Markmið Kvennakirkjunnar er að vera vettvangur kvenna sem vilja hittast til að fá styrk og gleði kristinnar trúar og nota í daglegu lífi. Við komum með nærveru okkar og hugmyndir, gleði og vanlíðan, við gefum það hinum, og tökum á móti því sem þær gefa. Nærvera hinna er öllum konum Kvennakirkjunnar mikilvæg og við biðjum allar hver fyrir annarri. Félagskonur Kvennakirkjunnar eru um 100 og eru nýjar félagskonur eru boðnar velkomnar.
Námskeið Kvennakirkjunnar eru haldin síðdegis á mánudögum. Námskeiðin byggjast öll á kvennaguðfræði og fjalla um margvísleg efni, lífsgleðina, lífsstílinn, ráð í dagsins önn, ráð til að komast frá erfiðleikum skilnaðar, kenningar kvennaguðfræðinnar, Biblíuna og margt fleira.
Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir og séra Arndís G. Bernahardsdóttir Linn eru prestar Kvennakirkjunnar. Söngstjóri Kvennakirkjunnar er Aðalheiður Þorsteinsdóttir. Kristín Ragnarsdóttir er gjaldkeri og Elísabet Þorgeirsdóttir upplýsingafulltrúi.