Við vígsluna í Dómkirkjunni í gær sagði Agnes biskup að um  merkisatburð væri að ræða þar sem í fyrsta sinn væri prestur vígður til að sinna sérstaklega þjónustu við konur í kirkjunni.  Í yfirlýsingu sem hún setti á heimasíðu sína www.biskup.is sagði hún  jafnframt að með vígslu prests Kvennakirkjunnar væri lögð áhersla á mikilvægi kvennaguðfræði og jafnréttis kynjanna fyrir kirkju framtíðarinnar á Íslandi. Kvennakirkjan fagnar þessum orðum biskups og tekur heilshugar undir þau. Agnes sagði m.a.

Í fyrsta sinn hefur prestur verið vígður til að sinna sérstaklega þjónustu við konur í kirkjunni.  Sr. Arndís G.  Bernhardsdóttir Linn mun þjóna í Kvennakirkjunni, sem hefur starfað í  20 ár sem sjálfstæð samtök á vettvangi þjóðkirkjunnar. Kvennakirkjan  hefur rannsakað og iðkað kvennaguðfræði, en kvennaguðfræði er guðfræði  sem konur skrifa um vináttu Guðs í lífi þeirra.  Kvennaguðfræðin hefur  eflt kirkjuna og íslenskt samfélag og mun halda áfram að gera það í  framtíðinni. Kvennaguðfræðin og jafnrétti kynjanna eru málefni  framtíðar en ekki bara fortíðar. Þó margt hafi áunnist í  jafnréttismálum og varðandi rétt og möguleika kvenna er jafnrétti ekki  náð. Stöðugt þarf að vinna áfram á þessum vettvangi og með vígslu  prests Kvennakirkjunnar er lögð áhersla á mikilvægi þessa málaflokks fyrir kirkju framtíðarinnar á Íslandi. Sr. Arndís hefur bæst í þann hóp presta er hafa á hendi sérþjónustu í kirkjunni eða hjá félagasamtökum. Fyrst um sinn verður þjónusta hennar sjálfboðin en  vonandi verður prestsþjónusta Kvennakirkjunnar launuð þegar fram líða  stundir.

Hér má lesa frétt um atburðinn á heimasíðu biskups Íslands