Upplýsingar

Prédikun í Kvennakirkjunni, sunnudaginn 10. Nóvember í Grensáskirkju

Mattheusarguðspjall 28.18

Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.  Farið því og kennið öllum þjóðum að þekkja mig.  Skírið þær í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið ykkur.  Sjá, ég er með ykkur alla daga allt til enda veraldar.

Fyrir nokkrum vikum var ég að brjóta saman plastpoka. Já þið heyrðuð rétt ég var að brjóta saman plastpoka – ekki þvott.  Þegar ég ferðast erlendis flyt ég með mér heim alla þá plastpoka sem mér áskotnast í útlöndum. Þeir koma allir að einhverjum notum þegar heim er komið, kona á aldrei nóg af plastpokum. En þar sem ég var að dunda mér við þetta vakti einn plastpokinn sérstaka athygli mína. Hann er fagurgulur og er merktur búð sem heitir Forever 21 sem gæti á íslensku útlagst Tuttugu og eins að eilífu.Ég mundi strax eftir þessari búð. Tískuvörubúð sem leggur áherslu á fatnað og fylgihluti fyrir ungt fólk, eins og nafnið gefur til kynna. Stútfull af allskonar glingri, bæði nútímaleg og veraldleg.  Og einmitt þess vegna kom það sem ég fann á botni pokans mér algjörlega á óvart. Neðst á pokanum stendur John 3:16. Og ekki bara einu sinni, heldur tvisvar. Já á botni pokans er Biblíutilvitnun, Jóhannes 3:16. Ekki bara einhver biblíutilvitnun heldur texti sem gengur undir nafninu Litla Biblían  því hann segir í einn setningu allt sem segja þarf um kristna trú:  Að Guð hafi komið sem Jesús Kristur, frelsað okkur og gefið okkur eilíft líf. Ég var orðlaus af undrun en líka einhvern vegin ofvirk af gleði og mér fannst ég tilheyra svo stórri heild – risastórri heild sem stefnir öll að sama markinu.

Á nýafstöðu námskeiði okkar hér í Kvennakirkjunni sem hét Vertu leiðtogi í þínu eigin lífi setti Auður Eir fram skemmtilega hugmynd um ríki Guðs. Í fyrsta kaflanum stendur ,,Guðsríkið er aldagamalt alþjóðafyrirtæki. Við vinnum þar með milljónum fólks um alla veröldina. Daglegt líf okkar er okkar deild. „
Þegar ég las þessi orð varð mér hugsað til plastpokans – Ég sá fyrir mér skælbrosandi ókunnugt fólk í annarri deild Guðsríkisins í Ameríku sem hafði fengið frábæra hugmynd. Hugmynd um að minna á og breiða út boðskap trúarinnar á þennan stórundarlega en jafnframt snilldarlega hátt, með fjórum bókstöfum, þremur tölustöfum og einum tvípunkti á plastpokabotni. Mikið held ég að bæði þau og Guð hafi verið ánægð  með þessa hugmynd.

Að koma sama og að segja frá hefur frá upphafi verið grundvallar atriði Kristinnar trúar. Sögurnar af Jesú og skilaboðin sem hann flutti breiddust út eins og eldur í sinu meðan hann var á lífi og fólkið flykktist að til að sjá hann og heyra. Jesús skyldi fyrstu vinkonur sínar og vini líka eftir með eldheit skilaboð um að nú væri komið að þeim að taka við keflinu og fara af stað útí heiminn og segja frá. Þau skilaboð heyrðum við lesin í guðspjallinu áðan.

Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.  Farið því og kennið öllum þjóðum að þekkja mig.  Skírið þær í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið ykkur.  Sjá, ég er með ykkur alla daga allt til enda veraldar.

Jesús hvatti vinkonur sínar og  vini til að segja frá hvað það þýðir að þekkja hann og fylgja honum. Segja frá hvaða áhrif það hefur að vita sig elskuð og virt og skynja kærleika Guðs sem á sér engan líkan. Segja öðrum hvaða tilfinningu það skilur eftir að sleppa tökunum og treysta Guði fyrir daglegu amstri, jafnt stóru sem smáu. Og síðan þá hefur kristið fólk um allan heim leitast við að segja frá. Ekki vegna þess að það sé krafa trúarinnar heldur vegna þess að trúin hefur þessi áhrif.
Það er nefnilega þannig að þátttakan í Guðsríkinu breytir okkur og lífinu sem við lifum. Kraftur Guðs dýpkar gleðina í lífi okkar og eykur þolinmæði og umburðarlyndi. Fær okkur til að sjá okkur sjálf á nýjan og ferskan hátt og fær okkur til að leita nýrri og betri leiða til að umgangast annað fólk.

Guð breytir heiminum með því að breyta okkur.

Og þegar við finnum hversu öflugt Guðsríkið er og hversu mikilvæg trúin er í daglegu lífi okkar finnum við sífellt sterkari þrá til að deila reynslu okkar með umheiminum. Til að gefa heiminum og Guði til baka það sem Guð hefur gefið okkur. Við finnum hjá okkur innri þörf  fyrir að fara af stað og segja frá.
Þörfin fyrir að fara af stað og segja frá helst í hendur við þörfina fyrir að koma saman í nafni trúarinnar. Í samfélaginu við Guð og vinkonur hennar og vini leggjum við grunninn að vináttu, finnum við hlýju og umhyggju og öðlumst viðurkenningu og uppörvun. Og trúin okkar vex í samfélaginu við annað fólk sem trúir. Þar miðlum við reynslu okkar af Guði. Gefum hvort öðru orð og myndir til að skilgreina upplifanir okkar og lærum hagnýt ráð til að efla tengsl okkar við Guð og hvert við annað.

Við komum saman hér í kirkjunni sem samfélag fólksins hennar því það er hér sem nærumst, sækjum styrk og frelsi trúarinnar til að halda aftur áfram út í hversdaginn, trúarreynslunni ríkari og full af eldmóð til að taka við keflinu frá jesú og segja frá því sem við skynjum að er besti grundvöllur lífsins.

Fyrir nokkrum dögum tók okkar sameiginlega deild í Guðsríkinu, Kvennakirkjan, skælbrosandi ákvörðun um að gefa út nýtt upplag af fyrsta heftinu í ritröð Kvennakirkjunnar. Fyrsta upplagið hafði klárast og færri fengið en vildu. Heftið er eftur Auði Eir og heitir Vertu leiðtogi í þínu eigin lífi og var, eins og ég sagði áður, grundvöllurinn að fyrsta námskeiðinu okkar í haust. Ákvörðunin var samþykkt einróma og tekinn vegna þess að heftið er harla gott eins og Guð sjálf og boðar á ferskan og áhrifaríkan hátt aldagömul skilaboð sem breyta lífi þeirra sem heyra. Við sem erum Kvennakirkjan þráum að fleiri heyri boðskapinn um Guð sem elskar og skapar, frelsar og fyrirgefur og breytir lífi þeirra sem kynnast honum. Ég veit að þetta er hvorki í fyrsta né síðasta skipti sem Kvennakirkjan tekur ákvörðun um að miðla öðrum af trúarsannfæringu sinni – en þetta er okkar ferskasta tækifæri til að segja frá og auglýsa elsku Guðs.

Og talandi um Auglýsingar þá eru alltaf annað slagði auglýsingar í samtíma okkar sem hafa ekkert með Guðsríkið að gera en geta samt opnað augu okkar fyrir Guði. í útjaðri Reykjavíkur rakst ég um daginn á flennistórt auglýsingaskilti og ein setningin þar hefur bergmálað í höfðinu á mér síðan. Á skiltinu stendur ,, Ég fæ aldrei nóg af þér“.
Þannig er Guð. Hún fær aldrei nóg af okkur. Guð elskar okkur á einhvern þann hátt sem við eigum erfitt með að ná utan um. Hún elskar okkur án allra skilyrða, sama hvaða vitleysisgang við framkvæmum, sama  hvað við gerum eða hugsum. Jafnvel þegar við erum um það bil að fá nóg af okkur sjálfum þá kemur Guð askvaðandi, brýst í gegnum auglýsingu frá Coca Cola og segir ,, Ég fæ aldrei nóg af þér„ ,, Ég fæ í alvörunni aldrei nóg af þér“.

Þó Guð hafi vissulega ekki lofað okkur að við yrðum Tuttugu og eins að eilífu þá lofaði hún okkur eilífu lífi. Og eldheitu skilaboðin sem Jesús skyldi eftir handa vinkonum sínum og vinum bera þessi merki. Guð frelsar okkur og er alltaf með okkur, þangað til ekkert verður eftir af heiminum. Að eilífu. Og það eru svo mikilvæg skilaboð að þau eiga  heima alls staðar, líka á gulum plastpokum og auglýsingaskiltum.