Það er innileg ósk okkar að við höfum allar átt gleðilega páska og fundið nálægð Guðs í hjarta okkar. Við skulum biðja hver fyrir annarri og vita að það er beðið fyrir okkur.
Við höfum fylgst með páskadögunum öllum, öllu sem Jesús og vinkonur hans og vinir gengu í gegnum á leiðinni til Jerúsalem þegar Jesús sagði þeim að hann myndi deyja. Við lásum um
hugarró hans á dögunum í Jerúsalem þegar hann hélt áfram predikun sinni þótt hann vissi hvað var í vændum. Við lásum um samveruna við síðustu kvöldmáltíðina, handtökuna, dómsmeðferðina hjá Gyðingum og Rómverjum og krossfestinguna. Og upprisuna á páskamorgun þegar Jesús hitti konurnar við gröfina og sagði þeim fagnaðarerindið sem breytti öllu í huga og lífi hópsins hans og svo allra þeirra sem áttu eftir að heyra og lifa upprisuna í eigin lífi.
Við höfum allar fundið gleði kristinnar trúar og finnum hana í hverjum degi okkar, þeim sem eru glaðlegir og þeim sem eru erfiðir og geta verið óskiljanlegir. Guð blessar okkur eins og alltaf og talar við okkur í Orðinu og lífinu. Guð blessar þig og allt sem þú felur henni. Hún blessar okkur allar saman og styður okkur í predikun okkar.
Blíðar kveðjur, Auður