Upplýsingar
Elskulegu vinkonur. Það er yndislegt að hittast í afmælismessu og fagna yfir löngu og góðu starfi okkar. Yfir því að við fáum alltaf að hittast og gefa hver annarri gleði Guðs til daglegra starfa okkar, gleðina sem hún gefur okkur til að gefa hver annarri og hvert öðru.
Og samt byrja ég svo hátíðlega stund með gamalli sögu. Og segi svo tvær aðrar enn eldri á eftir. Fyrsta sagan er um eina af okkur sem fór í saumaklúbb. Hvað segirðu gott, sögðu vinkonurnar, og hún svaraði: Allt svo fínt, ég tók neðri skápana í gær. Ég hef oft sagt þér þessa sögu hennar. Af því að hún er svo dæmalaust góð. Vinkona okkar hlær að henni og segir að hún sýni andlega fátækt sína og þröngsýni sem nær ekkert út fyrir daglegt stússið. En það er hvorki satt né rétt. Enda er vinkona okkar stórmenntuð. En alveg óháð því er hún stórkostleg. Ég segi þessa sögu sem afmælissögu af því að við hittumst alltaf til að hjálpa hver annarri til að laga til í lífi okkar. Svo að við getum tekið út úr huga okkar það sem við viljum ekki að sé þar. Og hent því. Og sett nýjar hugsanir í staðinn. Þær þurfa alls ekki að vera nýjar. Þær geta verið gamlar, en nýjar í huga okkar núna, eitthvað sem við áttum en gleymdum. Til dæmis það hvað það var gott að vera til í hverfinu okkar þegar við vorum litlar, eða hvað það var gott núna rétt um daginn að fá að vera með góðum manneskjum eða setjast við kvöldmatinn. Það er svo margt sem er svo gott. Við hittumst til að segja hver annarri að það sé best að fylla hugann með því. Og til að segja líka að það gengur bara ekki alltaf. Alveg er það furðulegt, segjum við stundum yfir kaffinu eftir messur eða á mánudagskvöldunum í stofunum okkar í Þingholtsstræti. Alveg er það furðulegt hvað asnalegar og gráar hugsanir eru uppáþrengjandi. Þær troða sér inn um dyragætt huga okkar þótt það sé engin ástæða til að opna fyrir þeim. Merkustu sálfræðingar kalla þær sjálfsprottinn ótta. Ég kalla þær lífsóttann. Ég held að þær séu óttinn sem við höfum kynnst, af smáu og stóru í lífinu, af eigin reynslu og því sem við höfum séð og heyrt. Við vitum að margt sorglegt gerist. Það gerist og það getur gerst í lífi okkar líka. Þess vegna koma þessar gráu hugsanir eins og boðflennur og setjast sem fastast í huga okkar. Eða hvað heldur þú? Nú kemur miðsagan af þessum þremur sem ég segi í kvöld. Hún er um Guð vinkonu okkar sem sá þetta allt. Og fann til. Og grét yfir þessum gráu hugsunum sem alltaf fylltu huga fólksins hennar aftur og aftur og skyggðu á gleðina sem hún gaf þeim á hverjum einasta morgni. Sálmaskáldin í Ísrael ortu um þessar hugsanir fyrir 3000 árum og stöppuðu í sig stálinu: Ég þarf ekki að óttast ógnir næturinnar eða örina sem flýgur um daga, Sálm. 91. 5. Um daga mun sólarhitinn ekki vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur, Sálm. 121. 6. Að kveldi gisti oss grátur, en gleðisöngur að morgni, Sálm. 30.6. Sömu hugsanirnar vitja kynslóða Guðs öld eftir öld. Og þess vegna skrifaði Jesaja um hluttekningu og ást Guðs: Þegar þið voruð í nauðum stödd fann ég til, Jes. 63.9. Ég bý hjá þeim sem hafa sundurkraminn og auðmjúkan anda, Jes. 57.15. Ég er sú sem hugga ykkur, 51.12. Ég skal bera þig og frelsa þig, Jes. 46.6. Guð kom til að hjálpa fólki sínu til að taka neðri skápana. Henda, geyma og hafa fremst. Hún kom og var Jesús, frelsari allra fyrr og síðar. Hún var hann sem kom. Og hún er hún sem er og skapar og frelsar. Fyrir þig núna. Hún er vinkona þín sem elskar þig. Hún elskar þig eins og hún elskaði aðrar konur og aðra menn þegar hún gekk um og var Jesús, í austurlöndum fyrir 2000 árum. Og það er þriðja sagan. Hún er um versins sem voru lesin áðan. Versin um konuna með blóðlátið sem hafði borgað allar eigur sínar í 12 ár til að læknast. Lúk. 10.40. Hugsum okkur, rétt að gamni okkar, að sagan gerist hérna og konan búi hérna í Högunum. Uppi á þriðju hæð í einni blokkinni. Hún hafði heyrt um mann uppi í Þingholtsstræti sem kom þangað oft til að gista. Frænka hennar hafði sagt henni að hann væri engum líkur og ætti þvílíkan mátt og kærleika. Svo konan hérna í blokkinni ákvað að fara og sjá hann. Hún ákvað að snerta hann. Af því að hún var viss um að þá myndi hún læknast. Hún þyrfti ekkert að segja og ekkert að gera. Bara snerta hann. Og hún bara fór upp í Þingholtsstræti. Og hann var þar. Hann stóð á horninu á Bókhlöðustígnum og var að tala við fólk. Við Þurðíði á 13, og Wincie og Gyðu uppi og fólk sem vann úti á Laugavegi og í bönkunum niðri í bæ. Þau voru líklega að fara heim því klukkan var fimm. Það var ómögulegt að fara að troða sér gegnum hópinn og snerta hann. Það er bara ekki gert. En hún gerði það samt. Hún snerti hann. Og á sömu stundu og allt í einu fann hún að hún var læknuð. Sagan búin. En áframhaldð er um þig. Um þig sem þarft að losna við hugsanir sem setjast að þér og setjast upp hjá þér og þú veist ekki hvernig þú átt að læknast af. Þær eru ekki að gagna frá þér. Þær eru heldur ekkert óeðlilegar. Þú veist að þær eru bara eins og fólk hefur fyrr og síðar þurft að glíma við. Þær koma og fara. En þær eru samt óþarflega asnalegar og þær skyggja oft á gleðina sem þú ættir að eiga og átt bara skilið að eiga. Og Guð vill að þú eigir. Sagan er um þig sem réttir út hendina og snertir Jesúm. Þú kemur og treystir og réttir út hendina. Og finnur að Guð vinkona þín, hún sem kom og var hann, hún tekur í hendina á þér og læknar þig. Þú ert frjáls. Allt í einu. Það er yndislegt. Tíminn líður og eitthvað af gráu hugsunum koma aftur. En einhverjar ekki. En þegar þær koma réttirðu út hendina og Guð tekur í hendina á þér og læknar þig. Aftur og aftur. Og þá verður þetta líka fína pláss fyrir gleðina. Það er þess vegna sem við hittumst aftur og aftur, í hverjum mánuði, í hverri viku, syngjum og biðjum og heyrum Orðið frá Guði. Um öll hin sem voru í rauninni alveg eins og við. Við komum og læknumst. Við tölum og föðmumst, styrkjumst og gleðjumst og förum út í hverfin okkar með gleði Guðs. Til að nota í dögunum. Það er afmælisgjöfin sem við gefum hver annarri og hvert öðru í dag á 19 ára afmæli okkar. Það er gjöf vináttunnar, yndisleg og ómetanleg gjöf. Og takk fyrir. Frá okkur öllum til þín. Ég held að þegar þú réttir Guði hendina og hún tekur í hana, þá horfi hún í augu þín og segi: Heyrðu, elskan mín. Heldurðu ekki að það væri gott fyrir þig að gera eins og hún vinkona okkar sem tók neðri skápana og leið svo vel á eftir. Og svo held ég hún segi: Þú veist að það eru margslags neðri skápar. En drífðu í þessu. Ég skal hjálpa þér. Við gerum þetta saman. Éger svo fegin að þú þarft á mér að halda. Og þú veist ég kemst ekki af án þín. Ég þarf að v vita af þér glaðri og bjartsýnni, þótt ég skilji vel að þú verður stundum að fá að vera ögn döpur og daufleg. Það er allt í lagi. En látum það ekki verða að vana. Drífum okkur. Ég held bara að Guð segi þetta svona. Hvað heldur þú? Og nú lýk ég afmælisorðunum með sömu tveimur spurningunum og ég spurði síðast: Hvað þolirðu mikið af mótlæti? Hvað þorirðu að taka ó móti mikilli gleði? Amen