jesu sem þau komu. Það sást greinilega hvað þeim misboðið með því sem Jesa sagði. Og loks stóð Sigríður á fætur og sagði að það væri nú ekkert áhlaupaverk að stjórna með allri þeirri ábyrgð sem fylgdi. Það þyrfti að hugsa um möguleika fyrirtækisins út á við í allri þessari snarvitlausu samkeppni. Hver eiga eiginlega að styðja okkur í svona stjórnun eins og þú ert að tala um? Og Jesa sagði: Þið eigið að fá stuðninginn frá þeim sem þiggja stjórnun ykkar. Og svo sagði hún við allt starfsfólkið: Þið sem fáið að njóta þess að annað fólk sér til þess að þið getið komið verkunum af og komið þeim áfram og átt starfsgleði, þið eigið að virða þetta fólk. Þið eigið að styrkja og heiðra stjórnendur ykkar. Svo að þau geti stjórnað. Og þið munuð sjá það að það borgar sig fyrir fyrirtækið. Viðskiptavinir treysta svona fyrirtækjum. Þau sjá að þið eigið vináttu hvert við annað. Og það vekur traust. Svona getum við haldið áfram að lesa guðspjöllin. En þegar við byrjum á byrjuninni verðum við að hugsa okkur um. Það stendur að Jóhannes frændii Jesú hafi komið á undan honum til að undirbúa komu hans. Hann sagði að nú væri hann kominn sem Ritningin talaði um að myndi verða frelsari heimsins. Og þegar Jesús kom sjálfur gekk hann inn í guðþjónustu og las um spádóminn um frelsarann og sagði. Ég er hann. Ég er kominn. Ég er Guð. Hvernig eigum við að hafa það? Ættum við að láta Jóhönnu frænku Jesu setja heilssíðu auglýsingar í blöðin og segja að Jesa sé væntanleg? Og Jesu koma í sjónvarpsmessu og segja – hvað? Að hún hafi nýjar hugmyndir um frið heimsins? Af því að hún sé Guð? Hvernig finnst þér að við eigum að hafa þetta? Vð getum alveg áreiðanlega ekki líkt þessu við neitt sem gerist núna. Jesús var Guð sem kom. Hann var hún sem kom, segjum við í Kvennakirkjunni. Hann kom bara einu sinni. En hann er alltaf hjá okkur. Og hvað segjum við um lok guðspjallanna? Jesús var hættulegur fyrir kerfið. Hann var lagður í einelti og svo var hann rekinn. Þetta er alltaf að gerast. Beint fyrir framan augun á okkur. Og sumt fólk í hverfinu þar sem þú býrð þekkir það af eigin reynslu og kannski þú líka. En guðspjöllin enda ekki á krossfestingunni. Þau enda á upprisunni. Og á eftir kemur Postulasagan og bréfin og segja frá undursamlegri gleði upprisunnar. Og gleði upprisunnar er allt í kringum okkur. Ég hef séð hóp af konum lenda í ógurlegum vanda sem varð meiri og meiri og þær gátu ekki leyst. Og þá komu aðrar konur og tóku það að sér að leysa vandann fyrir þær. Fyrst þrjár, svo ein í viðbót, svo enn ein í viðbót. Þær lögðu á sig mikla vinnu – og leystu málið. Af því að þær eru yndislegar manneskjur og vinkonur Guðs. Og þær eru það af því að Guð elskar þær. Eins og hún elskar þig og gerir þig að yndislegri manneskju á hverjum nýjum morgni og gefur þér mátt og mildi til að vinna verkin þín og leysa eitthvað af vanda heimsins. Við segjum í Kvennakirkjunni að við þurfum alltaf að hafa eitthvað í hendinni þegar við förum heim. Í dag fáum við guðspjall dagsins í hendi okkar. Það er um manneskju sem treysti svo Guði, sjálfri sér og öðrum að hún lagði fram allt sem hún gat í trú sinni. Og það er um þig. Guðspjallið er um þig og Guð. Nú gengur Guð til þín og tekur í hendi þína. Og leggur þar vald og mátt og gleði sem þú mátt fara með heim. Hún leggur þar fyrirgefningu og hugrekki og traust á sig, þig og annað fólk og lífið sjálft. Og þú notar það þar sem þú veist að verður til góðs. Og Guð fer með þér og hjálpar þér og þakkar þér og við hin þökkum þér líka og dáumst takmarkalaust að þér og þökkum Guði fyrir þig. Amen. Tökum kveðjur úr orðum postulanna: Verum alltaf glöð vegna þess að við eigum Jesúm. Amen