Upplýsingar
Ég óska okkur öllum innilega til hamingju með afmælið. Og takk fyrir síðast, á föstudaginn, þegar við héldum afmælisveislu í nýju stofunum okkar á Laugavegi. Og þið sem komust ekki þá eruð komnar núna – og það er yndislegt að við skulum vera hér saman, allar og öll.
Og eins og stundum ætla ég að byrja með að segja okkur sögu. Hún er af flutningunum miklu frá Þingholtsstræti á Laugaveg fyrir hálfum mánuði. Þá komu vaskar sveitir og settu í kassa og báru furuborðið og stólana og aðrar eignir okkar. Og sumar tóku upp úr eldhúskössunum og mitt í ys og þys flutninganna bökuðu þær vöfflur og þeyttu rjóma og hituðu kaffi og slógu upp veislu.
Hinar konurnar í Kvennagarði voru líka að flytja í sínar vistarverur og komu sér strax fyrir. En það tók mig alla næstu viku að taka upp úr skrifstofukössunum, velja og flokka, færa og henda og velja bækur og raða þeim í skápana sína. Það var margs konar ys í Kvennagarði og fólkið vorkenndi mér hlýlega fyrir þessa óskaplegu ringulreið. En fyrir mér var þetta engin ringulreið. Fyrir mér var þetta lausn. Og svo kom að því að ég var búin eins og hinar. Og á afmælisdaginn voru brauð og rósir bornar í húsið – og svo komuð þið. Þið komuð með meiri rósir og kertaljós og nærveru ykkar. Við sungum úr nýja heftinu og veislan var yndisleg. Starfið var byrjað í nýju húsi.
Svona var þessi saga. Og svo kemur næsta saga. Hún er um það að það var einhvern veginn svona sem við fluttum í Kvennakirkjuna fyrir tíu árum. Þegar við fórum að vinna saman í nýrri Kvennakirkju pökkuðum við niður ýmsum gömlum hugmyndum um okkur og lífið og Guð og komum með þær með okkur. Svo tókum við þær aftur upp og fórum í gegnum þær, hentum og geymdum, og breyttum og röðuðum öðru vísi. Og við fengum nýjar hugmyndir, margar nýjar, eins og við höfðum vonað. Smátt og smátt rættust vonir okkar, og okkar eigin kvennaguðfræði mótaðist. Og svo breyttum við henni líka stundum. Hún er lifandi og vaxandi og blómstrar og fellir blóm og fær önnur í staðinn.
Kvennaguðfræðin er margskonar og við höfum fengið margt frá konum úti í veröldinni. Kvennaguðfræðin á rætur sínar í ritum Bibblíunnar og seint á 19. öld safnaðist hópur kvenna saman til að þýða þau og skrifa um þau kvennaguðfræði sem kom út í Kvennabiblíunni 1895 og 1898. Forystukonan var Elizabeth Cady Stanton sem stofnaði með Lucretiu Mott fyrstu kvennasamtök Bandaríkjanna árið 1848. Þá hófst bylgjan sem er kölluð fyrsta bylgja kvennahreyfingarinnar. Margar af konum hennar komu frá mótmælendakirkjunum, bæði í Ameríku og Evrópu. Þær höfðu fengið nýtt uppeldi í kirkjunni, hvatningu til að vera sjálfstæðar manneskjur í trú sinni og starfi, og þessi stefna varð ómetanleg, bæði fyrir þær sjálfar, kirkjuna og þjóðfélagið.
Hundrað árum seinna, um miðja síðustu öld, hófst önnur bylgja kvennahreyfingarinnar. Hún hófst með bók Simone de Beauvoir Hinu kyninu og hélt áfram með bók Betty Friedan um Kvenlega leyndardóminn. Kvennahreyfingin brunaði um veröldina með braki og brestum og frelsisboðskap sem breytti lífi okkar svo sem aldrei hafði fyrr orðið Konur gengu á hólm við gamlar hugmyndir. Það voru eldgamlar og ólseigar hugmyndir um að menn væru meiri en konur og konur væru og ættu að vera og hlytu að vera ósjálfstæðar og undirgefnar og að störf okkar og hugmyndir væru minna virði en það sem þeir sögðu og gerðu. Báðar bylgjur kvennahreyfingarinnar voru baráttubylgjur og margar konur unnu mikil þrekvirki sem við njótum nú í friðsæld.
Kvennaguðfræðin lagði fram mikinn skerf. Konur skrifuðu kvennaguðfræði í Evrópu og Ameríku og svo í Ástralíu, Afríku og Asíu . Það var skrifað um valdið og umhyggjuna. Það var sagt að Guð væri kona. Eins og við. Og að við myndum eignast nýtt álit á sjálfum okkur með því að trúa því. Guð er vinkona okkar, og hún þarfnast okkar eins mikið og við þörfnumst hennar, sagði Sallie McFague í Ameríku. Hún kallar okkur í vinnu og við brettum upp ermarnar, og á eftir setjumst við saman og borðum og syngjum. Það er mál til komið að taka Guð niður af stallinum. – Kristin trú getur ekki blómgast nema yfirgefa þennan hátt upp hafna Guð, skrifaði Dorothee Sölle í Þýskalandi. – Það er hættulegt að tala svona um Guð sem konung og sigurvegara sem hefur allan máttin sín megin, segir Sallie. Það fyllir okkur ótta og gerir gæsku Guðs auðmýkjandi fyrir okkur.
Ef Guð er karlkyns eru karlar guðir, skrifaði Mary Daly í Ameríku og Rosemary Radford Ruether sagði að það hefði gefið mönnum mátt yfir konum að guðfræðin raðaði upp valdaröð þar sem Guð faðir sat efst og svo komu mannlegir feður í kirkjunni og fyrirtækjunum og á heimilunum og neðst voru konurnar sem voru mæður og þjónustustúlkur heima og heiman.
Þetta gengur ekki, skrifaði Naomi Goldenberg, sem er trúarlífssálfræðingur. Menning sem hefur karlkynsmynd sem æðsta guðdóm sinn leyfir konum aldrei að líta á sjálfar sig sem jafningja karla. Kvenfrelsiskonur verða að segja skilið við Krist og Biblíuna til að móta guðfræði um frelsun kvenna. Konur verða að berjast á móti kynjamisréttinu með því að yfirgefa kristna trú og gyðingdóm. Þær verða að treysta sjálfum sér meira en Jesú, kirkjunni og Biblíunni. Og þegar það verður hrista þær trúarbrögðin niður að rótum sínum. Og það óttast feður trúarbragðanna svo óskaplega að þeir munu alltaf berjast á móti meiri áhrifum baráttukvenna í kirkjunni.
Ég er að segja okkur allar þessar sögur úr kvennaguðfræðinni af því að ég er þess aldeilsis algjörlega fullviss að þær eru sögurnar um Kvennakirkjuna. Þær eru um spurningarnar sem við spyrjum í kvennaguðfræði okkar um jafnréttið og kirkjuna og þjóðfélagið. Og um okkur sjálfar, alveg óháð því hvað öðrum finnst, bara um það hvað okkur finnstu um okkur. Því þegar öllu er á botnin hvolft skiptir það okkur mestu hvað við hugsum um sjálfar okkur. Það skiptir mestu hvað við hugsum. Og það skiptir mestu hvað við hugsum og segjum saman.
Við erum spurðar að því aftur og aftur hvers vegna við séum í kvennakirkju og hvort við séum á móti mönnum. Og við svörum hver fyrir sig eins og við viljum. Ég segi að við séum í kvennakirkju af því að kirkjan sé karlakirkja, og við sjáum það bæði á málfarinu og guðfræðinni og prédikuninni og tignunum. En við erum ekki á móti mönnum. Við elskum menn og við elskum allar sérstaka menn sem koma okkur sérstaklega við, hvort sem þeir eru menn okkar, feður eða bræður eða synir eða barnabörn eða frændur. Við dáumst að mörgum mönnum og metum þá óhemjulega. En við erum ekki þeir. Við erum við. Og við höfum aðra sögu en þeir. Öll sagan hefur aðrar hugmyndir um okkur og þá. Við erum ekki á móti mönnum, en við erum á móti hugmyndunum sem skipta mönnum og konum í tvo hópa sem hafa mismunandi rétt. Og þessi skipting er jafn vond fyrir þá og okkur. Þess vegna berjumst við ekki bara í kvennaguðfræði okkar fyrir rétti kvenna heldur líka fyrir rétti manna.
Þess vegna varð Kvennakirkjan til. Hún varð til af því að konur hafa ekki réttinn sem þeim var gefinn í sköpuninni. Og af því að menn hafa hann heldur ekki, og af því að þetta er hvort tveggja vont. Og af því að við erum skyldugar til að berjast fyrir rétti okkar. Og ef við berjumst ekki fyrir rétti okkar berjumst við heldur ekki fyrir rétti annarra. Það er bannað í kristinni trú að una óréttlætinu.
Og nú ætla ég að segja ykkur enn eina sögu og hún verður næst síðasta sagan sem ég segi. Hún er um fyrstu kvennahreyfinguna sem er ekki nafngreind í sögu kvennahreyfingarinnar. Það er kvennabylgjan sem Jesús stofnaði til. Þegar hann kom gerði hann veg kvenna aftur þann sem við áttum í sköpuninni. Við vorum ekki fyrst og fremst jafnar og menn heldur áttu menn og konur heiminn saman svo að það var enginn ójöfnuður. En svo kom syndafallið og feðraveldið og öll hin mikla kúgun sem bitnaði bæði á mönnum og konum. En tvöfalt á konum. Jesús gerði konur og menn aftur jöfn, hann gaf þeim sömu störfin og sama valdið og sömu umhyggjuna. Hann sagði við konur að það væri ekki aðalatriði lífs þeirra að eignast börn, sem þó var annars sagt af svo miklum þunga. Það var aðalatriðið að lifa í fagnaðarerindinu. Hann gerði konur að lærisveinum og postulum.
Ég er sammála öllu sem ég vitnaði til nema því sem Naomi Goldenberg segir um að við verðum að yfirgefa kristna trú til að finna sjálfar okkur. Ég er sannfærð um að við finnum sjálfar okkur í kvennaguðfræðinni sem við lesum og skrifum og lifum saman.
Og þótt við leggjum það aldrei hver að annarri í Kvennakirkjunni að vera sammála um allt er ég viss um að við erum sammála um þetta. Og þess vegna höldum við áfram eins og við höfum gert. Við hugum að sjálfum okkur og við hugum að heiminum í kringum okkur.
Við leitum alltaf lausna. Allt sem við gerum miðar að því að finna lausnir. Við leitum lausna til að fá það vald sem við eigum og til að deila því með okkur. Við leitum lausna til að finna hvernig auðmýktin verður styrkur og styrkur okkar verður auðmjúkur. Við leitum lausna til að finna hvernig umhyggjan og valdið leiðast. Hvernig við getum lifað í fyrirgefningunni. Hvernig við erum mildar og máttugar. Hvernig við vinnum hver með annarri í djúpri virðingu og glaðværð og hvernig við vinnum með mönnum og konum úti í daglegu lífi okkar.
Og nú kemur síðasta sagan og hún er um það sem við byrjuðum á, flutningana til nýja hússins. Maggi smiður er einn af mönnunum sem unnu við að endurnýja húsnæðið og margir menn vinna með honum. Þeir koma okkur alltaf til hjálpar þegar við biðjum þá. Þeir hengdu myndirnar upp fyrir okkur, og þeir segja aldrei að við ættum að geta gert þetta sjálfar úr því að við þykjumst vera jafn klárar og þeir. Okkur líður vel í návist þeirra og við metum þá mikils og okkur þykir vænt um þá.
Og daginn fyrir afmælið kom konan frá Tælandi sem ætlaði að taka að sér að þvo húsnæðið okkar fyrir afmælið. Hún leit yfir verkefnið og mat það, sagðist taka það að sér og sagði hvaða tæki hún vildi fá. Svo kom hún á afmælisdaginn, gerði allt hreint fyrir boðið, handviss um mikilvægi verksins og hæfni sína til að vinna það. Henni datt ekki í hug að það væri minna virði en það sem Maggi smiður gerði eða það sem við hinar gerðum. Og okkur datt það heldur ekki í hug. Hún var auðmjúk og kurteis, sterk og örugg. Við horfðum hrifnar og glaðar á gljáandi gólfin og upphengdar myndirnar, settum blóm í gluggana og bárum inn brauð og rósir, vínber og vínarbrauð og biðum með tilhlökkun eftir ykkur. Og þegar þið komuð ein eftir aðra varð dagurinn fullkominn.
Systur. Höldum áfram. Skrifum djúpa og glaðværa kvennaguðfræði sem færir okkur lausnirnar smátt og smátt. Mildar og máttugar höldum við út í næsta áratug Kvennakirkjunnar í trúnni á Frelsarann sem var sjálfur mildur og máttugur og barðist alltaf fyrir rétti okkar.
Nú er komið að okkur að berjast fyrir rétti hans til að gefa okkur réttinn sem við fengum í sköpuninni.