Upplýsingar

Yfirskrift messunnar er að nú fáum við bílpróf og við skrifuðum það í Fréttabréfið. Og svo spurðum við: Hvert keyrum við og hvaða orku keyrum við á og hvaða reglur mæta okkur í umferðinni? Það er við hæfi að koma með afmælisgjafir. Þær eru komnar og Ásdís vinkona okkar er búin að leggja þær fram á kirkjugólfið. Þær eru eins og lækur sem liðast um fullur af gjöfum. Eplum og appelsínum og appelsíni og malti.

Yfirskrift messunnar er að nú fáum við bílpróf og við skrifuðum það í Fréttabréfið. Og svo Þetta hefur allt sína hyldjúpu þýðingu. Appelsínið og maltið er sett í lækinn til að hjala við okkur um þá frábæru blöndu sem Guð gefur okkur til að nota í trú okkar í hversdeginum.

Líf okkar liðast um hversdagana, einn eftir annan. Bláa og rauða og gula og gráa og svarta. Og líka græna og alla vega blæbrigði af öllum þessum og enn fleiri litum. Það er þar, í öllum litum sem birtast, sem Guð gefur okkur trú okkar. Trúna á sig. Sem gefur okkur trúna á sjálfar okkur, annað fólk og lífið. Ég ætla að blanda gjöfunum, hella appelsíni og malti saman, til að spjalla um samtakamátt okkar og Guðs. Það er með því að taka boði hennar um vináttu hennar og vináttu okkar sem dagarnir verða góðir. Við megum blanda okkur í stórkostleg verk hennar, með því að þiggja það að hún blandi sér inn í okkar verk. Það er þess vegna sem við stofnuðum Kvennakirkjuna og höfum alið hana upp og elskað hana í 17 ár.

Kvennakirkjan hefur líka alið okkur upp og elskað okkur. Við segjum hver annarri og hvert öðru það aftur og aftur. Við komum með það sem býr okkur í brjósti, gleði og sorgir, og blöndumst hinum sem koma líka með það sem þær vilja segja Guði. Í söngnum og bænunum og prédikuninni og nærveru hver annarrar finnum við nærveru hennar. Hennar sem er grundvöllur Kvennakirkjunnar. Hún kom og varð ein af okkur. Hún var og er Jesús frelsari okkar.

Ég er að lesa guðfræði frá Lúterska heimssambandinu sem eru samtök lúterskra kirkna. Þau eiga samastað í Sviss, og senda þaðan gullin guðfræðirit út í kirkjurnar. Þar er skrifað um margvíslega blöndu af margs konar trú sem liðast um Evrópu og Ameríku. Við sjáum það líka dag eftir dag hvernig þessi blanda rennur um okkar eigið góða land. Hérna er það blanda af margs konar þjóðtrú og margskonar austulenskum trúarbrögðum. Eða það held ég. Hvað heldur þú? Fólk segir sig úr þjóðkirkjunni og setur upp sjálfstætt. Sína eigin trú sem það velur sjálft og býr sjálft til úr ýmsum glösum. Það er ekki bannað. Við megum öll hafa þá trú sem við kjósum. Sem betur fer. Það væri ekki bara lítið gagnlegt heldur skelfilegt ef við mættum það ekki.   Það er spurt hvort það sé ekki sami guð bak við alla trú. Hvort kristið fólk sé ekki drambsamt og frekt að þykjast eiga trúna sem sé rétt.

Ég kom með fleiri afmælisgjafir en appelsínið og maltið. Ýmislegt sem er hægt að blanda saman við maltið og appelsínið, ýmislegt prýðilegt eins og það sem er í þessum flöskum og fernum. Þær eiga að tákna þetta ýmislega sem við eigum aðgang að í kringum okkur, margvíslega visku sem býr í þekkingunni og spekinni og líka gæskunni í kringum okkur. Við, eins og allar aðrar manneskjur, megur njóta þess og nota það. En við skulum ekki blanda því saman við trú okkar. Þess vegna læt ég það standa hérna kringum maltið og appelsínið sem ég blandaði saman. En ég blanda því ekki út í. Við skulum láta það standa þar sem við getum notað það. En við skulum láta trú okkar vera trú okkar. Hvers vegna? Af því að trú okkar er hvorki speki eða kærleikur á okkar snærum. Hún er vináttan milli Guðs og okkar. Hún er vináttan við Guð sem skapaði okkur og kom til að frelsa okkur og er alltaf hjá okkur.

Þessi vinátta er dýrmætasta eign okkar. Við getum skoðað málverk eftir mikið listafólk og lesið bækur þess og notið vísindaverka mikilla hugsuða og framkvæmdafólks. Án þess að þekkja þau eða hafa nokkurn tíma séð þau. Þau hafa unnið veröldinni mikið gagn. Sum þeirra trúa á Jesúm Krist og játa honum trú sína. Önnur gera það ekki. Það væri svo stórkostlegt að þekkja þetta mikla fólk að þau sem hafa bara séð það í svip hrósa sér af því. Við sjáum verk Guðs. Og við njótum þeirra. Og við þekkjum hana sjálfa. Hún er vinkona okkar. Hún kom og var ein af okkur.   Hún var og er Kristur. Hún er í kristinni trú. Hún sagði það sjálf og við treystum því. Það er á hennar eigin snærum og bara á hennar snærum að ákveða hvar hún er annars staðar og hvernig. Ég er þess fullviss að það er bráðnauðsynlegt núna að allt kristið fólk um alla veröldina slái skjaldborg um kristna trú. Og blandi henni ekki saman við nokkrar kenningar eða speki. Ég er þess fullviss að það er orkan sem við keyrum á. Hvað heldur þú?

Ég kom líka með appelsínur og epli til að gefa okkur í afmælisgjöf. Hvort viltu? Appelsínu eða epli? Á meðan þú velur ætla ég að segja þér afmælissögu. Hún er um mig. Og Óla vin minn sem ég hef þekkt frá því að ég var níu ára. Ég hitti hann um daginn og sagði: Ertu kominn frá Afríku? Og hann sagði: Já, en núna var ég að koma frá Ameríku. Og ég er að fara til Portúgal. Já, sagði ég. Ég hef líka farið bæði til Hafnarfjarðar og upp á Akranes. Ætli ég hafi ekki frétt af öllu þessu flandri þínu, sagði hann. Þetta var að vísu endemis grobb í mér með Akranesið og Hafnarfjörðinn. Meðan hann flandraði út um álfur hef ég ekki farið víðar en milli Kópavogs og Reykjavíkur. Og er engu fegnari. Því mér þykir svo gaman að vera hérna.

Hvort viltu nú eplið sem er eins og flandrið í Óla, eða appelsínuna sem er eins og staðfestan í mér? Afmælisgjöfin er sú að þú þarft ekki að velja. Þú getur gert það sem þú vilt. Verið þegar þú vilt og farið þegar þú hefur tækifærið og löngunina. Við skulum taka á móti þeirri yndislegu afmælisgjöf frá Guði að við getum valið okkar eigin lífsstíl. Og við skulum meta og efla og elska og dá þann lífsstíl sem við veljum okkur. Meta líka lífsstíl annarra. En ekki halda að hann sé betri en okkar. Og ekki halda að okkar sé betri en hinna. Við spurðum sjálfar okkur á hvaða orku við ætlum að keyra og hvaða reglum við verðum að hlýða og hvert við ætlum að keyra með nýja bílprófið okkar. Við ætlum að keyra á náð Guðs. Hún skipar okkur ekki að hlýða neinum reglum. Hún gefur okkur þá gullnu reglu að treysta sér. Þá treystum við sjálfum okkur, öðrum og lífinu. Í náð hennar keyrum við hver aðra heim til sjálfra okkar. Þegar við gleðjumst allar yfir okkur sjálfum gleðjumst við líka hver yfir annarri og verðum öðru fólki til hjálpar. Við völdum okkur afmælisvers úr Galatabréfinu um appelsínu og epli lífsins, ávexti trúarinnar. Þeir eru kærleikur og gleði, friður og langlyndi, gæska og góðvild, heiðarleiki, hógværð og sú mikla gleði að hafa sjálfar okkur í eigin höndum. Og vita um utan um okkar hendur eru hendur Guðs. Til hamingju með það. Amen.