Upplýsingar

Í fyrra á aðventunni hitti ég eina vinkonu mína á förnum vegi. Hún hafði ekki tíma til að tala við mig heldur hljóp áfram og sagði: ,,Ég hef ekki tíma til þess að tala við þið núna, ég á eftir að skreyta allar jóagjafirnar, kaupa allt húsið, baka jólakortin og skrifa smákökurnar.”
Þessi sama vinkona mín kom til mín núna í nóvember og sagði mér að hún gæti ekki hugsað sér að upplifa aðra eins aðventu og í fyrra. Svo ég ákvað að gefa henni nokkur einföld ráð og í kvöld ætla ég að gefa ykkur þessi ráð og ég vona að þið getið notað þau eins og vinkona mín. Sem sagt þá ætla ég að segja ykkur í kvöld hvernig ég og Guð njótum aðventunnar saman.

Við byrjum á því að fara í blómabúð eða einhverja aðra búð sem selur kerti. Mér finnst voða gott að fara í Blómaval vegna þess að ég bý hérna í hverfinu. Þegar við komum inn í búðina þá göngum ákveðnum skrefum að kertadeildinni og kaupum okkur kerti með piparkökulykt eða einhverri annarri kökulykt. Ég keypti t.d. þetta kerti núna í vikunni, það er með svona kryddlykt, ekkert ósvipaðri lykt og kemur af nýbökuðum piparkökum.

Það næsta sem við gerum er að fara út í búð þ.e. svona matvöruverslun, helst í Bónus eða Krónuna, því það er hagstæðast fyrir budduna okkar, en annars ráðið þið því alveg í hvaða búð þið farið. Þegar inn í búðina er komið þá gangið aftur þessu ákveðnum og öruggu skrefum að hillunum þar sem allar dásamlegu tilbúnu smákökurnar eru. Allar tegundirnar sem búið er að baka fyrir okkur. Þið kaupið nokkrar sortir, allt eftir því sem ykkur langar í og líst á. Það er mjög sniðugt að kaupa svona piparkökukerlingar og karla eins og þessa hér.

En jæja nú eruð þið komnar með kerti með smákökulykt og smákökur. Nú er tími til kominn að halda heim á leið, ekki gleyma að borga við kassann og verið alls ekki skömmustulegar þegar ungabarnið á kassanum rennir keyptum smákökum ykkar yfir geislann á kassanum og ekkert reyna einu sinni að tauta einhverjar afsakanir eða útskýringar, enda gæti því ekki verið meira sama.

Jæja, nú eruð þið komnar vel í gang með aðventu undirbúninginn, í fórum ykkar hafið þið smákökulykt og smákökur, nú farið þið heim, ýmist gangandi, í strætó eða á ykkar eigin bíl, það er líka í ykkar höndum. Þegar heim er komið þá byrjið þið á því að kveikja á kertinu, það væri kannski ekki verra að kaupa bara nokkur svona lítil sprittkerti og dreifa þeim svolítið um húsið eða íbúðina.

Síðan náið þið ykkur í fötu, látið renna í hana örlítið vatn og bætið við nokkrum dropum af hreingerningarlegi, komið fötunni fyrir á góðum stað. Ekki er heldur vitlaust að láta örlítið vatn renna í eldhúsvaskinn, setja tappann í og láta nokkra dropa af sápulegi þar.

Jæja þá er þetta búið og næst á dagskrá er að setja nýkeyptu smákökurnar í jólasmákökuboxin, en munið þið samt að henda smákökunum úr síðan í fyrra og kannski væri nú réttast að þurrka aðeins úr þeim.

Áður en lengra er haldið, farið þá fram á baðherbergi og ef þið búið svo vel að hafa baðkar, látið þá renna í heitt og gott bað og látið alls konar góða jólalykt út í baðvatnið og kveikið á enn fleiri kertum, en það er ekki nauðsynlegt að það séu ilmkerti. Ef þið búið ekki svo vel að hafa baðkar, þá vefjið þið ykkur bara inn í mjúkt og hlýtt teppi og komið ykkur vel fyrir á góðum stað þar sem vel fer um ykkur.

Snúum okkur nú aftur að eldhússtörfunum. Ef þið viljið nú vera ,,grand” á því, þá skuluð þið nú taka keyptu piparkökukerlingarnar og karlana og raða þeim á bökunarplötu, bara svona til að fá stemminguna og jafnvel ná í örlítið hveiti, ef þið búið nú svo vel að eiga einhversstaðar örlitla lús, og strá því svona, eða jafnvel bara þyrla því svona um eldhúsið, það er svo jólalegt. Þegar búið er að setja piparkökukerlingarnar og karlana á plöturnar, raða smákökuboxunum á áberandi stað í eldhúsinu er kominn tími til að leggjast í heita og mjúka baðið sem þið létuð renna í á meðan þið stóðuð í ,,bakstrinum”.

Látið nú þreytuna líða úr ykkur og ekki væri nú fjarri að leiða hugann aðeins að tilgangi aðventunnar þar sem þið liggið nú í heitu baðinu og finnið vatnið umlykja ykkur eins og hlýja og mjúka sæng eða kannski eins og nærveru Guðs sem umlykur ykkur allan daginn og hefur verið að stússa þetta með ykkur.

Hún sem er búin að koma því svo vel fyrir að við getum keypt smákökulykt út í búð ásamt smákökum og öðru tilheyrandi svo við getum notið aðventunnar, notið hennar með henni. Við eigum að njóta aðventunnar, aðventan er tíminn sem Guð gefur okkur til að undirbúa okkur sjálf fyrir jólin. Notum aðventuna til að taka til í hjartanu okkar og rýma til fyrir boðskap jólanna, rýmum til fyrir friði jólanna.

Njótum og notum aðventuna, ef rykið pirrar okkur fáum okkur þá bara daufari perur í lampana okkar og ljósin og kveikjum bara á kertum. Förum frekar á kaffihús með vinkonum okkar og fáum okkur heitt súkkulaði með rjóma. Finnum ilminn af mandarínunum og njótum samvista við fólkið okkar. Leyfum aðventufriðnum að umvefja okkur og tökum á móti jólunum með Guði.