Saga kvennaguðfræðinnar nær langt aftur í tímann til tíma þegar konur lifðu eftir hugmyndum þeirrar kvennaguðfræði sem var ekki skrifuð fyrr en seinna. Siðbótin á sextándu öldinni svipti konur ýmsum möguleikum en gaf þeim aðra og meiri í staðinn. Konur sem höfðu átt möguleika á sjálfstæði og menntun í klaustrum kaþólsku kirkjunnar gengu úr klaustrunum og sumum þeirra mætti aftur það hlutskipti sem konur höfðu flúið, að vera innilokaðar á heimilum sínum undir yfirstjórn manna sinna. En sumar urðu miklir atvinnurekendur, eins og Katrín frá Bóra sem gekk úr klaustri og varð kona Lúters. En það sem varð mikilvægasta gjöf siðbótarinnar var sú skoðun að allar kristnar manneskjur væru mikils virði vegna skírnarinnar og hennar vegna væru þær allar prestar. Þetta gaf konum tækifæri til að hafa áhrif á safnaðarstarfið og verða þar prédikarar og leiðtogar. Margar kraftmestu konur hinnar fyrstu bylgju kvennahreyfingarinnar komu úr röðum nýrra safnaða sem spruttu upp vegna hinna nýju möguleika siðbótarinnar.

Miklar trúarvakningar í Ameríku efldu hag kvenna og gáfu þeim ný tækifæri. Á 19. öldinni hafði hagur fólks breyst svo að hvítir menn fengu ýmis tækifæri sem hvorki svart fólk né hvítar konur fengu. Þeir höððu meiri möguleika til að afla sér tekna, þeir stjórnuðu framkvæmdum og konur urðu háðar þeim þess vegna. En þær fundu sér leiðir til áhrifa. Sumir prestar prédikuðu vissulega undirgefni kvenna, en vegna vakninganna var sterk kristin trú boðuð í mörgum kirkjum. Í vakningunum var ekki talað um Guð sem feðraveldisguð heldur sem Guð sem átti mikla móðurumhyggju og hvatningu. Konur fundu styrk og samstöðu á samkomum sem þær héldu sjálfar, þær stofnuðu sín eign samtök sem komu á fót sunnuagaskólum og saumaskap og fjársöfnun fyrir þær sem voru fátækari.

Við getum til dæmist nefnt Dorotheu Dix sem hætti kennararstörfum til að stofna sunnudagaskóla í fangelsi í Massachusett. Hún sá að geðveikar konur voru hafðar í klefum með óbótamönnum, og grasrótarkonur studdu hana til að vinna að því að kvenfangaverðir gættu kvennanna. Kvennahreyfingin í New York krafðist þess árið 1848 að lögin sæju til þess að konur væru verndaðar gegn ágangi karlmanna. Konur unnu æ meira að þjóðfélagsbótum í krafti trúar sinnar.

Og við skulum nefna systurnar Angelinu og Söru Grimké sem fulltrúar þeirra mörgu kvenna sem sameinuðu kvennabaráttuna og baráttuna gegn þrælahaldi. þær voru kvekarar og meðal hinna fyrstu kvenna sem töluðu opinberlega um málið og urðu að flytja frá heimilum sínum vegna baráttu sinnar.

Árið 1840 fóru amerískar konur til London á alþjóðaráðstefnu um þrælahald. þær komu þangað sem sjálfstæðir þátttakendur, þótt margar kæmur þangað með mönnum sínum sem líka áttu sæti á þinginu. En þær fengu ekki sæti á ráðstefnunni, af því að þær voru konur. Meðal þessara kvenna voru Elizabeth Cady Stanton og Lucretia Mott. Í reiði sinni ákváðu þær að stofna kvennasamtök heima í Ameríku, og það gerðu þær árið 1848, og það voru fyrstu kvennasamtök Bandaríkjanna. Seinna varð Susan B. Anthony ein helsta samstarfskona Elizabethar, en þær áttu saman hálfrar aldar vináttu sem gerði kvennahreyfingunni ómetanlegt gagn.

Í framhaldi af starfi hinna nýju kvennasamtaka hófst fyrsta bylgja kvennahreyfingarinnar og hafði það markmið að berjast fyrir kosningarétti kvenna. Elizabeth og fleiri konur vildu hafa markmiðið miklu víðara, þær vildu berjast fyrir rétti kvenna til skilnaðar og yfirráðum yfir eigin fé, en mestur hluti kvennahreyfingarinnar einskorðaði sig við að ná kosningarétti.

Baráttan í Evrópu og Ameríku var hvor á sinn máta, en hafði gagnkvæm áhrif. Í Englandi voru einkum tvær stefnur, hin hógværari og hin herskárri. Herskárri bylgjunni var stjórnað af Emmeline Pankhurst og dætrum hennar Christabel og Sylviu, og Richard maður hennar var mikill kvenréttindamaður. Þeim og mörgum var varpað í fangelsi og þær misstu heilsuna í baráttunni. Þegar kosningaréttinum var náð, konur hér fengu kosningarétt 19l5 og önnur lönd á þeim árum, sást að konur voru ekki tilbúnar til að nota hann og þá kom hlé í kvennabaráttunni. Það hefði verið betra að styðja betur skoðanir Elizabethar og þeirra kvenna.

Kvennahreyfingin blundaði til 1949 þegar franski heimspekingurinn Simone de Beauvoir skrifaði Hitt kynið, Le deuxieme sexe. Hún sagði að allt væri miðað við menn og að konur væru þess vegna hinar, þær sem engu skiptu. Það er rétt að vera maður, vitlaust að vera kona. Konur lásu Hitt kynið upp til agna, andvörpuðu af gleði yfir þessum nýja og sterka sannleika og andvörpuðu aftur yfir því að hann skyldi alltaf gleymast og allt þyrfti að byrja upp á nýtt.

Önnur bylgja kvennahreyfingarinnar er ýmist talin byrja með Simone árið 1949 eða með Betty Friedan og bók hennar, The Feminine Mystique, sem kom út árið1963. En það væri líka hægt að segja að hún hafi byrjað árið 1960 með mikilvægri grein um kvennaguðfræði sem Valerie Saving, ung amerísk kona í guðfræðinámi, skrifaði í virt guðfræðitímarit. Hún sagði að öll guðfræði til þessa hefði verið skrifuð af mönnum og fyrir þá, og að hún væri alls ekki um konur. Þess vegna þyrftu þær að skrifa sína eigin guðfræði.

Betty sagði í bók sinni að konur stríddu við einhvern óskiljanlegan sjúkdóm sem læknar gætu alls ekki áttað sig á og kynnu ekki að nefna. En sjúkdómurinn var hvorki dularfullur né nafnlaus. Hann var leiðindi. Konur voru að farast úr leiðindum við að vera einar heima allan daginn og bóna gólf og þvo þvotta og bíða eftir að mennirnar þeirra kæmu heim úr vinnunni.

        
Og nú brast byltingin á, önnur bylgja kvennahreyfingarinnar, sem varð áhrifamesta hreyfing 20. aldarinnar. Betty stofnaði kvennasamtökin NOW, National Organization for Women, formleg samtök með kjörinni stjórn. En samhliða hófst önnur hreyfing, óformleg og án nokkurrar stjórnar. Konur hittust og töluðu saman, alls staðar um Ameríku, á mörgum stöðum í mörgum borgum. Þetta voru vitundarvakningarhóparnir, CR hóparnir, consciousness-raising hóparnir. Þeir höfðu oftast tíu til fimmtán konur sem hittust vikulega um tíma, oft frá hálfu ári til tveggja. Fjarvera var ekki leyfð nema mikið lægi við. Umræðuefnin voru oftast ákveðin fyrirfram. Kannski var fastur stjórnandi, kannski skiptust konur á að stjórna. Þær sögðu frá sjálfum sér. Þær áttu að sýna hver annarri skilning frekar en gefa ráð eða gagnrýna og reynsla allra var jafn mikilvæg. Markmið hópanna var bæði að hjálpa konunum til að horfast í augu við sitt eigið líf og líka að hjálpa þeim til að nota sameiginlega reynslu til að breyta þjóðfélaginu. Þessi aðferð breiddist út til annarra hópa og var lengi notuð í kvennahreyfingunni og þessir hópar urðu eitt af einkennum annarrar bylgjunnar.

Skoðanir voru ýmsar og konur voru stundum bundnar kærustum sínum og stundum hópum sem þær vildu sýna hollustu. Sumum fannst kvennahreyfingin eiga að berjast gegn heimsvaldastefnunni og sögðu að kapítalisminn væri rót alls ills. Öðrum fannst skelfilegt að kvennahreyfingin væri alhvít. En svartar konur voru bundnar tveimur fjötrum, þær voru svartar og þær voru konur. Og þegar lesbíur mynduðu sína eigin hópa voru þær sumar bundnar þrennum fjötrum.

Kvennahreyfingin tókst á við gífurleg verkefni. Hún sameinaði sundraðar konur og fékk þær til að berjast fyrir nýrri fjölbreytilegri lífssýn og margvíslegum lífsstíl, fyrir rétti til fósturtektar, gegn kynlífssofbeldi,. gegn klámi og vændi. Það heppnaðist, allt nema baráttan gegn vændinu. Í þessari sögu gekk mikið á. það var átakasamt að stofna hópa, vera í hópum, vera reknar úr hópum, fara út á göturnar og inn á fundi með boðskap sem fólk vildi ekki hlusta á. Og samhliða þurfti að gera miklar rannsóknir á viðfangsefnunum, skrifa blöð, skrifa bækur og gefa þær út. Líka það var átakasamt, og samkeppnin tætti og reif þessar miklu konur í sundur. Það var erfitt að vinna saman, ákveða hvað átti að styðja og hverjar. En þær urðu að vinna saman, einhvern veginn. Og þeim tókst þetta.

Fjölmiðlarnir fóru að hlusta á kvennahreyfinguna. Þeir höfðu hunsað hana og hún hafði ekki kunnað að koma sér á framfæri. En hún lærði það.

Sjálfstæðir hópar spruttu fram, nornirnar, rauðsokkurnar, lesbíurnar, svartar konur, kvennaguðfræðingarnir. Þeir voru allir sneisafullir af baráttuglöðum leiðtogum sem allar þurftu stuðning við mikil verkefni sín en gátu ekki eytt miklum tíma til að vera stuðningskonur hinna. Átökin voru mikil og kvennahreyfingin réðist aftur og aftur að sínum eigin konum. En hún studdi þær líka um leið, hún gaf þeim torgið til að standa á og láta til sín heyra, hugsa málið og koma því á framfæri, breyta heiminum. Og úti um allt voru aðrar konur sem hlustuðu og glöddust og fögnuðu og breyttu lífi sínu og þökkuðu, og höfðu ekki hugmynd um öll átökin innar í hreyfingunni.

Í hinum arminum, armi Betty Friedan, var líka ólga. Líka þar ráku konur hver aðra, og líka þar börðust konur fyrir framförum sem aðrar konur geta aldrei full þakkað. Konur kvennahreyfingarinnar gáfu út blöð og bækur, djúpar fræðibækur á all flóknu máli og djúpar fræðibækur á máli sem er auðvelt að skilja. Þær eru allar mikils virði. Kvennaguðfræðin er mikils verður hluti af þessum bókum

Kvennaguðfræðin sem var skrifuð samhliða annarri bylgju kvennahreyfingarinnar á rætur sínar í kvennaguðfræði fyrstu bylgjunnar. Elizabeth Cady Stanton og samstarfshópur fleiri kvenna skrifaði mikils verða kvennaguðfræði sem kom út í Kvennabiblíunni árið 1895 og 1898. Þær völdu kafla sem fjölluðu um konur, Þýddu þá úr frummálinu og gáfu út með sínum eigin skýringum.

Meðal fyrstu kvennaguðfræðinganna í annarri bylgjunni eru Mary Daly og Rosemary Radford Ruether í Ameríku og Dorothee Sölle og Elisabeth Moltmann-Wendel í Evrópu. Þær eru miklu fleiri. Bækur þeirra fylltu hillurnar í bókabúðunum og konur fóru út með troðin hulstur af nýjum hugmyndum sem áttu eftir að gagntaka þær og breyta lífi þeirra. Þær töluðu um Biblíuna, um kirkjuna, um kvenfyrirlitninguna, um vonina sem þær áttu sjálfar bæði í Biblíunni, kirkjunni og öllu lífinu. Þæ urðu að gagnrýna, mótmæla og rífa niður. Og þess vegna urðu þær líka að byggja upp, skapa nýja guðfræði, kvennaguðfræði. Það var ekki ný útgáfa af guðfræði karla, það var sjálfstæð guðfræði kvenna sem fjallaði um þær sjálfar frá sjónarmiði þeirra sjálfra.

Sumar töluðu um Guð í kvenkyni. Sumar töluðu um dreifingu valdsins sem við ættum allar og öll að eiga. Sumar töluðu um sjálfsmyndina. Sumar töluðu um messuna og bjuggu til nýjar messur. Þær töluðu um miklu fleira.

Þær vildu ekki tala um valdamikinn Guð sem styddi menn til valda. Menn skrifuðu guðfræði um Guð sem er hátt upp hafinn og duttlungafullur, og gerir samninga við þá en ekki við konur. Kvennaguðfræðingarnir sögðu að það væri hættulegt að tala svona um Guð, segja að hann væri konungur og sigurvegari sem réði öllu. Það yrði til þess að við fylltumst ótta og auðmýkingu og yrðum að engu frammi fyrir þessum gæskuríka Guði sem réði öllu. Kristin trú getur ekki blómgast nema yfirgefa þennan Guð.

Og þær yfirgáfu hann. Þær skrifuðu um Guð sem er hjá okkur, í okkar hópi, ekki konungur, ekki dómari, heldur Guð sem vinnur sömu störf og við, Guð sem skapaði heiminn og þarf að treysta okkur til að vernda hann með sér. Hún þarfnast okkar eins og við þörfnumst hennar. Hún þarfnast þess aþ við séum sjálfstæðar manneskjur og hún hjálpar okkur til að lifa í fyrirgefningunni sem hún gefur okkur svo að við finnum mátt okkar og mildi og gleði.

Við eigum og megum og megum til að taka þátt í því að halda áfram að skrifa kvennaguðfræði. Við eigum að gang að því sem hefur verið skrifað, að hugmyndunum sem gerðu svo margar konur glaðar og hafa haft svo mikil áhrif í kirkjum heimsins og þjóðfélögum. Kirknasambönd mótmælendakirknanna hafa stutt þessi skrif, kaþólskar konur hafa stofnað sína eigin hópa. Kirkjur hafa líka andmælt og konur hafa mótmælt. En við skulum halda áfram. Við skulum skrifa og lifa okkar eigin kvennaguðfræði, kvennaguðfræði sem hentar okkur, í okkar lífi og í löngun okkar til að hafa áhrif í kringum okkur. Í trú okkar á að við getum tekið þátt í að breyta heiminum, gera hann betri, vera vinkonur Guðs, þær sem hún treystir á.

Kvennaguðfræðin hefur alltaf verið skrifuð við alls konar borð, skrifborð í háskólum og heimahúsum, við eldhúsborð og önnur vinnuborð. Við skrifum ekki allar kvennaguðfræði í stílabækur eða á tölvur, flestar okkar skrifa hana beint í lífið sjálft, með framkomu okkar og orðum. það sprettur allt fram úr því sem við hugsum. Og hugsanir okkar koma frá trú okkar. Og trú okkar er samstarf okkar og Guðs. Við höfum áhrif hver á aðra. Þess vegna hittumst við í Kvennakirkjunni, hvað eftir annað. Og hver okkar fær stóra og yndislega sneið af kvennaguðfræðinni sem við skrifum og lifum saman, og hver okkar ber hana með sér þangað sem hún fer, í vinnuna, heim, hvert sem hún fer til að hitta aðrar manneskjur. Og smátt og smátt, smátt og smátt og smátt skrifum við kvennaguðfræðina inn í daga margra sem biðu eftir henni, og fundu hana af því að einhverjar okkar báru hana til þeirra. Takk fyrir, og höldum áfram og áfram og áfram.