Jólahugleiðing 2018

Töfrar jólanna birtast okkur í kærleikanum – kærleika Guðs til okkar mannanna sem sýnir sig í gjöfinni í jötunnni.  Barnið okkar er fætt, frelsari heimsins.  Þegar við krjúpum við jötuna og horfum á barnið, á kærleiksgjöfina þá víkja neikvæðar tilfinningar fyrir nálægð Guðs.  Kærleikur Guðs hefur áhrif á okkur og umfaðmar okkur og hefur heilsusamleg áhrif, því ástin er læknandi afl, opnandi og lækkar varnarmúrana og blóðþrýstinginn ku víst líka og eykur dopamine.  Óttinn er hins vegar lokandi afl, aðskilur okkur frá öðrum.  Með því að komast framhjá óttanum getum við tekið á móti gleðinni – jólafögnuðinum.  Það gerist með kærleikanum.  Við þiggjum kærleika Guðs, hvílum í honum og leyfum honum að næra og uppbyggja hjörtu okkur.  Já vera lausnina og hið frelsandi afl í lífi okkar.   Síðan gefum við kærleikann til baka með því að umfaðma aðra í kærleika.

Verið óhrædd, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum:  Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn.  (Lúkas 2.10-11) 

Blessun

Megi gæfan þig geyma,

megi Guð þér færa sigurlag.

Megi sól lýsa þína leið,

megi ljós þitt skína sérhvern dag.

Og bænar bið ég þér,

að ávallt geymi

þig Guð í hendi sér.

(Írsk blessun, Bjarni Stefán Konráðsson þýddi)

 

Sálmur 75

Ó, Jesús, barn, þú kemur nú í nótt,

og nálægð þína ég í hjarta finn.

Þú kemur enn, þú kemur undra hljótt,

í  kotin jafnt og hallir fer þú inn.

 

Þú kemur enn til þjáðra´ í heimi hér

með huggun kærleiks þíns og æðsta von.

Í gluggaaleysið geisla inn þú ber,

því guðdómsljóminn skín um mannsins son.

 

Sem ljós og hlýja´ í hreysi dimmt og kalt

þitt himneskt orð burt máir skugga´og synd.

Þín heilög návist helgar mannlegt allt, –

í hverju barni sé ég þína mynd.

                          (J. J. Smári)