Upplýsingar

Til hamingju með afmælið. Yndislega að sjá ykkur allar og öll. Nú syngjum við með Öllu og kórnum og Önnu Siggu og þökkum hver annarri og Guði hjartanlega fyrir þessi 20 ár sem við eigum saman. Mest þökkum við Guði vinkonu okkar fyrir að koma alltaf. Annars væri ekkert afmæli í kvöld og allt búið fyrir löngu. Það var hún sem gaf sem okkur hugmyndina og hefur brallað með okkur ár eftir ár, eins og Steinunnar okkar Pálsdóttur segir.

Það var yndislegt að heyra Elísabetu rifja upp árin okkar. Öll skrefin, hvert eftir annað, stigin smátt og smátt og alltaf örugg og alltaf glaðleg og valhoppandi. Fyrir 20 árum söfnuðumst við saman í Kópavogskirkju og Agnes prédikaði. Hún tengdi saman Kvennakirkjuna og Samstarfshóp um kvennaguðfræði sem gekk á undan okkur.

Samstarfshópurinn tók á móti kvennaguðfræðinni frá útlöndum og varð hluti af kvennaguðfræðinni sem breiddist þá um allan heiminn með mætti og gleði sem er ekki hægt að lýsa. Síðan hefur kvennaguðfræðin orðið að miklum atburðum – eins og Kvennakirkjunni okkar.

Hyggðu nú vel eftir, elskan mín. Hún er Kvennakirkjan okkar. Þín. Það skiptir öllu. Af því að þú skiptir öllu.  Enn og aftur skulum við segja það: Það ert þú sem ert aðalatriði Kvennakirkjunnar. Enn og aftur skulum við segja þér það: Nærvera þín er ómetanleg fyrir okkur hinar. Líka það að þú sem kemur bara stundum skulir alltaf vilja halda áfram að vera með. Þú heldur áfram að vera kvennakirkjukona, þú styður Kvennakirkjuna með því að tilheyra henni og senda henni árgjaldið þitt. Takk og aftur takk, frá okkur sem hittumst í Þingholtsstræti til að sjá um að alltaf sé hlýtt og ljómandi og ilmandi og alltaf eitthvað yndislegt um að vera.

Það er alltaf sama yfirskriftin yfir því sem við höfum um að vera.  Sama yfirskriftin með mismunandi undirfyrirsögnum. Stóra letrið er alltaf: Kvennaguðfræði í dagsins önn. Smáa letrið kannski: Hvernig á ég að njóta lífsins?  Hvernig á ég að ráða við kvíðann?  Hvernig á ég að lesa Biblíuna?

Er þetta kannski dálítið þröngt og dálítið metnaðarlítið ? Ættum við kannski að tala um það hvernig við getum haft áhrif á fátækt heimsins eða landsins eða launin hjá kvennastéttum?

Já, við ættum að gera það. Og við gerum það. Fyrirsagnirnar í smáa letrinu eru oft um þetta. Það er af því að það tilheyrir okkur öllum að hugsa um það sem gerist í þjóðfélaginu og veröldinni. Við hittumst til að hjálpa hver annarri til að víkka sjóndeildarhringinn og dýpka dómgreindina. Við kennum hver annarri það sem við kunnum – og við kunnum svo margt. Þegar við leggjum allar saman höfum við ótal margt að læra hver af annarri.

En þú ert alltaf aðalatriðið. Hvernig þér líður og hvernig þú getur notað trú þína í hversdögunum. Þess vegna hittumst við hjá Guði, og þess vegna biðjum við hver fyrir annarri. Í 20 ár hafa aðrar kvennakirkjukonur beðið fyrir okkur. Í 20 ár höfum við sagt hver annarri að Guð sé vinkona okkar. Að hún sé með okkur í hverjum degi. Og það sé með því að vinna með henni í venjulegum dögunum sem við náum tökum á lífinu.

Við kennum hver annarri að vefa saman trú okkar og daga. Það styrkir trú okkar að vinna venjuleg dagleg störf okkar, vinna vel og njóta þess sem við gerum og koma því frá sem við þurfum. Þá verða hugsanir okkar heiðríkar og friðsælar eins og fjallavötnin fagurblá og gera okkur svo flottar á götu og skemmtilegar í samtölum. Við búum til matinn, skúrum gólfið, hengjum þvottinn út í blæinn, skilum skattskýrslunni, skrifum bréfin, lesum bækur, tölum við Gunnu, lögum til á skrifborðinu og efri skápunum, förum út að ganga, lesum Biblíuna og syngjum sálma.

Einn af nýjustu sálmunum okkar er um það. Við syngjum hann í fyrsta sinn í kvöld. Alla fann lagið og sálminn og Sigríður Magnúsdóttir, Sigga Magg, Sigga sálmaskáld, þýddi hann fyrir okkur úr dönsku. Þær bralla mikið saman með öllum kórnum og Önnu Siggu og Guði sjálfri. Nú syngjum við saman um gleði Guðs í hversdeginum. Það er ekki minnst á Guð í þessum danska texta. En þegar við tölum um lífið tölum við um Guð. Og þegar við tölum um Guð tölum við um lífið.

Nú skulum við syngja. Syngjum: Í dag skaltu hefja þitt höfuð til himins, og hugsa um þitt líf. Þýðing Sigríðar Magnúsdóttur.

En líf okkar er dýpra en dagleg störf okkar. Þótt þau mistakist, kökur falli og vinátta skjálfi og vonbrigði yfir ómyndarskap sjálfra okkar ætli að kæfa okkur, þá stendur trú okkar, Hún fellur ekki og skelfur ekki og lætur ekki kæfa sig. Af því að hún er ekki bara byggð á okkur sjálfum heldur á Guði vinkonu okkar sem bregst aldrei. Það er þess vegna sem dagleg störf okkar geta hvílt á trú okkar. Af því að trú okkar hvílir í Guði.

Hún fyrirgefur okkur og leyfir okkur að fyrirgefa sjálfum okkur. Ég held að það sé grundvöllur lífsins. Ég held að það sé lykillinn að frelsi okkar og friði. Og femínisma. Það – að Guð fyrirgefur okkur og þess vegna megum við fyrirgefa sjálfum okkur. Það – að við burðumst ekki með óánægju okkar yfir sjálfum okkur og vonbrigði okkar yfir lífinu. Það – að við getum glaðst yfir því að vera þær sem við erum, yndislegar manneskjur og vinkonur Guðs.

Hvað heldur þú?

Nú segi ég þér hvað ég held að sé boðskapurinn sem við eigum allra helst að boða núna í kvennaguðfræði okkar. Til þess að fagnaðarerindið um fyrirgefninguna breyti lífi okkar dag eftir dag. Þú getur komið fram með þínar hugmyndir annað kvöld á námskeiðinu í Þingholtsstræti og á næstu mánudagskvöldum. Þá hlustum við á vinkonur okkar í Kvennakirkjunni halda stutt erindi og ræðum allt sem við viljum og gefum hver annarri stærri og dýpri hugsanir.

Ég held, ég er alveg sannfærð um það, að það sem við þurfum að tala um núna er það að Guð kom og var Jesús.

Það er svo mikið af alls konar hugmyndum sem þyrlast um okkur. Það eru alls konar heillaráð og austrænar trúarhugmyndir. Og margt í þeim öllum er prýðilegt og gagnlegt og við notum þær verulega til góðs. En við þurfum að átta okkur á þeim. Við þurfum bara einfaldlega að sjá hvað er um að ske og hvað við segjum um það.

Það er nefnilega svoleiðis – eða það held ég – og er bara sannfærð um það – að smátt og smátt ýta þessar hugmyndir sér inn svo að aðalatriðin í kristinni trú ýtast út. Af því að okkur finnst svo margt gott í boði. Og þegar kristnar hugmyndir um okkur ýtast út koma aðrar hugmyndir um okkur í staðinn. Þær koma í staðinn fyrir trúna á Guð sem er Jesús og fyrirgefur og frelsar okkur frá því sem við viljum ekki hafa í dögum okkar. Þá verðum við ekki frjálsar.

Hvað segirðu um þetta?

Þetta er ekkert nýtt. Þetta var svona þegar Jesús kom og hefur alltaf verið svona síðan og verður alltaf svona þangað til Jesús kemur aftur og gerir allt nýtt.

Ég held – að eins og við þurfum að sjá og skilja að það er ennþá munur á launum manna og kvenna, alls staðar í heiminum, þá þurfum við að sjá og skilja að það er enn þá urmull af hugmyndum sem keppir við kristna trú. Alls staðar í heiminum.

Hvert er aðalatriði kristinnar trúar?

Það að Guð kom og varð ein af okkur. Hún var Jesús. Og hún er það enn. Guð sem skapar er Jesús sem frelsar og heilagur andi sem er alltaf hjá okkur.

Hún er vinkona okkar. Okkar allra. Og vinkona þín.

Þú ert prestur Kvennakirkjunnar, hvað sem þú gerir. Þú ert prestur Jesú Krists og heilags anda. Þú ert prestur Guðs. Þú ert vinkona hennar og kemur fram í kærleika hennar hvar sem þú ert. Af því að hún vígði þig til þess. Eftir viku eigum við tvo nýja presta í Kvennakirkjunni. Við erum að fá umsóknir og í vikunni verða teknar ákvarðanir.

Og þú verður prestur með okkur. Þess vegna getum við allar prestvígðar og guðfræðimenntaðar konur Kvennakirkjunnar, og við erum fleiri en 30, lagt fram kvennaguðfræðina sem við kunnum. Af því að þú ert. Og þú tekur við kvennaguðfræðinni og notar hana. Og þú leggur fram þína kunnáttu sem við tökum allar á móti og er líka kvennaguðfræði. Takk fyrir að vera. Og til hamingju með að vera vinkona Guðs. Nú syngjum við um það. Amen

Syngjum: Við erum mildar og máttugar, af því að við erum vinkonur Guðs. Lag Ragnheiðar Ragnarsdóttur