Við höldum áfram að tala um blessun kristinnar trúar okkar og nú skulum við tala um jafnvægið. Þegar ég var lítil átti ég gullfallegan djúpan disk sem Rannveig sem passaði mig lét kaupa handa mér í Englandi. Mér fannst hann mjög stór og með stórum börmum. Ég sé núna hvað hann var lítill en hvað barmarnir voru stórir og sléttir eins og mér fannst líka þá. Einu sinni var ég að ganga með diskinn fullan af kakósúpu út að eldhúsborðinu og þurfti ekki bara að halda fast um barmana heldur líka gæta að hverju skrefi svo kakósúpan skvettist ekki uppúr. Finnst þér ekki að það sé ýmislegt þessu líkt í dögunum? Við þurfum að stíga varlega til að gæta að verkefnunum í höndum okkar. Við sjáum stundum seinna að þau voru ekki jafn stór og okkur fannst þá. Og alltaf megum við sjá að eins og ég komst slysalaust að eldúsborðinu komumst við oftast prýðilega gegnum dagana. Guð hjálpar okkur gegnum daginn og við þökkum henni af öllu hjarta.
Blíðar kveðjur, Auður